Vantraust á vígðar konur?

Vantraust á vígðar konur?

Að engin prestsvígð kona sitji í Kirkjuráði veldur mér áhyggjum. Það gengur vissulega hægt að jafna kynjahlutfallið í hópi prestsvígðra á Kirkjuþingi. En að Kirkjuþing, annað kjörtímabilið í röð, treysti sér ekki til að framfylgja jafnréttisáætlun vekur spurningar um vinnubrögð Kirkjuþings en jafnframt trúverðugleika þess.
fullname - andlitsmynd Arnfríður Guðmundsdóttir
16. desember 2010

Það er algengt að gengið sé út frá því að jafnrétti kynjanna aukist með tímanum. Þessvegna hafa konur tíðum verið hvattar til að sýna þolinmæði í baráttu sinni fyrir auknum réttindum þar sem þetta sé allt á réttri leið. Fullu jafnrétti verði örugglega náð að lokum, bara ef við gefum því nauðsynlegan tíma.

Fyrir fjórum árum ritaði ég pistil sem birtist á tru.is undir heitinu „Hvar eru vígðu konurnar?“ Þar rakti ég þátttöku kvenna á Kirkjuþingi frá árinu 1998, þegar aðeins ein (vígð) kona var fulltrúi á Kirkjuþingi (5% af heildarfjölda). Árið 2002 varð mikil breyting á kynjasamsetningu Kirkjuþings þegar konum fjölgaði úr einni í sex, þrjár prestsvígðar og þrjár úr hópi leikmanna. Þetta voru fyrstu kosningar eftir samþykkt jafnréttisáætlunar kirkjunnar, sem tók gildi 1. Janúar 1999. Í kosningunum árið 2006 urðu konur tæplega helmingur leikra á Kirkjuþingi (alls átta af sautján) á meðan vígðum konum fækkaði um eina og urðu tvær af tólf vígðum fulltrúum (eða tæp 17%). Er þar að finna skýringu á heiti pistilsins sem ég ritaði fyrir fjórum árum. Að auki fækkaði konum í Kirkjuráði niður í eina á kjörtímabilinu 2006-2009. Þar með átti vígð kona ekki lengur sæti í æðstu valdastofnun kirkjunnar.

Á síðasta vori var svo enn á ný kosið til Kirkjuþings. Á nýju Kirkjuþingi héldu leikmenn óbreyttu kynjahlutfalli en vígðum konum fjölgaði um eina frá síðasta þingi (eru nú þrjár en karlarnir níu, eða 25%). Þetta er vissulega fjarri settu marki jafnréttisáætlunar kirkjunnar, þar sem miðað er við að hlutfall karla eða kvenna fari ekki undir 40% í nefndum og ráðum kirkjunnar. Viðmiðið er í samræmi við ákvæði í íslenskum jafnréttislögum og stefnu alþjóðlegra kirkjuhreyfinga sem íslenska þjóðkirkjan er aðili að. Hlutfall kvenna er þó ennþá lægra í Kirkjuráði sem kosið var fyrir tæpum mánuði síðan, eða 20%. Þar er kynjahlutfallið óbreytt frá síðasta kjörtímabili, þar sem situr aðeins ein kona en fjórir karlar og engin kona úr hópi prestsvígðra fulltrúa Kirkjuþings.

Að engin prestsvígð kona sitji í Kirkjuráði, sem kosið er af fulltrúum á Kirkjuþingi, veldur mér áhyggjum. Það gengur vissulega hægt að jafna kynjahlutfallið í hópi prestsvígðra á Kirkjuþingi. En að Kirkjuþing, annað kjörtímabilið í röð, treysti sér ekki til að framfylgja jafnréttisáætlun sem það samþykkti sjálft mótatkvæðislaust vekur spurningar um vinnubrögð Kirkjuþings en jafnframt trúverðugleika þess. Lítur Kirkjuþing kannski svo á að það sé á engan hátt bundið af íslenskum lögum (a.m.k. ef um jafnréttislög er að ræða) eða samþykktum sem það sjálft hefur staðið að? Mér finnst erfitt að skilja þessa ítrekaðu útilokun prestsvígðra kvenna úr Kirkjuráði ekki sem vantraustsyfirlýsingu gegn þeim. Getur verið að það sé málið?