Það er til land. Þar er hvít fjall. Undarlegir lækir líða niður hlíðarnar á þessu hvíta fjalli. Þeir eru búnir til úr sannleika. Og fjallið er líka búið til úr sannleika. Og það er yndislegt fjall. Það stendur fugl hjá sannleiksfjallinu á mjóum fótum og syngur. Það er hvítur sannleiksfugl. Og löngu eftir að hann er þagnaður og ekkert heyrist lengur heldur tóninn áfram að hljóma í þögninni. Þannig er lífið í landinu þar sem sannleiksfuglinn syngur.
Þannig kemst Alda að orði í leikriti Birgis Sigurðssonar “Degi Vonar”. Í þessu áhrifamikla verki takast á hin góðu og illu öfl á dramatískan hátt í lífi þessarar ungu stúlku sem stríðir við geðræn vandamál. Í leikritinu endurspeglast átökin ekki einungis inn í henni sjálfri,- heldur einnig fyrir utan hana. Þannig er hinn fallni heimur þar takast á hin góðu öfl og illu og þannig er líf okkar - þar eru stöðug átök milli góðs og ills. Fáir þekktu þessa tvíræðni lífsins betur en Davíð konungur hætturnar og ógnirnar allt um kring og hvergi birtast hin mannlegu átök betur en í þeirri sálmabók sem við hann er kennd.
Í 23 Davíðssálmi sem hér var lesin áðan. Heyrum við hvað Davíð þá ungur hirðir, tjáir tilfinningar sínar og trú á Guð sinn. Við getum séð þetta allt fyrir okkur - stjörnubjartur himinn- ungur maður að gæta hjarðar. Það er nótt og hættur allt um kring- einsemd og ótti gera vart við sig þar sem að ógnirnar sem felast í myrkrinu eru annars vegar.
Í sálminum leikast á stefin sem við þekkjum ofur vel úr lífi okkar. Hver þekkir ekki ógnir dimmunnar eða niðurdreginn andann, hver þekkir ekki hræðslu og umkomuleysi. Spurningar sem vakna í huganum. Hvað er lífið? hvað er dauðinn? Til hvers lifum við?
Svar sálmsins er einfalt: Þú ert hjá mér.
Andspænis einsemd og umkomuleysi birtist umhyggja Guðs og trúfesti. Guð þú ert hjá mér- meira að segja í myrkrinu. Þar birtist mér föðurelskan þín.
Aldir hafa nú liðið frá því hinn ungi hjarðsveinn gerði játningu sína kunna Guði raunar þrjár árþúsundir og á þeim tíma hefur allt breyst, raunar hefur allt umturnast, nema tilvistarglíma mannsins. Davíð snertir á nokkrum vandamálum sem mannkyninu hefur ekki tekist að leysa. Hér tala ég um synd, skort og dauða.
Vísindin hafa ekki geta leyst þann vanda þrátt fyrir þróun og tækniframfarir á öllum sviðum. Þessi vandi herjar á okkur öll, þetta er minn vandi, þinn, þetta er vandi allra Íslendinga og þetta er vandi alls heimsins. Hirðirinn ungi segir í sálminum ég hef fundið svarið.
Drottinn hressir sál mín – Á hebreska frummálinu fær þessi játning meiri dýpt í raun er Davíð að segja “Guð -þú endurnærir og endurreisir sál mína” í þessari staðhæfingu liggur svarið við fyrsta vandanum sem felst í mannlegum breyskleika. Hvað veldur græðgi, girnd, hatri, afbrýðissemi, stríði, félagslegu ranglæti? Hver er rót þessara sígildu vandamála? Biblían segir: “Allir menn hafa syndgað og skortir Guðs dýrð” -þá skiptir ekki máli hvort þú er á fangi á Litla hrauni eða starfir á Laugavegi 31- hvort þú ert hæst ráðandi í Vatíkaninu eða fangi í Guantanamo- Guð fer ekki í manngreinarálit - allir menn eru breyskir -Það búa olíusamráð og skattsvik í okkur öllum- við þurfum á lækningu Guðs að halda. Davíð segir: “Drottinn hressir, endurreisir og læknar sál mína.”.
Jesús spurði mjög beinskeyttrar spurningar: “Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en fyrirgjöra sál sinni ?” Þeir eru orðnir fjölmargir Íslendingarnir sem geta keypt næstum allt sem hugann girnist en eitt er þó ekki til sölu - sáluhjálp. Endurreisn sálarinnar er ekki til sölu.
Á síðustu öld kom fram tónlistarstefna í Bandaríkjunum sem kennd var við sól eða sál: og ein skilgreiningin á þeirri tónlist meðal svartra var sú að í þeirri tónlist væri allt það að finna sem gott er fyrir sálina.
Heilög ritning kennir okkur að við höfum líkama og í líkamanum er sál, lifandi andi. Sálin er eilíf en líkaminn gengur aftur til foldar. Sálin er kjarni hverrar manneskju- það er þín innsta vera- það ert þú.
Þjóðir hafa líka sálir. Um árið var útvarpsþáttur sem hét þjóðarsálin sem endurspeglaði ólík viðhorf í samfélaginu til hinna ýmsu málefna. Íslenska þjóðin hefur að undanförnu gengið í gegnum tilvistar og sálarkreppu við sjáum það á þeim stóru málum sem nú hafa verið ofarlega á baugi s.s. umhverfismálum, málefnum innflytjenda, í stórum dómsmálum sem skekið hafa samfélagið ennfremur eru kynferðisafbrot og fíkniefnamál stöðugt að fá meiri athygli og það er skerandi hversu mikið er um slík afbrot og hve skuggahliðar samfélagsins eru margar. Áleitnar spurningar hafa litið dagsljósið bæði hvað varðar innviði samfélagsins okkar en ekki hvað síst fyrir hvað við viljum standa fyrir út á við. Fyrir hvað viljum við standa í alþjóðasamfélaginu? Viljum við stuðla að stríði eða friði í heiminum? Viljum við stuðla að félagslegu réttlæti- við höfum séð fjölmargar brotalamir á mörgum sviðum samfélagsins. Eitt held ég að við sem þjóð eigum sameiginlegt og það er að við viljum stuðla og skapa samfélag þar sem að félagslegt réttlæti ríkir. Og ég trúi því að við sem þjóð viljum láta gott af okkur leiða til alþjóðasamfélagsins hvort heldur það er á sviði þróunarmála eða að því að vinna að friði í heiminum.
Hann endurreisir sál mína. Hvernig er hægt að vinna að endurreisn sálar einstaklings eða þjóðar? Svarið liggur í upprisuboðskap páskanna. Svarið liggur í krossfestingu og upprisu Jesú Krists. Það er þess vegna sem krosstáknið er að finna í hverjum einasta helgidómi, meðal mótmælenda og kaþólskra um allan heim. Það var tilgangur með krossdauða Jesú Krists og hann er sá að endurreisa sálirnar. Krossdauði Jesú hefur að geyma mikinn leyndardóm. Eitthvað svo mikilfenglegt og spennandi gerðist á þessum fyrstu páskum. –
Svo mikið fát greip um sig að allir voru á harðaspretti María móðir Jakobs og María Magdalena og þar voru líklega einnig Jóhanna og Salóme en þessar dömur flýðu allar gröfina í miklu ofboði, sömuleiðis greip mikið hlaupaæði lærissveinahópinn- eftir að hafa verið rænulitlir af sorg í tvo sólarhringa, enda tilefnið æði mikið. – Lögmál syndar og dauða og allt hið illa sem stendur þar að baki lenti í banvænum árekstri þá helgi. Segja má að Guð hafi í Jesú Kristi kistulagt dauðann en jarðarförin fer fram á efsta degi. það verður heimsins síðasta jarðaför. Við getum því með réttu talað um upprisuhlaupið. Það væri verðugt viðfangsefni fyrir kirkjuna að standa fyrir árlegu upprisuhlaupi á páskum.
Alvaran að baki krossinum er fólgin í því að Guð tók mínar misgjörðir og þínar. Guð tók syndir alls heimsins og bar þær á krossinn. Heilög ritning segir “Hann varð synd vor vegna”. Vegna krossins getur Guð sagt við þig og mig “þér er fyrirgefið” – Barnið mitt - ég fyrirgef þér. Það var því næg ástæða til að hlaupa- En hvaða strengur bærist innra með okkur þegar að við heyrum þessi tíðindi í dag. Tekur hjartað kipp?
Fyrir nokkru heyrði ég fyrirlestur þar sem að yfirlæknir á geðsjúkrahúsi nokkru sagði að: Hann gæti útskrifað helming sjúklinga sinna ef hann gæti aðeins fullvissað þá um að þeim væri algjörlega fyrirgefið”. Eitt mesta geðheilbrigðisvandamál samtímans er fólgið í djúpri sektarkennd. Við vitum ekki hvað við eigum að gera við sektina sem þjakar okkur. Þess vegna dó Kristur!- til að afmá sekt okkar. Hann tók sökina þína og mína í eitt skipti fyrir öll- það verk er fullkomnað. Á krossinum heyrist rödd Guðs til þín og mín. “Ég elska þig”-
Sálin var aðskilinn vegna syndarinnar frá uppsprettu lífsins, Guði sjálfum- Hvað þýðir þetta ? Fyrir nokkrum árum syrgði þýskur prófessor son sinn en sonurinn hafði tekið líf sitt einungis fimmtán ára gamall. Í minningarorðum sem hann ritaði um þennan son sinn lýsti hann einsemd mannsálarinnar og líkti henni við eyland sem enginn mannlegur máttur getur snert eða komist að. Það eru margir einmanna í dag, við reynum að fylla tómarúmið með alls konar stundlegum gæðum en við vitum að í því er einungis fólgin skammgóður vermir. Án sólaljóssins fær ekkert líf þrifist. þannig er mannsálin í þörf fyrir samfélag við Guð sem fæst fyrir Jesú Krist. Maðurinn þarf samfélag við Guð- þetta er okkar meðfædda þörf.
Þegar að ég var lítill drengur mann ég eftir því hversu áhyggjufullur ég var yfir dauðanum, ég átti stundum svefnlausar nætur vegna þess að þetta var ekkert rætt- ég óttaðist dauða minna nánustu- ég óttaðist eigin dauða. Ég gerði mér síðar ljóst að innra með bærðist ákallið hvar ertu Guð? Taktu burt mínar áhyggjur- þau voru ófá tárin og vanlíðanin mikil sem ég vissi ekki hvað ég átti að gera við.
Ég velti því síðar fyrir mér hversu mörg börn upplifa þunglyndi og hversu mörgum brestur kjarkur til að takast á við lífið út af því þetta umræðuefni er ekki rætt. Við ræðum ekki um tilvistina. Við lifum á tímum þar sem dauðanum er hafnað, þetta er bælt umræðuefni. Það ætti að gera dauðann að námsefni í skólum landsins. Ég trúi því nefnilega að þegar að við erum tilbúin til að horfast í augu við dauðann erum við fyrst tilbúin til að lifa.
“Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt, því þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig” Ekkert er dýrmætara en einmitt þessi fullvissa. Lífsins Guð þú ert hjá mér- þetta er trú sem öllu breytir.
Ekki boðar Siðmennt þennan boðskap það get ég fullvissað þig um – en er þjóðkirkjan að boða Krist af þeim myndugleika sem henni ber ? Ég hef oft velt þessu fyrir mér.
Á meðal margra hefur sú krafa orðið æ háværari að kirkjan eigi að gefa saman samkynhneigða til jafns við gagnkynhneigða. Vitnisburður kristinnar kirkju er mjög skýr. Kristur sagði “fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni og þau tvö skulu verða einn maður”. Undir orð Jesú Krists erum við þjónar hans vígðir og höfum ekki vald til að breyta eða bæta þar við.
Hvað með áhersluna á regluverk kirkjunnar, vinsældarhjal og athyglisþörf margra vorra á meðal? Dýrkum við hið almenna form en ekki innhaldið? Hvar er samfélagið, hvar er söfnuðurinn sem tilbiður Guð ekki bara á hátíðum og við hátíðleg tækifæri. Hvað með áhersluna á að kvengera Guð - og feministískar áherslur innan kirkjunnar? Hvað með sóknargjöld og meting milli trúfélaga um fjármál ?
Ég óttast að öll þessi einkennilega umræða sé farin að hrekja fólk frá fagnaðarerindinu um Jesú Kristi og skyggja verulega á krossinn og þann upprisu boðskap sem andlegum leiðtogum og hirðum safnaða er trúað fyrir. Kristur er upprisinn þetta er erindið sem öllu skiptir og öllu breytir. Hann er kominn til að endurreisa sálirnar og þá er ekki spurt um kynhneigðir eða kynóra, um hörundslit eða þjóðerni, fátækt eða ríkidóm. Við erum öll elskuð af kærleikans Guði. - Fagnaðarerindið um Jesú Krist gengur út á hjálpræði mannssálarinnar. Á föstudaginn langa voru tveir illvirkjar krossfestir með Kristi. Illvirkjarnir voru sitt til hvorrar handar og Jesús var í miðið. Á Golgatahæð birtist okkur afstaða manna til Jesú á öllum tímum í hnotskurn. Þar komu illvirkjarnir fyrir sem fulltrúar fyrir þá sem iðrast og fyrir hina sem ekki iðrast jafnvel andspænis dauðanum. Hvorum hópnum tilheyrir þú, minn kæri hlustandi ?
Allt hefur breyst frá því Davíð var og hét nema dauðinn, syndin og skorturinn – Þess vegna kom Guð sjálfur í Jesú Kristi þar liggur svar mannssálarinnar- kristur er upprisinn, kristur er sannarlega upprisinn í þessum orðum felst hin mikla gleði, hið mikla fagnaðarerindi og þessa sögu segja páskarnir- Jesús stendur við dyr hjarta þíns og knýr á. Viltu þú velta steininum frá grafarmunna hjarta þíns ?
Það stendur fugl hjá sannleiksfjallinu á mjóum fótum og syngur. Það er hvítur sannleiksfugl. Og löngu eftir að hann er þagnaður og ekkert heyrist lengur heldur tóninn áfram að hljóma í þögninni.