„Eins og vatnsliljan vex upp af leðjunni“

„Eins og vatnsliljan vex upp af leðjunni“

Í áhrifaríku sjónvarpsviðtali lýsti Sigrún Pálína Ingvarsdóttir þeim krafti sem hefur rekið hana áfram og haldið henni gangandi í leitinni að farvegi sannleikans, það sem hefur umfram allt knúið hana áfram er löngunin til að kirkjan megi vera heil og heilbrigð, já taktu eftir, það er ekki löngunin til að hefna og sundra heldur hreinsa og græða.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
05. september 2010
Flokkar

Sannleikurinn er eins og laxinn hann syndir upp ána, þó flestir aðrir myndu berast með straumnum í leit að hrygningar stað.

Í allri skelfingunni og sársaukanum sem hefur skekið kirkjuna á undanförnum vikum hefur dauðans vald afhjúpast og lífið fundið sér nýjan farveg, já eins og svo oft áður.

Guð er sannleikur og þess vegna gerir sannleikurinn okkur frjáls, það er Guð sem frelsar með sannleikanum og þess vegna nærðu aldrei að fanga hann nema þú trúir að hann sé til þar sem fæstir hafa kortlagt hann. Og aftur og aftur snýr Guð á dauðans vald áður en það nær að staðsetja hann, Guð berst aldrei með straumnum, því það er Guð og sannleikurinn sem móta sinn farveg. Nei “ ekkert er svo óhreint að hið hreina geti ekki vaxið upp af því, eins og vatnsliljan vex upp af leðjunni” sagði séra Kaj Munk forðum og það höfum við fengið að lifa undanfarna daga, eitthvað undursamlegt og heilt sem óx upp af leðjunni en það var vegna þess að Guð yfirgefur aldrei hinn þjáða eða forsmáða heldur lyftir honum/henni upp um leið og sannleikurinn hefur fundið sína hrygningar stöð. Kristur reis upp eftir að flestir ef ekki allir höfðu talið hann af, hann steig ekki hvatskeytslega niður af krossinum heldur birtist ástvinum sínum við sólarupprás á fyrsta degi vikunnar og þær voru líka fyrstar til að heyra sannleikann, ósýnilegu konurnar sem höfðu fylgt honum frá Galíleu til Jerúsalem og elskað hann án orða og síðan þá hefur sannleikurinn opinberast þeim sem hafa leitað hans af opnu hjarta, umhyggju og áræði, já af trú. Í áhrifaríku sjónvarpsviðtali lýsti Sigrún Pálína Ingvarsdóttir þeim krafti sem hefur rekið hana áfram og haldið henni gangandi í leitinni að farvegi sannleikans, það sem hefur umfram allt knúið hana áfram er löngunin til að kirkjan megi vera heil og heilbrigð, já taktu eftir, það er ekki löngunin til að hefna og sundra heldur hreinsa og græða. Guðspjall dagsins minnir okkur á hennar sögu, sögu sem er einhver áhrifaríkasta prédikun sem við höfum lifað í kirkjunni okkar í langan tíma. Sá sem gaf Drottni dýrðina í guðspjalli dagsins, tilheyrði útskúfuðum hópi samfélagsins, ekki bara útlendingur í Palestínu heldur Samverji í ofanálag. Í umræðunni um aðskilnað ríkis og kirkju kemur þessi saga eins og fullbúin prédikun sem ýtir við okkur. Í kjölfar atburða liðinna daga og vikna hefur umræðan um aðskilnað ríkis og kirkju magnast og fjölmargir hafa jafnframt stigið það skref að skrá sig úr Þjóðkirkjunni. Burt séð frá umræðunni um aðskilnaðinn finnst mér verra að vita til þess að stór hópur fólks hafi formlega sagt skilið við kirkjuna eins og til að undirstrika að hún sé ekki samfylgdarinnar virði. Og enn og aftur undirstrikar þessi gjörningur þá meðvituðu eða ómeðvituðu afstöðu fólks að kirkjan sé umfram allt opinberir starfsmenn á alltof góðum launum, prestar ,prófastar og biskupar, sem er kannski á vissan hátt skiljanlegt og getur hæglega skrifast á okkur þjóna hennar að við höfum ekki staðið okkur við að boða hlutverk kirkjunnar á mannamáli. Hvað sem öðru líður þá þurfum við að spyrja okkur hvers vegna fólk hefur þessa mynd af kirkjunni? Og hvernig er hægt að breyta henni svo að manneskjurnar skynji að kirkjan er í eðli sínu grasrótarhreyfing og súrefni hennar eru þau sem játa trú á Jesú Krist í orði og verki. Lífæð kirkjunnar liggur ekki í tengslunum við ríkið heldur fólkið í landinu, hins vegar liggja mörg rök að baki því að kirkjan sé jafnframt lífgefandi í samfélaginu, að allur sá fjöldi karla og kvenna sem ljá henni krafta sína séu farvegur kærleika og vonar í lífi náungans, barnastarf, húsvitjanir, sálgæsla við andlát, skilnað eða vegna ofbeldis, eineltis ofl, matar og fjárhagsaðstoð, námskeiðahald, 12 spora vinna, fjölmenningarstarf, foreldramorgnar er dæmi um þá þjónustu sem kirkjan leggur til samfélagsins og þá eru ótaldar allar þær stundir sem hún er samferða þjóðinni við stærstu tímamót hverrar manneskju. Líkt og oft hefur komið fram í umræðum undanfarinna vikna þá eru hin opinberu tengsl ríkis og kirkju í raun orðin mjög lítil, sú þjónusta sem Þjóðkirkjan þiggur frá ríkinu umfram önnur trúfélög eru launagreiðslur presta, prófasta og biskupa sem fara fram á grundvelli samnings sem kirkja og ríki gerðu árið 1907 þegar kirkjan afhenti ríkinu allar þær jarðir sem áður höfðu staðið undir rekstri embættanna, um var að ræða viðskipti sem voru áfram samþykkt árið 1997. Hvort þessi viðskipti eru sanngjörn eður ei, hef ég ekki þekkingu til að meta, en hvort þau gera þjóðkirkjuna að forréttinda trúfélagi finnst mér harla erfitt að sjá. Einu alvöru forréttindi íslensku þjóðkirkjunnar er þau að hafa fengið að vera samferða þjóðinni á langri og viðburðaríkri þroskabraut, í gegnum tímabil sárrar fátæktar, náttúruhamfara, farsótta, sjálfstæðisbaráttu, góðæris og kreppu og einhvern veginn finnst mér óhugsandi að hún geti verið annað en samofin samfélaginu að eilífu. En það gerist ekki án fyrirhafnar og endurnýjaðrar hugsunar, Kristur er ætíð hinn sami og orð hans og sakramenti, nærveran í kvöldmáltíðinni og við skírnarlaugina er heilög og óhagganleg gjöf sem við þiggjum með tvær hendur tómar en guðfræðin og túlkunarhefðin er hins vegar nýtt viðfangsefni á hverjum tíma og helst í hendur við nýja og breytta samfélagsgerð, því megum við aldrei gleyma og ekki sofna á samræðu verðinum. Það eiga allir erindi inn í hina guðfræðilega samræðu því það einstaka og merkilega við guðfræðina er að hún byggist á innsýn í fjölbreytileika mannlífsins, guðfræðin er svo margt, hún er sagnfræði, kynjafræði, heimspeki, félagsfræði, sálfræði, hún er list, tónlist, sjónlist og leiklist, hún er umhverfisfræði, siðfræði, mannfræði, fornleifafræði og eflaust fleira sem ég kann ekki að nefna. Þess vegna þróast hún ekki ef kirkjan er bara prestar og guðfræðimenntað fólk, það er augljóst, í kirkjunni þarf margbreytileg reynsla og þekking að koma saman svo að guðfræðin þroskist og tali til þjóðarinnar. Þess vegna verð ég svo skelfingu lostin þegar ég heyri um fjölda úrsagnir úr kirkjunni, ekki af því að ég sé hrædd um að missa vinnuna, því þá færi ég bara að eiga börn og skrifa bækur og þjóna Guði með því, heldur vegna þess að ég trúi því svo heitt að Jesús Kristur sé til og að kirkjan sé vettvangurinn til að útbreiða fagnaðarerindið sem gefur og viðheldur lífi og heilbrigði, réttlæti og von, ég trúi því svo heitt að kirkjan sé farvegur sannleikans þó að lygin og leðjan hafi fundið þar stað og mengað umhverfi sitt og ég trúi enn heitar nú en fyrir nokkrum vikum, vegna þess að þó að sannleikurinn væri kæfður fyrir 14 árum þá leitaði hann upp ána, synti mót straumnum og hrygndi þar afkvæmum sínum, réttlætinu og kærleikanum. Sigrún Pálína, íslenski útlaginn í Danmörku og allar hinar konurnar sem hafa komið fram og sagt sögu sína, þær hafa gefið Guði dýrðina, þær hafa þakkað sigur sannleikans með því að hreinsa og græða sárin og veita örvingluðum þjónum kirkjunnar líkn með nærveru sinni, hugrekki og kærleika, það er ómetanlegt og lærdómsríkt öllum mönnum. Svo sannarlega er það rétt sem séra Munk heldur fram í prédikun sinni út frá guðspjalli dagsins þar sem hann segir “ekkert er svo óhreint að hið hreina geti ekki vaxið upp af því eins og vatnsliljan vex upp af leðjunni. Ekkert er svo öfugsnúið að það geti ekki brotið því braut sem er rétt, sé Jesús leiðsögumaður vor, Jesús gefur oss ekki aðeins mátt til þess að hafna hinu illa, hann gefur oss styrk til að trúa á hið góða.”

Já gefum Guði dýrðina fyrir að vera staðfastur leiðsögumaður okkar í veröld sem er á sífelldum flótta undan sjálfri sér, gefum Guði dýrðina með því að vera kirkja í þessari veröld svo að við megum ætíð sjá hvert annað með augum Krists.

Já Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.