Hátíð lífsins

Hátíð lífsins

Á jólum hugleiðum við gjarnan hvað það er sem skiptir okkur máli og hvað það er sem gerir okkur að því sem við erum. Það er líka tilvalið að leiða hugann að því sem sameinar okkur á sjálfri hátíðinni.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
24. desember 2018
Flokkar

Á jólum hugleiðum við gjarnan hvað það er sem skiptir okkur máli og hvað það er sem gerir okkur að því sem við erum. Það er líka tilvalið að leiða hugann að því sem sameinar okkur á sjálfri hátíðinni.

Að tilheyra

Jú, um þetta leyti hittum við þau sem okkur standa næst og jólaboðin koma hvert af öðru. Hið þjóðlega knýr dyra, allar hefðirnar og siðirnir, sögur frá liðnum öldum og minni og gamlar sagnir um vætti og horfinn heim.

Faðmur jólanna er víðari. Við sem erum kristin við finnum til samkenndar með systkinum okkar víða um heim og tengjumst fyrri kynslóðum sem hafa oft þurft að færa miklar fórnir fyrir trú sína og sannfæringu. Í dag eru einmitt 200 ár frá því að sálmurinn Heims um ból var frumfluttur við hin kröppustu kjör á þessu kvöldi og ætla má að á þessum stundum verði hann sunginn á yfir 140 þjóðtungum. Við tökum þátt í þeirri hljómkviðu hér í lok athafnar.

Ljós

Jólin eru enn viðtækari. Hátíð ljóssins höfðar til þess frumtákns sem er manninum hvað hugleiknast, sjálfrar birtunnar sem er öllu lífi nauðsynleg. Þó eru fáir jafn bjargarlausir án ljóss og við mennirnir sem greinum fleiri liti í dagsbirtunni en flestar aðrar lífverur. Biblían talar um að sjálfur skaparinn hafi byrjað starf sitt á orðunum „verði ljós!“ rétt eins maður kveikir á lampa, eða kerti, til að sjá handaskil áður en verkið er unnið.

Jólin, hátíð birtunnar höfða til allra manna og við þurfum ekki einu sinni að staðnæmast þar. Það er einhver tónn í jólafrásögn Lúkasar sem tengir okkur við sjálfa náttúruna. Þar er í forgrunni jatan, þessi stallur sem séra Einar Sigurðsson í heydölum yrkir óð sinn til. Já, hvítvoðungurinn liggur umlukinn grasi og hálmi og þetta er staðurinn þar sem dýrin fá fæðu sína.

Hátíð ljóssins er líka hátíð lífsins, við hugleiðum það samhengi sem við erum hluti af, hvort heldur það er fjölskylda, þjóð, kristinn siður, mannkyn eða allt það sem lifir og hrærist. Hvað er það að vera manneskja, búa í alheimi og vera í einhverjum skilningi alheimur sjálf, hvert og eitt okkar? Við stöndum í miðjum þeim sjóndeildarhring sem umlykur okkur, skynjun okkar og vitund birtir okkur allt það samhengi sem við erum hluti af. Allt það sem sem áreitir skynfæri okkar endar í huga okkar sem í besta falli vinnur úr því eitthvað sem unnt er að skilja og túlka. Stundum hrekkur það ekki til.

Það að vera manneskja er einkennilegt hlutskipti. Páll heitinn Skúlason talaði um það í einum af sínum síðustu ritgerðum hversu mikilvægt það er að halda áfram að brjóta heilann, spyrja sig um hinn æðri tilgang og markmið. Við vitum ekki betur en að við séum það eina í öllum þessum óravíddum alheims sem sinnir því hlutverki. Ef við hættum þá verður allt þetta samhengi svo miklu fátækara. Hversu mögnuð er sú hugsun og hversu vel fer á því að við veltum henni fyrir okkur nú á helgri jólanótt þegar hátíðin stendur sem hæst?

Jólasagan

Þegar við leggjum við hlustir við lestur jólasögunnnar þá birtist okkur líka tvennt sem kallar fram hið mennska, eða sérstöðu okkar í hinu stóra samhengi. Annað er einfaldlega það að segja sögu. Já, hér er tekist á við stóran veruleika, maður og Guð, allsleysi og auður, himinn og jörð, nýtt upphaf og von, myrkur og ljós, allt þetta sem snertir við okkur á svo margvíslegan hátt. Og það það er sett fram sem frásögn – saga sem við getum skilið og unnið með. Börn léku þessa sögu í helgidómnum í dag, hún er svo einföld. Hugsuðir, skáld

Sögur eru allt í kringum okkur. Þær birtast okkur í stóru og smáu allstaðar í menningu okkar og þær hafa ótrúlegan mátt. Sumir segja þær skipta sköpum fyrir það að gefa okkur einhvern sess í stærri hópi. Sögur láta okkur tilheyra því sem er stærra en við sjálf. Í sínum víðasta skilningi geta þær gert okkur kleift að búa til einhvern veruleika sem er hvergi til nema í sameiginlegri vitund okkar og okkur finnst það sjálfsagt að geta tilheyrt hóp sem dreifist jafnvel út um allan heim.

Í jólaboðunum þegar vinir og ættingjar hittast lifna sögur á vörum fólksins því þar mætast hjörtun. Þær eru hluti af því að vera þjóð. Kannske er Ísland bara saga eða sögur, eins og allt annað sem við getum ekki fest hendur á, þreifað á eða snert. Hérna birtist þessi frásögn aftan úr öldum og sýnir þann mátt sem í frásögninni er. Heimsveldið sem talað er um í upphafi jólasögunnar er löngu fyrir bí, mannvirki hafa risið og hrunið, draumar hafa vaknað og dáið en þessi ævaforna saga lifir enn í einfaldleika sínum.

Í kjarna hennar er svo hvítvoðungurinn, sem er í eðli sínu magnað kraftaverk. Aftur hljótum við að staldra við furður hins hversdagslega. Hvaða annað líf fæðist svo máttvana sem hin nýfædda mannvera? Ég spyr fermingarbörnin gjarnan að því – hvað það er sem kornabörn kunna. Allir hafa séð hvernig folöld, lömb og kálfar staulast á fætur fáeinum stundum eftir að þau eru komin í heiminn, apaungar hanga á feldi móður sinnar sem getur sinnt verkefnum sínum. En ungabarnið kann ekkert af þessu og það er algjörlega upp á þau komið sem eiga að ala fyrir því önn. Þegar við brjótum um þetta heilann, ég og fermingarbörnin, verður niðurstaðan oftast á sömu lund: Hvítvoðunginn kann bara eitt – að kalla fram ást og umhyggju hjá þeim sem í kringum hann standa. Já, án þess eiginleika gæti hann aldrei lifað fyrstu stundir ævinnar.

Og þannig birtist hinn æðsti og mesti okkur kristnum mönnum á helgum jólum – í algerum vanmætti. Barnið er ekki komið til að svara öllum þessum stóru spurningum sem á okkur sækja og skipta svo miklu máli. Nei það spyr í öllu sínu umkomuleysi – það spyr um eðli okkar og kærleika. Þannig er Guð Biblíunnar, síspyrjandi, sífellt að kalla fram það besta í okkur, kalla okkur til ábyrgðar gagnvart lífinu og heiminum.

Sú spurning er aldrei meira aðkallandi en núna þegar við virðum fyrir okkur barnið, umlukið hálmi í hinum lága stalli. Jólaguðspjallið er eins og óður til mennsku og náttúru og áminning til okkar á öllum tímum um það hvað skiptir okkur máli, hverju til tilheyrum og hvað það er gerir okkur að því sem við erum.