Að lifa í sannleikanum

Að lifa í sannleikanum

Við völdum nefnilega oft erfiðleikum vegna viðbragða okkar eða viðbragðsleysis, vegna vanhæfni okkar í samskiptum eða rangri ákvarðanatöku. Ótti okkar við að axla ábyrgð og horfast í augu við eigin gjörðir veldur þjáningu. Það að takast ekki á við slíkar aðstæður í heiðarleika og sannleika veldur líka þjáningu.

Við hjónin sátum eitt hádegi fyrir mörgun árum síðan á salatbarnum í Reykjavík, áður en við fluttum hingað norður. Við gerðum þetta endrum og eins hjónin, fórum á hádegisdeit. Bolli var þá prestur í Seljahverfi og ég í guðfræðinámi. Umræðurnar þetta hádegið voru í hressari kantinum, við vorum að rökræða þjáninguna og tilgang hennar í lífinu.

Ég var þá á kafi í fræðunum og var eins og svampur á allt sem ég las og róttækar kenningar, straumar og stefnur áttu greiða leið inn í hugann og þarna var ég nýbúin að lesa bók um einmitt þjáninguna þar sem tekist var á við þá hugsun að til sé það róttæk þjáning í mannlegri tilvist að hún hafi engan tilgang annan en þann að eyða mennskunni og tæra upp þá manneskju sem gengur í gegnum hana og í þeim aðstæðum er engan lærdóm að hafa.

Guðfræðin hefur löngum haldið á lofti þeim klassíska skilningi á þjáningunni að hún hafi alltaf æðri tilgang, hún geri okkur sterkari, geri okkur að betri manneskjum og feli í sér lærdóm.

Við sátum þarna hjónin, ræddum þetta hitamál og ljóst var frá upphafi að við vorum ekki alveg á sömu línu. Ég var heldur föst á því að þjáning ætti sér aldrei tilgang og Bolli fór svona beggja blands, milli klassískrar nálgunar og þess að möguleiki væri á ákveðnum tilfellum þar sem þjáning á sér engan tilgang.

Þetta er eitt af fáum skiptum þar sem við tókumst frekar ákveðið á um málefnið og samræðurnar enduðu ekki á neinni niðurstöðu og frekar samstöðu um að vera ekki sammála. Sem er bara allt í góðu lagi en þessar rökræður hafa alltaf verið mér í fersku minni, því þetta er sístætt málefni, umræðan um þjáninguna, hvað veldur og hvort að það sé einmitt tilgangur með henni eða ekki. Síðan eru liðin mörg ár og þegar vettvangurinn færist úr akademíunni út í lífið og þá eiga skoðanir manns til að breytast, örlítið mildast af því að þau eru ófá verkefnin sem við tökumst á við í lífinu, bæði fyrirséð og ófyrirséð, persónuleg og ópersónuleg.

Ég hef verið að lesa bækur upp á síðkastið eftir sálfræðing og metsöluhöfund að nafni Scott Peck þar sem hann fjallar um lífsins verkefni, hann blandar saman trú og sálfræði, ræðir um leiðir í átt að andlegum þroska og um þátt þjáningarinnar í lífinu.

The Road less travelled er hans þekktasta bók og byrjar á þessari setningu: „Lífið er erfitt!“

Hressandi upphaf á bók en gefur um leið tóninn um það sem í vændum er. Þó var þetta upphaf ekki meira letjandi en svo, að ég er núna búin að lesa þrjár bækur eftir vin minn Peck og og það er ótal margt í hans skrifum sem er hugvekjandi og hægt að heimfæra á eigin lífreynslu í lífi og starfi.

Peck talar um það sem hann kallar nauðsynlega þjáningu, sem er forsenda að hans mati, að því að við þroskumst sem andlegar verur. Ég hváði pínulítið þegar ég las þetta, því mér finnst í grunninn hugmyndin um eitthvað sem er nauðsynleg þjáning svo röng og skrýtin. Af hverju þurfum við að þjást, af getur ekki lífið bara alltaf verið skemmtilegt og áreynslulaust.

Hvers vegna að fæðast til að þjást, þetta er bara eitt líf, eitt tækifæri þ.e það eina sem við getum gengið að sem vísu hér og nú, er núið og því er það hugsanlega auðveldasta lausnin á hverjum tíma að burtskíra allt sem er vont og erfitt og sársaukafullt úr lífinu og keyra áfram í einni taumlausri gleðibombu án þess að líta um öxl. Við eigum það skilið að lífið sé alltaf skemmtilegt og þess vegna blómstrar afþreygingariðnaðurinn sem aldrei fyrr.

Svo fór ég að hugsa að í raunveruleikanum er þetta ekki svona, það lifir enginn til lengdar þannig, það er ekkert okkar hér í dag í þessari messu af því að lífið hefur alltaf verið auðvelt. Við værum þá annars staðar að njóta bleika skýsins og algleymisins. Kannski þegar öllu er á botninn hvolft er eitthvað til sem heitir nauðsynleg þjáning, sem hefur ákveðinn tilgang og svo hins vegar þjáning sem á sér engan annan tilgang en að meyða, eyða og sundra.

Ég held að greinarmunurinn þarna snúi að okkur sjálfum. Þá er ég að tala um það sem við völdum og því sem við völdum ekki. Að okkar ábyrgð og andsvari gagnvart aðstæðum í lífinu og svo aðstæðum sem við biðjum ekki um og er þröngvað upp á okkur vegna þess að aðrir velja að valda okkur skaða líkt þegar barn verður fyrir kynferðisofbeldi eða manneskja ákveður að taka líf annarrar manneskju. Slík þjáning á sér aldrei tilgang að mínu mati og felur ekki í sér neinn æðri lærdóm fyrir þann sem verður fyrir slíkum voðaverkum.

Það aftur á móti að bera ábyrgð á eigin lífi, eigin vali og ákvörðunum í lífinu á sér aðra hlið. Enska orðinu Responsibilty er hægt að snúa við og tala um „my ability to respond“ – eða hæfni mín til að bregðast við aðstæðum hverju sinni. Við völdum nefnilega oft erfiðleikum vegna viðbragða okkar eða viðbragðsleysis, vegna vanhæfni okkar í samskiptum eða rangri ákvarðanatöku. Ótti okkar við að axla ábyrgð og horfast í augu við eigin gjörðir veldur þjáningu. Það að takast ekki á við slíkar aðstæður í heiðarleika og sannleika veldur líka þjáningu.

Þversögnin er svo sú, að það að horfast í augu við slíkar aðstæður og axla ábyrgð og gangast við rangindum sínum getur líka valdið þjáningu um stund.

Þannig að eftir situr stóra spurningin: „Hvaða leið er best og farsælust og hvaða leið er það sem skapar mér frelsi og hjálpar mér að þroskast áfram sem manneskja í þessu lífi. Og um leið heila nærumhverfið mitt?“

Að fenginni reynslu get ég staðið hér og sagt að það að axla ábyrgð, mæta erfiðum aðstæðum í heiðarleika og sannleika, sama hversu erfitt það er, er stærsta skrefið sem við tökum í lífinu. Jafnvel þó að við séum í fullkomnum vanmætti og ótta þegar við erum í þeim aðstæðum, að játa það að við erum ekki fullkomin, við gerðum mistök, við höfum komið illa fram og við höfum ekki haft stjórn á okkar lífi. Þjáningin getur verið óbærileg og eyðimerkurgangan virst endalaus og það eina sem við viljum gera er að flýja aftur á bleika skýið og í gervihamingjuna.

Þá er það þannig í allri eyðimerkurgöngu, alveg sama hversu einmana við erum á þeirri stundu og sársaukinn óbærilegur í aðstæðunum, að ef við höldum þær út, þá förum við að rekast á eitt og eitt blóm, síðan fara að birtast tré og að lokum komum við að vin þar sem við getum notið næðis og grænna grunda í því skjóli að við horfðumst í augu við óttann og fundum það frelsi sem fylgir því að lifa í sannleika og heiðarleika.

Það krefst hugrekkis að lifa þannig og það er það sem Peck kallar þjáningu sem ber tilgang. Vegna þess að hún stuðlar að persónulegum þroska, bættri líðan og frelsi.

Það að fara í gegnum lífið án þess að horfast í augu við eigin vanmátt og eigin gjörðir í lífinu og jafnvel að vera í þeirri stöðu að kenna öllum öðrum um hvernig fyrir okkur er komið skapar til lengri tíma meiri þjáningu, jafnvel víðtækari og sársaukafyllri en þjáningin gerir þegar að við horfumst í augu við okkur sjálf og göngumst við því að lífið bara oft erfitt, ekki alltaf slétt og fellt, við völdum sársauka, gerum mistök.

En með því að axla ábyrgð og ganga í gegnum þjáninguna, fara í gegnum sársaukann og komast út úr honum, færir okkur áfram í persónulegum þroska. Það er ekki til meira og betra frelsi en að lifa í sannleikanum og þannig getum við horfst í augu við lífið og mætt samferðafólki okkar með höfuðið hátt á hverjum degi í öllum þeim aðstæðum sem koma upp í lífinu.

Ef ég ætti þetta hádegisspjall við manninn minn aftur í dag, sem við áttum saman á salatbarnum, nú mörgum árum síðar, hugsa ég að ég myndi ég tækla rökræðurnar á annan hátt. Ég myndi reyndar aldrei viðurkenna að hann hafi haft alveg rétt fyrir sér í öllu. Ég er of þrjósk til þess og hann yrði of drjúgur.

En ég myndi segja þetta: Til er þjáning sem er tilgangslaus, þar sem henni er þröngvað upp á fólk vegna ytri aðstæðna sem það sjálft hafði engan veginn úrræði til að bregðast við. Hér erum við að tala um ofbeldi, stríð, hryðjuverk og kúgun hvers konar. Þetta er til komið af illsku og valdagræðgi sem fyrirfinnast hjá einstaklingum og heilu samfélögunum, jafnvel þjóðum.

En það er einnig til þjáning sem hefur tilgang og hún snýr að okkar eigin eyðimerkurgöngu og hversu vel við náum að höndla það val sem við höfum í lífinu, hvernig okkur tekst að líta í eigin barm og lifa í vanmætti um stund og varnarleysi þegar við viðurkennum að við erum ekki fullkomin og bregðumst við með ábyrgum hætti til að gera betur. Sú þjáning sem getur fylgt í kjölfarið getur verið svo sársaukafull að hún nístir inn að beini en ef við eru þrautseig og höldum áfram, einn dag í einu, í sannleika og trú á það að það sé ljós við enda gangnanna, þá kemur þroskinn og frelsið í kjölfarið og fólkið í kringum okkur fer að bera virðingu fyrir þeirri viðleitni okkar að lifa betur á hverjum degi.

Þetta er vegur vonarinnar og á þeirri leið þroskumst við sem andlegar verur og lífið verður betra. Ekki bleikt ský þar sem flótti og afneitun eru vegvísarnir – heldur raunverulegt líf þar sem við viðurkennum að lífið sé á stundum vont en staðan er sú að þú hefur þróað með þér hæfni til að fara í gegnum öldudalina vegna þess að hafir þú einu sinni gert það og lifað af og upplifað að rísa upp aftur, þá veistu að það líf er miklu betra en stundarvíman sem afneitunum skapar. Sannleikurinn gerir okkur nefnilega frjáls.

Amen

(Flutt í Æðruleysismessu í Akureyrarkirkju sunnudagskvöldið 2. apríl)