RUV þakkar og heilsar af reisn

RUV þakkar og heilsar af reisn

Tónlistin og sálmarnir í kirkjunni vega þungt í íslenskri menningu og fóstraði Ríkisútvarpið og gerir enn og þjóðin nýtur innilega alla daga. Þannig verður trúin aldrei fjötruð á bás einkalífsins, heldur þráir að flæða um þjóðlífið i andans mætti sínum. Það staðfestir reynsla okkar, t.d. hvernig við kveðjum liðið ár og heilsum nýju.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
15. janúar 2016

Áramót eru einstök stund. Þá skartar Ríkisútvarpið því besta sem hæfir og ber menningu þjóðar vitni. Það er bæn. Gamla árið er hvatt með bænarsálmi sr. Valdimars Briem, Nú árið er liðið í aldanna skaut. Svo gengur nýja árið í garð og því heilsað með þjóðsöngnum Ó, Guð vors lands, ó, lands vors Guð, vér lofum þitt, heilaga, heilaga nafn. Það er bænin sem sameinar þjóð um menningu sína og Ríkisútvarpið miðlar af rótum sínum. Þakkar og heilsar með bæn og lofgjörð. Mikið er það falleg hefð. Skýrara getur það ekki verið. Kristinn siður er kjölfestan í þjóðlífinu.

Ríkisútvarpið er okkur hjartfólgið og inngróið í heimilislíf landsmanna. Hér er í engu hallað á aðra fjölmiðla sem gegna dýrmætu hlutverki og verða að njóta svigrúms og stuðnings til starfa. En stofnun útvarpsins hafði í för sér menningarbyltingu. Þegar litið er yfir farinn veg í sögu Ríkisútvarpsins, þá er fátt sem auðgað hefur frekar starfsemi þess en tónlistin. Þar skipar kristin trú stóran sess og ekki síst á hátíðum.

Engin trúarbrögð óma eins af tónlist og kristin trú. Og stafar frá englum á Betlehemsvöllum sem lofuðu Guð „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðum  og velþóknun Guðs yfir mönnunum“. Og í Davíðssálmum Gamla testamenntisins ómar tónlistin í gegnum ljóðlínurnar „Syngið Drottni nýjan söng“.  Löngu síðar kom svo siðbót Martins Lúthers sem lagði sérstaka áherslu á tónlistina. Lúther var mikill tónlistarmaður, lék sjálfur á hljóðfæri og samdi lög og ljóð til notkunar í guðsþjónustunni. Safnaðarsöngurinn var honum hjartans mál. Siðbótin hafði afgerandi áhrif á eflingu tónlistar í Evrópu.  Svo kom Jóhann Sebastian Bach, mikill trúmaður af lútherskum sið, oft nefndur fimmti guðspjallamaðurinn vegna stórbrotinna tónverka sinna, sem gjarnan voru samin með yfirskriftinni „Guði einum til dýrðar“, og hafði gríðarmikil áhrif.

Siðbótin á Íslandi fyllti kirkjuna af sálmum og safnaðarsöng. Með siðbótinni hófst útgáfa sálmabókarinnar fyrir almenning og prentuð í fyrstu prentsmiðju landsins á Hólum, sem kirkjan stofnaði, og með tímanum varð sálmabókin til á hverju heimili.

Ætli sálmabókin sé bönnuð núna í grunnskólum í Reykjavík, ef kennari vildi nýta hana til að uppfræða börnin um menningararf okkar?

Sálmabókin hvatti til sálmakveðskapar, tónsmíða og söngs. Fátt hafði meiri áhrif á þróun tónlistar um aldir á Íslandi eins og kirkjutónlistin. Síðar komu kirkjukórarnir og organistarnir. Við þekkjum hvað þetta fólk hefur lagt mikið að mörkum og nært menningarlífið í landinu. Einnig sérstakar kirkjutónlistarhátíðir sem vakið hafa verðskulduga athygli. Og allt tónlistarfólkið sem kemur fram í kirkjum landsins og sálmaskáldin sem miðla af andans auði sínum.

Mikill söngur ómar á meðal þjóðarinnar í guðsþjónustunum og sjaldan syngja samtals fleiri á Íslandi en í kirkjunum á aðfangadagskvöldi. Tónlistin og sálmarnir í kirkjunni vega þungt í íslenskri menningu og fóstraði Ríkisútvarpið og gerir enn og þjóðin nýtur innilega alla daga. Þannig verður trúin aldrei fjötruð á bás einkalífsins, heldur þráir að flæða um þjóðlífið i andans mætti sínum. Það staðfestir reynsla okkar, t.d. hvernig við kveðjum liðið ár og heilsum nýju.

Þetta er gott að hugleiða á tímum, þegar háværar raddir vilja úthýsa kristinum sið úr vitund þjóðar, menningu og gildismati.

Pistill fyrst birtur í Fréttablaðinu 14.1.2016