Laufás, menningarsetur

Laufás, menningarsetur

Laufás stendur ekki aðeins sem minnismerki liðinna alda heldur jafnframt sem áframhaldandi óðal kristinnar menningar og trúar. Og það eru ekki einvörðungu sveitungar sem sækja Laufás heim í ýmsum erindagjörðum nú á tímum, því þúsundir ferðamanna hvaðanæva úr heiminum staldra við á öllum tímum árs, einkum þó yfir sumartímann, auk þess sem afkomendur Laufásspresta og heimilisfólks fyrri alda heimsækja Laufásbæinn og eru þeir ófáir.
fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
02. ágúst 2015

Engum blöðum er um það að fletta að Laufás við Eyjafjörð er sögufrægt höfuðból og kirkjusetur í hinu stóra þjóðarsamhengi. Undir ásnum hefur kristin menning og þjónusta átt sér sterka tilvist og oft blómlega allt frá því Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson á Ljósavatni skreið undan feldi með nýjan sið kristninnar. En það eitt og sér hefur þó ekki skapað Laufási þann sess sem staðurinn á í hugum manna.

Ríkuleg náttúrufegurð hefur síst dregið úr gildi staðarins, en í eftirfarandi tilvitnun úr ævisögu Tryggva Gunnarssonar, sem ólst upp prestssonur í Laufási, má greina kjarna þess sem gert hefur Laufás að því höfuðbóli og menningarsetri sem staðurinn er:

„Laufás var höfðingjasetur að fornu og því næst mikilsháttar kirkjustaður.  Höfðingjar og höfuðklerkar er hér sátu auðguðu staðinn að jörðum og ítökum sem til kirkjunnar lögðust en jörðin sjálf ríkulega gædd flestum þeim kostum sem gagnsaman búskap máttu styðja.“[1]

Þeir höfuðklerkar sem sátu staðinn hverju sinni auðguðu hann á margvíslega vegu, mismikið þó. Ekki er nóg að búa í Róm eða Reykjavík til að verða merkur maður. Meira er um vert ef menn geta með starfi sínu og lífi gert þann stað merkan, sem þeir lifa á.

Áherslur Laufásklerka hafa verið ólíkar. Sumir hafa lagt sig meira fram við að byggja staðinn upp á veraldlegan máta, aðrir gefið sig meira að andlegri þættinum, og svo eru þeir sem hafa náð að sameina þetta tvennt betur en margir aðrir. Það er vafalaust þess vegna sem séra Björn Halldórsson prestur í Laufási 1853-1882 verður svona stórt nafn í sögu Laufáss, því hann var bæði mikill framkvæmdamaður og sérlega andríkur skáldprestur. Sögulegar umfjallanir um Laufás nema helst staðar við tíð séra Björns, það var blómatíð.

Því skal þó ekki haldið fram að Laufásklerkar einir hafi auðgað staðinn. Það gerðu þeir með hjálp Guðs og góðra manna, eiginkonur þeirra og fjölskyldur spiluðu stórt hlutverk sem og annað heimilisfólk á bænum. Í Laufási bjó oft fjöldi fólks, hátt í 30 manns þegar mest lét. Þar að auki var það nærsamfélagið, fólkið í sveitinni, sem gæddi staðinn lífi og lit.

Séra Björn hefði vart komist yfir allt það sem hann gerði nema vegna þess að hann hafði gott fólk í kringum sig, dygga eiginkonu og börn, trúfast vinnufólk, sterkan foringja og nágranna í Nesi Einar alþingismann Ásmundsson, kröftugan smið og bónda á Skarði Jóhann Bessason, útsjónarsaman prestsson með viðskiptanef Tryggva Gunnarsson frá Laufási og svo alla þá sveitunga er lögðu leið sína í Laufás bæði til að sækja þar kirkju og til þess að ræða landsins gagn og nauðsynjar.

Menningin verður til þegar fólk kemur saman til samtals og ráðagerða og það átti sér oftar stað á menningarsetrinu Laufási en annarsstaðar, kirkjusetrið var félagsleg miðstöð.

Við lestur dagbóka Björns sem hann hélt frá því að hann kom í Laufás og þar til hann andaðist í embætti skömmu fyrir jól 1882 kemur skýrt fram að daglegur gestagangur var í Laufási. Hann telur upp í dagbókarfærslum sínum þá einstaklinga sem þáðu næturgistingu. Það voru sóknarbörn og vegfarendur sem áttu leið hjá eða komu með sérstakt erindi í Laufás. Það voru kirkjugestir eftir messu samanber daginn sem fyrst var messað í nýrri Laufáskirkju 30. júlí árið 1865.

„Líkt veður. Embættaði ég fyrst í kirkjunni…með fjölda fólks. Fóru smiðir allir nema Jóhann Bessason og Tryggvi, kona hans madama Jóhanna á Hálsi, jómfrú Havstein og Krosshjónin voru um nóttina.“[2]

Veðrið hafði sterk áhrif á gestakomur og næturgistingar í Laufási og því ekkert óeðlilegt að veðurfar skyldi vera séra Birni hugleikið. Hann skrifaði veðurlýsingar hvern dag í dagbækur sínar sem þykir dýrmæt heimild. En ekki bara það, heldur má finna þar upplýsingar um búskaparhætti í Laufási, bústofn, nýtingu æðarvarps og embættisstörf prestsins.

Uppbygging á Laufássstað var mikil í tíð séra Björns. Gömul lúin kirkja, 121 árs, var tekin niður og ný byggð, sú sem nú stendur, bærinn endurbyggður en hann var hrörlegur þegar séra Björn tók við. Gamall Norðlendingur lýsir því þegar hann skrifar um dvöl sína í Laufási.

„Þegar ég var tæpra 18 ára fór ég að Laufási til síra Björns Halldórssonar sem þá var nýfarinn að búa þar. Fyrstu árin var ég smali. Fénaðarferðin var erfið, en gekk samt þolanlega. Síðar varð ég vinnumaður. Þegar ég kom að Laufási var staðurinn gamaldags og hrörlegur, bæði bæjarhús og einnig öll úthýsi, og æfagömul torfkirkja var þar. En þó að þessu væri svona háttað, var þarna svo undurfallegt…“[3]

Séra Björn var ágætur búhöldur og frú Sigríði konu hans er lýst sem frábærri búkonu. Þau hjón unnu langan vinnudag. Séra Björn sagði að undirstaða búskapar væri sú að láta hjúin eiga gott. Þau fengu greitt kaup sitt á sumardaginn fyrsta og þá var líka gefið frí. Tún voru í góðri hirðingu, engi voru bætt mikið, æðarvarp á Laufáshólmum skipti miklu máli sem tekjulind og því var vel sinnt.

Séra Björn tók þar við góðu búi því varpið var hvað mest í tíð forvera hans séra Gunnars Gunnarssonar eða um hálft þriðja þúsund hreiðra. Séra Björn fékk jafnframt í hendur vænan bústofn en árið 1840 voru nautgripir fimm, hestar sex og kindur 273.

Búið í Laufási var stærra en hjá öðrum og ófáar voru þær jarðirnar og hjáleigurnar sem tilheyrðu Laufási fyrr á öldum, en eru í dag gengnar undan prestssetrinu.

Laufás var miðstöð mennta eins og víða var áður með kirkjustaði á landinu. Prestar höfðu sem menntamenn eftirlit með alþýðufræðslu í samfélaginu. Þeir fóru á milli bæja í húsvitjanir og könnuðu um leið þekkingu heimilisfólks, spurðu út úr. Þannig var það með Laufásklerka.

Í Laufási sátu piltar á skólabekk. Haustið 1851 kom Björn Halldórsson í Laufás til séra Gunnars Gunnarssonar og konu hans Jóhönnu Briem til þess að segja piltum og prestssonum til m.a. í latínu. Björn var vel að sér í tungu klassískra mennta og setti saman latnesk-íslenskar vísur sem líklegt þykir að hafi orðið til við kennsluna.

„Equus hestur, hera frú, hospes gestur, fides trú,

vannus reka, remus ár,

rates fleki, crinis hár.“[4]

Skömmu eftir andlát séra Björns árið 1883 beitti Einar Ásmundsson í Nesi sér fyrir því að stofnaður yrði alþýðuskóli í Laufási. Einar var mikill áhrifamaður í hreppnum. Hann var stórbóndi og útgerðarmaður, alþingismaður og sýslunefndarmaður, sparisjóðsstjóri, skólahaldari og verslunarstjóri. Einar var sjálfmenntaður, las innlendar sem útlendar bækur, gat lesið fjögur tungumál og talinn lærðastur allra ólærðra manna hér á Fróni.

Ástæða þess að hann stóð fyrir stofnun skólans einn og óstuddur var sú að hann vildi að alþýðan gæti betur fylgt tímanum og hann var ekki sáttur við þá stefnu sem var við lýði í tengslum við alþýðumenntun á Íslandi. Hann vildi breytingar og þegar Einar vildi breytingar þá var farið af stað. Þeir félagar séra Björn og Einar áttu jafnan frumkvæðið í hreppnum og drógu vagninn íbúum til heilla.

Í Laufásskólanum mættu nemendur með ritgerðir á hverjum laugardegi, þar sem tekið var fyrir efni eins og menntun, skólar, verslun, lands- og sjóarbúnaður, íþróttir, bindindi, þrifnaður, reglusemi og svo voru stöku fyrirlestrar sem Einar sjálfur flutti og þáverandi sóknarprestur í Laufási, séra Magnús Jónsson. Skólinn byrjaði um veturnætur og stóð til sumarmála. Kennd voru fög eins og íslenska, danska, enska, saga, reikningur, landafræði, söngur. Skólapiltar voru 10-12 talsins og þröngt var setið í skólastofunni er ber nafnið pilthús í gamla Laufásbænum.  Laufásskóli starfaði tvo vetur, 1883-1884 og 1885-1886.

Einar var sömuleiðis aðalhvatamaður að stofnun Lestrarfélags Grýtubakkahrepps eftir messu í Laufási á nýársdag árið 1875. Að baki því öfluga menningarfélagi stóðu þeir Einar og séra Björn og virkjuðu með sér hreppsbúa, bændur, börn bænda og vinnufólk í sveitinni við stofnun og störf félagsins.

Tilgangur þess var að kenna fólki að hugsa skipulega og að alþýðan fengi góða og þjóðlega skemmtun af lestri gagnlegra bóka. Fundir félagins voru fyrst haldnir á kirkjustöðum sveitarinnar, Laufási, Höfða og Grýtubakka, en eftir 1880 í Þinghúsi Grýtubakkahrepps sem félagið beitti sér fyrir að byggt væri. Það stóð í miðri sveitinni og nýttist fyrir hinar og þessar samkundur.

Margvíslegar hugmyndir komu upp á fundum Lestrarfélagins, en ekki urðu þær allar að veruleika eins og stofnun kvennaskóla Eyfirðinga. Þar voru það prestskonur í Laufási og í Höfða sem hlutu kosningu til þess að kanna jarðveginn.  Til þeirrar menntastofnunar kom því miður ekki, þar sem hún hefði sannarlega aukið veg kvenna og hrært upp í ríkjandi karlveldishugsun 19. aldar.  En hugmyndin varð þó alltént til.

Þá tóku fundirnir fljótt á sig mynd einhvers konar skólahalds. Ári eftir stofnun félagsins bauðst sonur séra Björns, Þórhallur Bjarnarson síðar biskup, til þess að segja félagsmönnum til í réttritun eftir messu á sunnudögum, þeim sem það vildu þiggja. Það þáðu þó ekki allir, en þátttaka var frjáls og próf voru tekin. Félagið hafði þannig sér í lagi menntunargildi, en skemmtanagildið fólst einkum í söng og dansi eftir fundi og stundum glímdu menn.

Sama ár og Lestrarfélagið var stofnað voru þeir sem best voru að sér í söng  hvattir til að æfa sig að syngja margraddað og áttu síðan að kenna öðrum félagsmönnum þá kúnst. Til þess að bæta og fullkomna sönginn og kunnáttu manna í söng í sveitinni var rætt á þriðja fundi félagsins að kaupa hljóðfæri. Þá var ákveðið að safna fyrir orgeli.

Talnavelta var haldin í Laufási þar sem söfnuðust 160kr. Orgelið var afhent Laufáskirkju 30. desember árið 1877 og var eitt af fyrstu orgelum landsins, komið frá Danmörku eða Frakklandi. Heimildum ber ekki saman um það og ekkert er vitað um orgelsmiðinn. Orgelið þjónaði söfnuðinum í þrjá áratugi, en fátt er vitað um afdrif þess eftir að það fór úr kirkjunni. Fyrsti organistinn var systursonur Einars í Nesi, Sigurður Sigurðsson sem var styrktur til náms á Akureyri svo hann gæti leikið á orgelið nýja.

Það var því ljóst með þessu að Lestrarfélagið var til eflingar mennta-og menningarlífi í byggðarlaginu og það leit dagsins ljós í Laufási eins og svo margt annað sem auðgaði samfélagið og mannlífið.

En ekkert af þessu hefði getað gerst nema fyrir atbeina þeirra er lifðu í Laufási og í nærsamfélaginu. Íbúar í Grýtubakkahreppi hafa gert Laufás að þeim merka stað sem hann er. Náttúrufegurðin, hirðing jarðar og sagan styður vissulega við, en mikilvægt er að efla staðinn áfram svo hann haldi reisn sinni um ókomin ár.

Í dag standa fleiri aðilar að umsjá Laufásstaðar en kirkjan ein. Gamli bærinn frá dögum séra Björns er í eigu Þjóðminjasafnsins og rekinn af Minjasafninu á Akureyri. Prestshúsið frá 1936 er nú eign Minjasafnsins og kallast Gestastofa. Minjasafnið, Þjóðminjasafnið og Þjóðkirkjan standa því saman að því að viðhalda þessu gulleggi Eyjafjarðar sem Laufás sannarlega er.

Laufás stendur ekki aðeins sem minnismerki liðinna alda heldur jafnframt sem áframhaldandi óðal kristinnar menningar og trúar. Og það eru ekki einvörðungu sveitungar sem sækja Laufás heim í ýmsum erindagjörðum nú á tímum, því þúsundir ferðamanna hvaðanæva úr heiminum staldra við á öllum tímum árs, einkum þó yfir sumartímann, auk þess sem afkomendur Laufásspresta og heimilisfólks fyrri alda heimsækja Laufásbæinn og eru þeir ófáir.

Greinarhöfundur man eftir öldruðum prestssyni frá Laufási sækja æskuslóðir sínar heim og það fyrsta sem hann gerði eftir að hafa stigið út úr bifreið sinni var að beygja sig niður og kyssa jörðina. Sú athöfn staðfesti margt, m.a. þá staðreynd að Laufás er ekki bara jörð, menningarsetur, höfuðból, Laufás er umfram allt helgur staður.

„Að lifa lífi mínu

sem líkar Drottinn, þér

og vera í verki þínu,

það veiti náð þín mér.

Þá verða blessuð verkin mín

og fylgja mér í friði,

ó, faðir heim til þín.“(Séra Björn Halldórsson) [5]

Heimildir:

Björn Ingólfsson 2013. Brot úr byggðarsögu. Mannlíf í Grýtubakkahreppi.  Reykjavík.  Hólar.

Bolli Gústavsson 1994. Ljóðmæli. Björn Halldórsson í Laufási. Reykjavík. Skálholtsútgáfan.

Hörður Ágústsson  2012. Laufás við Eyjafjörð.  Kirkjur og búnaður þeirra.  Reykjavík. Hið íslenska bókmenntafélag.

LAUFÁS: GREINARGERÐ MEÐ DEILISKIPULAGI. 1999

Vefslóð: http://tru.is/postilla/2013/01/k%C3%A6ra-dagbok

(Grein þessi birtist í afmælisriti gefið út af Laufásprestakalli í tilefni 150 ára afmæli Laufáskirkju.  Björn Ingólfsson ritstýrði).


[1] LAUFÁS: GREINARGERÐ MEÐ DEILISKIPULAGI. 1999.
[2] Vefslóð: http://tru.is/postilla/2013/01/k%C3%A6ra-dagbok
[3] Bolli Gústavsson 1994: 110.
[4] Bolli Gústavsson 1994: 282.
[5] Bolli Gústavsson 1994:230.