Samviskutal á aðventu

Samviskutal á aðventu

Þetta er tilgangurinn – segir Kristur. Og þetta er sjálft inntak okkar siðferðis – framkoma okkar við þá sem ekki geta varið sig sjálfir. Ekkert endurspeglar betur okkar innri mann. Ekkert sýnir það betur hvernig samvisku okkar er háttað.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
09. desember 2011

Aðventan er sannarlega magnaður tími. Ekkert tímabil á árinu jafnast á við þessar fjóru vikur. Jafnvel sjálf jólin eru orðin hversdagsleg eftir að hátíðsdögunum sleppir en aðventan lifir lengi og sífellt verður umhverfið bjartara og fegurra eftir því sem sólin þó lækkar á lofti. Þótt upphaflega hafi tilgangur aðventunnar verið sá að hvetja fólk til föstu verður ekki framhjá því litið að siðbótarmenn sáu í henni annan tilgang og við erum jú hluti af því menningarsvæði sem mótaðist af hugmyndum Lúthers og félaga. Okkar siður leggur minna upp úr því að sýnast og meira upp úr því að vera. Ég veit það ég er ekki alveg hlutlaus, en svona er þetta samt.

Menn höfðu lítið talað um samviskuna áður, en hún skipaði stóran sess í ritum Lúthers, bæði það sem getur plagað samviskuna en einnig hitt sem róar hana og huggar.

Aðventan ber þessa skýr merki. Ef það er eitthvað sem blasir við okkur á þessu tímabili ársins þá er það eintal okkar við okkar innri mann, sjálfa samviskuna. Aldrei spyrjum við okkur áleitnari spurninga en um þetta leyti, aldrei horfum við eins mikið í kringum okkur í leit að þeim sem þarf á aðstoð okkar að halda. Já, við undirbúum okkur fyrir komu Krists og Kristur lýsti því fyrir okkur hvernig við myndum mæta honum á komandi tímum: ,,Allt sem þér gjörið einum minna minnstu bræðra það gjörið þér mér. Við mætum frelsaranum þegar við styðjum þann sem ekki getur bjargað sér sjálfur."

Samviskan er ekki okkar þægilegasti förunautur í lífinu. Hún getur nagað okkur, jafnvel lætur hún okkur ekki í friði – rétt eins og höggmynd Einars Jónssonar ber með sér þar sem kvalið andlit reynir að líta undan en samviskan er í líki smárra vera sem halda uppi augunum og hrópa í eyrun. En með samviskuna gildir hið sama og aðra þætti sálarinnar – allt sem er of eða van er til vansa. Hið gullna jafnvægi á að stýra för okkar í gegnum lífið.

Þegar Kristur er spurður um sjálfan tilgang lífsins má sjá að samviskan skipar stóran sess í svari hans. Sagan af miskunnsama Samverjanum lýsir afskiptum þriggja einstaklinga af hjálparlausum manni sem orðið hafði fyrir árás ræningja. Af sögunni að dæma hafa titlar okkar og yfirborðsvirðing lítið að segja um tilganginn stóra. Presturinn og Levítinn sem klæddust skartklæðum og voru mikils metnir í samfélaginu fundu ekki rödd samviskunnar þegar þeir gengu framhjá hinum deyjandi manni. En sá sem engrar virðingar naut, Samverjinn, átti hins vegar sterka og heilbrigða samvisku sem varnaði honum því að halda áfram án þess að sinna þeim sem þurfti á hjálp hans að halda.

Þetta er tilgangurinn – segir Kristur. Og þetta er sjálft inntak okkar siðferðis – framkoma okkar við þá sem ekki geta varið sig sjálfir. Ekkert endurspeglar betur okkar innri mann. Ekkert sýnir það betur hvernig samvisku okkar er háttað.

Aðventan er einmitt tíminn þar sem við gefum hinum innri manni gaum. Þarf ekki að undra. Þetta er undirbúningstími, tími íhugunar og sjálfsrýni. Aldrei berast okkur stærri gjafir en einmitt þá. Velferðarsjóðurinn hefur á vikutímabili fengið hálfa þriðju milljón króna í frjálsum framlögum. Nánast allt sem í hann safnast kemur á aðventunni.

Aðventan er sannarlega magnaður tími. Kannske gerum við okkur ekki grein fyrir því hvers vegna framlög okkar eru stærri á þessum tíma árs. Ef til vill hefur rödd Krists náð inn að kjarna okkar með orðum sínum um hinn sanna tilgang.

Hvað sem því líður þá skulum við gefa okkur næði til þess að íhuga stöðu okkar og hlutskipti á þessum helga tíma. Þá er aðventunni sannarlega vel varið.

Guð gefi okkur öllum góðar stundir og helga jólahátíð.

Flutt á aðventukvöldi Rótarýmanna 8. des 2011