Æðruleysi

Æðruleysi

Í dag er 11. september og hugurinn leitar til þeirra hörmungaratburða sem urðu þann dag árið 2003. Sálfsagt er það svo vegna þess að Bandaríkjamenn ganga nú enn í gegnum mikla erfiðleika sakir náttúruhamfara og tvisvar á minna en einu ári hefur heimsbyggðin mátt horfast í augu við átakanlegar afleiðingar hrikaleiks náttúrukraftanna.

Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu að hugga þær eftir bróðurmissinn.

Þegar Marta frétti, að Jesús væri að koma, fór hún á móti honum, en María sat heima. Marta sagði við Jesú: Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég, að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.

Jesús segir við hana: Bróðir þinn mun upp rísa. Marta segir: Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.

Jesús mælti: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?

Hún segir við hann: Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn. Jóh. 11. 19-27

Í dag er 11. september og hugurinn leitar til þeirra hörmungaratburða sem urðu þann dag árið 2003. Sálfsagt er það svo vegna þess að Bandaríkjamenn ganga nú enn í gegnum mikla erfiðleika sakir náttúruhamfara og tvisvar á minna en einu ári hefur heimsbyggðin mátt horfast í augu við átakanlegar afleiðingar hrikaleiks náttúrukraftanna.

Sérhvern dag mæta svo fjölskyldur líkum afleiðingum í formi banvænna sjúkdóma og slysa. Enginn er öruggur þrátt fyrir allan viðbúnað. Hvernig getur okkur verið rótt vitandi það að við erum sérhvern dag í hættu með allt okkar?

Fólki er misjafnt farið í þessu efni og viðbrögðin eru ólík. Sumir bera sífelldan beyg í hjarta fyrir sér og sínum, aðrir eru á það minntir við sérstakar aðstæður að hætta kunni að vera á ferðum og forðast þær eins og heitan eldinn, enn aðrir stinga höfðinu í sandinn og segja ekkert koma fyrir sig. Lengur mætti telja upp aðstæður sem vekja ugg og ótta og ýmis óheppileg viðbrögð gagnvart þeim.

Æðruleysi er eftirsóknarvert hugarástand og menn leggja stund á að ná því eftir ýmsum leiðum. Kirkjan kennir okkur nokkuð um það í textum dagsins sem og öðrum vitnisburði sínum.

Páll postuli er hvergi smeykur í pistlinum. Hann eins og veltir því fyrir sér í rólegheitunum hvort hann eigi að gefa upp öndina eða ekki. Það sé vissulega miklu betra fyrir hann að deyja því það sé honum fyrir bestu að vera heima hjá Drottni. Hins vegar sé það afar óheppilegt fyrir þá sem bréfið er stílað á að hann lifi og niðurstaða er að líklegast lifi hann nú eitthvað enn! Er hann að segja að við eigum að reyna að losna úr þessu lífi sem allra fyrst, eða hvað?

Nei, lífið er mér Kristur segir hann þótt hann sjái ávinning með dauðanum. Lífið er mér Kristur. Hvað merkir það fyrir Páli? Það merkir að hann er í þessu lífi í samfélagi, vináttu við Krist sem fyrst bauð honum vináttu sína og hann þáði. Gagnkvæm vinátta felur í sér deilingu kjara. Þeir eru saman í verkinu, gleðinni og raununum, lífinu. Páll finnur sig knúinn til þjónustu við málstað hins fagra, góða og fullkomna, bæði almennt og til einstakra verka. Það er Kristur sem kallar hann með því að hann hefur gefið honum augu, eyru og hjarta lærisveins og hann er með honum í erfiðinu.

Ef þú, að eigin áliti, ert hér í heiminum á eigin vegum og berð ein/n ábyrgðina þá er eins gott að þú þekkir óttann til þess að þú megir vara þig á hættunum. Ef þú ert hins vegar á vegum Guðs þá veistu að hann mun ekki yfirgefa þig og skilja þig eina/n eftir í raunum. Það getur tekið á að bíða hjálpar hans en hún kemur. Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég. Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin.

Þetta hróp þekkjum við úr eigin hjarta, öll sem eitt. Það má minna okkur á unglingana í eldsofninum og Daníel í ljónagryfjunni sem segir frá í Daníelsbók. Við höfum allflest verið í návígi við eyðingaröflin og hætturnar og bjargast fram til þessa fyrir miskunn Guðs og hvað við þráðum hjálpina meðan hún var ókomin. En svo kom hún: Bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar.

Það skal og verður að vera satt, svo sem Drottinn lifir að hann fóststig getur fundið sem fær sé handa þér. Ef ekki, þá er hann heldur ekki fær um að standa við fyrirheiti sín, já, þau sem hann afhendir okkur í heilagri skírn. Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar. Já og forsendan: Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu, er þá marklaust hjal óskyggja og vitleysa.

Hjálpin kemur stundum of seint! segir þú. Stundum fer illa og fólkið deyr tugþúsundum saman. Sjáðu bara líkin fljótandi á vatninu eða hangandi í tjágreinunum í New Orelans. Sjáðu blessað fólkið taka seinustu andvörpin á sjúkrastofunum. Sjáðu, kirkjugarðana! Það eru ekki einu sinni sjötíu ár á milli sumra dagsetninganna á legsteinunum, hvað þá áttatíu!

Sumum hefur vissulega fundist hjálpin koma allt of seint. Það fannst Mörtu líka þegar Jesús kom loks þegar Lasarus bróðir þeirra Maríu var dáinn og grafinn. Hvers vegna tókst svona hrapallega til, hvernig gat hann metið aðstæður svo að hann léti undir höfuð leggjast að skunda til Lasarusar vinar síns þegar hann frétti að hann var dauðveikur? Það er mikils virði að eiga máttuga vini, eða hitt þó heldur! hefur Marta kannski hugsað þegar Jesús var ekki kominn þegar bróðir hennar skildi við.

En - og það er kjarni boðskapar þessa dags - JESÚS KEMUR ALDREI OF SEINT! Jesús leyfði að Lasarus dæi til þess eins að þú mættir sannfærast um það að Jesús kemur aldrei of seint. Það er ekkert til sem heitir of seint fyrir þann sem hefur allt vald á himni og á jörðu! Sá sem á eilífðina að ráðrúmi er ekki bundinn af tímanum. Elskan mín, áttaðu þig á því.

Það er svo mikilvægt að vita það að Jesús veit að það er framtíð í eilífðinni. Það er ekki allt búið þegar dauðinn hefur gengið um garð. Hann hefur ekki annað hlutverk gagnvart börnum Guðs en að bera þau í faðm hans. Í eilífðinni eru úrræðin endalaus til hjálpar og líknar.

En þjáningarnar þá? Hvað með þær? Af hverju styttir Guð þær þá ekki? Það er af því að þær eru verkefni okkar sjálfra. Jú, vissulega styttir hann þær, leyfir ekki að þær verði okkur um megn. Hann leggur líkn með þraut, hún er til reiðu, en við verðum oftast að finna hana sjálf. Ef þetta væri ekki svo væri lífið aðeins leikur, við óábyrg bæði gagnvart okkur sjálfum og gagnvart hvert öðru.

Æðruleysi á sá sem veit að hann hefur gert allt sem í hans valdi stendur og treystir því að það sem hann hefur ekki vald á sé í hendi Guðs. Hann veit jafnframt að þrautin líður eins og annar tími og að handan allra þrauta er eilífð Guðs. Þó mennirnir bregðist þá bregst Guð ekki og vissan um það gerir alla þraut bærilega.

Við megum þó ekki undir neinum kringumstæðum lifa í þeirri blekkingu að Guð sjái um allt. Nei, hann tekur ekki af okkur ábyrðgina á sjálfum okkur og náunga okkar. Hann vill við gerum allar skynsamlegar ráðstafanir til þess að forða óförum og að við bregðumst við af alefli þegar ógæfan dynur yfir. Hann vill að við leggjum líf okkar við til hjálpar hvert öðru.

Þetta er það sem hann á við þegar hann gefur okkur hið nýja boðorð: Elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður eða með öðrum orðum: Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður skulið þér og þeim gjöra. Hann er hin sanna fyrirmynd og engin elskar meir en sá sem gefur líf sitt fyrir vini sína.

Við með öllu okkar erum í hendi Guðs. Hvort sem við lifum eð deyjum erum við Drottins. Við getum verið hughraust, já, æðrulaus ef við getum tekið til hjarta þessi orð Drottins Jesú: Óttist ekki, ég hef sigrað heiminn!

Jesús segir við þig í dag: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu? Seg þú þá eins og Marta: Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn. Búðu um þig í þeirri trú að hann sé himnasending til þín komin frá upptökum alls lífs að leiða þig í gegnum öll atvik lífsins og til eilífrar dýrðar sinnar að því loknu.