Dómkirkja er kirkja biskupsins.

Dómkirkja er kirkja biskupsins.

Ég heilsa ykkur frá Skálholtsdómkirkju í Biskupstungum. Þessari fallegu kirkju sem vígð var fyrir nærri 60 árum.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
24. desember 2022
Flokkar

 Prédikun flutt í helgistund á jólanótt 2022. Jes. 9:1-6; Lúk. 2:1-14.

Ég heilsa ykkur frá Skálholtsdómkirkju í Biskupstungum.  Þessari fallegu kirkju sem vígð var fyrir nærri 60 árum.  Hana prýða listaverk.  Þau stærstu og mest  áberandi eru steindir gluggar Gerðar Helgadóttur og altaristafla Nínu Tryggvadóttur.  Margir ferðamenn koma hér við og flestir sem hingað koma fyllast lotningu og finna fyrir helgi þessa staðar sem fyrir margt löngu var höfuðstaður Íslands.

Dómkirkja er kirkja biskupsins.  Í Skálholti bjó biskup til ársins 1797 þegar hann fluttist til Reykjavíkur þar sem hann hefur setið upp frá því.  Það liðu nærri tvær aldir þar til biskup settist aftur að í Skálholti en síðan 1993 hafa vígslubiskupar setið hér.  

Dómkirkjur landsins eru þrjár.  Hinar tvær eru dómkirkjan í Reykjavík sem er kirkja biskups Íslands og dómkirkjan á Hólum í Hjaltadal sem er kirkja vígslubiskupsins á Hólum.  Í heimsfaraldrinum þegar ekki var hægt að koma saman til ráðstefnuhalds var heimsráðstefnu um umhverfismál stýrt héðan frá Skálholtsdómkirkju þar sem þátttakendur voru fyrir framan tölvurnar sínar í um 60 löndum í öllum heimsálfunum.  Yfirskrift ráðstefnunnar var „trú fyrir jörðina – fjöltrúarlegar aðgerðir“.   Héðan hafa áhrifin borist um landið og heiminn um margra alda skeið.

Nú erum við saman komin hér í Skálhotskirkju á hinu helga kvöldi, aðfangadagskvöldi jóla.  Ég stend hér við jötuna sem notuð var í helgileiknum sem fluttur var hér fyrir jólin en þannig hefur það verið áratugum saman að fullorðna fólkið hér um slóðir hefur horft á börnin sín leika það sem guðspjöllin segja um fæðingu Jesú.

Sagan sú stendur í guðspjöllunum og var ein þeirra, frásaga Lúkasar lesin hér áðan.  Við þekkjum þessa sögu mörg hver en kannski ekki eins vel frásögu Matteusar guðspjallamanns sem oft er lesin í kirkjunum á þrettándanum, síðasta degi jóla.  Matteus skráði sögu vitringanna sem leituðu barnsins nýfædda.  Stjarna vísaði þeim veginn þangað.  Matteus er líka með framhaldssögu af barninu nýfædda sem flúði með foreldrum sínum til Egyptalands undan hinum morðóða Heródesi.  Sú saga, saga fólks á flótta hefur endurtekið sig trekk í trekk í sögu mannkynsins og nú eins og þá þarf fólk að flýja undan herskáum leiðtogum vilji það halda lífi og limum.    

Fæðingarfrásaga Lúkasar er sett í sögulegt samhengi.  Það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústi keisara um að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.  Hvað gerir fólk þegar yfirvöldin skylda þegnana?  Fólk hlýðir, að minnsta kosti í þá daga.  Þess vegna fór hin barnshafandi stúlka María með unnusta sínum til ættborgar hans til skrásetningarinnar.  Og þar fæddist drengurinn sem látinn var heita Jesús.

Það er ekkert nýtt við það að barn fæðist í þennan heim.  Talið er að á hverri mínútu fæðist um 260 börn í heiminum öllum.  Barnsfæðing er því hversdagslegur atburður nema fyrir foreldrana sem beðið hafa í eftirvæntingu eftir barninu sínu.  Aðstæður mæðra þessa heims eru ólíkar.  María fæddi sinn dreng í fjárhúsi og vaggan hans var jatan segir í guðspjallinu.  Á dimmri nóttu fæddist barn á sjónum undan strönd ítölsku eyjunnar Lampedusa. Bátnum hafði hvolft og litla barnið dó um leið og það fæddist.  Vagga þess var hin vota gröf.  Þetta gerðist fyrir um 5 árum.  Á fæðingarheimili á Íslandi fæddist drengur þar sem móðir hans lá í heitu og hreinu rúmi og vel var fylgst með honum og móður hans meðan á fæðingunni stóð. Vaggan hans var hrein og sængin hlý.  Sumar fæðingar eru erfiðar en fagþekking og tæki og tól nútímans gera barninu kleift að komast heilt og óskaddað í heiminn og gera móðurinn kleift að jafna sig fljótt og vel eftir þá reynslu.   

Staða mæðra þessa heims er misjöfn og líka hér á landi.  Við lifum í þannig samfélagi að við gerum ráð fyrir að það grípi okkur þegar á móti blæs eða þegar neyðin kallar en þannig er það því miður ekki í öllum tilfellum eins og fjölmargar lífssögur vitna um og við heyrðum fyrir jólin.  

Við lifum í heimi þar sem menning er ólík milli heimshluta og landa.  Við lifum í heimi þar sem stríð geisar og ójöfnuður ríkir víða.  Við lifum í heimi þar sem hlýnun jarðar og fleiri ógnir steðja að.  Við lifum í heimi þar sem mannréttindi eru ekki virt víða.  Það eru mörg verkefnin sem við mannfólkið stöndum frammi fyrir og þurfum að taka á.  Og því miður fær fólk ekki að iðka trú sína í öruggu umhverfi allsstaðar og er kristið fólk ekki undanskilið.  Talið er að um 245 milljónir kristinna manna sæti ofsóknum fyrir trú sína í 50 ríkjum heims.

Sem betur fer búum við í landi þar sem við getum haldið heilög jól og minnst fæðingar frelsarans.  Fæðingar barnsins sem hefur haft áhrif á einstaklinga og samfélög um aldir. Barnsins sem sagði að með sér hefði Ritningin ræst og rödd af himnum sagði við skírn hans „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“  Sjálfur sagði hann við upphaf starfs síns.  „Takið sinnaskiptum, himnaríki er í nánd.“

Já, það er ekki bara það sem augað sér og eyrað heyrir þegar Jesús er annars vegar.  Frá himnum berast boð til jarðar og í myrkrinu ljómar dýrð Drottins.  Himneskur boðskapur er fluttur sem nær eyrum fólks á jörðu og mótar lífsviðhorf þess og trú á það að lífið snýst ekki eingöngu um það sem er áþreifanlegt heldur einnig það sem nærir sálina og andann.  Boðskapur jólanna er sagður í fáum orðum, merkingarbærum orðum sem smjúga inn í merg og bein og gefa styrk og kraft.  Þau eru:  „Yður er í dag frelsari fæddur.“

Þér er fæddur frelsari.  Þér er fæddur sá sem elskar þig eins og þú ert og vill að þú eigir gott og heilbrigt líf.  Þér er fæddur sá sem frelsar þig frá myrkri og villustigum til lífs í fullri gnægð þar sem þú færð að finna sælu yfir því að vera til og þakklæti fyrir að eiga þetta góða líf.  Þér er fæddur frelsari sem þú getur talað við hvenær sem er um hvað sem er.  Frelsari sem skilur þig og vill ganga með þér lífsveginn.  Taka þig í fangið þegar þú hrasar, bera þig á höndum sér þegar þér líður illa, hughreysta þig þegar ótti og hryggð sækja að þér.  

Þetta er boðskapur jólanna og þess vegna höldum við hátíð.  Hverfum um stund frá vana hversdagsins, gerum vel við okkur í mat og gleðjum fjölskyldu og vini með gjöfum og fallegum kveðjum.  Og ekki má gleyma gæðastundunum í annríki dagsins.

Í jötunni liggur barnið nýfædda, sem er í senn Guð og maður.  Með lífi sínu, viðmóti, verkum og orðum kynnti hann fyrir okkur þann Guð sem elskar okkur að fyrra bragði og tekur okkur að sér í lífi og leik.  

Í kvöld hugsum við til þeirra sem hvergi eiga höfði sínu að halla.  Til þeirra sem eiga ekki heimili.  Til þeirra sem misst hafa og sakna.  Til þeirra sem eiga ekki fyrir nauðþurftum.  Til þeirra sem eru einmana og veik.  Til þeirra sem lifa við ógn og kvíða.  Við sem fáum að vera með ástvinum okkar þökkum Guði fyrir það.  

Í huganum skulum við setjast niður með hirðunum á Betlehemsvöllum sem fyrstir fengu að heyra hin himnesku boð um fæðingu barnsins hennar Maríu.  Við skulum taka engilinn á orðinu og ekki vera hrædd.  Látum óttann ekki stjórna okkur eða ná tökum á okkur því fagnaðarboðskapur englanna er handan við hornið.  Við skulum hlusta á hann og meðtaka hann.  Við skulum njóta hans og dýrðarsöngs englanna og biðja þess að friður og velþóknun Guðs taki sér bústað í hjörtum okkar og biðja þess einnig að dýrð Guðs festi rætur hér á jörð svo friður ríki.

 „Í gegnum móðu og mistur ég mikil undur sé.  Ég sé þig koma, Kristur,“ orti Davíð Stefánsson. Á altaristöflunni hér í Skálholtsdómkirkju kemur Kristur út úr mistrinu og á móti okkur með útbreiddan faðminn. Frelsarinn sjálfur sem fæddist hin fyrstu jól er tilbúinn til að umvefja okkur kærleika sínum.  Á hann megum við trúa.  Á hann megum við treysta.  Því hann er fæddur mér og þér.

Í nafni hans bið ég þér gleðilegar jólahátíðar og farsældar á lífsins leið.