Þetta salerni er vináttusalerni salernis í Giharo, Rutana héraði, Burundi, Afríku.Þessi orð stóðu við mynd á vegg í háskólanum í Durham. Þar kom einnig fram nákvæmt hnit og númer vinasalernisins og hverjir höfðu greitt fyrir vináttugjörninginnÞað voru sr. Kate Bruce og Asher.
Mér fannst þetta fyndið þegar ég sá það fyrst og hélt að þetta væri brandari en sá svo fleiri skilti og kannaði málið. Vináttusalerni, eða "toilet twinning" er verkefni samtaka sem beita sér fyrir því að byggð séu salerni í þorpum víða um heim, þar sem salernisaðstaða er af skornum skammti. Samtökin sinna fræðslu og hvatningu. Sú tiltölulega lága upphæð sem við greiðum til að eignast vináttusalerni fer í að fræða heimamenn og hvetja þá til dáða. Það er lykilatriði að fólkið sjálft geri sér grein fyrir mikilvægi þessa og grafi sjálft fyrir salernum.
Í dag er Alþjóða klósettdagurinn, dagur helgaður bættum aðgangi að salerni. Okkur getur þótt það fyndið hér á klakanum en staðreyndin er sú að þriðjungur mannkyns býr ekki við viðunandi salernisaðstöðu. Þetta hefur í för með sér mengun, meðal annars í neysluvatn sem aftur leiðir til sjúkdóma og dauða. Tölurnar eru sláandi. Á vefsíðu Toilet twinning kemur fram að á hverri mínútu deyi að meðaltali þrjú börn vegna þess að þau hafa ekki aðgang að hreinu vatni og vegna skorts á hreinlæti.
Konur og stúlkur verða harðast úti. Það er hættulegt að ganga örna sinna í náttúrunni. Þar eru ekki bara snáka að óttast heldur einnig menn sem sjá sér leik á borði og beita þær kynferðislegu ofbeldi þar sem þær eru óvarðar. Fréttir af slíku hafa meðal annars borist nýlega frá Indlandi.
Upplýsingar um vináttusalernin og fleira sem tengist hrænlæti og heilsu er að finna á heimasíðunni http://www.toilettwinning.org/
Þarna geta allir lagt hönd á plóg og hjálpað til. Það er meira að segja hægt að gefa vináttusalerni sem gjöf - svona handa þeim sem eiga allt, líka gott klósett og krana með hreinu vatni.