Trúir þú þessu?

Trúir þú þessu?

Guðspjall: Jóh. 11. 19-27 Lexia: Sl. 130 Pistill: Fil. 1. 20-26

Þessi fallegi helgidómur var vígður 2. júní 1907 Guði til dýrðar og sóknarbörnum til afnota á gleði- og sorgarstundum. Aldarafmælis kirkjunnar var minnst í sumar með veglegum hætti. Orðið kirkja merkir ekki aðeins kirkjuhúsið sjálft heldur líka samfélag þeirra sem trúa á Jesú Krist og vilja tilheyra kirkjunni sem skírðir einstaklingar.

Fermingarfræðslan er skírnarfræðsla þar sem saman fer fræðsla um grundvallaratriði kristinnar trúar og kynning á því starfi sem fram fer í söfnuðinum. Þar fer saman fræðsla um messuna og þær athafnir sem fram fara í kirkjunni og kynning á barnastarfi kirkjunnar.

Eftirvænting ríkir í hugum barnanna. Við munum í sameiningu koma til að leita svara við ýmsum spurningum um lífið og tilveruna í ljósi kristinnar trúar og kristins mannskilnings þar sem lögð er áhersla á að sérhver einstaklingur er einstakur og elskaður af Guði.

Einn vandi við að trúa á Guð er sá að við getum ekki séð hann. Þessi skoðun kemur oft fram hjá fermingarbörnum. Vafalaust höfum við öll einhvern tíma á lífsleiðinni sagt við okkur sjálf: “Ég myndi svo sannarlega trúa á Guð ef ég sæi hann”.

Hér er saga sem vert er að hugsa um í þessu sambandi. Maður nokkur dró upp segl á skútunni sinn og hugðist sigla um heiminn. Vindur blés og hann sigldi þöndum seglum út á haf. Morgun einn vaknaði hann og var þá staddur á Kyrrahafinu. Eitthvað var öðruvísi en það átti að vera. Það var logn. Hann sá í fjarska fallega eyju og réri þangað. Hann sá fólk standa á ströndinni og fylltist skyndilega ótta því hann vissi ekki hvað beið hans. Þegar hann nálgaðist ströndina sá hann að fólkið brosti vingjarnlega og hann veifaði til þess. En eitt vakti furðu hans. Fólkið talaði ólík tungumál en þrátt fyrir það skildi það hvert annað. Eyjaskeggjar spurðu manninn hve langan tíma það hefði tekið hann að róa til eyjarinnar. Maðurinn hló við og sagði að hann hefði eki róið heldur hefði vindurinn fyllt seglin og borið hann um höfin. Eyjaskeggjar undruðust orð hans og spurðu: “Segl?” Hvað er það? Maðurinn benti á hvítan og rauðan dúkinn á skútunni og reyndi að útskýra málið. Þegar vindur var sterkur sigldi skútan hratt en hægt ef vindur var lítill. Eyjaskeggjar skildu ekki neitt af neinu og virtust bara enn meira undrandi en áður. Vindur? Hvað er nú það? Hvernig leit hann nú út? Hvað er hann stór? Og hvaðan kemur hann? Nú varð maðurinn sjálfur yfir sig undrandi. Blés aldrei vindur á þessari eyju eða hvað? Eyjaskeggjar litu hver á annan og hristu höfuðið. Þeir höfðu ekki hugmynd um hvað hann var að tala um. Þeir höfðu aldrei kynnst vindinum.

Hvernig gat maðurinn útskýrt fyrir eyjaskeggjum hvað vindur væri? Hvernig gat hann sannað fyrir þeim að vindurinn væri til?

Hvað myndir þú gera áheyrandi góður?

Við getum ekki séð vindinn og við getum ekki séð Guð. Hvort tveggja er ósýnilegt. Við getum hins vegar séð hvar vindur blæs vegna þeirra áhrifa sem hann hefur t.d.á tré og vatn – já og segl. Eitt af mörgu sem sýnir okkur að Guð er til eru þau áhrif sem hann hefur á fólk. Það breytir lífi sínu og sýnir í orði og verki hvað trúin getur orðið sterkt afl. Getur þú nefnt með sjálfum þér dæmi um manneskju sem trúin hefur haft veruleg áhrif á og hún breytt lífi sínu í samræmi við trúna?

Frægasti einstaklingurinn er án efa Páll postuli. Áður en hann fór að trúa á Jesú þá átti hann stóran þátt í því að kristnir menn voru ofsóttir á tímum Rómverja og jafnvel líflátnir. Eitt sinn á vegferð sinni frá Damaskus til Jerúsalem þá heyrði hann að einhver talaði til hans. Það vakti furðu hans að hann sá engan í kringum sig. Röddin spurði: Hvers vegna ofsækir þú mig? Þegar Páll spurði hver hann væri sem þá sagði röddin: Ég er Jesús, sá sem þú ofsækir. Í kjölfarið eignaðist Páll trú sem óx frekar en minnkaði og hann varð einn ötulasti kristniboði sem uppi hefur verið. Páll var Jesú Kristi ákaflega þakklátur fyrir það að hafa komið með þessum hætti inn í sitt líf og sýndi það í orði og verki með því að segja öðrum frá því sem fyrir sig hafði komið til þess að þeir mættu eignast trú á Jesú Krist. Í dag getum við heyrt Jesú tala til okkar þegar við lesum guðspjöllin eða hlýðum á guðspjallstextanna lesna eins og hér í dag í kirkjunni. Í guðspjalli dagsins er sagt frá því þegar Jesús er á leið til þorpsins Betaníu í tilefni af því að Lasarus, bróðir Mörtu og Maríu var látinn. Hann var búinn að vera fjóra daga í gröf sinni. Þær voru mjög sorgmæddar og margir gyðingar voru komnir til þeirra til þess að hugga þær. Marta fór á móti Jesú og þegar hún hitti hann fyrir utan þorpið þá sagði hún við hann eins og við heyrðum. “Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um”.

Af guðspjöllunum má ráða að Jesús þekkti systkinin þrjú mjög vel og þau hann einnig. Þau höfðu séð og heyrt hvað Jesús var fær um að gera. Jesús skynjaði því strax hvað það var sem Marta vildi að Jesús gerði á þessum fjórða degi eftir andlát Lasarusar bróður síns. Jesús sagði því við hana: Bróðir þinn mun upp rísa. Gyðingar trúðu því að dáið fólk myndi rísa upp í framtíðinni á efsta degi og því sagði Marta við Jesú: “Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi”. Jesús svaraði henni með afgerandi hætti með því að beina sjónum hennar að sjálfum sér og sagði við hana: “Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja”. Og svo bætir hann við: “Trúir þú þessu?” Og Marta svaraði með jáyrði. “Já, herra, Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur sem koma skal í heiminn.

Sérhvert foreldri sem ber barn sitt til skírnar axlar þá ábyrgð að ala barn sitt upp í kristinni trú. Þið kæru foreldrar eigið ugglaust dýrmætar minningar frá þeim tíma er þið sátuð við rúmstokk barna ykkar og kennduð þeim bænavers og Faðir vorið. Þar heyrðuð þið börnin ykkar biðja bænirnar sínar. Þar urðu til ýmsar útgáfur af faðir vorinu sem þið hafið gaman af í dag sem þið munið enn eftir.

Börnin ganga til spurninga hjá prestinum á fermingaraldri allan veturinn þar sem hann kannar þekkingu þeirra í fræðunum. Á fermingardaginn ávarpar presturinn síðan hvert barn fyrir sig með nafni og ber síðan upp þessa stóru spurningu í kirkjunni: “Vilt þú leitast við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífsins?” Að baki þessari spurningu er spurning Jesú til Mörtu. “Trúir þú þessu?” Það er ekki mitt að dæma um það hvort börnunum takist að taka mark og mið af frelsaranum með lífi sínu og starfi. Við biðjum þess öll að svo megi verða vegna þess að reynsla kynslóðanna segir að því fylgi óumræðilega mikil blessun að leitast við að feta í fótspor frelsarans á gleði sem sorgarstundum.

Marta hefði getað sagt nei, ég trúi því ekki en hún hafði reynslu af Jesú Kristi. Hún vissi að hann var góður maður og meira en það. Hún vissi líka innst inni í hjarta sínu að hann væri sonur Guðs. Hér kemur traustið til sögunnar. Trúin er nefnilega traust, að geta treyst því sem maður ekki sér en skynjar þó innst inni að sé rétt að gefa gaum.

Þá gerast kraftaverkin eins og altaristaflan í kirkjunni okkar sýnir en þar reisir Jesús Lasarus upp frá dauðum. Marta og María eru sitt hvoru megin við Jesú og mega varla mæla af gleði, undrun og skelfingu. Lasarus sem var búinn að vera fjóra daga í gröf sinni er lifandi vegna þess að Jesús vakti hann upp frá dauðum. Með þessum hætti sýndi Jesús fram á það að hann lifir sigrandi lífi, lífi sem ber sigurorð af hverju því sem brýtur niður og eyðileggur eins og dauðinn ber með sér. Það er margt sem er dauðafnykur af eins og fíkiniefnunum sem voru gerð upptæk fyrir skömmu á Fáskrúðsfirði. Það er líka dauðafnykur af hvers kyns ofbeldi, andlegu sem líkamlegu þar sem sálarmorð eru framin. En það leggur fágætlega góða angan af Kristi sem býður okkur að kjósa lífið í sinni fylgd og markmiðið er mannlífið í sinni fegurstu mynd hvert sem litið er. Þetta er ekki lítið verkefni en frelsarinn fær þessu ekki framgengt nema fyrir okkur lærisveina sína sem viljum halda uppi merki hans í þessum víðsjárverða heimi þar sem trúin er á undanhaldi.

Hið raunverulega gefandi líf er ekki að finna í sýndarveruleika tölvuskjásins heldur í kærleiksríkum samskiptum fólks sem treystir Kristi og er reiðubúið að leggja allt undir til þess að hið góða megi sigra hið illa.

Fjölleikahúsmaður nokkur að nafni Blondin strengdi eitt sinn langan stálstreng þvert yfir Niagara fossana. Hann gekk síðan, hljóp og dansaði eftir strengnum þrátt fyrir strekkingsvind og án þess að vera með öryggisnet. Blondin laðaði að mikinn fjölda áhorfenda sem horfði undrandi á uppátækið og klappaði honum lof í lófa.Áhorfendur ætluðu ekki að trúa sínum eigin augum þegar Blondin gekk fram og aftur eftir endilangri línunni með hjólbörur, fullar af múrsteinum. Að því loknu snéri hann sér að áhorfendum og spurði,

“Hverjir halda að ég geti gengið eftir strengnum með mann í hjólbörunum?” Allir réttu upp hönd. Enginn efaðist um hæfileika Blondins. “Jæja”, sagði Blondin, nú vantar mig sjálfboðaliða til að sitja í hjólbörunum. Hendurnar sem áður fóru á loft, fóru nú enn hraðar niður. Enginn vildi sitja í hjólbörunum og þar með treysta Blondin fyrir lífi sínu.

Margir segja við Jesú, „Já, ég trúi!“ Ef þú ert í þeirra hópi, ertu þá tilbúin/n til að sýna trúna í verki og treysta honum fyrir lífi þínu? Ertu tilbúin/n til að setjast í hjólbörurnar og leggja allt undir fyrir trúna? Um það snýst trúin. Hún er ekki bara einhver hugarleikfimi. Trúin krefst þess að maður leggi allt undir. Guð gefi okkur hugrekki til þess að sýna trúna í verki og treysta frelsaranum fyrir lífi okkar. Amen.