Æfið upprisuna!

Æfið upprisuna!

Upprisan er að verki víða í þessum heimi. Hún er að verki í samtökum, félögum, hreyfingum, klúbbum, reglum og stúkum sem vinna gegn böli og þjáningu, í einstaklingum sem eru höndlaðir af páskatrú. Kirkja Krists er að verki í páskatrú sinni um allt þjóðfélagið. En þar mætir hún líka andstöðu.
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
08. apríl 2007
Flokkar

Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir. En engillinn mælti við konurnar: Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann. Þetta hef ég sagt yður. Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. Matt 28.1-8

Kæri söfnuður!

Ég boða ykkur sígilda gleðifrétt:

Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!

Stærsti dagur sögunnar, merkasti og magnaðasti dagur allt frá því hinn fyrsti morgunn varð til í árdaga sköpunarverksins, var nú runninn upp. Og þær höfðu ekki hugmynd um það konurnar sem gengu í átt að gröfinni hvað beið þeirra. Landskjálfti skaut þeim skelk í bringu. Óvenjulegt! Jarðskjálfti kemur alltaf á óvart! Er það ekki? Sólin gægðist upp yfir hæðirnar eins og svo oft áður. Ekkert óvenjulegt við það fyrirbrigði sem slíkt. Þær höfðu ekki hugboð um að þessi sól væri neitt sérsök í þessu landi sem svo marga daga ársins er sólbakað. Og páskasól hafði áður risið yfir gyðinglega páska. En þessi var alveg einstök. Nú skein upprisusól á tóma gröf í fyrsta sinn í sögu heimsins. Nýr dagur var runninn upp, nýr sköpunardagur, sigurdagur. Þær höfðu beðið þess að helgi hvíldardagsins yrði aflétt og nú gátu þær farið og gengt skyldu sinni við látinn vin.

Oft hef ég farið með fólki að dánarbeði, í líkhús og að gröf. Á slíkri för segir fólk oftast fátt ef þá nokkuð. Einstök stemmning er í því fólgin að ganga til móts við dauðann, vitja þess sem horfinn er úr pílagrímsgöngu lífsins, fara að þessum krossgötum þar sem lifendur og dauðir mætast og bara lífið hefur mál og róm og getur hvatt. Hinn dauði er þögull. Lotning og kyrrð ríkir í hjörtum þeirra sem lifa, kvíði og söknuður í senn. Og svo mætast líf og dauði. Brjóstin í landi lifenda hefjast og hníga, andvörpin berast sem bæn út í rýmið og stíga upp til himins, ekkasog heyrast og yrðingar elsku, umhyggju og saknaðar. Fólk ber hönd að vitum, þerrar tár af hvörmum. Hjartnæm stund andspænis því sem ekki verður breytt. Ætli þeim hafi ekki liðið eitthvað í þessa veru, konunum sem gengu að gröfinni þennan ósköp venjulega morgunn, sunnudagsmorgunn, sem var á þeim tíma í Gyðingalandi sem hver annar mánudagur, morgunn sem átti eftir að marka spor sín svo skörpum dráttum í sögu mannkyns að aldrei hefur annar eins dagur runnið upp, hvorki fyrr né síðar. Páskadagsmorgunn! Og þær koma að gröfinni og sjá að hún er opin. Hann sem þær ætluðu að vitja og gráta yfir er ekki þar. Hann er upprisinn! Hann lifir!

Dramatísk frásögn með jarðskjálfta, englum og ótta miklum. Þannig eru flestar guðsbirtingarfrásagnir í Biblíunni, allt frá fyrstu tíð. Menn verða orðlausir af undrun og ótta. Menn gapa og skilja hvorki upp né niður í því sem fyrir augu ber. Og nákvæmlega eins mundi okkur líða ef við kæmum að vitja látins ástvinar og fengjum þær fregnir að hann væri lifandi. Við mundum ekki dvelja í líkhúsinu heldur hlaupa til að finna vini og ættingja til tjá undrun okkar og gleði. Og þetta gerðu konurnar. Þær hlupu til að finna nánustu vini og fylgjendur Jesú og tjáðu þeim tíðindin.

Og enn er verið að segja þessa sömu frétt því hún er einstök. Aldrei hefur nokkuð í líkingu við upprisu Krists átt sér stað. Þess vegna erum við hér á páskadagamorgni, þess vegna lifir og starfar kirkjan. Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn!

Og við komum saman hér í Neskirkju. Fimmtugasta og fyrsta árið í röð fagnar fólk í þessu húsi á páskadagsmorgni á sama hátt og fagnað hefur verið í hinum kristna heimi í tæp tvöþúsund ár með lofsöng og bæn. Neskirkja er fagurt hús og táknrænt á margan hátt. Hér birtast tákn úr kristnum táknheimi á ýmsum stöðum. Neskirkja er í hugum margra nánast gluggalaust hús en hér í kirkjuskipinu eru þó 42 gluggar og stóra glugganum í kórnum er líka skipt niður í 42 reiti. Hefurðu tekið eftir gluggunum fjörtíu sem eru hér á hliðum kirkjuskipsins, tuttugu hvorum megin? Hvers vegna fjörtíu gluggar? Minna þeir með ljósgjöf sinni á árin 40 sem Ísraelsmenn eigruðu um í eyðimörkinni, dagana 40 sem Kristur tókst á við freistingarnar eða dagana 40 sem hann var með þeim upprisinn? Já, hann át og drakk með fólki í 40 daga og þau skipti hundruðum sem sáu hann og snertu. Hann var ekki vofa. Hann var upprisinn í holdi. Ég trúi á upprisu mannsins, segjum við í játningunni. Þar er vísað til alls mannsins, líkama, sálar og anda.

Aftur að gluggunum fjörtíu. Líklega minna þeir á allar þessar frásagnir úr hjálpræðissögunni. Hver gluggi er ljós og tákn sem vísar okkur að hinum tóma krossi, inn í birtu upprisunnar, sem leikur um kórsvæði kirkjunnar. Ágúst Pálsson, arkitekt, lýsir merkingu stóra gluggans í kórnum í viðtali við Morgunblaðið á fimmta áratugi liðinnar aldar og talar um hann eigi veita inn miklu og björtu ljósi sem baðar allt himneskri birtu. Við erum hér til að leita ljóssins og litlu gluggarnir fjörtíu eru eins og tírur sem vísa okkur leiðina til hinnar miklu birtu þar sem krossinn er sem tákn, kross án Krists, tákn vonar og upprisu. „Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði.“

Okkur hefur verið boðið að slást í för með honum. Þegar við vorum skírð, flest sem ómálga börn, var okkur boðið í hina miklu för með hinum upprisna. Hann hefur leyft okkur að stíga yfir frá dauðanum til lífsins, eins og postulinn orðar það. Við erum lífsins megin í veröld böls og þjáningar, merkt tákni krossins, tákni hins upprisna sigurvegara sem fer í ólslitinni sigurför með sína hjörð til himinsins heim. Og þessi keðja er óslitin enda þótt við sjáum ekki þau sem komin eru lengra en við. Þau eru handan þess sem við getum greint, nema með augum trúar og vonar. Við erum í för með þeim í einni óslitinni sigurgöngu, keðju systra og bræðra, sem nær frá jörðu til himins og liggur um hina tómu gröf. Í fyllingu tímans göngum við öll um þessa tómu gröf. Trúin leiðir okkur þar í gegn og þar verður hin himneska umbreyting þegar andi Guðs uppsvelgir dauðann í sigur. Við lifum hér og nú í heimi dauðans en erum merkt lífinu eilífa. Þess vegna getum við glaðst og fagnað á páskum.

Upprisan er að verki víða í þessum heimi. Hún er að verki í samtökum, félögum, hreyfingum, klúbbum, reglum og stúkum sem vinna gegn böli og þjáningu, í einstaklingum sem eru höndlaðir af páskatrú. Kirkja Krists er að verki í páskatrú sinni um allt þjóðfélagið. En þar mætir hún líka andstöðu. Lífið er barátta ljóss og myrkurs. Og í þeirri baráttu skiptir upprisutrúin mestu máli. Upprisan er enn að verki í heimi böls og þjáningar.

Við þurfum að lifa í voninni og trúnni, í upprisukraftinum hvern dag og leitast við að breiða út hin góðu tíðindi um hinn upprisna sigurvegara. Bandaríski skáldbóndinn, Wendell Berry talar um heiminn í ljóði sínu Stefnuyfirlýsing:

Frelsunarflokks æra bóndans. Hann hefur áhyggjur af baráttunni við hin myrku öfl sem birtast hvarvetna. En hann lýkur ljóði sínu á þessari hvatningu: Æfið upprisuna!

Kæri söfnuður! Höldum áfram að æfa upprisuna og lærum að lifa dag hvern í páskasól og birtu hinnar tómu grafar. Gleðilega páska!

Kristur er upprisinn! Hann er sannarlega upprisinn!