Tímabil

Tímabil

Nýtt tímabil er hafið. Þau eru svo sem í sífellu að lifna og deyja, þessi skeið sem ævi okkar samanstendur af. Tíminn er ólíkindatól og til að geta skilið hann og staðsett okkur í þeim mikla flaumi, skiptum tímanum upp í bil.

Nýtt tímabil er hafið. Þau eru svo sem í sífellu að lifna og deyja, þessi skeið sem ævi okkar samanstendur af. Tíminn er ólíkindatól og til að geta skilið hann og staðsett okkur í þeim mikla flaumi, skiptum tímanum upp í bil.

Tíminn er harðstjóri

Nágrannatungur okkar tala um period – sem er dregið úr grísku: peri, merkir í kringum og oidos er vegur. Það merkir því orðrétt: hringferð, og á nú vel við þegar við rifjum upp viðburði lífs okkar á þessu ferðalagi jarðar um sólina.

Íslenskan, gagnsæ sem hún er, flækir málin ekki meira en þörf er. Við tölum því um tíma-bil, sem er einhvern veginn hagnýtara því það er einmitt þetta sem við gerum. Við búum til einingar, einhver bil sem gera okkur kleift að skilja tímann og vinna með hann. Sum þeirra eru örskot, brot úr andartaki og önnur eru lengri. Þetta nýtist okkur vissulega ágætlega en hrekkur þó engan veginn til að ná tökum á tímanum. Því tíminn, er harðstjóri og andspænis honum erum við ekki merkilegri en grasið á völlunum sem vex, visnar og deyr. Nú eða smáblómið sem Matthías yrkir um. Tíminn umvefur okkur og lífið sjálft.

Fyrst tímabil ævinnar öðlumst við aukinn styrk og færni eftir því sem tíminn líður en svo smám saman rænir hann okkur mættinum uns við játum okkur sigruð fyrir ægisvaldi hans.

Hinir fornu gyðingar litu svo á að Guð væri þeim hulinn í sínu innsta eðli. Þeir töluðu um að baksvip hans fengjum við séð en enginn gæti litið auglit Guðs og haldið lífi. Sannarlega býr uggur og ótti að baki þessum orðum og þau fylgja okkur inn í kristindóminn. Þar hvílir sú skoðun á traustum grunni að Guð er slík stærð að við fáum hann aldrei skilið til fullnustu eða höndlað með einhverjum hætti. En maðurinn getur brugðist við Guði rétt eins og hann hefur reynt að höndla tímann, skipta honum í hringferðir eða tímabil og hagað svo lífi sínu eftir honum.

Snorri Hjartarson

Ætli nokkur málsmetandi hugsuður eða skáld hafi ekki gefið tímanum gaum í verkum sínum? Snorri Hjartarson hefur verið okkur kórfélögum hugleikinn en á síðasta ári sungum við ljóð hans við lög Steingríms organista. Það hefur verið gefandi að rýna í hugsanir hans og orð sem eru svo mannleg og takst einmitt á við það hlutskipti okkar að skynja tif tímans, finna hvernig öllu vindur fram og ekki er það allt til blessunar. Meðal annars sungum við óð hans til fegurðar og góðvildar, og hann spyr hvort nokkuð er umkomulausara af öllu, í rangsnúnum heimi. Og er þó mest af öllu og mun lifa allt. Hversu sönn og næm er sú speki? Þessi hugsun er af sama meiði og orð þjóðskáldsins um smáblóm eilífðarinnar sem tilbiður Guð sinn og deyr. Stundum er það æðst og mest sem heimurinn lítur framhjá og virðist ekki eiga sér viðreisnarvon gegn þungum hrammi valds og ofbeldis.

Tíminn er Snorra hugleikinn. Hann ræðir hvernig öllu hrakar um síðir og við lítum um öxl til þeirra stunda þegar við gátum klifið hæstu tinda og yfirunnið hindranir sem nú eru okkur ofviða.

Á einum stað yrkir hann:

Að horfa til fjalla er ég fyrrum kleif
eins og fugl borinn af öldu
og vita þau eru mér ógeng, það
er ein af raununum köldu.

Þetta kunna skáldin, að móta hugrenningar okkar á slíkan hátt og deila með varnarleysi sínu gagnvart því sem ekki verður breytt. Snorri er auðvitað ekki einn um það að brjóta heilann um þessi mál.

Maðurinn og tíminn

Það gerðu hinir fornu Grikkir, Konfúsíus og Búdda, dagatal Maya-indíana ber sama vitnisburð. Ágústínus kirkjufaðir gerir tímanum góð skil er hann segist ekki eiga í neinum vandræðum með að skilja hann – svo fremi hann þurfi ekki að útskýra fyrirbærið fyrir nokkrum manni. Hinn íslenski sagnaarfur leggur sitt af mörkum til þeirrar umræðu með Völuspá og Hávamálum. Þetta er jú sammannlegt. Við horfum í kringum okkur og veltum þessi undri lífsins fyrir okkur.

Þetta eru ekki aðeins skráðar heimildir fyrir glímu mannsins við tímann. Við getum séð fyrir okkur forsögulegar þjóðir steinaldar sem færðu ógurlegar fórnir að því er virðist, tímanum til dýrðar. Steinhleðslur er að finna víða um Evrasíu og þær mynda einhvers konar móttöku fyrir ljós himintunglanna. Enn stöndum við ráðþrota frammi fyrir þeirri ráðgátu hvernig þær fóru að. En við teljum okkur vita hvers vegna. Auðvitað lutu þessi samfélög stjórn og ráði þeirra sem fóru með völdin og þekkinguna. Þau hafa væntanlega beitt fólkið bæði blíðu og hörðu til þess að fá það til að fórna orku, heilsu og mögulega lífi til að flytja öll þessi tonn langar leiðir.

Yfir því öllu var annað yfirvald og í þeim samanburði voru mannlegir valdhafar léttvægir. Þetta var sjálfur tíminn. Við mælum allt út frá tímanum og eftir því sem þekking okkar á honum vex, þeim mun margslungnari reynist hann vera. Óreiðan vex með tímanum, kenna vísindin og ólíkindin sem mæta okkur úr þeim ranni, eru slík að þau eru skáldskapi líkust. Við streðum ekki síður til að fá einhvern skilning og einhverja glóru í þann heim og oft er eins og við viljum flýja hann.

Í dag eru okkar Stonhenge að finna í þeim iðnaði sem vex hvað örast í heiminum og svolgrar í sig stundirnar, dagana og árin. Það er afþreyingin, þetta tæki sem fær okkur til að gleyma gangi tímans, þreyja stundirnar og horfa ekki þann veruleika sem við erum öll hluti af. Já, íslenskan er svo gjöful – merkir ekki sögnin „að líða“,
þetta tvennt – að þola þrautir og svo sjálfan gang tímans? Það er þetta sem skemmtunin hlífir okkur við þótt auðvitað sé það blekkingin ein.

Ásjóna Guðs

Við getum sagt að lexía Nýársdags sé annars konar svar við varnar. Við hlýddum þar á elstu bæn Biblíunnar, bæn Arons og við flytjum hana í lok hverrar helgrar stundar í kirkjum eða við athafnir á öðrum stöðum. Þarna er talað um samband manns við Guð sinn. Já, við getum sagt tengsl mannsins við tilveru sína, allt það sem fæðist og deyr á andartökum lífsins. Því hinir fornu hebrear litu á Guð sem mikið og ógnvekjandi afl. Í sjálfu sér lifir sú mynd enn góðu lífi meðal þeirra sem eiga sér ekki lifandi trú á kærleiksríkan Guð í hjartanu. Þá er stutt í grimmdina og hið kalda réttlæti sem dæmir okkur öll og við stöndumst ekki þann dóm. Þann veruleika túlkuðu hinir gömlu Ísraelsmenn með þeim hætti að þeir sögðu að við gætum aldrei séð ásjónu Guðs, hún væri okkur hulin í leyndardómi hins óþekkta.

Þá standa þessi orð eins og mótvægi við þá hugsun þar sem bæn er flutt um að Guð snúi einmitt augliti sínu til mannsins:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Hér er talað til fólks sem þekkir lífið og raunir þess, kannast við það þegar framfarir hafa vikið fyrir afturförum ekki aðeins í lífi einstaklings sem er ríkur að árum heldur líka á það við um mannleg samfélög. Og víst verður ægisvald tímans okkur tilefni til að huga að því hvar fótfestu er að finna í hverfulum heimi. Þar finnum við styrk trúarinnar sem fyllir okkur auðmýkt gagnvart því æðsta og mesta og játar að þekkingu okkar eru takmörk sett. En er að sama skapi með þá trú í brjósti sínu að handan alls þess sem deyr og hrörnar sé hinn eilífi kærleiksríki faðmur Guðs. Hallrímur Pétursson orðar þetta vel í sálmi sínum um blómið – „Ég lifi í ég Jesú nafni, í Jesú nafni ég dey“ og svo segir hann í lok þess mikla sálmabálks: „Dauði ég óttast eigi, afl þitt né valdið gilt, í Kristí nafni ég segi, kom þú sæll þá þú vilt“.

Snorri er ögn jarðbundnari en þetta kvæði kallast nú á við það sem fyrr var vitnað í:

Sjá grasið sprettur, gleðstu, mundu að
þú gerir sjálfur fyrrum líkt og það,
þó innra með þér blikni sef og blað
gef beyg og trega engan griðarstað.

Við tökum þau orð með okkur inn í nýtt ár. Fögnum þeim tíma sem okkur er gefinn nú þegar við hefjum nýja períódu, hringferð um sólina. Nýtt tímabil er hafið og við veltum því vonandi fyrir okkur að það skiptir máli hvernig við helgum krafta okkar og vit. Góður Guð gefi okkur farsælt ár og fylli okkur þeim trúarþrótti og kjarki sem lætur okkur horfast í augu við heiminn, axla þá ábyrgð sem á herðum okkar hvílir og hvíla svo undi rásjónu Guðs þegar tími okkar er á enda runninn.