Aðfangadagur jóla 2017. Dómkirkjan.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Gleðileg jól! Gleðileg, heilög jól!
Nú er orðið heilagt; kirkjuklukkur þessa lands hafa ómað og kallað til helgra tíða; hljómur þeirra hefur borist svo vítt sem fólk byggir þetta land; um borg og sveit, frá ströndum og inn til lands. Og þar er ekki látið staðar numið; Farmenn eiga þess kost að jólin séu hringd inn hjá þeim, sem og þau sem í útlöndum búa en ég þykist þess fullviss að þau séu ærið mörg sem fylgjast með aftansöngnum í kvöld í gegnum tölvuna sína.
Mörgum er hún dýrmæt, stundin rétt áður heilagt verður, þegar kostur gefst á að hlusta á þögnina þessar mínútur áður en útsending hefst með klukknahljómi og organleik.
Af hverju er þögnin svona dýrmæt?
Kannski vegna þess að þá gefst tóm til að hverfa inná við; finna í
þögninni það sem þú getur ekki orðað, kenndina sem snertir við þér en þú
getur ekki almennilega gert grein fyrir svo vit sé í.
Allt hefur sinn tíma; bæði þögnin - og Orðið.
Enginn, sem á annað borð lætur sig hátíðina varða, er ósnortinn af
komu jólanna og skiptir þá ekki öllu máli hvert inntak við gefum jólunum
hvert um sig; hversu djúpt við hugleiðum þann atburð sem bæði er
minnist og hann endurlifaður eða hvort siðir og venjur sem fjölskyldur
hafa komið sér upp haldi utan um hátíðina og minningar fyrri jóla
endurnýist í dag.
Jólin eru öðrum þræði hátíð minninganna, þeirra minninga sem við höfum
þegið af foreldrum okkar og við skilum vonandi góðum minningum áfram til
næstu kynslóða. Jólin eru eins og magnari á minningarnar; góðar
minningar hlýja; erfiðar minningar verða sárari. Og því hugsum við til
allra, sem okkur eru kær, til látinna ástvina sem og allra þeirra sem
ekki geta verið með fólkinu sínu yfir hátíðarnar; til þeirra sem eru á
sjúkrastofnunum, hvort sem það er vegna vinnu sinnar eða veikinda, við
hugsum til fanga og einstæðinga og biðjum að birta jólanna nái að skína
um alla sköpun, í hvert hús og hvert hjarta.
—
Til er saga af ungum málara og lítt reyndum, sem fyrir einhverja slembilukku var heimilað að mála portrettmynd af páfa nokkrum. Þegar myndin átti að heita fullgerð þá fær páfi að líta myndina; hann virti hana lengi fyrir sér; - og brosti. „Nú, hann hlýtur að vera ánægður” hugsar málarinn ungi, hleypir í sig kjarki og spyr páfa hvort honum þóknist að árita myndina. Páfi grípur pensil og ritar aðeins þessa tilvísun í Ritninguna: Jóh. 6.20. Þegar heim var komið flýtti málarinn sér að opna Biblíuna sína og las: „Það er ég, óttist eigi.”
Að breytu breytanda á þetta líka við guðsmyndina okkar; hvernig við gerum okkur mynd af Guði. Kannski brosir Guð góðlátlega að niðurstöðu okkar, sem stundum vill verða á þann veg að við vörpum okkar eigin skoðunum og væntingum – já jafnvel fordómum - um það, hvernig Guð ætti að vera, yfir á þá mynd. Og það kemur fyrir að myndin sem dregin er af Guði er svo ógnvænleg,- að menn geta ekki annað er orðið dauðskelkaðir.
En við höfum ekkert að óttast.
Gleymum því ekki, að Guð var búinn að birta sjálfan sig í Kristi og það er einmitt sá atburður sem við fögnum í dag.
—
Jólin fjalla um það hvernig Guð, sem sannarlega er á ákveðinn hátt
handan þessa heims sem við skynjum, teygir sig yfir þau mæri til að
nálgast þig;
Hvernig hann vill gefa þér færi á því að þekkja sig.
Og jólahátíðin hverfist um þann atburð; að Guð verður maður; að Orðið verður hold eins og segir í Jóhannesarguðspjalli.
Hér er um það að ræða að Guð gerir sig kunnan, að hann sýnir vilja sinn með starfi Jesú Krists.
—
Jólaguðspjöllin eru í raun þrjú; við munum söguna hans Mattheusar um vitringana þrjá og gjafir þeirra til konungsins sem þó er flóttamaður en skv. Mattheusi er saga Jesú mörkuð ofsóknum og erfiðleikum; Jesús hrekst til Egyptalands, hundeltur og er það í beinu framhaldi af jólaguðspjallinu sem skráð er hjá Lúkasi, þar sem við heyrum söguna af förufólkinu skattpínda og fæðingu barnsins í Bethlehem.
En svo er það jólaguðspjall Jóhannesar:
Það heyrðir þú lesið áðan:
Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna.5Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. … Og orðið varð hold, hann bjó með oss fullur náðar og sannleika.
Þessi orð vöktu meðvituð tengsl hjá fyrstu áheyrendum með gyðinglegan bakgrunn, við að minnsta kosti tvennt; annars vegar Spekina, Khokhma, sem var frá upphafi með Guði og er eins konar grundvallaregla sköpunarinnar; og hins vegar upphaf Fyrstu Mósebókar sem hefst á orðunum: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.”
Þegar Guð skapar með orði sínu; með því að tala.
En fólk mótað af grískri menntun og hugsun tengdi einnig vel við
þetta upphaf Jóhannesarguðspsjalls: Orðið, Logos á grísku, var meira en
orðið tómt; það merkti líka hugsun, vit, skynsemi, og mætti þess vegna
merkja „alheimsregla.”
En eftir því sem formálanum vatt fram, þá runnu nú tvær grímur á hina
grískmenntuðu; og þeir hrylltu sig yfir þessari hugsun að Orðið yrði
hold; hold og andi væru andstæð í eðli sínu. Annað hreint og hitt
óhreint og það hlyti að vera takmark mannsins að losna við allt hið
líkamlega; að andinn einn skipti máli.
Orðið birtist sannarlega í persónu Jesú Krists og þar liggur líka áhersla Jóhannesarguðspjalls. En það má sjá annan vinkil á þessa framsetningu.
Orð eru til alls fyrst; Með orðum sköpum við og mótum samfélag okkar og einmitt í því berum við Guðs mynd, og þiggjum af eðli hans.
Það kemur nefnilega að því að orðið verður hold; að það sem maður hugsar og segir, verður að gjörð, athöfn, orðnum hlut.
—
Jóhannes sá, sem nefndur er í Guðspjallinu og kom til að greiða Kristi
leiðina, boðaði að menn skyldu iðrast; metanoia er gríska orðið og
merkir í raun að hugarfarið skuli breytast. Nýr hugur.
Það kemur að því, að það sem var og þótti ekki ástæða til að láta óátalið, er ekki lengur boðlegt. Tími margs af hinu gamla er upp urinn og nýtt er tekið við; nýr hugur, nýtt hjarta; nýtt samfélag.
Það er einmitt merki um metanoiuna, hinn nýja huga, iðrunina; þegar gengið er á hólm við gamla skaðandi og spillandi hegðun og hugafar sem sannarlega þarfnast endurmats.
Og gjarnan þarf að ýta við iðruninni.
Hér tala ég um #meetoo. Í þeirri hreyfingu birtist svo skýrt að tíminn er réttur; þó svo sá tími hefði átt að vera runninn upp fyrir lifandis löngu. En engu að síður; hann er runninn upp; núna er hagfelld tíð til að ráðast gegn kúgunartilburðum kynbundins ofbeldis.
Og nýtt verður til; #meetoo hreyfingin skapar breytt viðhorf, og vonandi breytta hegðun í átt að siðaðra samfélagi.
En takið eftir því hvernig það er gert:
Með því að tala.
Með því að hverfa ekki inní þögnina heldur mæla fram. Leyfa ekki erfiðri reynslu að hverfa inní myrkrið.
Og orðin búa til nýjan veruleika. Rétt eins og ljósið hrekur burt hið ljósfælna.
–
Ljósið skín í myrkrinu; í Kristi er ljósið tendrað „Hann ljós er af
ljósi” er sungið á jólum og það ljós stendur okkur til boða. Í raun er
það okkar val hvort við viljum þiggja ljós af ljósi kærleika hans og
auka þannig ljómann í heiminum eða hvort við leyfum myrkinu að ráða.
—
Já, hvað vilt þú að verði? Hvað skapar þú með hugsunum þínum sem þú
mótar í orð; orð sem móta svo nýjan veruleika; Hvað skapar þú með
áhrifum þínum á umhverfi þitt; þennan heim?
Guð vill hafa áhrif á þennan heim og því sendir hann son sinn í heiminn, ljósið; þegar er hvað myrkast í kring. Og áhrif sín birtir hann í lífi og starfi Jesú Krists. Barninu smáa og umkomulausa sem var flóttamaður og jaðarsettur, og þegar hann óx úr grasi tók hann sér svo stöðu með þeim sem höllum fæti stóðu. Hann rétti við hin þjáðu, læknaði og líknaði; kenndi skilyrðislausan kærleika. Lét allt starf sitt mótast af því að birta elsku Guðs til mannanna; boðaði að allt sem þú vilt að aðrir geri þér, það skaltu sjálfur gera þeim. Að maður skyldi líta í eigin barm áður en maður dæmir aðra. Og hann tók á sig þjóns mynd, því erindi hans er erindi þjónustunnar og hann gekk alla leið þjáningarinnar fyrir mannkyn allt, því til blessunar.
Já hann birtir okkur sig og biður um svar, því við erum hæf til þess að svara.
Okkar andsvar skal þá vera að sjá Krist í náunganum; öllu fólki; að elska náungann eins og okkur sjálf.
Þannig höldum við jólin best.
—
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.