Þórhildur Ólafs, prófastur Flutt í útvarpsmessu í Hafnarfjarðarkirkju 15. sd. e. trinitatis 4. september 2016 Lestrar: Jes. 49.13-16a / 1. Pét. 5.5c-11 Guðspjall: Matt. 6.24-34
Nú haustar að og hauströkkrið færist yfir okkur. Sjálf tökum við margvíslega eftir því og á það hafa ljóðskáldin bent hvert með sínum hætti. „Einhverja nóttina koma skógarþrestirnir / að tína reyniber af trjánum / áður en þeir leggja í langferðina yfir hafið, / en það eru ekki þeir sem koma með haustið, / það gera lítil börn með skólatöskur,“ segir Vilborg Dagbjartsdóttir í ljóði. - Í því ríkir gleði. Við börnin eru bundnar vonir og þeim fylgja vaxtarþrá og gróska.
Angurværðar og depurðar gætir hins vegar í ,,Haustmyndum‘‘ Snorra Hjartarsonar: ,,Lyngið er fallið / að laufi / holtin regnvot / og hljóð / kvöldskin á efsta / klifi. II. Í jafnföllnum / haustsnjó / eldtungur / rauðra / rósa. III. Hauströkkrið yfir mér / kvikt af vængjum / yfir auðu hreiðri / í störinni við fljótið. IV. Milli trjánna / veður tunglið í dimmu / laufi / hausttungl / haustnæturgestur / á förum / eins og við / og allt eins og laufið / sem hrynur.‘‘
En hann lét eftir sig ljóð með bjartari tón um haustið og spurði í því: ,,Hver skartar fegri djásnum en reynitréð perlunum rauðu í fölu sólskini undir vetur ? Við leiðum hugann að lauffalli trjánna á haustin, hvernig þau falla að foldu, djásn þeirra hverfa sjónum og greinar þeirra verða berskjaldaðar. Þó geta þau staðið af sér heilan vetur, oft í vindi og næðingi, á meðan mannfólkið þarfnast skjóls í mörgum skilningi.
Við sjáum að „Vindarnir bera visnuð lauf og vallarins liljur blikna.“ (Ólafur J. Sigurðsson): en við megum vita að þótt fölvi færist yfir er birtan söm, sem við okkur skín frá Jesú Kristi og fagnaðarerindi hans. Við teljum okkur jafnan fullfær um að gera mun á ljósi og myrkri en gerum við það í víðtækum skilningi ? Við tölum um það að vera sólarmegin í lífinu, en gerum okkur þess ef til vill ekki fulla grein, að þó svo sólin skíni, kann að vera myrkur í hugum margra, og þeir eru til sem villast í sól og blindast. Sumir eru siðblindir og láta annarra hag sig engu varða. „Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð,“ segir í pistli dagsins. Pétur postuli minnir söfnuðina, sem hann skrifar til, á stöðu þeirra sem kristinna manna og hvetur þá til að feta í fótspor Jesú Krists. Enn eru orð postulans í fullu gildi. Hann heldur áfram og segir: „Beygið ykkur því undir Guðs voldugu hönd til þess að hann upphefji ykkur á sínum tíma. Varpið allri áhyggju ykkar á hann, því hann ber umhyggju fyrir yður.“ En hversu haldgott er það fyrirheit á háska- og vígaslóðum?
Í ágústmánuði birtist viðtal í blaðinu, Stundinni, við sýrlensk hjón, mannréttindalögfræðing og klæðskera, sem lýsa upplausn heimkynna sinna í Sýrlandi og draumnum um að komast til Íslands, er rættist eftir miklar eldraunir. Þau lýsa því hvernig líf þeirra fór niður í hringiðu og hvernig þau öðluðust nýtt upphaf og líf hér á landi eftir ótrúlegar þrengingar. - Þau fullyrða, að Sýrlendingar vilji ekki stríð. Þar séu illskuöfl að verki, víðs vegar að, sem græði á vopnaskakinu. Þau fjalla um rúmlega eins árs aðskilnað sinn og óvissu, hvernig fölskylda þeirra sameinaðist hér á landi, sem var mikið lán, þar sem margir farast og týnast á örvæntingarfullum flótta undan ógnum og stríðseldum. Þau greina frá því hvernig þeim gengur að fóta sig í íslenskri tilveru og segja: „Við tökum bara einn dag í einu.“ Það er í samhljóðan við niðurlagsorð Jesú í Guðspjalli dagsins: „Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.“ Það mun rétt vera hvernig sem umhorfs er. Æðruleysisbænin þekkta, sem mörgum gagnast, minnir á það. Þar er beðið um visku til að greina á milli þess, er ekki verður breytt og þess, sem hægt sé að breyta.
Hver þekkir sín áhyggjuefni og vandamál samtímans eru mörg og heimsmálin flókin, en þó hægt að bæta úr, sé vilji til þess og samkenndin næg. Fyrir rúmu ári barst eftirfarandi yfirlýsing frá framkvæmdastjórum kirkjutengdra hjálparstofnana á Norðurlöndum, sem vert er að taka mið af: ,,Stjórnvöld mega ekki bregðast þeirri skyldu sinni að virða rétt fólks til mannsæmandi lífs. Fólkið, sem hefur flúið heimaland sitt vegna stríðsátaka, verður að njóta þeirrar aðstoðar, er því ber samkvæmt alþjóðalögum um mannréttindi og réttindi flóttafólks.“
Eitt af höfuðskáldum þjóðarinnar, Matthías Jóhannessen, orti á unga aldri um ógnir kalda stríðsins, -um sundrunaráhrif þess á meðal mannfólksins, sem hraktist á einskonar flótta undan stríðsógninni. Í ljóði sínu ,,Við erum flóttamenn‘‘ segir hann: ,,á löngum nóttum bíðum við þess / að hríðinni sloti og sólin / veiti nýtt skól fyrir haglinu / ó, land mitt, við sem erum hér á ferð / af einskærri tilviljun /- og höfum kallað yfir okkur dóm / vetnissprengjunnar, / hlustum hlustum kemur gustur / af nýrri ísöld sem læðist að okkur / á skriðjökla- / skóm; vindöld, vargöld.‘‘ (Jörð úr ægi IV) - Friður og traust með mönnum og þjóðum er gamalt og nýtt vonar- og yrkisefni, því að andstæður þess veruleika, vígbúnaður og styrjaldarógn, virðast jafnan voldugri. Umhverfisvá, víðsjár og vígaferli ógna og setja veröld í vanda. Hvar er þá hjálpar að leita ?
Guðspjallið, sem er úr frægustu ræðu veraldarsögunnar, fjallræðunni, ber næmni og visku Jesú vitni og markmiðum hans. Hann vill lækna þennan heim og lífið allt, snúa harmakveini lífsins upp í lífsvirðingu og lofsöng. „Lofsyngið himnar, fagna þú jörð“ segir í Lexíu dagsins úr Spádómsbók Jesaja, og einnig, og þá í nafni Drottins sjálfs...“ Þó að gerst gæti að móðir gleymdi brjóstabarni sínu. Þá gleymi ég þér samt ekki. Ég hef rist þig í lófa mér.“ - Guð hefur skapað okkur til samfélags við sig og hann elskar okkur og heiminn sinn. Frelsarinn upprisni með gegnumstungnar hendur sýnir það og kallar til fylgdar við sig, - ekki síst andspænis illsku, þjáningu og raunum. Við getum í anda og krafti hans borið elsku Guðs vitni – elskað og þjónað – til gagns og bjargar í sviptingum lífs.-
„Verið ekki áhyggjufull um líf yðar" segir hann hiklaust. En það þýðir ekki að við eigum að flýja frá áhyggjum með því að telja okkur trú um að horfur séu betri en þær eru, deyfa þær með sljóleika. Ávallt er þörf árvekni og ábyrgðarkenndar svo að unnið sé gegn aðsteðjandi hættum og voða og öllum vélabrögðum óvinarins, sem varað er við sem öskrandi ljóni í orðum fyrra Pétursbréfs. - Jesús vill þó einkum að við tökum mið af sér og séum raunsæ. Hann fjallar ekkert um að við komumst hjá því að finna fyrir þrautum og þjáningum hér í heimi. Hann gerir ráð fyrir því, að hver dagur hafi eitthvað af þeim, þar til Guðsríkið kemur í fyllingu og allt, sem einvörðungu á sér jarðneskar forsendur og rætur, hverfi og eyðist. Hann segir ennfremur að vandi hvers dags nægi. Við megum ekki bæta því við hann sem tilheyra kann öðrum stundum og dögum og óvíst er hvernig verði. - Raunsönn kristin trú er ekki lífsflótti, trúin, sem binst Jesú Kristi er ekki flótti frá raunveruleikanum, heldur hvetur hún til árvekni gagnvart lífsins hag og þörfum, - til ábyrgarkenndar og fórnandi elsku, sem fyrir trú og bæn sækja þrek og styrk til heilags anda frelsarans.
Hann segir: ,,Enginn getur þjónað tveimur herrum. Þér getið ekki þjónað Guði og mammon.‘‘ Þegar hann talar um mammon vísar hann til fjármuna en einnig stöðu og valds. Hann mælir þó ekki eindregið gegn þeim svo framarlega sem þeir þjóni lífinu og stuðli að velfarnaði þess. En segir ljóslega: „ Leitið fyrst ríkis Guðs og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki“ og þá til gagns og blessunar. Faðirinn himneski veit að þörf er fyrir veraldleg gæði til framfærslu og farnaðar. En ásælin auð-og veraldarhyggja, er missir sjónar á æðri verðmætum, fjötrar sál og hjarta og skaðar líf
Faðirinn himneski, sem frelsarinn birtir, vill að við tilheyrum sér og Guðs kirkju sem fólk og söfnuðir á leið með Jesú að ríki sínu og þiggjum endurnýjað líf af því vatni, orði og anda, er miðla frelsandi áhrifum hans í Jesú nafni. - Við þörfnumst þess öðru fremur að leita lifanda Guðs, fela okkur forsjá hans og stuðla að því að kirkja og samfélag votti nærveru hans. Við þörfnumst þess að skynja og reyna, að við lifum, erum og hrærumst (Post 17.28), líkt og postulinn segir, í alls umlykjandi veruleika lifanda Guðs, sem þarf þó að geta höndlað hug og hjörtu, svo að við njótum þess sem skyldi og séum farvegir ljóss hans og lífs í Jesú nafni.
„Það, sem við tölum um, þegar við tölum um Guð, “ er heiti á eftirtektarverðri bók, er kom út hjá Skálholtsútgáfunni fyrir fáeinum dögum. Rob Bell, prestur, rithöfundur og þáttastjórnandi í Vesturheimi, skrifaði hana, en dr Grétar Halldór Gunnarsson, guðfræðingur, þýddi. Höfundurinn kom hingað til lands í lok fyrri viku að tilhlutan áhugahóps um guðfræðiráðstefnur sem undirbjó ráðstefnu með honum í Langholtskirkju. Þar fjallaði Rob Bell, er ferðast hefur víða um heim og flutt fyrirlestra, um það, sem sérstætt heiti bókar hans felur í sér. Í eftirmála að bókinni ritar hann: „Ég velti því stundum fyrir mér hvort þetta snúist einfaldlega um það að segja já, / aftur og aftur og aftur / þúsund sinnum á dag. Það er ekki flókin bæn, og hún snýst minna um orðin og meira um það hversu opið hjarta þitt er, hversu viljugt hjarta þitt er að íhuga, að það gætu verið óravíddir af skapandi krafti og anda einmitt hér, einmitt núna. Þetta snýst um að fá að vakna til þess sem þegar er að gerast, allt í kringum þig, allar stundir, í þér, í gegnum þig og yfir þér. Að treysta því að Guð sé með okkur og fylgjandi okkur og á undan okkur.“ –
Við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti. Vitneskjan um hverfulleikann kann að setja að okkur ugg, en má þó ekki draga úr lífskjarki. Viðfangsefnin, sem lífið færir með sérhverja stund, eru oft vandasöm. Í glímunni við þau þörfnumst við alls atgerfis okkar, innra og ytra styrks og megum ekki tapa orku og lífsþreki með því að lifa fremur í framtíð en nútíð og líðandi stundu.
Kristinni kirkju er ætlað að vera fyrirmynd farsæls samfélags, þar sem umhyggja og hlýja eru ekki aðeins á yfirborðinu en koma frá kærleiksríku hjarta, vegna þess að Jesús Kristur er þar á ferð. Í lifandi trú og fórnfúsri fylgd við hann bera menn hver annars byrðar af gagnkvæmri virðingu og samkennd og uppfylla þannig kærleikslögmál hans (Gal 6.2), sem segir: ,,Lítið til fugla himinsins... Hyggið að liljum vallarins.‘‘ Þar hvetur hann til árvekni og glöggskyggni sem greint getur umhyggju Guðs þrátt fyrir allt sem skyggir á hana.
Við þiggjum lífið úr hendi hans og megum vera þess fullviss, að ekkert geti slitið okkur úr þeim lófa hans, sem hann hefur rist okkur í.
Sumar er brátt á enda. Sitthvað veldur áhyggjum innanlands og utan. Víða þarf að taka vandasamar ákvarðanir. Það þarf ekki að vera áhyggjuefni svo framarlega sem við leitum Guðs og ríkis hans fyrst af öllu. - Það haustar – haustið hefur verið og er ljóðskáldum áleitið yrkisefni. Bragi Ólafsson segir í ljóði: „Haustið, hvílíkur léttir ! / Árstíðin sem ekur í veg fyrir skóginn / sú sem leggur þér skæri í hönd / og pappír. / Sú sem ég þekki best / skólataskan sem ilmar / af bókum um allt sem er liðið / af leðri og gljáandi epli /- og kveðju að heiman...
Í trúnni á Guð í Jesú nafni getum við sem börn hans, á hvað aldri sem erum, skynjað og numið í fögnuði að kveðjan, sem berst að heiman, er frá honum og komanda ríki hans. Amen.