Yfir í Fjörðum

Yfir í Fjörðum

Við finnum það kannski með áþreifanlegri hætti þegar við erum stödd á svona stað eins og hér í Þorgeirsfirði hvað það er margt sem hefur breyst í okkar högum sem hefur þannig breytt okkur sem manneskjum og samfélagi, siðum okkar og venjum, viðhorfum til lífsins, við höfum jafnvel minni þröskuld gagnvart mótbárum og ábyrgð, spyrjum meira um réttindi en skyldur, höfum úr svo mörgu að velja er gerir okkur allt að því ringluð, erum meiri neytendur en forfeður og formæður í Fjörðum og gerum í því samhengi öllu miklu meiri kröfur til margvíslegra hluta.

„Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi, því það var grundvallað á bjargi. En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll, og fall þess var mikið." (Mt. 7: 24-29)

Við heyrðum kunnuglegan texta úr fjallræðu Jesú hér í fögrum óbyggðum, þar sem fjöllin hafa vakað í þúsund ár ef ekki lengur. Um mennina tvo, annar reisti hús sitt á bjargi og hinn á sandi. Viska og fáviska, hyggni og heimska.

Fjallræðan, sem endar á þessari frásögn, er ræða guðlegrar visku. Það sem tekur við af henni er síðan hinn guðdómlegi kærleikur sýndur í verki, kraftaverki.

Líkþrár maður mætir Jesú þegar hann er nýkominn niður af fjallinu og verður hreinn við þau kynni, sonur hundraðshöfðingja nokkurs liggur þungt haldinn heima fyrir og læknast fyrir styrka trú föður síns og hollráða Jesú og áfram má telja. Hin guðdómlega viska í orði og æði. Þannig byrjar þriggja ára reisa Jesú um óbyggðir, einnig bæi og borgir, og boðunarefnið er ríki Guðs inntak þess og eðli sem hann tjáir svo oft í dæmisögum, sögum um mannkærleika, iðjusemi, félagsskyldu, heiður, tryggð, hugsjónafestu svo minnst sé á fáein atriði.

Sagan á bjargi fjallar ekki hvað síst um það að hlusta og gera. Hús sem stendur á traustum grunni stendur af sér fárviðri, líf sem er byggt á tryggum grunni stenst lífsins próf. Hvernig? Það skiptist í tvennt hjá Jesú. Hlýddu á! Ger þú!

Það er visst vandamál í nútímanum að ófáir vita heldur fátt um það sem Jesús sagði, hafa lítið kynnt sér það, og þá í leiðinni líka það sem kirkjan kennir. Það kemur vafalaust til vegna þess að áhuginn beinist að ýmsu öðru og margt er í boði allavega í samanburði við það þegar fólk bjó hér í Þorgeirsfirði og nágrenni forðum.

Annað er þó verra og kemur til einmitt vegna þess sem hér á undan hefur verið nefnt, að margt hefur líka misskilist í orðum Jesú og þar af leiðandi því sem kirkjan hefur kennt. Og það er sjaldnast til gæfu og gerir lítið fyrir stolt eða sjálfsupphefð að segja skoðun sína á því öllu án þess að gefa boðskap Jesú tækifæri, án þess að hlusta eftir því sem hann hafði raunverulega að segja.

Og hann bað okkur um að gera, framkvæma. Þekking verður að einhverju sé hún framkvæmd. Það væri hægur vandi að standast próf í kristinni siðfræði án þess að vera kristinn. Kenning er bara kenning þar til hún praktíseruð, þá fyrst kemur hún að einhverjum notum.

Þetta vissu forfeður og formæður hér í Fjörðum sem annarsstaðar er ræddu einkum landsins gagn og nauðsynjar og báru sérstaka virðingu fyrir því þegar hugsjónir, kenningar, þekking gaf af sér, varð að einhverju hagnýtu.

Tökum sem dæmi og segir sig t.d. sjálft að það að þiggja ráð hjá lækni og fara ekkert eftir þeim er fremur marklaust og þá betur setið heima en af stað farið. Það á við um öll ráð sérfræðinga, þau verða að litlu gagni séu þau ekki framkvæmd af þiggjanda.

Og þannig eru það meira að segja óteljandi einstaklingar í heimi hér, sem hlusta regulega eftir orðum Jesú og pæla í þeim og sleppa því svo alveg að koma þeim í verk í eigin lífi.

Ætli sé til hugtak sem dregur saman þetta að hlusta og gera, hvað með hlýðni?

Ég myndi telja að það að læra að hlýða í lífinu sé með því mikilvægasta ef ekki mikilvægast. Nú setjum við það kannski einkum í samhengi við börn, að börn eigi að hlýða foreldrum sínum, en þetta hugtak á ekki síður við fullorðið fólk.

Þegar menn réru til fiskjar hér á árum áður oft við mjög varasamar aðstæður, þá var skylda að hlýða boðum formanns, tala nú ekki um þegar sæta þurfti lagi og menn urðu að vera samstíga til að lifa hreinlega af.

Ef einhver í slíkum aðstæðum hefði farið að velta hlutum fyrir sér, spyrja af hverju á að gera þetta svona eða hinsegin eða mótmæla formanni, þá hefði getað farið illa, dauði. Þannig hefur hlýðnin bjargað mannslífum og það eru kröfur til þesskonar hlýðni, sem Jesús Kristur gerir.

Þegar mikið liggur við. Hann staðhæfir að hlýðni við sig sé undirstaða lífsins. Það er ekkert víst að okkur sé vel við þetta hugtak hlýðni og teljum það neikvætt og óþægilegt, erum við svona agalaus, erum við einhverjir óstýrilátir krakkar?

Nei, hlýðni sú sem Jesús Kristur er að vísa til felur annað og meira í sér en þegar látum er ekki linnt fyrr en súkkulaðistöngin í sjoppunni hefur verið keypt og allar mótbárur yfirboðarans virtar að vettugi. Hlýðni Jesú fjallar um val á milli lífs og dauða, val á grunni sem styður þig í þeirri ákvörðunartöku.

Hér á Þönglabakka og í kring voru hlutir meðteknir og þeim hrint í framkvæmd. Allt skipti svo miklu máli í sjálfbærum búskap í afskekktri byggð, allir urðu að vinna saman, hlýðni var lífsnauðsynleg og einhverjar vangaveltur af hverju og hvers vegna ekkert endilega vel þegnar. Fólk axlaði ungt ábyrgð og það var ekkert alltaf hægt að kenna öðrum um.

Það var annar tíðarandi en nú er enda kjör og lífsbjörgin önnur. Þá var að mörgu leyti meira hlýtt á og gert. Hingað var mætt til messu jafnvel um langan veg á hesti eða fótgangandi til að hlýða á orð Drottins og þó svo að menn hafi fundið hvíld í því og jafnvel dormað undir ræðu prestsins þá var þetta engu að síður órjúfanlegur hluti tilveru flestra í hinu fámenna bændasamfélagi í einangraðri byggð og fólk kom saman.

Einhvern veginn get ég svo ímyndað mér að boðskapurinn eilífi hafi talað ennfrekar til fólks í kaffinu eftir messu þegar það fór að ræða hirðisstarf, veiðimennsku, veður og náttúrufar.

Við finnum það kannski með áþreifanlegri hætti þegar við erum stödd á svona stað eins og hér í Þorgeirsfirði hvað það er margt sem hefur breyst í okkar högum sem hefur þannig breytt okkur sem manneskjum og samfélagi, siðum okkar og venjum, viðhorfum til lífsins, við höfum jafnvel minni þröskuld gagnvart mótbárum og ábyrgð, spyrjum meira um réttindi en skyldur, höfum úr svo mörgu að velja er gerir okkur allt að því ringluð, erum meiri neytendur en forfeður og formæður í Fjörðum og gerum í því samhengi öllu miklu meiri kröfur til margvíslegra hluta.

Þessi bættu kjör okkar hafa auðvitað ótrúlega marga kosti, en líka djúpstæða galla sem birtast m.a. í þeirri staðreynd og maður sér ljóslega á þjóðfélagsumræðu að það verður svo margt öðrum að kenna, það verður einhvern veginn þyngra í vöfum að viðurkenna eigin ábyrgð og eigin mistök, miklu fremur bent í óþolinmæði á einhvern eða eitthvað annað og ekki er sá er hér talar yfir það hafinn.

Í þessu ljósi er Kristi jafnvel kennt um eða kirkjunni, sem er ekkert bannað, en oft er það neysluhugsjón sem ræður þar för, hvað hefur Kristur gert fyrir mig, hvað hefur kirkjan gert fyrir mig? Hef ég eitthvað grætt á því öllu? í stað þess að hugsa hvað get ég gert fyrir Krist, hvað get ég gert fyrir kirkjuna. Og þetta á ekki bara við um kristni og kirkju, þetta birtist á vettvangi lífsins í sinni víðustu mynd.

En það er jafn hressandi eins og andrúmsloftið hér að spá í þetta, líta í eigin barm af því að við erum sem strá frammi fyrir allri þessari fjallasýn og Ægi konungi, spyrja sig hvað myndi Kristur gera, hvað myndu forfeður og formæður gera í nútímalandslagi samfélagsins okkar, hvað yrði þar lagt til í umræðuna. Það er hægt að gera meira en að ímynda sér það t.d. með því að kynna sér vel orð Drottins, pæla betur í því, lesa sögur forfeðra okkar og formæðra og velta þannig fyrir sér kjörum þeirra og rótum. Þar má visku finna, góðan grunn.

„Hver sem heyrir orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi.” Amen.