Prédikun flutt við setningu Alþingis 12. september 2023. Guðspjall 14. su. e. tr. Jóh. 5:1-15, tímabil sköpunarverksins.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Enn á ný komum við saman hér í Dómkirkjunni í Reykjavík til helgrar stundar áður en Alþingi Íslendinga er sett. Við komum hér saman til að biðja, hlusta á Guðs orð og útleggingu þess og förum svo út í heiminn með blessun Guðs til að halda þjónustunni áfram við Guð og menn.
Í hverri guðsþjónustu er beðið fyrir landi og þjóð, fyrir þeim sem vandastörfum gegna í almannaþágu. Það er ekki létt verk sem þið hafið verið kjörin til kæru alþingismenn og ég veit að þið leggið ykkur fram um að bæta hag landans í nútíð og framtíð. Það eru ekki allir ánægðir með verk ykkar en það er ekkert nýtt að skoðanir séu skiptar. Enda búum við í landi lýðræðis, tjáningarfrelsis og einstaklingsfrelsis, en frelsinu fylgir alltaf ábyrgð.
Það er einmitt hluti af þessu frelsi sem þjóðkirkjan hefur eignast við þær breytingar sem urðu á sambandi ríkis og þjóðkirkjunnar, þegar þjóðkirkjan varð sjálfstæð um innri mál og fjárhag. Áfram verður samband þjóðkirkjunnar og þjóðarinnar náið og traust, enda má segja að þjóðin hafi staðfest stöðu þjóðkirkjunnar í stjórnarskrá landsins í skoðanakönnunni haustið 2012.
Í guðspjallinu sem lesið var frá altarinu áðan heyrðum við af því þegar Jesús læknaði mann sem hafði verið sjúkur í 38 ár. Blessaður maðurinn var vart búinn að stíga fyrsta skrefið í nýju lífi þegar fundið var að því að hann væri að bera rekkju sína á hvíldardegi. Ráðamenn Gyðinga fóru eftir lögmálinu og þar skyldi halda hvíldardaginn heilagan. Þarna voru þeir heppnir. Þeir gátu fundið eitthvað haldbært til að stöðva þann sem gekk um og læknaði á hvíldardegi og sagði og gerði fleira sem ekki var samkvæmt viðtekinni skoðun.
Það er ekkert nýtt að baráttufólk sé litið hornauga. Það gerist enn í dag. En dropinn holar steininn og þegar horft er til viðhorfa aftur í tímann sjáum við að margt hefur breyst. Flest vonandi til batnaðar, annað ekki. Í samfélaginu hverju sinni er margt sem betur má fara og við sem hér búum verðum að takast á við í sameiningu. Þjóðkirkja sem hefur lifandi og kröftuga rödd með boðskap sinn, trú og gildi og mótar þannig hin ólíku mál líðandi stundar er kirkjan sem ég uni, hef þjónað og er stolt af.
Í gulum september erum við hvött til aukinnar meðvitundar um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna, í nafni kærleika, aðgátar og umhyggju. Það eru allt of margir sem glíma við slæma geðheilsu og samkvæmt fréttum eru úrræðin ekki næg til að hjálpa þeim sem glíma við slíka heilsubilun. Þar á meðal er fólk sem á hvergi heima og nokkrum þeirra hef ég kynnst í Skjólinu sem Hjálparstarf kirkjunnar rekur fyrir heimilislausar konur. Sennilega hef ég ekki fengið fallegri kveðju eða meiri þakkir fyrir neitt sem ég hef komið að í mínu lífi en bréfið og blómin sem ein þeirra sem þar dvelja á daginn sendi mér. Fyrirmyndin að Skjólinu er frá Boston þar sem lútersk kirkja hefur tekið safnaðarheimilið undir starfsemi fyrir útigangsfólk. Ég er þakklát þeim sem tóku undir þá hugmynd mína að bæta systur böl með því að setja Skjólið á fót. Fallegri framkomu en þá sem starfskonurnar þar sýna er vart hægt að finna. Þar er öllum þeim sem þangað sækja mætt með virðingu og kærleika.
Eitt af meginviðfangsefnum þjóðkirkjunnar er að sinna sálgæslu. Í sálgæslunni er hverjum einstaklingi mætt þar sem hann er staddur á lífsins vegi. Um landið allt er þéttriðið þjónustunet kirkjunnar þar sem fagfólk sinnir sálgæslunni ásamt öðrum þeim þáttum sem þjóðkirkjan stendur fyrir sem biðjandi, boðandi og þjónandi. Auk þess gegnir sálgæslu- og fjölskylduþjónusta kirkjunnar mikilvægu hlutverki fyrir fólk sem þangað leitar og þar fá einnig kirkjunnar þjónar handleiðslu sem styrkir þá í þjónustunni.
En september er ekki bara gulur mánuður. Kirkjulega séð er september grænn mánuður. Um áraraðir hafa kirkjur heimsins beitt sér fyrir umhverfisvernd og kynnt sér umhverfisguðfræði. Fræðimenn hafa leitt okkur í sanninn um þá ógn sem lífinu á jörðinni stafar vegnar hlýnunar hennar. Ráðamenn heimsins hafa sett fram markmið og ráðið ráðum sínum á mörgum fundum. Almenningur og fyrirtæki hafa brugðist við með því að leita leiða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með nýrri tækni og breyttum neysluvenjum. Loftslagsvandinn og hlýnun jarðar er ekki bara vísindalegt viðfangsefni eða stjórnmálalegt viðfangsefni. Loftslagsvandinn og hlýnun jarðar eru siðferðilegur vandi. Ríkari þjóðir heims hafa farið fram úr sér, hafa ekki gætt þess sem Guð sjálfur fól okkur að gera, að yrkja jörðina og gæta hennar. Mikill vill meira og tækniframfarirnar hafa ekki allar verið byggðar á grunni sjálfbærni heldur eyðslu og græðgi.
Þess vegna tóku kirkjur heimsinsins sig saman um að lofa Skaparann, halda hátíð skaparans frá 1. september ár hvert til og með 4. október og nefna það tímabil sköpunarverksins, sem við höfum gjarnan nefnt grænan september hér á landi. Undanfarin 6 ár hefur þjóðkirkjan tekið þátt í þessu samstarfsverkefni kirkna á heimsvísu.
Tímabil sköpunarverksins stendur yfir frá 1. september eins og áður sagði en sá dagur er bænadagur sköpunarinnar og til 4. október sem er hátíðardagur verndara vistfræðinnar, Frans frá Assisí. Ég ákvað fyrir 6 árum að framlengja tímabilið fram yfir Norðurslóðaráðstefnuna, Arctic Circle enda höfum við fengið forystufólk kristinna kirkna til að taka beinan þátt í ráðstefnunni.
Tímabil sköpunarverksins eða grænn september nær til tveggja komma fimm milljarða kristins fólks um allan heim. Í ár hefur undirbúningsnefndin ákveðið yfirskriftina “Látum réttvísi og frið streyma”, sem vísar til vers úr spádómsbók Amosar 5:24 “Réttvísi skal streyma fram sem vatn og réttlæti sem sírennandi lækur.”
Þessu tímabili er ætlað að bregðast við hrópi jarðarinnar og biðja saman fyrir henni, þessu sameiginlega heimili okkar mannanna. Ekki þarf að fjölyrða um áhrif loftslagsbreytinganna um heim allan og hlýnun jarðar sem er staðreynd sem þjóðir heims hafa komið sér saman um að stöðva. Það hefur hins vegar gengið illa því erfitt er að fá okkur til að breyta lífsháttum okkar og kostnaðarsamt er að þróa nýja tækni og innleiða hana.
Á tímabili sköpunarverksins eru kristnir menn hvattir til að sameinast um réttlæti og friði til handa sköpuninni og sameina hugi sína í bæn til Guðs sem okkur lífið gaf til að lifa saman á plánetunni jörð. Ungu fólki er bent á að þau eru líka leiðtogar nútímans en ekki fórnarlömb framtíðarinnar. Sambandið við skapara okkar og lausnara er forsenda þess að við trúum því að bænir okkar séu heyrðar og að við trúum því að Guð gefi okkur vit og kraft til að gæta þessa sameiginlega heimilis okkar.
Eins og þverár sameina krafta sína og verða að stórfljóti getur samkirkjulega fjölskyldan sameinast um réttlæti og frið til handa sköpuninni allri.
Réttlæti og friður. Þetta eru stór hugtök og í raun dagleg viðfangsefni. Umhverfisvandinn sem blasir við er margþættur. Vandinn snertir jörðina og allt sem á henni er. Hann snertir allt lífið á jörðinni, lífsviðhorf, lífsstíl og neyslu og það hefur komið í ljós að afleiðingar loftslagsbreytinganna bitna hvað harðast á fátækustu íbúum jarðar. Umhverfisvandinn snertir því baráttuna fyrir félagslegu réttlæti í heiminum. Þær siðferðislegu spurningar sem vakna í ljósi umhverfisvandans beinast því ekki aðeins að hlutverki okkar gagnvart náttúrunni heldur einnig að stöðu okkar og ábyrgð gagnvart náunganum.
Í húsunum tveimur við Austurvöll, Alþingishúsinu og Dómkirkjunni er unnið að því að bæta mannlíf og tendra von. Hlutverkin eru þau sömu þó nálgunin sé ólík. Kirkjan hefur það hlutverk að biðja, boða og þjóna. Hún hefur það hlutverk að feta í sporin hans sem sagðist hafa allt vald á himni og á jörðu. Í krafti þess valds er okkur kirkjunnar þjónum falið að fara og skíra og kenna, en segja má að skírnarskipunin sé eins konar stjórnarskrá kirkjunnar þar sem hlutverkið er skýrt. Jesús fór gegn viðteknum venjum þegar hann læknaði á hvíldardegi, tók upp hanskann fyrir þau sem minna máttu sín, rökræddi við fræðimenn og farísea og tók dæmi úr lífi hversdagsins máli sínu til skýringar og stuðnings.
Á Alþingi er þverskurður samfélagsins, fólk frá öllu landinu, fólk úr ýmsum stéttum með mismunandi reynslu og menntun. Sjónarhornin sem horft er frá á málin eru því mörg og hljóta að gagnast vel við það meginverkefni Alþingis að setja lög og sinna eftirlitshlutverki.
Jesús læknaði manninn sjúka til 38 ára. Þannig sýndi hann sinn guðlega mátt. Sjúki maðurinn þakkaði ekki fyrir sig heldur sagði ráðamönnum frá því hver hefði læknað sig. Þar fengu þeir ástæðu til að koma höggi á Jesú. Yfir honum var réttað og fólkið hrópaði krossfestu hann. Við vitum hvernig sú saga endaði. Hún endaði með sigri þrátt fyrir allt. Dauðinn og myrkrið hafði ekki síðasta orðið í þeirri sögu allri, heldur var það lífið og ljósið sem sigraði. Sá sigur gefur okkur von um að blessun sigri böl, erfiðleikar sem á vegi okkar verða endi með sigri og sólin komi upp á ný þrátt fyrir allt. Með þá von í brjósti og með þá bæn í hjarta göngum við til verkefna vetrarins, hver til síns starfa í þjónustunni við Guð og menn. Guð gefi ykkur visku og kraft til að ráða fram úr erfiðum málum og gleðjast yfir vel unnu verki.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Takið postullegri kveðju:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.