Lífstakturinn

Lífstakturinn

Er ég stressaður? Lifi ég lífinu hægt? Hvernig er lífstakturinn minn? Um þetta var ég spurður af fyrirlesaranum í morgun sem fræddi okkur um streitu og hvernig mega lifa lífinu hægar og innihaldsríkar.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Karl Helgason
05. nóvember 2008

Er ég stressaður? Lifi ég lífinu hægt? Hvernig er lífstakturinn minn? Um þetta var ég spurður af fyrirlesaranum í morgun sem fræddi okkur um streitu og hvernig mega lifa lífinu hægar og innihaldsríkar.

Hvernig er líf mitt þessa stundina? Ég sit við tölvuna og sem þessa hugleiðingu, og er frekar stressaður af því að ég átti að vera búinn að þessu fyrr. Ég er búinn að borða morgunmatinn minn og taka lýsi eins og ég geri á hverjum morgni og það er góð venja og hollur matur sem ég neyti.

Aldrei þessu vant var umferðin þessa sjö kílómertra sem ég ek á hverjum morgni í vinnuna bara þægileg, ekki margra mínútna bið á hverju umferðarljósi eins og oftast er. Í nótt var ég oft að vakna. Veit ekki hvort það voru kosningarnar í Bandaríkjunum sem trufluðu svefninn eða kaffidrykkja kvöldið áður eða dagskrá næstu daga sem hélt fyrir mér vöku. Ég fór fram og allar sjónvarpsrásir voru fullar af tölur og táknum og myndum af fólki í þúsundatali sem fagnaði eða grét eftir kosningarnar og skýringar á hraðbergi. Mikið stress hjá fréttastofunum.

Það var líka hvasst í gærkvöldi og mér var hugsað til dóttur minnar í fluginu sem var að lenda í miklu roki. Ég var órólegur. Alla vega fór ég syfjaður og þreyttur í vinnuna. Ég var víst stressaður.

* * *

Lifðu lífinu í sátt við Guð og menn.

Fyrirlesarinn sagði að ekki væri öll streita til bölvunar. Hún gæti líka knúið okkur áfram til margvíslegra góðra verka. Sum þeirra er unnin undir miklu álagi og við fáum ekki stjórnað því svo glatt hvenær þau eru á okkar borði. Ég las það líka hjá geðlækninum í gær í blaðinu að reiði væri heldur ekki alltaf eitthvað neikvætt afl.

Postulinn skrifar í einu bréfa sinna “Ef þið reiðist þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði ykkar.”(Ef. 4.26). Þetta heyrir maður oft hjá eldra fólki þegar það nefnir góð ráð handa ungum hjónum fyrir framtíðina. Það er ekki hollt að sofna fullur reiði, það hefur slæm áhrif á líkamlega og andlega líðan og skemmir það mikilvæga samband sem hjónabandið er. Postulinn bætir við öðru góðu ráði: “Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.” (Ef. 4.32). Þetta er okkar fyrirmynd í öllum stressinu og þannig viljum við gjarnan að líf okkar væri, að við værum góð hvert við annað, yfirveguð og skilningsrík. Það mundi vissulega minnka spennuna og auka á vellíðan okkar allra. Sá sem við viljum fylgja hefur gefið okkur sáttina við Guð og menn og sett gæskuna ofar öðru.

Efalítið þarf ég að minnka stressið með breyttu líferni, minnugur þess að líf mitt er dýrmætt eins og líf okkar allra er. Lífið er gjöf Guðs til okkar, allt líf, börnin okkar, maki okkar, nágrannar okkar. Við eigum ekki lífið, það er Guðs verk. Í samfélagi og sátt við Guð og menn erum við að lifa í þeim takti sem slær að baki lífi okkar, hjarta Guðs. Þennan sanna lífstakt finnum við orðinu, í lífi, dauða og upprisu Jesú Krists.

Þessa vikuna erum við minnt á upphafsorð Jesú í Fjallræðunni: Sælir eru fátækir í anda, hógværir, miskunnsamir, hjartahreinir, friðflytjendur. Þarna er að finna lífstaktinn sem býr að baki uppbyggilegu góðu líferni, ekki átakalausu en innihaldsríku og þar er finna forsmekkinn af hinu eilífa lífi sem Guð einn ræður yfir.

Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá.(Matt.5.8)