Dómurinn

Dómurinn

Lífið er gjöf. Frá Guði, og ber að skoðast í því ljósi. Og ef við veltum ferðalokunum fyrir okkur þá hygg ég að óhætt sé að treysta Guði fyrir því að hafa eitthvað það í hyggju fyrir okkur sem er langt umfram það sem við óskum eða væntum.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Sjálfsagt kannast einhverjir við þá félaga Calvin og Hobbes, eða Kalla og Kobba eins og nöfn þeirra voru þýdd í íslensku blöðunum; óneitanlega glatast reyndar tilvísunin í nöfn þeirra við það, því höfundurinn viðurkenndi að hann hefði haft í huga guðfræðinginn og siðbótarmanninn Kalvín annars vegar og heimspekinginn Hobbes hins vegar þegar hann skapaði þessa karaktera. Án þess að þeir beri neitt sérstakt mót af þeim, hvorki í útliti né endilega hugsun: Calvin er sex ára pjakkur og Hobbes er tuskutígrisdýr.

 

Þetta eru sem sé teiknimyndafígúrur og glíma þeir gjarnan við aðskiljanlegustu spurningar og vandamál.   

 

Mér kemur í hug myndarammi þar sem Calvin segir við Hobbes: 

 

Við munum öll deyja; er nokkur merking, vit eða tilgangur með þessu lífi; til hvers lifum við eiginlega

Hobbes: Það má alltaf fá sér samloku með túnfisksalati.

Calvin: Ég veit ekki af hverju ég er einu sinni að tala við þig þegar þú ert svangur."

 

Hugsanlega hittir hann naglann á höfuðið; ef lífsbaráttan er mjög hörð og athyglin víkur ekki frá því sem gerist milli munnns og handar, þá er sjaldan mikil tími fyrir tilvistarpælingar.

 

En þær verða samt ekki hundsaðar. 

 

Í dag er síðasti sunnudagur kirkjuársins og guðspjall og ritningarlestrar fjalla um hverfulleika veraldarinnar eins og við þekkjum hana. Þá verða spurningar um tilgang og merkingu býsna ágengar.

 

Sennilega líka óttinn við dóminn sem bíður hvers manns. 

Í kristnu samhengi er hér um að ræða að hið skapaða muni líða undir lok og þá þurfi hver maður þurfa að standa reikningsskil; þannig að sá heimur sem við höfum fyrir augum, dag hvern, muni hverfa: eignir, metorð, völd, meira að segja stuðningur annarra; 

 

Hvað verður þá eftir?

 

Aðeins þú; þessi þú, sem þú færð aldrei flúið eða sloppið undan.

 

Og það verður þú, sem munt þurfa að standa reikningsskil gerða þinna.

 

Ég trúi að þá verði ekki spurt að því hvað þú áttir eða vissir eða kunnir; 

Heldur hvort þú hafir verið fær um að elska.

 

---

 

Mig langar til að fá að lesa fyrir ykkur hluta úr ljóði

 

Þetta er 12. kaflinn úr Predikaranum; einu spekirita gamla testamentisins; riti sem því miður er að heita má aldrei notað neitt úr í ritningarlestrum kirkjuársins, þ miður. Kannski þótti hann eitthvað bölsýnn en eins og margir vita þá verður honum tíðrætt um fánýti hlutanna; „hégómi; aumasti hégómi allt er hégómi” er hans viðkvæði. 

 

Hann spyr ögrandi spurninga; bendir á að þótt eitthvað sé gott þá sé meira af því ekkert endilega betra og að jafnvel þeir sem virðast hafa komið ár sinni vel fyrir borð séu síst betur staddir en þeir sem neyta brauðsins í sveita síns andlitis. En hann bendir líka á alveldi Guðs andspænis hverfulleikanum:

 

Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum,

áður en vondu dagarnir koma

og þau árin nálgast er þú segir um: 

„Mér líka þau ekki,“

 

áður en sólin myrkvast og ljósið

og tunglið og stjörnurnar,

áður en skýin koma aftur eftir regnið,

...

og dimmt er orðið hjá þeim 

sem líta út um gluggana

 

og dyrunum út að götunni er lokað

og hávaðinn í kvörninni minnkar

...

þegar menn eru hræddir við hæðir

og sjá skelfingar á veginum,

 

þegar möndlutréð stendur í blóma

og engispretturnar dragast áfram

og kapersber hrífa ekki lengur

 

en maðurinn fer burt til síns eilífðarhús

og grátendurnir ganga um strætið,

 

áður en silfurþráðurinn slitnar

og gullskálin brotnar

og skjólan mölvast við lindina

og hjólið brotnar við brunninn

 

og moldin hverfur aftur til jarðarinnar

þar sem hún áður var og andinn til Guðs sem gaf hann.

 

Aumasti hégómi, segir prédikarinn, allt er hégómi.

 

Hér er rétt að nefna að þegar predikarinn talar um hégóma þá er það ekki endilega eitthvað sem er einskis vert, heldur hverfult, fallvalt. Að sá hnútur rakni sem við þó töldum okkar hafa bundið hvað traustast. 

 

Vissulega er þessi texti ekki mjög líflegur; en myndrænn er hann og ef þetta væri sena í bíómynd þá væri hún svart-hvít og eini undirleikurinn væri gnauðið í vindinum.

 

Predikarinn er að orða það sem allir hugsa einhvern tímann en ýta jafnóðum frá sér því spurningin er of erfið: Við deyjum öll einhvern tímann og hver er eiginlega tilgangurinn með þessu brölti öllu. 

Er þetta ekki allt hégómi? 

Hér eru erfiðustu og mikilvægust spurningarnar sem á brenna; merking þess sem maður gerir og eigin endanleiki. Og raunar meira en endanleiki hvers og einsheldur einnig hinnsameiginlegi endanleiki; sá möguleiki að mannlegu lífi ljúki á þessari jörð.

 

Hér er maður settur í þá stöðu að íhuga eigið líf en Predikarinn bendir líka á Skaparann og hyggilegra sé að hafa hann í huga því hann setji allt þetta í samhengi: vertu búinn að leita athvarfs hjá Guði fyrir skapadægrið.

 

Í guðspjallinu er talað um dóm. Að Kristur hafi það vald frá föðurnum að dæma menn, og þar sem ein af fyrirferðarmestu innréttingum mannsins er sektarkennd, þá er eins og maður finni á sér að maður verði dæmdur sekur. 

         Það er þó sú sektarkennd sem sviptir mann sýn á náð Guðs; að Guð lætur sér annt um okkur; ekki af því að við séum svo frábær heldur af því að hann er kærleiksríkur og miskunnsamur.

 

Dómurinn er nefnilega áminning um að lífið er ekki sjálfsagt.

 

Lífið verður held ég fyrst raunverulegt þegar það hættir að vera sjálfsagt. 

Lífið er gjöf. Frá Guði, og ber að skoðast í því ljósi. Og ef við veltum ferðalokunum fyrir okkur þá hygg ég að óhætt sé að treysta Guði fyrir því að hafa eitthvað það í hyggju fyrir okkur sem er langt umfram það sem við óskum eða væntum. Ég vil alla vega líta þannig á dóm Guðs, að hann verði ekki fyrst og fremst sakfelling heldur sýkna, jafnvel þótt maður eigi hana ekkert endilega skilið.

 

Páll postuli talar um það í kærleiksóðunum fræga að nú sjáum við eins og í skuggsjá en það komi að því að við sjáum gjörla; þegar leyndardómarnir verða opinberir og við munum gjörþekkja, eins og við erum gjörþekkt orðin. 

  

Páll endar kærleiksóðinn á því að segja að nú vari trú, von og kærleikur, þetta þrennt; en þeirra sé kærleikurinn mestur. 

 

Trú og von eru bundin því að við dóminn verði þetta allt opinberað.

 

En þangað til…

Já þangað til getum við kannski tileinkað okkur speki Smáfólksins.

 

Til er nokkuð falleg mynd af félögunum Charlie Brown og Snoopy þar sem þeir stija á bryggjusporði og horfa út á vatnið. Þá segir Charlie: “Hugsaðu þér að einn daginn deyjum við.” Snoopy svarar: “Já, en hugsaðu; alla hina dagana deyjum við ekki.” 

 

Þetta skulu við muna; að lifa; að þiggja lífið og leyfa lífi okkar að vera öðrum til gæfu, dag hvern, dag í senn. 

 

Þetta snýst um að við leyfum okkur að elska. Rækta kærleikann, sem er jú mestur.

--

Þegar við veltum fyrir okkur eigin lífshlaupi og tilgangnum þar í, þá verður ljóst aðtöluverður tilgangur er í lífshlaupinu sjálfu og hvernig við verjum tímanum hér á jörð. Hafa fjölmargir bent á að hin sanna lífsnautn felist í því að taka þátt í lífnu og segja Já við við því.

 

Að lífinu sé ekki lifað í kæruleysi heldur af ábyrgð. 

Og kærleika. 

 

Kirkjan er kölluð til að bera Kristi og kærleika hans vitni og styðja við hann; Vera vettvangur fyrir kærleiksþjónusutuna.

 

Við sáum um daginn hvernig Grindvíkingar og velunnarar þeirra fylltu Hallgímskirkju; ekki aðeins af fólki, heldur samhug, bæn  

- og -  kærleika. 

Þar var staður til að finna hinu ósagða og illsegjanlega rúm og farveg. Það er ekki síst á stundum eins og þeirri sem maður skilur mikilvægi kirkjunnar og veltir fyrir sér hvort nokkur annar vettvangur hefði getað komið í staðinn fyrir þann sem kirkjan er. 

 

Kirkjan er þó ekki fyrst og fremst húsið, heldur fólkið sem myndar hana.

Þess vegna verð ég að fá að nefna að kirkjuaðild skiptir máli.

 

1. des er framundan; sá dagur reikningsskila þegar skorið er úr um hvernig íbúar þessa lands raðast í trúfélög eða utan þeirra, enn þetta ár. 

         Vitaskuld gerir hver upp við sig hvaða samfélagi hann vill tilheyra, en ég vil hvetja til þess að hver sá sem breytir trúfélagsaðild sinni, taki þá ákvörðun af ábyrgð og yfirvegun. 

--

Í dag fögnum við kirkjudegi Dómkirkjunnar: 

Dómkirkjan hefur verið miðlægt hús Reykvíkinga á gleði og sorgarstundum í 227 ár en hún var vígð 1796. Hér hafa Reykvíkingar borið börn sín til skírnar; þeir gengið innar, gengið í hjónaband og héðan hafa þeir kvatt ástvini sína. Hver kynslóðin af annarri hefur gengið hér inn gólfið með þakklæti og gleði í hjarta, eða ótta og sorg, eftir því hvert  tilefnið var; og sótt styrk í orð Guðs og sakramenti. 

         Þetta samhengi er dýrmætt og sá vettvangur sem Dómkirkjan hefur verið í aldanna rás fyrir margar viðkvæmustu stundir Reykvíkinga er í raun ómetanlegur.

 

Rétt eins og  gildir um kirkjurnar um allt land og raunar í kristinnni allri. Það samhengi er ekki sjálfsagt; en afar mikilvægt.

 

Megi svo vera um ókomna tíð. Amen.

 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um alir alda. Amen.