Við barnsins jötu

Við barnsins jötu

Heilagur Frans frá Assisi bjó til fyrstu jötuna, svo vitað sé. Það gerði hann í helli einum, í fjalli, á stað sem heitir Greccio, á Ítalíu. Hann sagði við bræður sína: „Mig langar til þess að halda upp á jólin með því að búa til styttu af Jesúbarninu, svo að við sjáum með eigin augum hvernig Jesúbarnið liggur í jötunni, á heyi, í útihúsi, innan um skepnurnar.“
fullname - andlitsmynd Bjarni Þór Bjarnason
25. desember 2005
Flokkar

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.Hann var í upphafi hjá Guði.Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.

Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes.Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann.Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.

Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.

Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum. Jh.1.1-14

Gleðilega jólahátíð, kæri söfnuður, sem og hlustendur nær og fjær!

Jóladagur er nú upp runninn og helgasta nótt ársins að baki. Yndislegur tíma er að líða – á hæstri hátíð.

„Friður á foldu, fagna þú maður, frelsari heimsins fæddur er.“

Svo kvað sr. Matthías. Þetta er kjarni máls. Jólin boða frið og fögnuð yfir því að frelsari heimsins er fæddur. Þessi dásamlegi boðskapur snertir strengi djúpt í sálum okkar. Hann vekur andsvar í hjarta sérhverrar kristinnar manneskju. Við erum ekki ein í þessari reynslu okkar. Kristið fólk um víða veröld fagnar með okkur, hvort sem það er í Rómaborg, Moskvu eða Betlehem. Á jólum erum við eitt í honum –í lofgjörðinni, kristið fólk á öllum öldum sem safnast saman á margvíslegum stöðum, í katakombum, kapellum eða dómkirkjum. Við erum eitt með þeim öllum, sem farin eru á undan okkur yfir hin miklu mæri. Þess vegna tíðkast sá fagri siður, hér á landi, á hátíð ljóssins, að láta ljós loga á leiðum látinna ástvina – á helgum jólum.

Í Austur-Evrópu var messan í nótt með öðru sniði en hér í vesturhluta álfunnar. Þar er sérstakur liður undir lok hennar sem heitir „Friður Guðs.“ Safnaðarfólk kyssir þá hvert annað á sitthvorn vangann og segir: „Kristur er fæddur,“ og þá svarar það að bragði: „Kristur er sannarlega fæddur.“ Er þetta sambærilegt við páskakveðjuna. Þetta er táknrænn siður sem sýnir hvernig elska Guðs getur breytt hatri í kærleika, sbr. friðarboðskap Jesaja spámanns, sem jafnframt er boðskapur jóla:

“Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.”

Sannarlega er þetta yndislegur boðskapur.

En nú skulum við gleðjast á sama hátt og kristnir bræður okkar og systur í Austur-Evrópu, með því að óska hvert öðru gleðilegra jóla og fara með þessa jólakveðju. Ég segi fyrst „Kristur er fæddur!“ og þið svarið með því að segja „Kristur er sannarlega fæddur.“ En áður en við gerum það, skulum við fyrst óska hvert öðru gleðilegra jóla. Segjum það við sessunauta okkar hér í kirkjunni. Og þið sem hlýðið á okkur á öldum ljósvakans skulið einnig óska hvert öðru þess sama. Gleðileg jól!

„Kristur er fæddur“

„Kristur er sannarlega fæddur!“ (Aftur það sama.)

Við fögnum á okkar jarðneska hátt með því að hafa jólatré, gefa gjafir, borða góðan mat, skreyta hýbýli okkar, láta ljósin loga og fara í kirkju. Jólin eru því fjölskylduhátíð vegna þess að Jesúbarnið fæddist inn í fjölskyldu, og svo erum við öll, meðlimir í fjölskyldu Guðs. Um heim allan er fólk á ferð vegna hátíðarinnar til þess að koma saman og fagna. Og símalínurnar eru rauðglóandi á þessari hátíð, sem og tölvuskeyti sem fara heimshornanna á milli á örskotshraða.

“Mig langaði til þess að láta þig vita , að mér þykir vænt um þig. Þakka þér fyrir allt gamalt og gott – gleðileg jól!”

Er þetta ekki kjarninn í öllum jólakveðjum? Við óskum náunga okkar alls hins besta á helgri hátíð.

Karl Kristenssen hefur ort jólasálm, er hann nefnir: „Á jólanótt.“ Þar lýsir hann atburði nýliðinnar nætur á fagran hátt:

Það var svo fagur draumur sem mig dreymdi og dásamlega skír, í alla nótt: Ég sá, hvar maður mey á asna teymdi um myrkan fjallaveg, þar allt var hljótt.

Þau skröfuðu með kvíða í hálfum hljóðum ég heyrði þá að lítið barn var nefnt. Um húsaskjól var hart á þessum slóðum því hingað var svo mörgu fólki stefnt.

Þau leiddust inn í lítinn fjárhúskofa þá lýsti stjarna fögur næturgeim, og englaraddir almáttugan lofa sem elskar menn og frelsar þennan heim.

Hér vonarinnar neisti víst er glæddur sem veitir himinsgjöf í Betlehem. Þú Kristur Jesús, frelsari er fæddur, ég fagnandi að jötu þinni kem.

Þessi atburður stendur skáldinu ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, er gerðist í smáborginni Betlehem, eða eins Míka spámaður segir:

“Og þú, Betlehem Efrata, þótt þú sért einna minnst af héraðsborgunum í Júda, þá skal þó frá þér koma sá, er vera skal drottnari í Ísrael.”

Guð ákvað að velja og heiðra hið hversdagslega og venjulega með nálægð sinni. Betlehem, þessi smáa borg var snortin af himni Guðs, er María og Jósef komu þangað og færðu henni nærveru Krists. Þessi atburður breytti andlegu andrúmslofti borgarinnar og kom henni á spjöld sögunnar. Þetta var staðurinn sem Drottinn útvaldi til þess að verða vettvangur heimssögulegra atburða, er sonur hans skyldi í heiminn borinn. Og þessi unga og óreynda alþýðustúlka þurfti að axla alla þessa ábyrgð, að ganga með og fæða Guðs son í heiminn, og ásamt Jósef, að ala upp heimsins dýrmætasta barn, lausnarann sjálfan. Þessi atburður gleður okkur ólýsanlega mikið. Það er ekkert gleðilegra til í þessum heimi en fæðing og upprisa frelsarans.

Fyrir nokkrum árum gekk ég dag einn á aðventunni eftir fjölfarinni verslunargötu í Lundúnaborg. Búðargluggarnir voru yfirfullir af skreytingum og ljósum prýddir. Í einum glugganum sá ég fallega jötu, þar sem Jesúbarnið lá brosandi og friðsælt. Þarna voru líka þau María og Jósef, hirðarnir, vitringarnir og dýrin. Ég staldraði við og fór að velta því fyrir mér hversu margir af þeim fjölmörgu sem gengu framhjá litu ekki við þessari jötu. Létu sem hún væri ekki til. Sjálfsagt hefur hún ekki haft mikla merkingu fyrir það fólk. Bara verið eins og hver önnur gluggaskreyting.

En fyrir okkur hin sem trúum á jólaundrið, hefur jatan mikla merkingu. Guðs sonurinn var lagður jötu á hinni fyrstu jólanótt. Hann sem er frelsari okkar og lausnari. Hún er því sterkt tákn fyrir það sem við þráum. Fyrirgefningu, kærleika og viðurkenningu. Hverjir svo sem hæfileikar okkar eru og eiginleikar, þá erum við, hvert og eitt okkar, sérstök í augum Guðs. Hann þekkir okkar, viðurkennir mikilvægi okkar og lítur á okkur sem óendanlega dýrmætar manneskjur. Við erum börn Guðs. Í honum erum við meðtekin, eins og við erum, okkur fyrirgefið og við elskuð. Þetta boðar m.a. jata Jesú Krists. Og hún boðar fleira. Hún boðar það sem allir þrá – frið. Í guðspjallinu segir:

„Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“

Heimurinn leitar friðar. Grundvallarstoðir friðar eru réttlæti og fyrirgefning. Ljósið sem kom í heiminn á hinni fyrstu jólanótt er ljós fyrir okkur öll. Það er frækorn vonar, um að allir kynþættir og menningarheimar megi lifa saman í sátt og samlyndi, þar sem réttlæti og friður ríkja. Öll höfum við hlutverk í því sambandi. Umfram allt felur jatan í sér von, sem er dýrmæt gjöf til handa öllum í heiminum.

“Því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf”

Heilagur Frans frá Assisi bjó til fyrstu jötuna, svo vitað sé. Það gerði hann í helli einum, í fjalli, á stað sem heitir Greccio, á Ítalíu. Hann sagði við bræður sína: „Mig langar til þess að halda upp á jólin með því að búa til styttu af Jesúbarninu, svo að við sjáum með eigin augum hvernig Jesúbarnið liggur í jötunni, á heyi, í útihúsi, innan um skepnurnar.“ Á jólanótt árið 1223 fór fréttin eins og eldur í sinu um Greccio. Karlar, konur og börn lögðu af stað, klifruðu upp í hellinn með kyndla og kerti, til þess eins að sjá þessa jötu. Þau urðu ekki fyrir vonbrigðum. Ferðin var fyrirhafnarinnar virði. Fæðingarfrásagan lifnaði við og fékk enn meiri dýpt. Heilagur Frans prédikaði við jötuna, inni í hellinum, sem var yfirfullur af fólki og dýrum. Allir voru djúpt snortnir, glaðir í hug og hjarta og sungu því af mikilli innlifun um fæðingu frelsarans.

Fæðingarkirkjan í Betlehem er byggð á þeim stað sem sagður er vera fæðingarstaður Jesú. Þar stóð jatan á sínum tíma. Og í nótt var þar vakað til þess að minnast komu Mannssonarins í heiminn. Þar vöktu þau María og Jósef yfir barninu á hinum fyrstu jólum. Fæðingarfrásagan birtir okkur meðal annars eitt fegursta og fullkomnasta einkenni mannlegrar elsku. Móðurástina. Móðirin vakir yfir brjóstmylkingi sínum, oft og iðulega, þegar aðrir sofa og njóta hvíldar. Hún vakir mest og tíðast er barnið er alveg ósjálfbjarga eða veikt. Hér er í engu hallað á feður í þessu sambandi. Og það eru einnig aðrir sem vaka. Ástvinir vaka yfir sjúklingum. Kærleikurinn reisir sjúkrahús um víða veröld til að vakað sé yfir þeim sem þjást og líða.

Núna um jólin finnum við þetta kærleiksríka hugarfar birtast hjá því góða fólki sem starfar í sjálfboðavinnu til þess að þjóna þeim sem eru einmana, fátækir og heimilislausir. Í gærkvöldi bauð Hjálpræðisherinn og Vernd upp á jólamat fyrir þá sem vildu. Þá hefur Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd, Rauði krossin og önnur félagasamtök staðið í ströngu fyrir jólin að deila út matvælum, fatnaði og gjöfum til þeirra sem minna mega sín. Allt þetta stórkostlega starf er unnið í kærleika, enda sagði Kristur:

“Allt það sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.” Kæru vinir!

Í guðspjallinu segir, að María hafi vafið son sinn reifum og lagt hann í jötu. Jata Jesúbarnsins er jafnframt jatan okkar. Hann, sem í henni hvílir er gjöf Guðs okkur til handa. Þvílík gjöf! – svo stór! – svo mikil! Hvert og eitt okkar á kost á því að eignast hana. Við eigum völina. Viljum við þiggja hana eða ekki. Öll þekkjum við sendiboða Íslandspósts, sem aka um á litlum sendibílum, sem eru rauðir og gulir á litinn, banka upp á hjá okkur síðdegis eða um kvöldið, til þess að færa okkur pakka, sendingu sem er stíluð á okkur, persónulega. Við verðum að staðfesta móttöku sendingarinnar með því að rita nafn okkar á sérstakt móttökublað sem sendiboðinn hefur í fórum sínum.

Á sama hátt þurfum við að taka hvert og eitt á móti jólagjöfinni stóru frá Guði, sem okkur er færð af englunum: „Sjá ég boða yður mikinn fögnuð!“ Og þessi jólagjöf er stíluð á okkur persónulega. Það getur enginn annar veitt henni viðtöku nema við sjálf. Tökum því á móti þessari gjöf fegins huga.

Guð gefi, að heilög birta jólabarnsins í jötunni megi lýsa okkur í leit okkar að því góða og fagra sem birtist í Kristi Jesú.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.