Þann 18. febrúar síðastliðinn byrjaði Heimsmeistaramótið á skíðum í Falun í Svíþjóð og stendur það till 1. mars næstkomandi. Í Falun búa um 55.000 manns og Falu prestakall þar sem ég starfa sem sóknarprestur/kirkjuhirðir, eða Sænska kirkjan í Falun eins og það kallast venjulega, annast þjónustu við alla íbúa borgarinnar. 78% íbúa Falun eru meðlimir í sænsku kirkjunni, en kirkjunni ber að þjónusta alla sem búa í sveitafélaginu.
Þá daga sem heimsmeistaramótið stendur yfir er búist við um 200.000 gestum sem munu koma sér fyrir á hótelum, tjaldstæðum og í heimahúsum, sem margir hafa leigt út. Falun breytist þannig í 255.000 manna borg og verður kirkjan að auka viðbúnað sinn til að þjóna öllum þessum fjölda, rétt eins og lögreglan, heilbrigðisþjónustan, sveitafélagið og þjónustuaðilar. Auk þessa hefur norska kirkjan tekið á leigu húseignir í eigu sænsku kirkjunnar til að annast um Norðmenn, sem eru stór huti af öllum þessum gestum öllum. Fjölmenn sendinefnd norsku kirkjunnar rekur hér kaffihús og mótttöku í einu safnaðarheimili prestakallsins. Á meðan á mótinu stendur mun sænska kirkjan bjóða upp á tónleikahald alla daga á eftir verðlaunaafhendingunni, en hún fer fram á stóru torgi fyrir framan höfuðkirkju borgarinnar. Prestakallið hér verður auk þess með kaffihúsarekstur, mótttöku, neyðarsíma presta, starfsemi fyrir börn og unglinga, kirkjurútu sem er á ferðinni á kvöldin, morgunmessur á þýsku og norsku og sænsku og ensku, fræðslufundi, AA – fundi, og fleira og fleira.
Hversdags starfa 15 prestar í prestakallinu í Falun í 6 söfnuðum, á sjúkrahúsinu og í Fangelsinu og í Háskóla Dalanna, en þeim fjölgar í 40 á meðan á mótinu stendur. Auk þess bætast við sjálfboðaliðar, djáknar, starfsmenn biskupsstofu Västerås, nágrannaprestar, kennarar og fleiri. Starfsmönnum í prestakallinu fjölgar þannig úr 120 í 200. Allt er því gert til að mæta gestum og aðstoða og heimamönnum í Falun. Verður spennandi að sjá hvernig til tekst, bæði hjá kirkjunni hér sem og öðrum sem að HM hátíðinni koma.