Þjóðbúningar og annað erfðagóss

Þjóðbúningar og annað erfðagóss

Gullna reglan geymir meiri og margslungnari boðskap en okkur kynni e.t.v. að gruna í fyrstu. Í henni býr áminning um að við eigum að sinna hlutverki okkar gagnvart öllum þeim sem eru í samfélagi með okkur hvar sem þeir kunna að vera og á hverjum þeim tíma sem þeir kunna að vera uppi á.

Gleðilegan þjóðhátíðardag!

Við brugðum á það ráð að halda messu helgaða þjóðbúningum. Víst er það viðeigandi á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Við Íslendingar eigum svo fallega búninga, peysuföt, skautbúning og upphlut svo eitthvað sé nefnt og það sem er enn merkilegra við þennan fatnað er að stundum gengur hann í arf frá kynslóð til kynslóðar. Stundum má rekja búningana kynslóðir aftur í tímann. Sami fatnaður hefur verið borinn til messu í kirkjum í sveitum landsins á tímum sem voru á flestan hátt frábrugðnir þeim sem við lifum núna á. Þannig verða þjóðbúningarnir okkur eins og ein staðfestingin á því að sumu er svo farið að við tökum það í arf, erum í raun eins og kyndilberar. áum eitt að láni frá fyrri kynslóðum og þurfum svo að gæta þess að ganga vel um svo næstu kynslóðir fái notið.

Að eiga eitthvað að láni

Þjóðbúningar eru þess vegna mjög lýsandi fyrir það andrúmsloft sem við viljum að ríki á þjóðhátíðardaginn. Þá minnumst við þess að við sem íbúar í þessu landi höfum yfir að ráða miklum verðmætum sem okkur hefur verið trúað fyrir. Við finnum fyrir því hvernig við sjálf njótum ávaxta þeirra starfa sem unnin hafa verið af fyrri kynslóðum. Við hér í Keflavíkurkirkju höfum verið meðvituð um þetta. Við höfum lagt eyrun við gömlum frásögnum úr kirkjunni okkar. Við höfum hlýtt á frásagnir af fólkinu sem hér bjó og starfaði. Þetta var oft erfiðisvinna sem gekk nærri líkamanum. Unnið var í flestum veðrum og lengi vel var mannslíkaminn eini aflgjafi þeirra verka sem vinna þurfti. Vélar komu til sögunnar miklu síðar sem og farartæki á hjólum. Fólk vann í sveita síns andlits og í sumum tilvikum gaf líkaminn sig þegar fólk var jafnvel enn á miðjum aldri. Erfitt hefur hlutskipti þeirra verið sem lágu í kör og voru í raun allar bjargir bannaðar. Þá reyndi á náungakærleikinn og tryggja þurfti að hlúð væri að því fólki þótt í raun væri mikið rangt við það samfélag sem fór svo með þegna sína.

En við höfum rifjað upp frásagnir sem sýna það að jafnvel þegar bök voru bogin ofan í síldartunnur og þá stefndi hugurinn upp á við. Mikill hefur metnaðurinn verið og helgidómur þessi lifir sem minnisvarði um það fólk sem lifði hér um aldamótin. Það vildi sýna að hér væri fólk sem ætti sér metnað og bæði ytra byrði kirkjunnar sem og innréttingar hennar bera merki ótrúlegrar framsýni og hárra hugmynda. Listmálarinn Ásgrímur Jónsson málaði altarisverkið, líklega var það eina upplifun flestra bæjarbúa af málaralist á þeim tíma. Sjálft húsið, fagurlega hannað af Rögnvaldi Ólafssyni, sígilt í öllum formum og ber þess merki að það átti að standa um ókomna tíð. Á þjóðhátíðardaginn er hugur okkar bundinn þeirri stöðu okkar að varðveita, já og bæta það sem okkur hefur verið trúað fyrir. Prúðbúnir messugestir sem komu hingað í fallegum þjóðbúningum finna fyrir því að þeir eru hluti af samfélagi sem teygir sig ekki bara í rúmi heldur einnig í tíma. Við horfum í kringum okkur og virðum fyrir okkur þau afrek sem fyrri kynslóðir hafa skilað af sér og finnum til auðmýktar gagnvart því sem okkur ber að varðveita og hlúa að.

Gullna reglan

Í guðspjalli þjóðhátíðardagsins er einmitt talað um stöðu okkar í samfélagi manna. Þar talar Kristur til okkar og minnir okkur á það sem mestu máli skiptir á jarðvistardögum okkar. Þessum orðum lýkur á reglunni gullnu sem við ættum öll að hafa í huga:

Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir.

Jesús gæti ekki verið afdráttarlausari. Hann sýnir okkur fram á að við erum öll jöfn frammi fyrir Guði og regla þessi sem kynni að virðast í fyrstu svo sjálfsögð er í raun fjarri því að vera sjálfgefin ef grannt er skoðað. Okkur hættir til að gera mannamun. Þeir sem mikils mega sín telja sig jafnvel hafna yfir lög og rétt og láta aðra finna fyrir valdi sínu. Gullna reglan minnir okkur á það að óháð því hvar við stöndum í virðingarstiga samfélags þá þurfum við að lúta sömu lögum. Að baki býr sú hugsun að öll erum við sköpun Guðs og því gildir það sama um hvert og eitt okkar.

Í tíma og rúmi

En þetta á ekki aðeins við um þau sem við eigum samskipti við frá degi til dags. Guðspjall þjóðhátíðardagsins minnir okkur ekki síður á þau sem tilheyra okkar samfélagi, en voru eða verða uppi á öðrum tíma. Já, við berum skyldur að sinna því sem fyrri kynslóðir hafa byggt upp. Það geta verið helgidómar eins og þessi hér. Það getur verið fatnaður eins og þjóðbúningarnir sem messa þessi dregur heiti sitt af. Það geta verið frásagnir, minningar og annað það sem gerir okkur að því sem við erum. Gullna reglan minnir okkur á að, rétt eins og okkur ber að sinna náunganum og koma fram við hann eins og við viljum láta koma fram við okkur þá þurfum við að gæta að því góða sem gert hefur verið. Við viljum jú að verk okkar og störf glatist ekki.

Gullna reglan vísar líka til framtíðar. Við höfum þetta land að láni. Svo taka aðrir við því. Við berum skyldur til þeirra sem munu búa hér um ókomna tíð. Við þurfum að ganga hér vel um, leggja rækt við það sem gott er, sinna náttúru þess og gróðurfari þannig að áfram verði gott að búa hér. Kristur minnir okkur á þessa vídd reglunnar gullnu er hann spyr hvort nokkur myndi gefa barni sínu grjót eða nöðru þegar það biður um brauð og fisk. Já, Gullna reglan varðar hina komandi kynslóðir og skyldur okkar við þær.

Allt hangir þetta saman. Því rétt eins og fyrri kynslóðir gátu sótt í heilaga ritningu í gegnum meðbyr og mótlæti þá þurfum við að gæta að því að lífgefandi boðskapur Krists glatist ekki heldur varðveitist. Reglan gullna brýnir fyrir okkur að miðla fagnaðarerindinu til komandi kynslóða svo þær geti líka á ófyrirséðum tímum sótt þangað huggun og styrk.

Þjóðhátíðardagurinn er tíminn þar sem við stöldrum við og skoðum hvaðan við komum, hvar við erum og hvert leiðin liggur. Kristur gefur okkur mikilvægt vegarnesti á þeirri leið en það er Gullna reglan. Hún geymir meiri og margslungnari boðskap en okkur kynni e.t.v. að gruna í fyrstu. Í henni býr áminning um að við eigum að sinna hlutverki okkar gagnvart öllum þeim sem eru í samfélagi með okkur hvar sem þeir kunna að vera og á hverjum þeim tíma sem þeir kunna að vera uppi á.