Vorið er upprisa

Vorið er upprisa

Hann er upprisinn sagði sólin, hann er upprisinn úaði æðarfuglinn, hann er upprisinn hrópaði niður árinnar sem hafði losnað undan klakaböndum. Hann er upprisinn hvíslaði jarðvegurinn, tilbúinn að næra jurtina. Hann er upprisinn kallaði vorið á meðan þú nuddaðir stýrurnar og reiknaðir út líkurnar.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
08. apríl 2007
Flokkar

Kæri söfnuður, gleðilega páska!

Þánar skafl í varpa og árrisul börn bíða eftir sólardansinum. Bolli Gústavsson

Já páskar eru vor og vor er líf. Í æsku minni heima í Laufási við Eyjafjörð, þýddi vorið bara eitt, að dimmum vetri væri að ljúka og lífið hefði yfirhöndina, allt umhverfið iðaði af upprisu, náttúran og mannfólkið hafði lifað af veturinn. Þá var hægt að ljúka upp dyrum gamla torfbæjarins, því burstaháir snjóskaflar þorrans höfðu loks hlýtt sólinni og þánað. Árrisul börn biðu í ofvæni eftir því að týna myglusveppi af rökum torfveggjum gamla matarbúrsins þar sem vatn dropaði af skilvindum og strokkum og moldargólfið dúaði undan þungstígu mannfólkinu. Og þá voru allar dyr og gluggar opnaðir, kontorinn þar sem Björn Halldórsson orti „Sjá Himins opnast hlið“ var skrúbbaður með grænsápu og myndin af klerknum og stórskáldinu fægð af varfærni. Alvörugefin augu Björns voru loks sýnileg undan köngulóarvefnum og nú var hægt að bjóða ferðamenn velkomna inn í vistarveruna þar sem Björn hafði löngum dvalið við skriftir og samið prédikanir og sálma Guði til dýrðar.

Og þá fóru að streyma heim á hlað langferðarbílar hlaðnir erlendum ferðamönnum sem horfðu opimynntir á lítinn krakka segja frá fornum vefstólum og gömlum skáldum sem bjuggu í þessum reisulegu vistarverum sem í grunnin voru þó byggðar úr mold. Og svo voru teknar myndir, klipið í bústnar kinnar á íslenskum krakka sem þáði í staðinn þýskt súkklaði eða danskar bolsíur og svo brunað af stað áleiðis í skemmtiferðaskipið sem flutti pílagrímana á brott frá strönd úfna landsins þar sem fólk tórði í þessum híbýlum fram á miðja 20. öld.

Alla daga sumarsins iðaði staðurinn af mannlífi, suma morgna stóðu arabar með vefjarhetti á höfði og virtu fyrir sér aspirnar sem pabbi hafði gróðursett af natni eða asíubúar sem mynduðu staðinn svo mikið að þeir steingleymdu að skoða hann eða Íslendingar sem sendu sykuróða krakka upp á burstirnar þar sem þau hoppuðu þangað til að fór að þyrlast mold niður um reykháfinn á blásið hár ameríkananna sem kepptust við að hæla bústna krakkanum sem talaði ensku með norðlenskum hreim. „She is so sweet“ sögðu þau og hlóu að tilfæringunum.

Já, mannlífið hafði vaknað af dvala og það gerði náttúran líka. Moldin í kartöflugörðunum var orðin nógu mjúk, næringarrík og lífvænleg til að hægt væri að setja niður útsæði sem sækti næringu sína í jarðveginn. Af því spruttu svo fallega rauðar kartöflur sem nærðu heimilisfólkið yfir vetrarmánuðina. Og nú þurfti að fara að huga að æðarvarpinu, æðarkollan og blikin höfðu þá þegar fellt hugi saman og búið sér til hreiður í hólmunum sem voru umkringdir Fnjóskánni. Í ánni synti silungurinn grandarlaus en blikin og kollan voru manninum vön. Þau héldu sinni stóísku ró þó að stígvélaklæddir varpbændur gengju á milli hreiðra og hreinsuðu dúnkransinn af börmum hreiðursins. Þau höfðu nefnilega gert samkomulag kollan og maðurinn að hann tæki bara þann dún sem ekki héldi hita á eggjunum. Stundum var kollan samt þrjósk og sat sem fastast. Ég gleymi aldrei þeirri tilfinningu að færa fugl af hreiðri.

Í Markúsarguðspjalli segir frá þegar þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme voru á leið til grafarinnar við sólarupprás á páskadagsmorgni, þær voru einmitt að ræða sín á milli hver myndi velta fyrir þeim steininum frá grafarmunnanum. Þær þurftu að komast inn til þess að hlúa að frelsara sínum, honum sem hafði gefið þeim nýtt líf í samfylgdinni frá Galíleu. Æðarkollan hlúði að lífi í hreiðrinu og það sem var svo máttugt við þennan fugl var óttaleysið sem hún bar til umhverfisins. Mér fannst hún alltaf vera að kenna mér þar sem hún sat og gaf frá sér seyðandi og umhyggjusamt Úa úa, í raun vissi ég ekki hvor var hræddari ég eða hún, af því að auðmjúk gaf hún mér af lífsviðurværi sínu, ég græddi en hún gaf og áfram hélt hún að hlúa að lífi sínu þó að ég hefði farið höndum um það. Hún yfirgaf ekki hreiðrið eins og aðrir fugla gera þegar mannfólkið hefur breitt skugga sinn yfir það. Nei hún tók sér aftur stöðu móðurinnar og verndarans þegar ég var búinn að þiggja frá henni dúninn sem hlýjaði mér á köldum vetrarnóttum.

Páskar eru vor og vor er líf. Eftir vetur kemur alltaf vor, eftir þjáningu er upprisa, eftir dauða er líf. Upprisa Guðs sonar, Jesú frá Nasaret er gagnstæð öllu því sem við manneskjurnar vitum og þekkjum, upprisan er á skjön við skynsemi okkar. Hann dó á krossinum, þau sáu það öll, móðir hans grét yfir líki sonar síns og Jóhannes horfði hræddur á meistarann tapa, hann var dáinn, punktur. Já skynsemi okkar , hún segir okkur svo margt. Og samt gleymum við því að Guð er yfir skynsemina hafin, af því að hann skapaði hana með þeim huga og því hjarta sem hann gaf þér. Hann gaf þér tvær hendur svo þú gætir starfað, huga svo þú gætir verið, hjarta svo þú gætir fundið, skynsemi svo þú gætir valið en yfir þetta allt er hann samt hafin og það veistu í dag. Æðarkollan efaðist ekki um lífið þegar hún skreið aftur á hreiður sitt og horfði á mig samúðaraugum. Sólin sá ástæðu til að bræða snjóskaflana, hún sá ástæðu til að dansa í kringum árrisul börn sem trúðu því varla að vorið kæmi eftir svo langan vetur, hann er upprisinn sagði sólin, hann er upprisinn úaði æðarfuglinn, hann er upprisinn hrópaði niður árinnar sem hafði losnað undan klakaböndum. Hann er upprisinn hvíslaði jarðvegurinn, tilbúinn að næra jurtina. Hann er upprisinn kallaði vorið á meðan þú nuddaðir stýrurnar og reiknaðir út líkurnar.

“En engillinn mælti við konurnar: Þér skulið eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér, hann er upprisinn.”

“Og þær fóru í skyndi frá gröfinni með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.”

Munið þið eftir orðum engilsins þegar hann bar fjárhirðunum þær fréttir að frelsari heimsins væri fæddur á Betlehemsvöllum. Engillinn sagði “verið óhræddir því sjá ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum. Yður er í dag frelsari fæddur.

Við hvað erum við hrædd? Jú við erum hrædd um lífið. Hvaða foreldrar eru ekki óttaslegnir við fæðingu barnsins síns? Við þurfum að fá að vita að allt verði í lagi vegna þess að andspænis lífinu erum við vanmáttug til hugar, handar og hjarta. Andspænis lífinu verðum við að treysta Guði en skynsemi okkar nær ekki að höndla þann sannleika.

Æðarkollan storkaði skynsemi minni þegar hún leyfði mér að lyfta sér af hreiðrinu, fuglar eiga að vera hræddir við menn en hún var það ekki.

Þessi morgunn sem við lifum nú er skynseminni yfirsterkari og þú ert eilítið órólegur hér á kirkjubekknum af því að þú nærð ekki að höndla þennan sannleika. Móðirin sem heldur á nýfæddu barni sínu er líka óróleg af því hún veit ekki hvort hún höndlar þetta nýja líf, þetta dýrmæti, já lífið er nefnilega dýrmæti, það er fjársjóður. Og við erum óróleg, jafnvel hrædd, það eina sem við getum gert er að treysta Guði fyrir því, af því að hann er skynsemi okkar æðri. En þú sérð það líka sjálfur/sjálf þegar þú lítur út um gluggann að vorið er komið, Kristur er upprisinn og lífið lifir.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir. Amen.