Fagnaðarerindið - Guðs ríki

Fagnaðarerindið - Guðs ríki

Kjarninn í fagnaðarerindi Jesú er Guð sem tekur stjórnina í lífi fólks, Guð sem endurskapar heiminn í gegnum fólk sem hlustar á hann og fer að vilja hans. Í því er fagnaðarerindið fólgið. Guð vill hafa áhrif í okkar lífi og á okkar líf, á hugsanir okkar, orð okkar og gjörðir.

Og er hann kom nær og sá borgina, grét hann yfir henni og sagði: Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi, hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum.Því að þeir dagar munu koma yfir þig, að óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu.Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér, vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma. Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningjabæli. Daglega var hann að kenna í helgidóminum, en æðstu prestarnir og fræðimennirnir svo og fyrirmenn þjóðarinnar leituðust við að ráða hann af dögum, en fundu eigi, hvað gjöra skyldi, því að allur lýðurinn vildi ákaft hlýða á hann.

Lúkasarguðspjall 19. 41–48

Í guðspjalli dagsins hittum við Jesú fyrir þar sem hann nálgast Jerúsalemborg. Páskahátíðin er framundan og Jesús er kominn á bak ösnufolans góða og ríður til móts við örlög sín. Þungamiðja þessa guðspjalls er hin þversagnakennda mynd af lýðnum sem fagnar komu Jesú og viðbrögðum Jesú er hann sér borgina í námunda. Þegar Jesús kemur ríðandi til borgarinnar fagnar lýðurinn og hrópar hástöfum „Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.“ En þegar Jesús sér borgina segir hann: „Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi, hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum . . . vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“ Jesú er fagnað en er jafnharðan hafnað og framseldur til pínu og dauða.

Gömul saga og ný!

Guðspjallið vekur upp ýmsar spurningar.

Jesús kemur til okkar allra, kemur til móts við hvern og einn, í eigin persónu, augliti til auglitis, og kallar alla með nafni. Þið og mig! Það er fagnaðarerindið – „Guð er með oss“. En hvernig tökum við á móti Jesú? Hvað gerum við með það sem hann segir? Fögnum við honum á hátíðisdögum en látum hann okkur lítils varða þess á milli? Játum við trú á hann í orði en fylgjum henni ekki eftir í verki? Já, hvað er það sem við látum okkur mestu máli skipta í lífinu? Hvað gerum við að okkar í lífinu og hvað ekki? Hvaða sess og sæti á Jesús Kristur hjá þér? Hvað veljum við og hverju höfnum við?

Það er ekki fjarstætt að slíkar spurningar vakni við lestur þessa guðspjalls. Og þær fengu mig til að velta fyrir mér fagnaðarerindinu, þ.e. komu Guðs í heiminn og hvað við gerum með það í lífi okkar; hvað það er sem Jesús vill okkur.

Það má fjalla um fagnaðarerindið í löngu máli. Það er oft gert. Og það er líka oft gert í alltof flóknu máli. En fagnaðarerindið er ekki flókið. Maðurinn sem allt þarf að skilja á hins vegar vanda til að gera það flókið og snúa því á alla kanta til að reyna að ná utan um það. Reynum að forðast það!

Kjarninn í fagnaðarerindi Jesú er Guð sem tekur stjórnina í lífi fólks, Guð sem endurskapar heiminn í gegnum fólk sem hlustar á hann og fer að vilja hans. Í því er fagnaðarerindið fólgið. Guð vill hafa áhrif í okkar lífi og á okkar líf, á hugsanir okkar, orð okkar og gjörðir. Uppáhalds orð eða orðatiltæki Jesú yfir Guð að verki eða Guð að störfum er „Guðs ríki“. Í rauninni er fagnaðarerindið, eða boðskapur Jesú, fólgin í þessu orði og það er ekki hægt að skilja boðskap Jesú án þess að vita hvað Jesús á við með „Guðs ríki“.

Í öllu því sem Jesús segir og gerir er hann að leiða okkur fyrir sjónir tiltekinn veruleika sem hann vill innleiða í líf okkar. Með orðum sínum og verkum opnar Jesús dyr að nýjum veruleika sem hann býður okkar að ganga til. Og hann segist sjálfur vera dyrnar, því „. . . sá sem kemur inn um mig“, segir Jesús, „mun frelsast. . .“ Þennan frelsandi veruleika kallar hann „Guðs ríki.“

Við komumst nærri um merkingu „Guðs ríkis“ með því að hlusta á dæmisögur Jesú.

Jesús sagði lærisveinum sínum einhverju sinni að „. . . líkt er Guðs ríki mustarðskorni, sem maður tók og sáði í akur sinn. Smæst er það allra sáðkorna, en nær það vex, er það öllum jurtum meira, það verður tré, og fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess.“

Önnur dæmisaga Jesú um „Guðs ríki“ er sú að „. . . líkt er Guðs ríki fjársjóði, sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann. Enn er Guðs ríki líkt kaupmanni, sem leitaði að fögrum perlum. Og er hann fann eina dýrmæta perlu, fór hann, seldi allt, sem hann átti, og keypti hana.“

Í þessu er veruleiki „Guðs ríkis“ fólginn.

„Guðs ríki“ birtir okkur heiminn eins og hann er fallegastur. „Guðs ríki“ felur í sér vitundina um heiminn eins og Guð ætlar honum að vera og eins og við viljum dýpst í hjarta okkar að hann sé. „Guðs ríki“ er samfélagsleg uppfylling gullnu reglunnar um að „allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“.

En guðspjallið minnir okkur líka á að maðurinn leyfir Guði alltof sjaldan að taka þátt í lífi sínu? Guð vill eiga sér stað í lífi mannsins þar sem hann fær að ríkja og móta hjartalag hans.

En maðurinn unir honum það ekki!

Hvers vegna er það?

Hér er algengasta svarið það einfaldasta og réttasta. Við teljum okkur ekki hafa þörf fyrir Guð, því hvað getur hann gert fyrir okkur sem við getum ekki sjálf gert eða veitt okkur. Ég er ekki að tala um tóma kirkjubekki. Tómir kirkjubekkir eru ekki stærsta vandamálið í þessu samhengi. Tómlegar kirkjur eru afleiðingar stærra vandamáls sem er að fagnaðarerindið, koma Guðs í Jesú frá Nasaret, nær ekki nægilega inn að sálu mannsins, það birtist ekki með nægilega skýrum hætti í daglegu lífi fólks. Fagnaðarerindið nær ekki inn í hina samfélagslega vitund, það á ekki greiða leið inn í stofnanir og fyrirtæki, og nær því ekki að móta og hafa áhrif á daglegt líf fólks og samskipti þess, hugsanir þess og viðhorf, skoðanir, tilfinningar og breytni. Við þessu þarf að sporna. Það veltur allt á því. Látum það ekki gerast.

Það má segja að veruleikinn að baki „Guðs ríkis“ sé andstæðan við þá samfélagslegu umgjörð sem einkenndi daglegt líf um daga Jesú; og sá samfélagslegi veruleiki er í raun hinn sami og einkennir enn daglegt líf, þar sem viðhorfið „hver er sjálfum sér næstur“ ræður ríkjum öðrum fremur. Þetta sjáum við þegar við horfum yfir svið heimsins í dag og gefum gaum að bágu ástandi mannsins. Það er fremur mitt á kostnað þíns, eða okkar umfram ykkar.

Og hver er rót þessa? Spurningin sem maðurinn spurði Guð fyrst eftir brottreksturinn úr Paradís endurómar í lífi sérhvers manns: „Á ég að gæta bróður míns?“

Ég er ekki að tala hér um tiltekinn mann eða ákveðna persónu. Ég er að tala um manninn. En þegar þú hugsar um það, hefur þú spurt þig þessarar spurningar?

Það er svo margt sem ber þessari spurningu vitni í dag um víða veröld. Mestu bölvaldar mannsins í dag eiga rót sína að rekja beint til þessarar hrokafullu lífsafstöðu; misskipting lífsgæðanna og ágangur mannsins á auðlindir heimsins sem öllu spillir. Vitundin um þetta böl liggur í orðum Jesú er hann segir bendir á lausnina: „ . . . Gef þú hverjum sem biður þig . . . og svo sem þér viljið, að aðrir menn gjöri við yður, svo skuluð þér og þeim gjöra . . . gefið, og yður mun gefið verða.“

Er þetta ekki augljóst?

Maturinn sem hinn hungraða vantar er til á borðum einhvers, og vatnið sem þarf til að slökkva þrosta svo margra er til í brunnum víða; fötin sem hinn nakti þarf utan um sig standa ónotuð í skápum margra, og híbýlin sem þarf til að hýsa hina hröktu og köldu standa ónotuð og óseld og sífelld fleiri eru byggð.

Er þetta ekki augljóst? Eða hvað?

Guðspjallið minnir okkur á að það er oftar en ekki langur vegur á milli yfirlýsinga og staðfestu, á milli fyrirheita og efnda – já, á milli trúar og verka.

En þannig er maðurinn. Guð er ekki þannig. Jesús er ekki þannig.

Vandinn er sá að við leggjum traust okkar um of á forgengileg gæði þessa heims og tökum svo ótæpilega til okkar að við sjáum ekki sjálf hvenær nóg er komið. Við göngum svo ákaft á eftir lífsgæðunum að við sjáum ekki þá sem að baki okkur standa. Og við hugsum með okkur um leið: „Hvernig komst fólk af hér áður fyrr?“ Hins vegar eru þeir ekki færri en hinir sem komast tæplega af í dag. Hin raunverulega spurning ætti líka að vera: „Hvernig mun fólk komast af í framtíðinni?“ Þú verður að svara fyrir þig.

Þessu „öryggi lífsgæðanna“ þarf að skipta út fyrir „Guðs ríki“, sem í senn felur í sér það sem ég treysti Guði til að gera fyrir mig og það sem ég heyri Guð biðja mig um að gera fyrir aðra. Í stað þess að geyma fötin sem okkur var eitt sinn gefið ónotuð í skápnum eigum við að gefa þau öðrum sem engin hafa. Þetta á við um öll okkar gæði því hvað höfum við sem við höfum ekki þegið. Þetta er ástæða þess að betlarinn, hinir fátæku, sorgmæddu og hungruðu, eru sælir; fólkið sem Jesús leitaði uppi. Hann kallaði það sælt. Hvers vegna? Vegna þess að Guð mun annast það í gegnum það fólk sem leyfir Guði að hafa áhrif á líf sitt og hlýtir vilja hans. Þess vegna geta hinir þurfandi treyst því að „Guðs ríki“ er til þeirra vegna, eða með orðum Jesú sjálfs: „. . . því þeirra er Guðs ríki.“

Ef við hættum að ýta öðrum niður til þess að halda sjálfum okkur uppi og lifum í ljósi gullnu reglunnar sem segir okkur að hver einasti maður er náungi okkar sem okkur ber að elska eins og við elskum okkur sjálf þá mun horfa öðruvísi við í þessum heimi. Þá verður mannlegt samfélag hverjum og einum nægtarbrunnur kærleika og lífsgæða og þá munu allir hafa líf í fullri gnægð, í heimi þar sem fólk deilir hvort með öðru hinu daglega brauði og enginn þarf að týna upp brauðmola undan borði annars.

Þetta er ekki síst það sem Jesú vill segja við þig, einfaldur boðskapur og yndislegur - umbúðalaus: Eins og Jesús hefur elskað þig, skalt þú einnig elska aðra. Treystu Guði fyrir sjálfum þér með því að leyfa honum að sjá þér fyrir fólki sem mun annast þig; og hlýddu kalli hans þegar hann biður þig að annast það fólk á móti. Þú getur treyst Guði. Þú þarft bara að láta reyna á það.

Fyrirmyndir þessa guðlega lífernis fann Jesús í náttúrunni í kringum sig, í fuglum himinsins og liljum vallarins sem þurfa ekki að ganga á eftir eigin þörfum og löngunum til þess að komast af og þrátt fyrir það sér Guð til þess að þau skorti ekkert. Og þótt að fuglar og liljur vallarins séu ekki það mikilverðasta í þessum heimi þá lætur Guð sig varða um þau. Guð lætur sig varða um allt, jafnvel hið minnsta, það sem við teljum sjálfsagt, því að honum er ekkert ókunnugt. Hann veit nákvæmlega hversu mörg hár eru á höfði þínu. Þú getur því treyst Guði fyrir þörfum þínum. Hann veit hverjar þær eru og hann veit hvað þú vilt áður en þú biður um það eða veist af því sjálfur.

Vissa Jesú um gjöfulan og kærleiksríkan Guð, skapara himins og jarðar, er grundvöllur hins kristna boðskapur og grundvöllur þess sem Jesús sagði og gerði. Það er í senn fagnaðarerindi – fullvissa þess að Guð láti sig varða um þig og gangi inn í líf þitt – og köllun til þess að láta sig líf annarra varða og ganga inn í líf annarra. Þetta skilyrðislausa traust til Guðs og þessi afdráttarlausi vilji til þess að fara eftir orðum hans finnur sér farveg í kærleikanum og það er kærleikurinn sem opinberar fyrir okkur þann veruleika sem fólginn er í orðum og verkum Jesú og gerir þau jafnframt raunveruleg og lifandi í okkar lífi. Án kærleikans er trúin innantóm og vonin til einskis.

En „Guðs ríki“ og sá veruleiki sem í því er fólginn er ekki eitthvað sem við búum okkur til sjálf og mun ekki ná endanlegri fyllingu sinni í þessu lífi. Það er fyrir trúna á Guð, traustið til hans og fyrirheita hans, sem „Guðs ríki“ tekur á sig mynd okkar á meðal því að „Guðs ríki“ er hvorki hér né þar heldur er það innra með hverjum og einum. Og ef þú finnur það sannarlega innra með þér þá er það hvar sem þú ferð – þú tekur það með þér og breiðir það út. Jesús lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir þennan veruleika. Hann var tilbúinn til þess að deyja til þess að sýna okkur að þetta er hægt. „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ Og þar með dó hann í okkar þágu og fyrir okkur. Og þess vegna getum við beðið í hans nafni: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.“