Um þessar mundir bar enn svo við, að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar.Láti ég þá fara fastandi heim til sín, örmagnast þeir á leiðinni, en sumir þeirra eru langt að.Þá svöruðu lærisveinarnir: Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?
Hann spurði þá: Hve mörg brauð hafið þér?
Þeir sögðu: Sjö.
Þá bauð hann fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gjörði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum, að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann þakkaði Guði og bauð, að einnig þeir skyldu fram bornir. Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur. En þeir voru um fjórar þúsundir. Síðan lét hann þá fara.Mk. 8.1-9
Hún er fátækleg sú tilvera almennings, sem birtist í frásögnum guðspjallanna. Hungurvofan er hvarvetna á gægjum í þessum sögum, að ógleymdum hvers konar sjúkleika, sem reynt er að bregðast við á ýmsa vegu. Það fer ekki milli mála, að líf alþýðu í landinu helga fyrir einum tuttugu öldum hefur verið líkast þeirri baráttu, sem við sjáum verða um okkar daga í þriðja heiminum svonefnda. Vissulega hefur þar verið auðstétt, sem lifði "dag hvern í dýrðlegum fagnaði" eins og Jesús einu sinni komst að orði. Bændur í Palestínu virðast einnig hafa búið við viðunandi kjör. En í borgum landsins og á vergangi um sveitirnar var sultarlýður, sem tæpast átti málungi matar. Það er þessi skari, sem m.a. flykkist um Jesúm Krist, þegar hann tók að boða fagnaðarerindið um guðs ríki, ríkið þar sem réttlætið býr, eins og segir á einum stað í Guðs orði. Frásagnirnar af mettun svo og svo margra þúsunda eru hluti af sama ferli. Það hefur verið verkefni kirkjunnar á öllum öldum að reyna að ráða í þessar sögur, skýra þær og eða beygja sig fyrir þeim. En allar vitna sögurnar um þann átakanlega vanda, sem Jesús og síðar frumkristnin stendur frammi fyrir. Fólkið, sem flykktist um frelsarann og postula hans var glorsoltið, rétti fram tómar hendur og bað um brauð.
Jesús brást við þessum vanda á sinn hátt. Hvort við nú heldur gerum ráð fyrir, að hann hafi bókstaflega breytt nokkrum smáfiskum og brauðum í vistaforða handa þúsundum ellegar föllumst á þá einföldu skýringu, að frumkvæði Jesú um að miðla af litlu hafi orðið manngrúanum hvatning til að skipta með sér því sem þrátt fyrir allt var til í malpokum sumra, er hitt víst, að Jesús tekur á málinu. Hann er ekki tómlátur um vandræði fjöldans, heldur bregst hann við með þeim hætti, sem honum var tiltækur, - og leysir vandann.
Þetta frumkvæði Jesú varð kristnum mönnum fyrirmynd frá upphafi vega og allt til þessa dags. Þeir voru mjög athafnasamir um fátækrahjálp, hófu reyndar feril sinn með því að stofna sameignarfélag og skipta fjármunum sínum meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á, eins og í Postulasögunni segir. Reyndar fór um þetta kristna sameignarfélag fyrstu aldar á líkan veg og um hin heiðnu sameignarsamfélög 20. aldar. Það varð gjaldþrota, og Páll postuli komst í verulegar kröggur við að draga menn að landi eftir að sameignarfélagið var farið á höfuðið.
En kristnir menn létu ekki deigan síga. Þrátt fyrir fjárhagslegt skipbrot frumsafnaðarins héldu þeir áfram í fátækt sinni við að gera öðrum enn fátækari það gott er þeir máttu. Þeir skipulögðu starfsemi safnaðarins og fólu tilteknum hópi manna að annast líknarstarfið. Þess konar hópar hafa starfað innan kirkju Krists æ síðan.
* * *
Saga kirkjunnar fyrstu þrjár aldirnar einkennist af sömu þjóðfélagsstöðunni og á frumkristnum tíma. Það er aðallega almenningur, sem flykkist um kirkjuna í borgum Rómaveldis, fátæklingar og þrælar. Þessu fólki var kirkjan einstæður valkostur. Hún var á þessum tíma nær eina samfélagið, sem lét stjórnast af mannúð og bauð fátækum liðveislu í félagslegum vanda, en boðaði einnig þrælum og þurfalingum þau alls endis nýju sannindi, að hver einstaklingur ætti sér markmið og tilgang og væri svo mikils virði í augum Guðs, að Kristur væri fyrir hann dáinn og upprisinn og hefði þannig fórnað öllu fyrir hann.
Manngildishugsjón kristninnar var algjör nýlunda meðal borgara hins forna rómverska heims. Meðvitundin um það, að einstaklingurinn skipti máli hlaut að koma þeim mönnum harla mjög á óvart, sem vanir voru að fleygja einstaklingum fyrir villidýr sér til skemmtunar. Þessi tilfinning fyrir einstæðu hlutverki hvers manns gaf kristnum mönnum kjarkinn til að standa á fætur og neita að tilbiðja keisarann og heiðin goð. Það er kraftaverk, þegar einstaklingurinn uppgötvar hjá sér styrk til að taka afstöðu með þeim róttæka hætti í blóra við kúgunarvald og yfirvofandi pyndingar og dauða.
Á fjórðu öld skárust yfirvöld Rómaveldis í leikinn , tóku kristnina upp á arma sína og gerðu hana að ríkistrú. Nú var að finna fulltrúa allra stétta innan kirkjunnar. Bolmagn kristinna manna til að afla fjár handa fátækum og þurfandi stórefldist. Grundvöllurinn var lagður að þeirri umfangsmiklu fátækraframfærslu, sem kirkjan stundaði formlega og skipulega endilangar miðaldir.
Litlu eftir að kristni var lögtekin á Íslandi setti Alþingi á Þingvöllum við Öxará lög um tíund, fyrsta opinbera skattinn í sögu þessa lands. Fjórðungur tíundarinnar rann óskiptur til fátækra, og sýnir sú staðreynd þá siðbreytni, sem ríkjandi var innan heimskirkjunnar á hámiðöldum.
Þannig hélt kirkjan áfram miskunnarverkum sínum öld fram af öld. Og þannig heldur hún enn áfram hjálparstarfi við þá hluta heimsbyggðarinnar, sem í nauðum eru staddir, svo og við þá einstaklinga um Vesturlönd, sem ekki lánast að hagnýta sér úrræði velferðarríkis nútímans.
Um velferðarríki Vestur-Evrópu er það hins vegar að segja, að með tilkomu þeirra hefur í fyrsta sinni í sögu mannanna tekist að leysa þann vanda örbirgðar og mannamunar, sem hér hefur verið gerður að umtalsefni. Enginn vafi leikur á því, að velferðarríkið á sér kristnar hugmyndarætur. Að því leyti má segja, að kristni standi með meiri blóma nú á dögum en nokkru sinni fyrr.
Hér á landi eigum við því láni að fagna, að um velferðarríkið er meiri einhugur en víðast hvar annars staðar í veröldinni. Einu gildir, hvar í flokki menn standa. Upp til hópa eru þeir sammála um að standa vörð um velferðarríkið.
Með þessu er ekki sagt, að velferðarríkið Ísland hafi leyst allan vanda borgara sinna. Því fer fjarri. Hitt er fagnaðarefni, að manngildishugsjón kristninnar skuli svo mjög hafa rutt sér til rúms í íslensku samfélagi, að allir eru einhuga um vægi hennar. Hér þarf ekki að metta fjórar þúsundir manna með sjö brauðum og fáeinum smáfiskum. En hér þarf að leysa úr margvíslegan örðugleikum einstaklinga og hópa í nafni kristilegs kærleika og mannúðarstefnu. Okkur er ætlað að ganga til þeirra verka með vísun til hans, sem forðum kenndi lærisveinum sínum að leysa mikinn vanda af litlum mætti.-
Hér að framan var bent á manngildishugsjón kristninnar, en hún er uppspretta þeirrar jákvæðu þróunar, sem kirkjunni fylgdi og í dag hefur borið svo jákvæðan ávöxt meðal okkar. Ég gat þess einnig, að manngildishugsjónin rekti rætur til þeirra nýju sanninda, að hver einstaklingur eigi sér markmið og tilgang og sé svo mikils virði í augum Guðs, að Kristur sé fyrir hann dáinn og upprisinn.
Við þennan kjarna skulum við staldra í lok þessa máls. Það er hann, sem er hinn upphaflegi hornsteinn velferðar um Norðurlönd á okkar dögum og hvarvetna, ævinlega. Þú, hlustandi minn góður, ert svo mikils virði sem einstaklingur, að Drottinn Guð fórnaði syni sínum á krossi til að friðþægja fyrir syndir þínar og ávinna þér sáluhjálp bæði þessa heims og annars. Þegar þú í skírninni varst merkt með tákni hins heilaga kross á enni og brjóst, lýsti frelsarinn því yfir á torgi himinsins, að þú værir réttlætt, réttlættur og hólpinn. Hvert sinn sem þú ferð með miskunnarbæn í upphafi messu eða á annan hátt biður Guð fyrirgefningar í iðrun, lýsir hin upprisni því yfir á sama torgi, að hann hafi tekið á sig hverja synd þína . Þér er því heimilt að hvíla huga þinn í trú og í fullnaðartrausti þess, að þér sé borgið um tíma og um eilífð. Með miskunnarbæn á vörum, í iðrun og vissu um fyrirgefningu syndanna,ert þú og hver sá einstaklingur annar, er þannig hugsar, fullsáttur borgari í velferðarríki á jörðu og að svo búnu í ríki Guðs á himnum að eilífu.