Grét Guð á Menningarnótt ?

Grét Guð á Menningarnótt ?

Sorg og reiði. Hvorttveggja kemur sterkt fram í Jesú í guðspjallinu. Það undirstrikar mennsku hans um leið og við getum einnig horft á miklar tilfinningar hans sem tilfinningar Guðs, tár Jesú eru tár Guðs þegar ónauðsynlegur sársauki og þjáning mannkyns birtist

Og er hann kom nær og sá borgina, grét hann yfir henni og sagði: Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi, hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum. Því að þeir dagar munu koma yfir þig, að óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér, vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma. Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningjabæli. Daglega var hann að kenna í helgidóminum, en æðstu prestarnir og fræðimennirnir svo og fyrirmenn þjóðarinnar leituðust við að ráða hann af dögum, en fundu eigi, hvað gjöra skyldi, því að allur lýðurinn vildi ákaft hlýða á hann.Lúk.19.41-48
Sorg og reiði.  Hvorttveggja kemur sterkt fram í Jesú í guðspjallinu, sem ég las fyrir ykkur hér áðan.  Það undirstrikar mennsku hans um leið og við getum einnig horft á miklar tilfinningar hans sem tilfinningar Guðs, tár Jesú eru tár Guðs þegar ónauðsynlegur sársauki og þjáning mannkyns birtist vegna bjánalegrar uppreisnar gegn vilja Guðs. Jesús kemur til Jerúsalemborgar. Guðspjallið er tvíþætt, annars vegar þegar Jesús grætur yfir borginni og hins vegar þegar Jesús er kominn inn  í borgina og sér alla þá sölumennsku og afhelgun, sem átti sér stað í musterinu, viðbrögð hans verða slík að hann hrindir borðum víxlarana og sýnir vanþóknun sína, svo ekki verður um villst.

Jesús var að koma frá svokölluðu Olíufjalli og horfir yfir borgina, stórkostlegt útsýni, en þrátt fyrir fagurt útsýni tók hann að gráta yfir borginni, því hann vissi hver örlög hennar yrðu.  Við verðum vitni að spámannlegum vexti Jesú, þar sem hann sá þarna fyrir fall Jerúsalem, en eins og mörg okkar vitum að þá var Jerúsalem lögð í rúst árið 70 eftir Krist og á þann hátt að sagnir herma að það hafi verið hægt að draga plóg fram og aftur í miðju hennar. Aðeins ein staðreynd kæmi í veg fyrir þessar hörmungar og hún væri sú að ef gyðingar myndu hlýða kalli og boði Jesú að þá færu hlutirnir ekki á þessa leið, þá myndi hin helga borg standa keik og þjóna sínu hlutverki á sómasamlegan hátt.  Með þessa vitneskju grét Jesús, tár hans voru sönn, tár hans voru tilkomin vegna ástúðar hans og umhyggju í garð fólksins.  Hann vildi aðeins eitt, hann vildi koma í veg fyrir þennan stóra dóm sem varð, en fólkinu varð ekki viðbjargandi.

Já, þeim varð ekki viðbjargandi, í heil þrjú ár hafði Jesús lagt sig fram um að koma fólkinu í skilning um einstaka elsku Guðs og að sú fórnfúsa elska birtist í honum sjálfum, eilítill skilningur og trú á það kæmi í veg fyrir harmleikinn stóra, en trú fólksins var heldur rýr þannig að þrátt fyrir kraftaverkin, öll undrin og stórmerkin, að þá var vitinu ekki komið fyrir það.  Þar sannar það sig enn og aftur að kraftaverkin eru ekki næg ein og sér. Saga Jerúsalem hefur síðan verið ein sorgarsaga, saga sem hefur einkennst af brostnum vonum og glötuðum tækifærum, eina ljósið í myrkrinu er krossinn, sem einn morguninn stóð auður fyrir utan borgina, lífið hafði sigrað dauðann og það eina sem í raun gat rofið þetta sorgarmynstur borgarinnar, öll þessi áföll og hörmungar var að meðtaka lífsins sigur, trúa á hann, hið sanna líf í Kristi, sem blekkir ekki og reynir ekki að ljúga á nokkurn hátt.

En margar sálir eru því miður á sömu línu og borgin helga, komast ekki út úr mynstrinu, ná ekki að rjúfa það vegna þess að það eru öfl, sem eru stöðugt að hvísla í eyru þeirra, Jesús er svikari, láttu hann ekki plata þig, hann er falsspámaður, taktu mark á mér, ég veit hvernig ég á að láta þér líða vel, ég veit hvernig þú átt að haga þér til þess að komast auðveldu leiðina í gegnum lífið.  Þannig talar djöfullinn og þyrnum stráð brautin á sér engan endi. Mér var hugsað til þessa einmitt þegar ég horfði framan í andlit vansællra barna, sem ráfuðu eftirlitslaus á Arnarhóli á menningarnótt.  Engir foreldrar, enginn sem sýndi þeim áhuga eða löngun til samveru og á meðan hvíslaði brennivínið að þeim, það hefur enginn áhuga á þér hvort eð er, ég skal fylla líf þitt merkingu, ég skal láta þér líða vel, þú þarft ekki að finna fyrir neinum sársauka og ungar og viðkvæmar sálir á mótunarskeiði áttu auðvelt með að meðtaka þessi skilaboð Bakkusar.  Ég hugsaði með mér og varð litið í augu barna minna um leið, hvernig í ósköpunum er hægt að láta börnin sín afskiptalaus með þessum hætti, við þessar kringustæður, þessi blessuðu börn sem bjuggu yfir svo lágri sjálfsmynd, að þau þorðu ekki að draga hettuna upp fyrir höfuð, enda tel ég harla ólíklegt að þau hafi nokkurn tímann hlotið hvatningu né hrós það sem af er þeirra stuttu ævi.  Syndir feðranna eflaust í fullri virkni, foreldrarnir ef til vill fullir hér og þar og allsstaðar eða hvað?  Maður á erfitt með að hugsa það öðruvísi, því það þarf ekki nema gramm af dómgreind og teskeið af væntumþykju til þess að láta sér ekki standa alveg á sama.  Jesús brýtur upp mynstur sem þetta, hann er leið út úr feðrasyndinni, því hann er fyrirgefning, það sem þarf að gera er að meðtaka auðan krossinn einhvern morguninn þegar fyllerísmórallinn ætlar allt um koll að keyra.

Talandi um syndir feðranna og til þess að árétta það. Ég þekki raunverulegt atvik sem átti sér stað eina menningarnótt fyrir nokkrum árum síðan.  C.a. 10 ára gamalt barn var á ráfi fyrir utan eina knæpuna í miðbænum.  Vegfaranda fannst þetta með öllu óeðlilegt, enda komið fram yfir miðnætti.  Vegfarandinn spurði barnið hvað það væri að gera svona seint eitt í miðbænum.  Það svaraði því til að það væri með foreldrum sínum.  Vegfarandinn sá enga foreldra og spurði því hvort barnið vissi um foreldra sína.  Það kvað svo vera og vegfarandinn fór með barninu inn á næstu búllu og þar sátu foreldrarnir blindfullir við barinn.  Þegar vegfarandinn gaf sig á tal við drukkna móður og benti á barnið hennar, að þá varð móðirin æf og gerði sig líklega til þess að ganga í skrokk á miskunnsama samverjanum. Þegar við heyrum af svona atviki að þá spyrjum við okkur, við hverju er hægt að búast af börnunum og hugsið ykkur ef allir tækju svona á foreldrahlutverkinu, þá værum við t.d. að tala um hörmulegt fall borgarinnar, fall þjóðfélagsins í heild sinni og bólgin fangelsin myndu springa. 

Sem betur fer standa margir foreldrar sig í stykkinu og finna til ábyrgðar sinnar, en af mörgum vansælum og óhamingjusömum unglingum að dæma síðustu menningarnótt, ráfandi með áfengisflöskur í vösunum og ótta og kvíða í  augum, að þá er augljóslega víða pottur brotinn.  Þess vegna er það líka með öllu ómögulegt að “ábyrgir” miðlar séu að auglýsa áfengið sem besta vininn í sjónvarpinu, hvaða skilaboð er verið að senda í því tilliti, vilt þú að besti vinur barnsins þíns sé Faxebjór, hvaða vitleysa er þetta eiginlega, Jesús grætur alveg jafnmikið yfir slíkum skilaboðum, yfir skuggum Reykjavíkurborgar á menningarnótt sem og öðrum nóttum, eins og hann grét yfir Jerúsalemborg forðum. Við hjónin keyrðum eftir flugeldasýningu heim á leið með börnin okkar í aftursætinu.  Þegar við vorum komin áleiðis lá maður ofurölvi á götunni, við þurftum að nema staðar og það var fólk að stumra yfir honum og styðja hann af veginum, það hafði drukkið eitthvað aðeins minna. Maðurinn var með öllu ósjálfbjarga, það minnti mig enn og aftur á vanmátt manneskjunnar, eins og við getum verið skapandi, menningarleg á margan hátt og jafnvel svo viss um okkur að við teljum okkur ekki þurfa á Guði að halda, að þá getur kvöldið endað svona, menn liggja eins og  ósjálfbjarga börn á stórri umferðargötu, það má þakka fyrir að ekki fór verr. 

Þessi hugsun var síðan að hverfa úr huga mér þegar við vorum komin vel áleiðis heim á leið. Þá benti sonur minn á mann sem sat á bekk og hann spurði hvað maðurinn væri eiginlega að gera.  Mér varð litið á manninn og þá var hann að æla í poka í fínu og flottu jakkafötunum sínum.  Sú sýn birti þá hugsun hvort það væri ef til vill meira til af fjármunum hér í þessu samfélagi okkar en trú, von, bænum og öðrum huglægum gæðum?  Það var ekkert óeðlilegt að hugsunin sú læddist að við að sjá þessa óhamingju á bekknum.

Og talandi um peninga og huglæg gæði.  Þegar Jesús var kominn inn í borgina og gekk inn í musterið, þar sem huglægum gæðum var gjarnan miðlað, að þá sá hann það að peningar höfðu komið alveg í staðinn.  Nóg var nú um aðra staði samt þar sem hægt var að eiga viðskipti, að ekki væri búið að gera það athvarf, sem musterið var, að peningamiðstöð líka.  Þess vegna reiddist Jesús, því hann vissi betur, hann vissi að mannssálin þarf á fleiru en peningum að halda, hún þarf næringu sem felst í trú, von og kærleika. Við vitum að landsslag fjármála hefur breyst með skjótum hætti hér á landi, landsslag sem margir hafa hreinlega ekki náð ennþá og þess vegna helst úr lestinni.  Hugsið ykkur ef guðsþjónusturnar væru í boði KB banka eða Glitnis, þá væri hvergi friður, hugsið ykkur þau forréttindi að geta gengið inn Guðshús þessa lands, átt þar athvarf til bænaiðkunar og athvarf til þess að greina hismið frá kjarnanum og hugleiða þannig hin raunverulegu lífsgildi, sem ganga ekki út á peninga eða fagrar fasteignir.

Það fer augljóslega í taugarnar á Jesús þegar kirkjan er farin að glata  hlutverki sínu. Húsið hans á ekki að vera neitt annað en bænahús.  Í því ljósi megum við stöðugt vera á varðbergi.  Það má t.a.m. ígrunda vel þátt tónlistar og iðkunar hennar í kirkjum landsins.  Kirkjur eiga ekki að vera neinar tónlistarhallir, allra síst vegna skorts hér á landi á aðstöðu fyrir tónlistarfólk, sem er eitt og sér óbærilegt ástand í reynd.  Góð og falleg tónlist flutt í kirkjum er yndisleg, en tónlistin á vissulega að þjóna boðuninni, þjóna bæninni, þjóna boðskap Guðs, en það má alls ekki taka á sig öfuga mynd eins og við vitum.

Þegar sú hugsun um það að hlutverk kirkjunnar megi ekki týnast í einhverju öðru, sem er miklu ómerkilegra, að þá dettur mér alltaf í hug saga, þar sem segir frá björgunarskýli, sem var reist á strönd einni, en þar höfðu oft orðið skipaskaðar. Á ströndinni voru til staðar hörkutól úr björgunarsveitinni, sem voru ávallt viðbúin hinu versta.  Sumir þeirra, sem höfðu hlotið björgun á þessum slóðum, ánöfnuðu björgunarskýlinu mikla fjármuni, tíma og erfiði og voru fjármunirnir notaðir til þess að kaupa nýja björgunarbáta og þjálfun handa starfsfólki. Sífellt meiri peningar komu inn í batteríið og starfsmenn stækkuðu og betrumbættu björgunarskýlið, þar til það var orðið að mjög flottri aðstöðu og á endanum vinsælum samkomustað starfsmanna.  Skýlið var orðið svo glæsilegt að þegar næsta skipbrot varð, að þá ríkti ringulreið í skýlinu glæsta því mönnum fannst það ekki hægt að draga þangað inn skítuga og blauta erlenda sjómenn. Þegar fram liðu stundir voru flestir á því máli að skipbrotsmenn væru bara röskun á öflugu félagsstarfi í skýlinu glæsta og þess vegna var nýtt skýli byggt og aftur varð sama þróunin, einmitt vegna þess að menn voru búnir að steingleyma upprunalegu hlutverki þess, jafnvel þótt að gamall björgunarbátur héngi uppi til minningar um afrek fortíðar. Við verðum að vera öll sammála um það að krossinn á ekki að hanga uppi til minningar um afrek fortíðar, krossinn á að vera okkur lifandi tákn um aldur og eilífð, til merkis um það að Jesús dó fyrir alla menn, að Jesús dó fyrir syndir okkar mannanna, sem hann grét yfir vegna ríkrar elsku sinnar í okkar garð.

Við göngum til helgrar athafnar hér í kvöld, er við tökum við þeirri máltíð, sem Kristur stofnsetti hér á jörðu. Sú máltíð felur í sér næringu fyrirgefningarinnar, næringu huggunarinnar, næringu þeirrar lífsfyllingar er felst í Guðs góðri sáluhjálp, við erum að tala um altarissakramentið, sem sannfærir okkur um sannleika þeirra orða, sem Jesús kvaddi lærisveina sína með og bað þá að hafa til marks, “Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar”.  Með þessi lokaorð getum við staðið föstum fótum á þeim lífsins grundvelli, sem Kristur er, þá stöndum við sterkari gegn þeim illu öflum, sem herja á í tíma og ótíma og geta gert okkur algjörlega ósjálfbjarga gagnvart lífi og tilveru.  “Verið algáðir, vakið, djöfullinn gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann getur gleypt.  Standið gegn honum, stöðugir í trúnni.”