Nú á nýliðinni aðventu var að vanda mikið um dýrðir hér í Neskirkju. Meðal annars efndum við til hátíðar þar sem fermingarbörnin gegndu stóru hlutverki. Þau héldu á kertum, lásu texta og eitt þeirra, lék fyrir okkur metnaðarfullt verk á fiðlu.
Fagnaðarlæti í miðju lagi
Þessi stúlka hefur náð langt í sinni listgrein og hreif fulla kirkjuna með tónlist sinni. Nema hvað, að svo mjög lá fólki á að þakka henni fyrir framlag sitt að á einum stað í miðju verkinu, þegar tónskáldið hafði komið fyrir dramatískri þögn, vildi ekki betur til en að salurinn tók að klappa af miklum krafti. Listamaðurinn þurfti að gera hlé á fiðluleiknum og gefa til kynna að verkið væri hreint ekki búið. Þá þögnuðu gleðilætin og tónlistin gat hljómað að nýju.
Ég hugleiddi þetta með sjálfum mér þegar athöfnin var að baki. Viðbrögð áheyrenda voru auðvitað dæmigerð. Öll viljum við færa innilegar þakkir fyrir vel unnið verk og í tilviki sem þessu er venjan sú að fólk klappi saman lófum af hrifningu. Við í kirkjunni fáum stundum bágt fyrir er við leggjumst gegn því að fólk sýni tilfinningar sínar með þessum hætti við messur eða aðrar athafnir. Þegar ég gef saman brúðhjón, spyr ég þau stundum hvort ég megi biðja gesti um að bíða með klapperíið þar til þau hafa játast hvort öðru og staðfest það með innilegum kossi.
Allt er jú best í hófi og stundum er sagt að magnið felist í takmörkunum, eða eins og enskir segja: less is more. Mörg þeirra kjósa einmitt slíka hófstillingu því þá verður allt tilkomumeira þegar gestir opna hjörtu sín.
Það er einmitt þetta með þögnina. Þar sem þögnin fær að njóta sín verða tónarnir áhrifameiri og við njótum þeirra betur.
Jóladagur
Nú er jóladagur gengin í garð og við söfnumst hér saman í helgidómnum. Þessi dagur er um margt sérstakur. Nú er allt lokað. Enginn erill á götum úti verslanir og samkomustaðir opna ekki fyrr en á morgun. Að baki er asi aðventunnar, gleði og glaumur aðfangadagskvölds og vonandi góð næturhvíld. „Nú mega jólin koma fyrir mér“ segja gárungarnir þegar þeir eru búnir að þræða sig í gegnum tossalistana. Þá getum við spurt okkur, og hvað svo? Hvað gerist þegar jólin ganga í garð? Er það framhald af hljómkviðu aðventunnar og mögulega hversdagsins?
Eða hafa þau annan blæ? Eru jólin mögulega einmitt þetta – þagnarmerki í þéttriðnu neti nótna í lífinu sem krefjast þess að við séum í sífellu á útopnu. Kemur þá skyndilega að þessari kúnstpásu á almanaksárinu.
Á þessari stundu líður mér eins og mikil og hávær fagnaðarlæti séu að baki. Klapp og blístur hafi loks þagnað og fólk getur horft í kringum sig eins og lífið og tilveran haldi áfram göngu sinni, nú eða að kominn er tími fyrir annars konar túlkun. Nú erum við enn í faðmi hátíðarinnar. Hvíldin tekur við af erlinum og við finnum að sálin þarf á slíku að halda.
Ljósið í myrkrinu
Það er líka einhver umvöndun fólgin í orðum guðspjallamannsins í texta jóladags. Þau eru af allt öðrum toga en þekkt jólasaga Lúksasar og Mattheusar þar sem hirðar og vitringar koma við sögu. Hérna er talað um ljós og myrkur þessar stærstu andstæður tilverunnar. Þegar við leitum líkinga um líðan okkar og ástand koma þessi tvö hugtök gjarnan fyrir. Þau vísa allt aftur í upphafsorð Biblíunnar – þar sem sköpun heimsins er lýst.
Þess hefur verið minnst nú á dögunum að fyrir fimmtíu árum, um jólin 1968 flaug Appóló 8. geimfarið á braut um tunglið og myndaði magnaðar myndir af jörðinni baðaða ljósi þar sem hún rís handan við mánann. Atburðinum var sjónvarpað og fólk beið í ofvæni eftir skilaboðum frá þessum geimförum. Þeir höfðu tekið Biblíu með sér og eftir að ferðalangar lýstu því að þeir urðu vitni að sólarupprás á tunglinu, hófu þeir að lesa upp úr Biblíunni:
Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Jörðin var þá auð og tóm og myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötninunum. Og Guð sagði: Verði ljós!
Þeir túlkuðu lotninguna yfir því að horfa á þessa plánetu okkar með þessum hætti. Ári síðar þegar fyrstu menn lentu á tunglinu þá gengu þeir til altaris á þeim slóðum þótt það hefði ekki farið fram fyrir augum myndavélanna.
„Í upphafi var orðið“ segir í þessum texta guðspjallamannsins og vísar aftur til upphafsins.
Þessi orð minna okkur á inntak jólanna og eins og ljós og myrkur verða að líkingum um líðan okkar og ástand geta þau vísað til ólíkra þátta. Tilvera okkar í dag minnir á athöfn þar sem fagnaðarlætin koma hvert af öðru og þau nánast renna saman í eitt. Sum þeirra koma alltof snemma og það er eins og allt ferlið riðlist. Andrýmið verður alltaf fágætara. Kliðurinn, skvaldrið já hávaðinn inn í fleiri kima tilverunnar og kyrrðin, tómarúmið og plássið verða að fágætum munaði. Þar sem búið er að fylla hvert pláss, hvern krók og kima af hlutum og glingri, og hverja vökustund af erli verður ljósið í myrkrinu miklu fremur næðið og kyrrðin sem er okkur svo nauðsynleg.
En tónlistin gefur okkur líka vísbendingu um það hvernig við getum undirbúið okkur fyrir stórfengleg tíðindi. Snjallir listarmenn kunna að semja verkin og flytja þau þannig að áheyrendur eru með einhverjum hætti undirbúnir fyrir það sem í vændum er. Stígandi, upptaktar og undirleikur eru gjarnan notuð þegar að þessu kemur – og allt vinnur þetta að því að gera hápunktinn ennþá stórfenglegri og eftirminnilegri.
Þögnin er jafn mikilvæg og tónarnir og á okkar dögum þar sem plánetan okkar fallega stynur undan ágangi mannsins verður ákallið æ meira um að skapa svigrúm fyrir hvíld og næði. Ekki aðeins fyrir öþreyttar sálir mannanna heldur líka fyrir sjálft vistkerfið.
Já, það er kannske ekki fallega gert að rifja það upp þegar messufólk klappaði mitt í áhrifaríkri kúnstpásu í miðjum fiðluleiknum. En skilaðboðin finnast mér svo sterk um mikilvægi þess að gefa sér tóm í erli dagsins og að umfaðma jólahátíðina einmitt í því skyni að fá frið í sálina. Fátt eykur meir á áhrifamáttinn en það þegar tónskáldið nemur staðar eitt andartak – gerir svolitla kúnstpásu þar sem eyru okkar opnast og við fyllumst eftiræntingu fyrir því sem að höndum fer. Þetta megum við líka gera. Já nú þegar jólin eru komin skulum við fanga þau hughrif sem þau senda okkur um ljósið og friðinn sem skín til okkar í gegnum rökkur síbyljunnar.