Biblían er sérstök og einstök bók. Í raun er hún ekki ein bók heldur safn bóka, enda þýðir orðið Biblía margar bækur og frá henni er komið útlenda orðið Biblíótek eða bókasafn. Biblían er safn bóka er varð til á löngum tíma og stendur því á gömlum merg. Elstu bækur Biblíunnar, ritaðar á hebresku, geyma sögur og munnmæli frá því um árið 1300 fyrir Krist og var þeim safnað í Gamla testamentið ásamt yngri spádómsritum Ísraelsmanna um fæðingu Jesú.
Elstu hlutar Biblíunnar eru því þrjú þúsund ára gamlir eða meir. Yngstu ritin eru frá því fáum áratugum eftir krossfestingu Krists og upprisu. Allar götur síðan hefur Biblían verið ein af uppsprettum menningar í veröldinni. Myndlist heimsins og tónlist, skáldskapur og bókagjörð rekja að nokkru leyti rætur til Heilagrar ritningar. Siðferði og samfélagssnið eiga sama uppruna, að ógleymdum trúarhugmyndum manna og tilverugrundvelli hvarvetna þar sem kristnin hefur skotið rótum í aldanna rás. Sá sem vill vera læs á samtíð sína, umhverfi og rætur, ætti að gera sér far um að lesa Biblíuna og brjóta hana til mergjar eftir því sem hann getur.
Gamla testamentið eins og við köllum það er í raun hebreska Biblían eða Biblía gyðinga og greinir frá sögu og reynslu Ísraelsþjóðarinnar fyrir fæðingu Jesú. Úr hebresku Biblíunni er lesið í samkunduhúsum gyðinga um allan heim á helgum stundum. Tengir það okkur saman kristna og gyðinga og er sameiginlegur arfur okkar. Þegar við kritnir menn lesum Gamla testamentið, þá lesum við það í ljósi Jesú og leggjum höfuð áherslu á þær bækur þess sem hann lagði áherslu á. Má þar sem dæmi nefna Davíðs sálma og spádómsbók Jesaja.
Nýja testamentið segir söguna af lífi, starfi, dauða og upprisu Jesú og geymir einnig bréf og frásagnir frá fyrstu árum kirkjunnar. Nýja testamentið var orðið til í endanlegri mynd um árið 150 eftir Krist, þannig að bækur og rit Biblíunnar spanna um 1500 ár.
Elsti texti Nýja testamentisins er talinn vera Fyrra Korintubréf sem Páll postuli skrifaði árið 45, aðeins 15 árum eftir krossfestingu Jesú. Öll önnur rit þess urðu til fyrir árið 100, skrifuð af mönnum sem höfðu fylgt Jesú og geymt í minni sér öll hans orð og verk. Þannig að heimildagildi Nýja testamentisins er mjög mikið, öfugt við það sem margir halda gjarnan fram. Engar heimildir fornaldarinnar eru eins traustar og þær sem segja okkur frá æfi og starfi Jesú og fyrstu árum kirkjunnar í Nýja testamentinu. Guðspjöllin sjálf byggja á vitnisburði lærisveina Jesú og túlkun þeirra á sögu hans. Hefðin segir til dæmis að Pétur postuli hafi verið heimildarmaður Markúsarguðspjalls, sem er elsta guðspjallið.
Rit Biblíunnar eru margbreytileg. Í Biblíunni er að finna sögulegar frásagnir, lagabækur, ljóð, spekirit og spádóma, sendibréf , íhuganarrit og þjóðsögur svo fátt eitt sé talið. Í öllum þessum ritum, bæði hinum yngri og eldri mætum við Orði Guðs. Þar fáum við að heyra um það hvernig Guð hefur talað til manna, sem aftur miðla upplifun sinni til okkar. Og þeir segja okkur líka frá því hvernig Guð hefur gripið inn í söguna. Þannig eru rit Biblíunnar verk manna, skrifuð af mönnum og þess vegna er nauðsynlegt að rannsaka þau sem slík, hvernig þau urðu til og hvers vegna, hvert samhengi þeirra er og svo framvegis. Og það þarf líka að rannsaka heimildagildi þeirra með aðferðum vísindanna eins og gert er á fræðastofnunum víða um heim.
Ef við leyfum ritunum að tala til okkar, leyfum þeim að vera það sem þau eru, frásagnir manna af því hvernig þeir hafa mætt Guði, þá er boðskapur þeirra dýpri og sterkari en nokkur annar boðskapur á jörðinni.
Öll rit Biblíunnar lesum við kristnir menn fyrst og fremst í ljósi Jesú Krists eins og ég nefndi hér fyrr. Þess vegna köllum við hebresku Biblíuna Gamla testamentið, því hún segir frá hinum gamla sáttmála Guðs við mennina. Jesús er aftur á móti hinn nýji sáttmáli, hið Nýja Testamennti. Við túlkum lögmál Gamla testamentisins út frá orðum Jesú og við njótum Davíðssálmanna í ljósi hans. Þegar við t.d. lesum sálminn “Drottinn er minn hirðir” sem saminn var löngu fyrir fæðingu Jesú, hugsum við þá ekki alltaf um hirðinn Jesú? Og þannig mætti lengi telja. Því allan boðskap Biblíunnar má draga saman í boðskap Jesú. Í orðum hans, lífi hans og dauða, kom Orð Guðs til okkar. Postularnir predikuðu fagnaðarerindið um Jesú og vitnuðu í spádóma Gamla testamentisins til að útskýra um hvað þeir voru að tala. Í þeirra huga snerist öll Biblían um Jesú einan. Og enn í dag túlkum við kristnir menn orð ritningarinnar í ljósi hans. Þess vegna hefur boðskapur hennar haft eins mikil áhrif og raun ber vitni.Umhyggja okkar fyrir þeim sem minna mega sín er rakin til orða Jesú, Gullnu reglunnar og tvöfalda kærleiksboðorðsins svo tvö dæmi séu nefnd. Þessa speki er ekki að finna í nokkru öðru trúarriti- höfum það hugfast.
Oft á tímum hefur orð Biblíunnar orðið til þess að velta um koll óréttlátu þjóðfélagskerfi og gefa mönnum kjark til að sækja fram til frelsis og réttlætis.
Biblían er nefnilega byltingarrit öðru fremur. Þess vegna hefur hún löngum verið bönnuð þar sem harðstjórn ríkir. Því kúgararnir vilja vinna verk sín í myrkrinu þar sem enginn sér til, en orð Biblíunnar lýsir upp myrkrið og opinberar verk myrkursins.
Biblían hefur líka haft úrslitaáhrif á varðveislu okkar tungu og menningar. Íslendingar hafa verið handgengnir henni frá því á miðöldum. Kapítular og erindi úr því mikla ritsafni, sem Biblían er, voru þýdd á íslensku fyrir einum átta hundruð árum eða meir. Allar götur síðan hefur Orð Guðs átt þátt í að móta tungu landsmanna.
Á sextándu öld voru Nýja testamentið og síðan Ritningin öll prentuð og gefin út á íslensku. Með þessu móti áttu siðbótarmenn meiri þátt í því en nokkrir aðrir að þróa tungu okkar á síðari öldum. Það sést best á frændum okkar Norðmönnum sem áttu Biblíuna ekki á eigin tungu.