Börnin í öndvegi!

Börnin í öndvegi!

Nú er talað um að endurmeta þurfi grunngildin. Ég er ekki sammála því. Það þarf ekkert að endurmeta gildin en það þarf að ...

Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau. Mrk 10.13-16

Birna litla skrifaði Guði bréf og sagði:

Kæri Guð. Það hlýtur að vera erfitt fyrir þig að elska alla í heiminum. Við erum bara fjögur heima og mér tekst það aldrei.

Eins og þið sjáið er kirkjan vettvangur kynslóðanna. Hingað mætir stór hópur fólks hvern helgan dag til uppbyggingar. Börnum þykir gaman að koma í kirkju og þau taka vel eftir. Þau skynja kliðinn við upphaf messunnar, tónlistina, litina, ljósin og fólkið. Þau hafa yndi af að sækja kirkju. Þau eru einlæg og tær í hugsun og tilsvör þeirra oft algjör snilld. Við getum margt af börnum lært.

Afstaða Jesú til barna var einstök. Guðspjall dagsins sýnir okkur undursamlega mynd af kærleika Guðs. Hann umvefur. Hann snertir. Hann brosir og hlær. Sjáið fyrir ykkur þessa mynd þegar fólkið kemur með börnin til Jesú. Lærisveinarnir taka sig alvarlega og finnst þeir vera mikilvægir, vilja aftra fólkinu frá því að trufla meistarann. En þá bregst hann við á þennan óvænta hátt. Hann upphefur barnið sem slíkt og gerir það að fyrirmynd okkar allra.

Börn eru yndisleg og þeim þarf að búa gott umhverfi og atlæti í alla staði. Börnin eru framtíð þessa lands. En hvernig mun börnum okkar reiða af í þjóðfélagi sem hefur verið á flótta frá hinum gömlu og góðu gildum sem þjóðfélagið hefur byggt á í þúsund ár? Nú má ekki lengur kenna börnum um kristna trú í leikskólum. En það má kenna þeim vikum saman um Grýlu og Leppalúða, álfa og tröll, hindurvitni og hjáfræði. Það má kenna þeim lélegan kveðskap og bullkvæði um allt og ekkert en alls ekki sálma. Það má hafa yoga-stundir, austræna íhugun, en ekki biðja að kristnum sið. Ég hef ekkert á móti yoga eða austrænni íhugun en hendum ekki kristninni út um leið og við sýnum öðrum straumum og stefnum virðingu. Og allt er það gert í anda hlutleysis. Hlutleysi er útópískt orð, staðleysa, því hlutleysi er ekki til. Allir sem tala eða tjá sig gera það af tilteknum sjónarhóli. Við erum kristin þjóð og eigum ekki að skammast okkar fyrir það. Við stæðum líklega í öðrum sporum í dag en raun ber vitni ef við hefðum lifað betur í anda hinna góðu gilda. Nú er talað um að endurmeta þurfi grunngildin. Ég er ekki sammála því. Það þarf ekkert að endurmeta gildin en það þarf að endurmeta stefnuna og snúa aftur til gildanna. Villtur maður þarf að snúa við, fara aftur á byrjunarreit og reyna svo að komast að næstu vörðu. Hið guðfræðilega orð iðrun er á grísku metanoia sem merkir að snúa við, fara aftur á byrjunarreit, að uppsprettunni og byrja upp á nýtt. Við þurfum að iðrast sem einstaklingar og þjóð, fara á byrjunarreitinn og hefja nýja ferð til framtíðar.

Heimurinn þarf að iðrast, rammvilltar þjóðir þurfa að iðrast. Nöturlegt hefur verið að horfa uppá fórnarlömb innrásarinnar á Gazasvæðið á liðnum vikum. Þar eru börn ekki síst á meðal fórnarlamba. Einn daginn sást barn í sjónvarpsfréttum sem eitt lifði 11 manna fjölskyldu sem fórst í árás á heimili þess. Og hvað verður um börn sem upplifa ógn og skelfingu alla daga? Verða þau ekki hryðjuverkamenn framtíðarinnar eins og einhver hélt fram í fréttum? Ekki ver ég árásir Hamas og þaðan af síður margfaldar greiðslur Ísraelsmanna til baka. Þar er farið langt út fyrir hið gamla boð auga fyri auga og tönn fyrir tönn. Nóg um það.

Börn þarfnast elsku, þau þurfa að læra um grunngildi og um eilífa elsku Guðs til allra manna. Börnum er eðlislægt að trúa á Guð og skynja hið stóra samhengi. Í grein í Kirkjuritinu eftir sr. Halldór Reynisson, Glitnisbróður og kollega, er ber heitið Andlegt líf og guðfræði barnsins vitnar hann í rannsóknir breskra fræðimanna, David Hay og Rebeccu Nye, sem rannsakað hafa andlegt líf barna. Hay, sem er dýrafræðingur, „heldur því fram að þörfin fyrir trú eða andlegt líf sé hluti af lífshvötinni, því að lifa af.“

En svo segja þau „að þegar vitsmunaþroski barnanna fer að segja til sín í kringum 10 ára aldurinn og þau fara að skynja þann heim skynsemishyggju og upplýsingastefnu sem einkennir Vesturlönd, þá læri þau í leiðinni að bæla andlegt líf sitt, - það sé hluti af barnaskapnum sem þau þurfi að þroskast upp úr svo að þau verði fullorðin og tekin alvarlega.“

Ætli við þekkjum ekki flest þessa þróun í eigin sálar- og trúarlífi? Höfum við bælt þessa eðlislægu trú eða látið hana daga uppi sem óþroskaða barnatrú meðan aðrir þættir sálarlífsins þroskuðust? Nýlega heyrði ég sálfræðing halda því fram að við séum ekki hæf til að ná trúarlegum áttum aftur fyrr en um eða upp úr 35 ára aldri.

Og úr allt annarri átt.

Bandaríski nóbelshöfundurinn Kurt Vonnegut hafði tvær kenningar um manninn. Hann væri í fyrsta lagi ekki hannaður til þess að verða eldri en fertugur. Þetta sæist á því að þegar fólk verður fertugt sækir að því mikill leiði, það verður eirðarlaust, vill breyta til, byrja upp á nýtt, skilja við maka sinn, skipta um starf, flytja af landi o.s.frv. Hin kenningin fjallar um að maðurinn hafi of stóran heila. Hann noti ekki nema brot af honum en hins vegar gerist ótrúleg ævintýri í hinum hlutanum! (Úr Lesbók Mbl. 10.1.09)

Já, það er vandlifað! En finnst ykkur það ekki spennandi áskorun að vera maður? Eða verðandi maður? Við erum í mótun alla ævina. Líf okkar er vegferð frá vöggu til grafar og mikilvægt að ná áttum meðan hægt er, meðan enn er dagur. Og á þeirri vegferð eigum við að vera barnsleg og einlæg en ekki barnaleg. Börn geta auðvitað líka verið þetta hvort tveggja.

Börn eru tær í hugsun og sumt sem þau segja þykir okkur fyndið eins og til að mynda þessi hógværa kveðja sem Didda skrifaði Guði:

Kæri Guð. Takk fyrir litla bróður minn en ég bað nú bara um brúðu.

Annað bréf frá Óla:

Kæri Guð. Ætlaðirðu að hafa gíraffann svona í laginu eða var þetta bara slys hjá þér.

Við erum börn Guðs. Orð Jesú um börnin sem þið heyrðuð eru lesin við hverja skírn. Þau voru flutt þegar við vorum færð Drottni og skírð, helguð himni Guðs og eilífð hans. Við erum merkt þessum hirði allra hirða með krosstákni á enni og brjósti. Jesús hefur tekið þig í fangið og snert þig eins og hann gerði með börnin forðum. Hin gamla hefð að halda nafni leyndu fram að skírn er fögur. Þá gerist það við skírnina að Guð - í gegnum prestinn - ávarpar barnið fyrst opinberlega með nafni, ávarpar barnið og segir svo: Ég skíri þig! Þannig vorum við ávörpuð í fyrsta sinn af Guði. Hann ávarpaði þig, snerti þig og merkti tákni hins heilaga kross á enni og brjóst og blessaði þig. Og hann snertir þig aftur í dag með helguðu brauði og safa vínþrúgunnar, með líkama sínum og blóði, með sínu eigin lífi. Hinn upprisni Kristur snertir þig. Þú ert hans og hann er þinn.

Ungabarn í örmum móður eða föður leitar með augum sínum að augnsambandi og þegar það nær því þá finnur barnið að það er tengt en ekki eitt og yfirgefið. Við horfum í kringum okkur sem fullorðið fólk og leitum tengsla, þráum tengsl, þráum elsku og samkennd við aðra manneskju, annað fólk. Á sama hátt horfir Guð á mannkynið og þráir elsku og samkennd, hann horfir í augu okkar í persónu og boðskap Jesú Krists. Kristin trú er ekki flókið kenningakerfi. Hún felst í samfélagi tveggja, Guðs og manns. Að trúa á Guð er að horfa á Krist, treysta elsku hans og vináttu. Guð horfir á þig núna. Það þráði Helga litla þegar hún skrifaði Guði og sagði:

Kæri Guð. Ef þú horfir á mig í kirkjunni á sunnudaginn, þá skal ég sýna þér nýju skóna mína.

Eigum við að æfa okkur í að vera ögn barnsleg í dag? Ég ætla að leyfa ykkur að heyra útgáfu af trúarjátningu minni og kynningu sem setur mig í rétt samhengi. Hún er svona:

Ég heiti Örn og ég er barn Guðs.

Ég var falinn Guði sem ómálga barn. Hún mamma mín sem er hér í dag gerði það ásamt pabba. Blessuð sé minning hans. Ég tilheyri Guði í lífi og dauða - og lengur! Ég verð hans um eilífð alla! Ég heiti Örn og ég er barn Guðs.

Ertu tilbúin/n að fara með þessa sömu játningu?

Þegar ég hef talið upp að þremur viltu þá vera mér samtaka, segja til nafns og fara með sömu játningu?

Einn, tveir og þrír!

Ég heiti . . . . . . og ég er barn Guðs.

Finnurðu hvað það er gott að fara með þessa játningu? Við erum ekki ein og verðum aldrei ein hvað sem á dynur.

Það er gott að vera einlægur sem barn. Börn hafa ríka réttlætiskennd og þau eru næm á það sem er satt.

Frímúrarastúkan Glitnir sem ég er félagi í hefur tvö einkunnarorð: sannleikur og réttlæti. Það erum mikilvæg orð. Og af því að Glitnisbræður eru hér svo margir í dag sem raun ber vitni ætla ég að segja söfnuðinum í örfáum orðum frá Frímúrarareglunni.

Frímúrarareglan er sjálfstætt félag eða samtök karlmanna úr öllum hópum þjóðfélagsins sem hefur mannrækt að markmiði. Hún byggir starfsemi sína á kristnum grundvelli og tekur ekki afstöðu í stjórnmála- eða trúardeilum í þjóðfélaginu. Umræður eða áróður um þessi mál er bannaður á fundum eða samkomum Reglunnar og hún er óháð öllum valdhöfum, öðrum en löglegum yfirvöldum Íslands. Reglan er ekki leynifélag. Markmið hennar og félagatal er opinbert. En hún á sín leyndarmál eins og allir eiga og vill ekki hafa alla sína siði og starfsemi á torgum því þá missir starfið marks. (Upplýsingar af heimasíðu Reglunnar www.frmr.is)

Einkunnarorð Glitnis, sannleikur og réttlæti, ber oft á góma. Við þurfum sem þjóð að keppa að hvoru tveggja. Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls, sagði Jesús og í Biblíunni er stöðugt verið að fjalla um réttlæti, í báðum testamentum, hinu gamla og nýja.

Sannleikur og réttlæti. Þessi tvö hugtök skilur hvert barn og til að tryggja börnum bjarta framtíð þarf að hjálpa þeim að viðhalda einföldum og traustum gildum, halda þeim óbrengluðum. Börnum þarf að sýna nærgætni, alúð, athygli. Börn sem alast upp við slíkar aðstæður verða yfirveguð og sterk og tilfinning þeirra fyrir sannleika og réttlæti slævist ekki. Kristin trú er uppspretta góðra og fagurra gilda, aflstöð réttrar breytni og farsæls þjóðfélags. Þetta hefur þjóðin þekkt í þúsund ár. Hún þarf ekkert að óttast meðan hún gengur veg hans sem sagði: ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Við þörfnumst uppstokkunar á Íslandi, þörfnumst þess sem ég leyfi mér að kalla, byltingu hins barnslega innsæis.

Þú ert barn Guðs. Þú hefur ratað inn á veginn hans. Vertu þar og þér mun vel farnast. Við erum öll börn Guðs. Þökkum það og njótum þess að vera erfingjar að himin Guðs og eilífð hans. Við erum ótrúlega rík og auðug.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.