Hann er upprisinn

Hann er upprisinn

Margoft hefur verið reynt að koma Jesú aftur í gröf sína og með honum kristnu fólki. En kristinni trú verður ekki komið í gröfina vegna þess að hún lifir fyrir þann sem þekkir leiðina út úr gröfinni
fullname - andlitsmynd Gunnar Jóhannesson
23. mars 2008
Flokkar

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“ Mark 16.1-7

Kristur er upprisinn! Í dag berst fagnaðarómur páskanna um víða veröld. Kristur er sannarlega upprisinn.

Guð gefi okkur öllum gleðilega páska. Náð hans og friður sé með okkur öllum á þessari stundu í Jesú nafni. Amen.

Fyrir réttum áttahundruð árum lauk íslenskur kennimaður páskaprédikun sinni með svofelldum orðum: „Biðjum nú þess einkum á þessari tíð, að Guð Drottinn efli oss til þess að svo megum vér halda upprisutíð Krists lausnara vors, er vér náum öll fegin hann að líta á upprisutíð vorri. Og þaðan frá séum vér [æ] með honum í himnesku ríki, þar er hann sjálfur hefir veldi með Guði föður almáttkum og með helgum anda lifir og ríkir um allar aldir. Amen.

Megi sú vera bæn okkar líka hér í dag.

Í dag gleðst kristið fólk og fagnar um allan heim er það heldur stærstu hátíð kristinnar trúar, upprisuhátíð Jesú Krists. „Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni.“ Þannig hefst páskaguðspjall Markúsar. Þennan morgun, í þann mund er myrkur næturinnar vék fyrir fyrstu geislum sólarinnar, leit mannlegt auga í fyrsta sinn þann atburð sem kristin trú byggir á. Hina tómu gröf. Þennan morgun lýsti í fyrsta sinn inn í mannlegt hjarta sú birta sem skín frá gröf Drottins. Í fyrsta sinn ljómaði veröldin af ljósi lífsins. Og í fyrsta sinn vaknaði vissan um dauða sem umbreytist í líf, angist sem verður að von, myrkur sem verður að ljósi. Við getum aðeins ímyndað okkur hvernig konunum hefur verið innanbrjóst er þær stigu inn í tóma gröfina og sáu það sem fyrir augu þeirra bar.

Hvað ætli fólk sjái í dag er það heldur hátíð páskanna? Ætli augu nútímamannsins leiti inn í gröf Jesú Krists? Og ef svo er, hvað sjá þau? Það er áleitin spurning.

Jesús sagði: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu.“ Þetta er spurning páskanna, spurningin sem við stöndum frammi fyrir í dag.

„Trúir þú þessu?“ Þannig spyr Jesús. Margir trúa, aðrir efast.

Þessi spurning er þeim mun áleitnari vegna þess að ef þú trúir þessu ekki þá ert þú ekki kristinnar trúar. Upprisan er hornsteinn kristinnar trúar. Á henni grundvallast kristin trú. Án hennar er enginn kristinnar trúar. Enginn getur verið kristinnar trúar án upprisunnar vegna þess að án upprisunnar er engin kristin trú. Án hennar fellur boðskapur Jesú og trúin á hann um sig sjálf enda þá byggð á blekkingum og svikum. Páll postuli minnir okkur á þetta: „Ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun okkar, ónýt líka trú ykkar.“ Ef Kristur reis ekki upp þá er trú okkar einskis virði og við sem trúum á upprisuna erum lítið annað en lygarar sem blekkjum okkur sjálf og aðra enda sjálf blekkt.

Ég held að upprisan eigi um margt erfitt uppdráttar í dag. Hinn akademíski og póstmóderníski þrýstingur hefur gert það að verkum að fólk hefur ýtt upprisunni á undan sér, jafnvel skilið hafa eftir. Það er jafnvel farið að spyrja sig hvort upprisan sé jafn mikilvæg og látið hefur verið af; hvort hægt sé að ætlast til þess að fólk taki hana alvarlega; hvort þess þurfi nokkuð. Heyrum við oft talað um upprisuna í dag? Samt stendur allt og fellur með henni. Án hennar er ekki um neitt að tala.

Kristin trú hefst með páskum. Án páska væri ekkert fagnaðarerindi, ekki stafkrókur í Nýja testamentinu, engin trú á Krist, engin kirkja, engin tilbeiðsla, engin boðun. Við værum ekki hér í dag ef ekki væri fyrir upprisuna.

Afstaða okkar til Jesú kemur fram í afstöðu okkar til upprisunnar. Án upprisunnar gerum við Jesú að venjulegum manni – og reyndar verra en svo, við gerum hann að manni sem fór með lygum og blekkingum. Ef við gerum það, ef við sviptum Jesú guðdómi sínum, þá fyrirgerum við einnig rétti okkar til að kalla okkur kristin. Kristin játning staðhæfir að Jesús hafi risið af gröf sinni og að hún hafi verið tóm. Við komumst ekki hjá að taka afstöðu til upprisunnar. Hún snýst ekki bara um einhverja tilfinningu eða skoðun heldur um gröf sem laukst upp, i, um líf sem sigraði dauðann, um krossfestan mann, dáinn og grafinn, sem reis upp og gekk yfirgaf gröf sína. Við erum ekki að tala um einhvern frumspekilegan atburð heldur eitthvað sem gerðist á raunverulegum stað og tíma.

Nú snýst kristin trú að vísu ekki um staðhæfinguna „Jesús reis frá dauðum“, heldur þann veruleika sem sú staðhæfing vísar til. Við hljótum að spyrja okkur: „Hvað er hægt að segja um upprisuna í dag? Er einhverja fullvissu að fá?

Sagnfræðingur nokkur frá Oxford sagði eitt sinn: „Þegar öllum staðreyndunum hefur verið safnað saman, öllum vitnisburði og vísbendingum, þá er ekki ofsagt að enginn einn sögulegur atburður er betur studdur en upprisa Krists. Aðeins sá sem gefur sér þá forsendu fyrirfram að upprisan sé vitleysa hefur bent á að hún verði ekki sönnuð.“

Þetta eru stór orð. Mikil orð. Nú snýst trú að vísu ekki um sannanir. Trú snýst um traust. En þegar kemur að upprisunni þá er eitt og annað sem vert er að hafa í huga þegar upprisan er vegin og metin. Upprisan verður ekki sönnuð með aðferðum vísindanna. En það sama má segja um marga atburði í sögunni. Að mestu leyti grundvallast vitneskja okkur um fortíðina á heimildum sem fá að tala sínu máli og á grundvelli þess vitnisburðar er skorið úr um gildi hennar.

Þegar atburðir páskanna eru skoðaðir þá er ýmislegt sem fræðimenn, sagnfræðingar og guðfræðingar, viðurkenna sem sögulegar staðreyndir:

Jesús var krossfestur af rómverjum og dó. Hann var settur í einkagröf sem var gætt af rómverskum hermönnum. Eftir dauða Jesú voru lærisveinar hans algjörlega bugaðir. Með dauða Jesú urðu vonir þeirra að engu. Þeir voru á flótta, hræddir um eigið líf. Skömmu eftir dauða Jesú var komið að gröf hans og hún reyndist tóm. Lærisveinarnir urðu fyrir einhverri umbreytandi reynslu og voru í kjölfarið tilbúnir til þess að fórna lífi sínu fyrir trú sína á Jesú – sem þeir og gerðu. Líf hinna niðurbrotnu lærisveina tók algjörum stakkaskiptum. Eina stundina voru þeir í felum, hræddir, niðurbrotnir og bugaðir. Aðra stundina voru þeir óhræddir, djarfir og staðfastir, tilbúnir til þess að fórna lífi sínu fyrir Jesús. Við hljótum að velta fyrir okkur hvað gat breytt litlum hóp skelfdra og bugaðra bænda og fiskimanna í flokk hugaðra og staðfastra trúboða sem breyttu gangi sögunnar og létu ekkert stöðva sig – hvorki hið rómverska heimsveldi né gyðinga, ekki einu sinni eigin dauða? Eins hljótum við að spyrja okkur um Sál frá Tarsus, gyðinginn sem ofsótti kristið fólk og hafði hatast innilega við Jesú og fylgjendur hans. Hvað breytti honum í hinn mikla Pál postula sem fórnaði lífi sínu fyrir boðskap Jesú?

Upprisa Jesú Krists er frumprédikun kirkjunnar. Þetta vitum við af bréfum Páls postula sem eru elstu rit kristinnar trúar. Innan mjög skamms tíma er til játningabundin yfirlýsing um upprisu Jesú; að Jesús dó samkvæmt ritningunni, að hann var grafinn, að hann reis upp frá dauðum samkvæmt ritningunni. Þetta er fagnaðarerindið sem Páll meðtók nokkrum árum eftir dauða Jesú. Allt frá upphafi hafði boðskapur fyrstu fylgjenda Jesú mjög skýrt innihald: Hinn upprisna Krist. Þeir voru engir siðferðispostular. Þeir boððu upprisu Jesú Krists fyrst og síðast. Þessi opinberi vitnisburður lærisveinanna um upprisu Jesú átti sér stað í Jerúsalem, þar sem Jesús var krossfestur og grafinn stuttu áður. Andstæðingar þeirra höfðu því næg tækifæri til þess að hrekja vitnisburð þeirra.

Hvað útskýrir allar þessar staðreyndir? Í hvaða átt benda þær? Eitthvað gerðist. En hvað? Ég held að ef fólk spyrji sig þeirrar spurningar og velti henni fyrir sér fordómalaust og af opnum hug þá geti svarið komið á óvart.

Staðreynd sögunnar er sú að innan nokkurra vikna frá dauða Jesús hafði búið um sig á meðal hóps fólks sú djúpstæða vissa að Jesús var upprisinn. Af þeirri vissu óx kirkjan fram og á þeim hraða sem engan óraði fyrir því. Af þeirri ástæðu höldum við páska hér í dag.

Það hefur svo sem aldrei vantað efasemdarraddir í heiminn, hvorki fyrr né síðar. Lærisveinarnir hljóta að hafa stolið líkama Jesú, nú eða andstæðingar hans. Aðrir hafa sagt að upprisan sé bara ofskynjun. Enn aðrir hafa sagt að Jesús dó ekki í raun og veru, það leið bara yfir hann, eða, upprisutrúin er bara goðsaga skrifuð inn í sögu kirkjunnar eftir á.

Hvernig áttu niðurbrotnir lærisveinarnir, sem földu sig fyrir gyðingum og rómverjum af ótta um líf sitt, að hafa yfirbugað þrautþjálfaða rómverska hermenn, stolið því næst líkama Jesú, falið hann og sannfært svo fólk um upprisu hans fyrir framan nefið á pílatus og gyðingunum. Rómverjar hefðu getað beitt sínum meðölum til að fá fram sannleikann. En þeir gerðu það ekki. Hvers vegna hefðu lærisveinarnir boðað trú á Jesú og fórnað lífi sínu fyrir hann ef þeir vissu allan tíman að Jesú var bara maður eins og þeir? Hefðu þið gert það? Ef andstæðingar Jesú höfðu líkama hans af hverju sýndu þeir hann ekki til þess að hrekja staðhæfingar lærisveinanna? Það var heldur aldrei gert.

Þegar Jesús var stunginn með spjóti í síðuna rann út blóð og vatn sem segir okkur að gollurhúsið hafi rofnað og hjarta hans þar með brostið. Jesús dó sannarlega. Það leið ekki yfir hann. Hann rankaði ekki allt í einu við sér í gröfinni eftir allt sem hann hafði gengið í gegnum, velti frá steininum, og fór um og sannfærði alla um upprisu sína. Þá þurfa þeir sem halda því fram að fólk hafi séð ofsjónir þegar þeir upplifðu hinn upprisna Jesú í sýn að útskýra hvernig á því stóð að hundruðir manna sáu það sama, á ólíkum tíma samt og á ólíkum stað; fólk sem snertu hann, tókum á honum. Þá var einfaldlega ekki nægur tími fyrir einhverja goðsögu að verða til.

Og hvað með konurnar, fyrstu upprisuvottana. Innan gyðingdóms á dögum Jesú máttu konur ekki gefa vitnisburð. Þær voru taldar ófærar um það. Ef upprisufrásagnir voru skáldaðar upp eftir á þá er útilokað að konuur hefðu verið bornar fram sem lykilvitni. Margt fleira mætti nefna í þessu samhengi, m.a. áreiðanleika heimildanna sjálfra og gildi þeirra. En við látum þetta duga.

En hvað segir þetta okkur eiginlega? Hvaða gildi hefur upprisan í dag? Hvað merkir hún í lífi okkar í dag?

Jesús sagði: „Ég er kominn til þess að þið hafið líf, líf í fullri gnægð.“ Upprisan snýst um líf. Lífið mitt og lífið þitt. Jesús kom ekki til þess eins að gera vont fólk gott, eða gott fólk betra. Hann kom til þess að lífga við dáið fólk. Hann kom til þess að lífga við þann sem er dáinn í afstöðu sinni til Guðs.

Upprisan snýst ekki um að sjá lengra inn í innviði lífsins en aðrir eða búa yfir einhverri leyndardómsfullri þekkingu. Hún felst í breytingu á mannlegu eðli, hinu gamla sem verður að nýju, vonbrigðum sem breytast í gleði, ótta sem breytist í von, hatri sem breytist í kærleika, myrkri sem verður að ljósi, dauða sem breytist í líf. Í gegnum upprisuna brýst kærleikur Guðs og friður, fyrirgefning hans og náð, inn í líf óttans og óvissunr, hatursins og ofbeldisins, tómleysisins og tilgangsleysisins. Upprisan sannar að Jesús frá Nasaret er sonur Guðs, Drottinn, Kristur, frelsari, sá sem þekkir leiðina frá gröfinni og getur leitt þig til hins sanna lífs.

Upprisan sannar að Jesús er sannarlega „vegurinn, sannleikurinn og lífið“, að hann hafi þau svör sem lífið krefur okkur um: Hvaðan erum við komin og af hverju, af hverju er eitthvað í stað einskis, hver er tilgangur lífsins, hvernig ber okkur að breyta í lífinu, hvers megum við vænta eftir að þessu lífi lýkur.

Ég bið þig: Slepptu fyrirvörunum þessa páska. Leggðu þá til hliðar. Beindu sjónum þínum frá því sem heiminum þykir viturlegt. Vertu djarfur og hugaður. Krjúptu frammi fyrir fyrir hinum upprisna Jesú. Játastu honum. Ekki vegna þess að þú sérð hann með berum augum, heldur vegna þess að hans vegna sérðu allt annað.

Hlaupum ekki undan upprisunni. Fyrirverðum okkur ekki fyrir krossinn. Látum ekki vantrú heimsins villa um fyrir okkur og kúga okkur. Þorum að líta í aðra átt. Stöndum djörf og örugg á grundvellinum eina, sem er hinn krossfesti og upprisni Jesús Kristur.

Margoft hefur verið reynt að gera út um kristna trú. Margoft hefur verið reynt að koma Jesú aftur í gröf sína og með honum kristnu fólki. En kristinni trú verður ekki komið í gröfina vegna þess að hún lifir fyrir þann sem þekkir leiðina út úr gröfinni, þann sem getur vísað leiðina til hins sanna lífs. Kristur er upprisinn. Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var og verða mun um aldir alda. Amen.