Samkennd í þágu þjóðar

Samkennd í þágu þjóðar

Landspítalinn er fyrir okkur öll sem búum í þessu landi. Þjóðkirkjan er líka fyrir okkur öll sem búum í þessu landi. Þess vegna vill kirkjan taka þeirri áskorun að vera leiðandi í söfnun til tækjakaupa á Landspítalanum í samráði við stjórnendur spítalans. Samtakamáttur þjóðarinnar hefur einatt skilað miklum árangri.

Hægt er að hlusta á prédikunina í hlaðvarpi kirkjunnar.

Horft fram á veginn

„Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka.“ Þannig orti sr. Valdimar Briem fyrir margt löngu. Sálm, sem sunginn er um hver áramót hér á landi og við heyrum sunginn í sjónvarpi um leið og við horfum á ártalið hverfa af skjánum og nýtt koma í ljós.

Á gamlársdag horfum við gjarnan til baka en á nýjársdag horfum við fram á veginn. Þó engin breyting gerist í lífi okkar á milli þessara daga er þó eitt nýtt í dag sem ekki var í gær og það er ártalið. Árið 2013 hefur hafið göngu sína með nýjum tækifærum og áskorunum. Gleðilegt ár og þakkir fyrir árið sem liðið er.

Eftir því sem aldur færist yfir virðist tíminn líða hraðar. Tíminn er mældur þannig að eitt gerist á eftir öðru.

Hér áður fyrr var lífstaktur þjóðarinnar annar en nú er. Hann stjórnaðist af árstíðunum og verkefnum dagsins. Mannfólkið stjórnaði tímanum en nú er sem tíminn stjórni okkur. Oft á tíðum finnst okkur við líka ekki hafa tíma til hlutanna. Okkur finnst við ekki geta eitthvað vegna tímaskorts. Oftast tengist það okkur sjálfum eða öðru fólki. Við höfum ekki tíma til að iðka það sem hugurinn vill eða gefa af okkur til annarra.

Hvað skiptir máli í lífinu? Það er spurning sem við þurfum að velta fyrir okkur einhvern tímann á lífsleiðinni. Öll leitum við hamingjunnar og viljum eiga gefandi daga og framtíð. Gleðin er eitt af því sem færir okkur hamingjuna. Margir álíta að trú og gleði fari ekki saman. En þegar betur er að gáð er gleðin eitt af ávöxtum trúarinnar. Enda er boðskapur Jesú Krists nefndur fagnaðarerindi.

Í Jesú nafni skulum við fara inn í hið nýja ár án ótta og þiggja kærleika Guðs og biðja þess að við fáum miðlað honum til samferðamanna okkar.

Þjóð og kirkja í takt

Í rúm þúsund ár hafa þjóð og kirkja gengið í takt og svo mun verða enn ef marka má niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór í haust. Meirihluti þeirra sem kusu vill að sá kristni siður sem mótað hefur mannlíf og þjóðlíf hér á landi verði áfram við lýði. Kirkjan tekur mark á þessari niðurstöðu og minnist ábyrgðar sinnar í boðun og þjónustu, því trúin kemur í senn fram í orði og í verki.

Við eigum að feta í fótspor Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists. Hans sem talaði tæpitungulaust um það sem betur mátti fara í samfélaginu. Hans, sem læknaði og líknaði og fór ekki í manngreinarálit. Trúin á Jesú Krist, barnið í jötunni, manninn á krossinum, hinn upprisna Drottinn er traust til hans í lífi okkar öllu. Hvort sem við göngum hamingjuveginn eða sorgarveginn þá megum við treysta því að hann er með okkur og yfirgefur okkur ekki.

Traust er eitt af þeim lífsgildum sem nauðsynleg eru í lífi okkar. Ef það er ekki fyrir hendi er mikilvæg undirstaða brostin. Margir hafa misst traust á grunngildunum og stofnunum samfélagsins undanfarin ár og jafnvel þeim sem stýra þeim. Það þarf að endurvekja traustið því án þess er vart hægt að byggja upp réttlátt samfélag þar sem jafnræði ríkir og umhyggja hvert fyrir öðru.

Við höfum sem þjóð gengið í gegnum um efnahagslegar hremmingar undanfarin ár. En við erum ekki ein um það. Leiðtogar vestrænna ríkja hafa lagt sig fram um að finna leiðir til lausnar á skuldakreppu og öðrum þjóðfélagsmeinum en það er ekki auðvelt verkefni. Þau telja sig þó sjá að aðgerðir séu byrjaðar að skila árangri.

Undirstöðurnar eru veraldlegar og andlegar

Kreppuástand hefur margvíslegar afleiðingar fyrir einstaklinga og samfélög. En þrátt fyrir allt felur það ástand líka í sér tækifæri, því það er ekki annað í boði en að finna leið til lausnar og áframhaldandi lífs. Það er umhugsunarefni hvers vegna fór sem fór í hinum vestræna heimi allsnægtanna. Til er gömul saga um könguló sem spann vef sinn. Hún vann verk sitt af natni og kunnáttu. Að því loknu sat hún í miðjum vefnum og dáðist að sköpunarverki sínu. Hún tók þá eftir því að þar var þráður sem féll ekki inn í munstrið og við hann vildi hún losna. Hún klippti á þráðinn og vefurinn féll. Þessi þráður var festur að ofan til að halda vefnum uppi, en því hafði hún gleymt og því fór sem fór.

Mér kemur þessi saga stundum í hug þegar fjallað er um hrunið. Getur verið að gleymst hafi að minnast þess að undirstöður lífs okkar eru ekki aðeins veraldlegar heldur líka andlegar? Að klippt hafi verið á þráðinn að ofan? Að við höfum gleymt skapara okkar, er okkur lífið gaf? Að við höfum gleymt að næra trú okkar og ætlað að treysta á veröldina?

Starf Kirkjunnar hefur aldrei verið fjölbreyttara og fjöldi kirkjugesta aldrei meiri. Það bendir til þess að fleiri og fleiri átti sig á mikilvægi þess að treysta andlegar undirstöður lífs síns. Það hefur áhrif á samfélagið allt því hver og einn íbúi þessa lands hefur áhrif og getur beitt áhrifum sínum.

Á dögum Jesú voru ýmis þjóðfélagsmein sem hann vildi uppræta. Sem fyrirmynd okkar og frelsari hefur hann bent okkur á að okkur koma líka við samfélagsmálin. Allt sem bætir lífið og beinir okkur á hamingjuveg er blessað af honum er hratt um borðum víxlaranna og bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra eins og segir í pistli dagsins.

Kirkjan boðar trú á Jesú Krist. Þess vegna á hún erindi við samtímann hverju sinni. Lúter, sem kirkja okkar er kennd við minnti okkur á að hlutverk okkar sem kristinna manna væri að halda boðskap Krists á lofti. Það er hlutverk allra kristinna einstaklinga. Þannig vex trúin og þroskast. Hver kristinn maður ber ábyrgð gagnvart sjálfum sér og öðrum og á að sýna trú sína í verki.

Það var gefandi að fara á fund félagasamtaka fyrir jólin og taka á móti peningagjöfum til Hjálparstarfs Kirkjunnar. Ýmis félagasamtök hafa það markmið að láta gott af sér leiða til þeirra sem illa eru staddir. Þau félagasamtök sem ég sótti heim höfðu safnað innbyrgðis tæpum 8 milljónum króna og treystu Hjálparstarfi Kirkjunnar best til að koma fénu í hendur bágstaddra í samfélagi okkar. Það var gott að heyra það að Kirkjunni var treyst til þess enda er það í anda Krists að þau sem nóg hafa gefi til þeirra sem ekki hafa nóg. „Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur“ svaraði Jesús eitt sinn.

Kærleiksríkara og traustara samfélag

Jesús sýndi engum tómlæti og það á Kirkja hans heldur ekki að gera. Hún vill vera leiðandi afl í samfélaginu og stuðla að kærleiksríkara og traustara samfélagi. Þegar vá er eða erfiðleikar steðja að sýnir þjóðin að hún stendur saman. Það vitum við sem höfum búið á stöðum út um landið að hvergi er betra að vera en þar þegar eitthvað bjátar á. Þá standa allir saman sem einn maður.

Kirkjan kallar fólk til fundar við Guð. Sagt er að eitt af því fyrsta sem vesturfararnir gerðu þegar þeir fluttu héðan var að byggja kirkju og koma saman í Jesú nafni. Enn þann dag í dag tengir kirkjan fólk saman. Á 100 ára afmæli kirkjunnar minnar á Hóli í Bolungarvík var sagt „að sá staður sem hugsar vel um kirkjuna sína eigi sér alltaf framtíð.“ Í þessum orðum er vonarboðskapur því framtíð og von eru systur sem haldast í hendur. Um land allt eiga menn sér von um hamingjuríka framtíð. Að byggð haldist og mannlíf blómstri. Þar sem öryggi er fyrir hendi bæði hvað varðar atvinnu og þjónustu.

Vegið að öryggi í heilbrigðismálum

Undanfarið hefur verið vegið að öryggi landsmanna í heilbrigðismálum, bæði hér í höfuðborginni og eins út um landið. Á eina háskólasjúkrahúsi landsins, þar sem einkunnarorðin eru umhyggja, fagmennska, öryggi og framþróun er tækjakostur það bágborinn og úr sér genginn að til vandræða er. Það er nauðsynlegt að finna leiðir til úrbóta því öll viljum við búa við öryggi á hvaða aldri sem við erum og hvar sem við búum. Landspítali er fyrir okkur öll sem búum í þessu landi. Þjóðkirkjan er líka fyrir okkur öll sem búum í þessu landi. Þess vegna vill Kirkjan taka þeirri áskorun að vera leiðandi í söfnun til tækjakaupa á Landspítalanum í samráði við stjórnendur spítalans. Samtakamáttur þjóðarinnar hefur einatt skilað miklum árangri.

Samkennd er nauðsynleg í samfélagi okkar. Hún minnir okkur á ábyrgð okkar gagnvart hvert öðru og á það að hver og einn einstaklingur getur haft áhrif.

Í fyrri ritningarlestrinum í dag voru lesin orðin sem Drottinn talaði til Móse, blessunarorðin, sem einnig eru flutt í hverri guðsþjónustu. Með blessun Guðs hefjum við gönguna á hinu nýbyrjaða ári. Með þá von og trú í hjarta að við séum leidd af Guði á lífsins vegi. Að við séum aldrei ein, aldrei yfirgefin. Að friður og sátt ríki í samfélagi okkar. Með þá bæn í huga göngum við inn í nýtt ár.

Guð blessi land og þjóð, í Jesú nafni.

Lestrar: 4Mós 6.22-27 Post 10.42-43 Jóh 2.23-25.