Stjórnarskrá fyrir þjóðina

Stjórnarskrá fyrir þjóðina

Stjórnarskrá er sáttmáli sem vísar veginn með fáum orðum og á hvílir lífið í landinu, menningin og samfélagsskipan. Þegar við tökum afstöðu til stöðu Þjóðkirkjunnar í stjórnarskrá, þá erum við að fjalla um grunngerð þjóðfélagsins.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
18. október 2012

Í umræðum um breytingar á stjórnarskrá, þá er í forgrunni: Hvað er best fyrir þjóðina? Í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu er m.a. spurt hvort ákvæði um Þjóðkirkjuna eigi áfram að vera í stjórnarskránni. Ekki er verið að spyrja um skipulag Þjóðkirkjunnar eða aðskilnað ríkis og kirkju. Kirkjan er aðskilin frá ríkinu með lögum frá árinu 1997. Það er spurt hvort betra sé fyrir þjóðina og stjónarskrána, að Þjóðkirkjunnar sé þar getið eða ekki. Kjósendur velta þá fyrir sér hver sé reynslan af gildandi ákvæði skv. 62. gr.: “Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda”.

Umræður um þetta ákvæði vilja gjarnan snúast upp í hvað sé best fyrir kirkjuna og hvort hún spjari sig án þess að vera nefnd í stjórnarskrá. Sannarlega eru allar umræður um heill og farsæld kirkjunnar kærkomnar. En hér er um meira spurt og lýtur að kjarna málsins. Viljum við, að hér á landi ríki kristinn siður og Þjóðkirkjunni falið að varðveita hann og rækta? Er þjóðin betur í stakk búin, ef ákvæðið í stjórnarskránni um Þjóðkirkjuna er afnumið? Styrkir það einingu þjóðar og eflir velferðar-og almannaþjónustu í landinu? Viljum við, að enn verði merki krossins í þjóðfánanum, hefðir og siðir dagatalsins byggi á kristnum grunni, þjóðsöngurinn boði “Ó, Guð vors lands” og kirkjan hafi skyldum að gegna við alla þjóðina?

Stjórnarskrá er sáttmáli sem vísar veginn með fáum orðum og á hvílir lífið í landinu, menningin og samfélagsskipan. Þegar við tökum afstöðu til stöðu Þjóðkirkjunnar í stjórnarskrá, þá erum við að fjalla um grunngerð þjóðfélagsins. Kristinn siður hefur verið kjölfesta í lögum, samskiptum og menningu um aldir. Viljum við breyta því og er það best fyrir þjóðina núna?