Í gær fylgdist ég spenntur með fjölmiðlunum eins og endranær á þessum merka mánaðardegi. Fullur eftirvæntingar sótti ég síðurnar heim á netinu og las þar fyrst um þann sómadreng Keith Richards sem ætlaði að heimsækja okkur á Ísafirði og svo litlu síðar um einhverjar gjafir í BT sem veittar yrðu grímuklæddum viðskiptavinum. Landsmenn voru líka hvattir til að mæta naktir niður á Austurvöll til myndatöku fyrir nýja Stuðmannaplötu, og að mótmæla fyrir utan Útvarpshúsið þeim úrskurði Evrópusjónvarpsstöðvanna að meina tálkvendinu Silvíu Nótt að syngja fyrir Íslands hönd í Eurovision.
Tortryggir lesendur
Fróðlegt er að velta vöngum yfir því hvort svona sprell er skipulagt með einhverjum fyrirvara, hvort að baki þessum sögum liggja langir fundir blaðamanna og ritstjóra eða hvort þessu er slengt fram í hita augnarbliksins. Í það minnsta þá veit ég að margir lúslesa blöðin og sperra eyrun við lestri fréttanna meira en endranær á þessum tiltekna degi þegar leyfilegt er að senda fólk í erindisleysu frá einum stað til annars – að hlaupa fyrsta apríl.
Við þekkjum öll þessi óskráðu lög og virðum þau. Enginn vill vera með slík leiðindi að amast við þessum alþýðusið þótt fáir viti á hverju hann byggir eða hver upptök hans eru. Og við köllum okkur góð ef við komum auga á gabbið en fussum og sveium ef við óvart látum narrast og látum sjá okkur á tilsettum stað í von um vegleg verðlaun.
En svo, þegar kveikt er á viðvörunarbúnaðnum og menn rýna í miðlana fullir efasemda í ljósi dagsetningarinnar, þá er ekki laust við að um mann fari einhver ónotatilfinning. Það er eitthvað óþægilegt við að horfa á fréttamennina eða aðra landskunna einstaklinga fara stóreyga og sannfærandi með ósannindi fyrir alþjóð. Það er eitthvað óeðlilegt við þá hegðun, eitthvað sem er með öðrum hætti en við viljum kannast við.
Ósannindi aðra daga ársins
Þessi dagur fær okkur til þess að minnast þess að ekki er allt satt og rétt sem við sjáum og heyrum í fjölmiðlunum. Og þarf raunar ekki fyrsta apríl til þess arna. Árið um kring verðum við vitni að því hversu auðvelt það virðist vera að birta rangar upplýsingar eða fréttir sem ekki byggja á traustum grunni og komast upp með allt saman.
Hvernig er það annars? Hafa skattarnir okkar hækkað eða lækkað? Um þetta hafa menn deilt undanfarið og virðist hver sem er geta sýnt línurit og gröf með upplýsingum máli sínu til stuðnings. Hvað með jöklana? Eru þeir að hopa að ekki? Er Grænlandsjökull á leiðinni í hafið eða er því þveröfugt farið? Er heimskautaísinn á undanhaldi eða eru þær upplýsingar á misskilningi byggðar? Í þeirri umræðu flagga menn tölum, gervihnattamyndum og ýmsu því öðru sem er bæði mælanlegt og sannanlegt en stangast þó rækilega á innbyrðis. Hvað með óbeinar reykingar? Ef til vill hafa þeir vísindamenn sem héldu því fram að þær hefðu engan skaða í för með sér fengið drjúga summu inn á heftið sitt frá þakklátum framleiðendum. Einhverjir fræðimenn halda að minnsta kosti því á lofti óhikað og fyrirvaralaust að óhætt sé að anda að sér mengunarskýinu – í trássi við aðrar rannsóknir.
Og allar dómsdagsspárnar!
Reglulega fyllumst við svo skelfingu þegar dómsdagsspár dynja yfir okkur af ýmsum sökum. Kúariða og SARS veiran (eða hvað hún hét) áttu að höggva stór skörð í raðir jarðarbúa gott ef ekki valda alheimsfaraldri eins og það er kallað. Sá faraldur hefur þá blessunarlega farið framhjá mér. Núna er það fuglaflensan og fólk er jafnvel hvatt til þess að byrgja sig upp af dósamat því vel megi vera að menn verði reknir niður í kjallara á næstunni. Mér er það einnig minnisstætt þegar tæknimenn frá símanum komu hingað í kirkjuna á því herrans ári 1999 og áttu eitthvað við símtækin okkar sr. Magnúsar. Skýringin var auðvitað sú að um áramótin áttu flest raftæki að gefa upp öndina ef ekkert yrði að gert og siðmenningin myndi hopa aldir aftur í tímann. Og þessu trúði maður!
Nei, það þarf ekki fyrsta apríl til þess að vekja með okkur efasemdir um það sem fyrir augun og eyrun ber. Það nægir ekki heldur að veifa framan í okkur tölulegum upplýsingum, gröfum og súluritum, ljósmyndum og skoðanakönnunum – við eigum því miður ekki að venjast því að raddirnar sem flytja okkur fréttirnar byggi þær á bjargföstum sannleika. Slíkt er einfaldlega hlutskipti okkar og erum við líklega flest búin að sætta okkur við þá staðreynd.
Trúin og áhrif hennar
Þessar hugleiðingar sækja á mig nú þegar frásögnin af boðun Maríu hefur verið lesin. Eins og svo oft í texta heilagrar ritningar er greint frá ákveðnum atburði sem breytti lífi þeirra sem honum tengdust. Hann og aðrir slíkir atburðir höfðu að sama skapi áhrif á þá gríðarmörgu sem um þá lásu eða af þeim heyrðu. Nú getum við ekkert um það fullyrt hvort atburðurinn hafi gerst með þeim hætti sem þarna er lýst frekar en um svo margt annað sem við fáum fregnir af í erli daganna. Til þess höfum við ekki þær sannanir sem krafist er til staðfestingar ákveðnum atburðum og staðhæfingum.
Frásögnin greinir hins vegar frá merkilegum tíðindum sem boða upphafið að fagnaðarerindi kristinna manna. Sagt er frá því þegar engillinn vitjaði mærinnar Maríu og ávarpaði hana þessum orðum: „Heil vert þú sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér”. Upp frá þessum orðum hafa skáld og listamenn ort og samið dýrustu tónverk. Þarna mætti Drottinn fátækri konu sem stóð ekki framarlega í virðingarstiganum og birti henni fregnina stóru um mannkynslausnarann sem fæðast mundi af kviði hennar.
Kærleikur Guðs
Þarna fáum við forsmekkinn að því sem koma skyldi. Fagnaðarerindið var flutt þeim sem fátækir voru og hornreka í samfélaginu. „Heil vert þú sem nýtur náðar Guðs!” Hvernig skyldu þau orð hafa komið heim og saman við sjálfsmynd fátækrar konu í samfélagi þar sem karlar einir höfðu aðgengi að helgidómum og helgum textum? Hvernig koma orð þessi heim og saman við sjálfsmynd allra þeirra sem þau hafa heyrt og lesið og tilheyra sama þjóðfélagshópi? Uppfrá þessu berast mannkyni fregnir sem breyttu ásýnd heimsins, boðuðu fátækum lausn, veikum styrk og reisn þeim sem utangarðs voru.
Þeir hafa trúað þessum frásögnum – en þó ekki í þeirri merkingu að þeir hafi fengið óhrekjanlegar sannanir fyrir þeim því engar slíkar eru í boði. Nei, þeir hafa trúað þessum frásögnum og trúað boðskapnum sem Kristur flutti inn í veröld sem gegnsýrð var af ofbeldi og hatri. Sá boðskapur var fullur kærleika og umhyggju. Kristur gaf sig að öllum þeim sem áttu um sárt að binda og nutu engrar virðingar eða vinsælda og færði þeim boðin sem Maríu voru flutt: „Heill þeir sem nýtur náðar Guðs.”
Þessum frásögnum hafa margir trúað og margir trúa þeim enn. Þær eru þó ekki studdar línuritum eða myndum frá hárfínum linsum gervihnattanna sem sveima yfir höfðum okkar. Nei, við þurfum ekki á slíku að halda enda sýna dæmin það að jafnvel slíkar upplýsingar virðast hrekjanlegar hvort sem dagurinn heitir fyrsti apríl eða eitthvað annað. Kjarni boðskaparins er sá að Guð elskaði heiminn. Hann elskaði heiminn með öllu því sem í honum var. Það sýnir hann meðal annars með því að gefa sig að þeim sem snauðir eru og fátækir.
Að taka við boðskapnum
Trúin snýst ekki eingöngu um það að fallast á fullyrðingar sem studdar eru því sem við köllum fullnægjandi röksemdur. Trúin snýst um það hver hlustar og hvernig. Hvernig meðtökum við það sem við okkur er sagt? Tökum við til okkar boðskapinn sem á sér engan líka um það að náungi okkar er dýrmætur í augum Guðs og því er það okkar hlutverk að ala önn fyrir honum og gæta réttar hans? Tökum við til okkar boðskapinn um að við sjálf séum dýrmæt og ómetanleg í augum Guðs, rétt eins og mærin sem hann vitjaði í frásögninni? Skynjum við slíkt jafnvel mitt í einsemdinni, veikindum og á þeim tímum þegar flest sund virðast lokuð? Þá getum við hugleitt tíðindin stóru: Heill þér sem nýtur náðar Guðs.
Trúin á sér ýmis konar ásýnd. Hún birtist í því að taka einhverju gildu á þeim forsendum sem gefnar eru. Stundum virðast þær forsendur traustar og mælanlegar en degi síðar sjáum við að þeim hefur verið hnekkt og svo deginum þar á eftir er þeim aftur haldið á lofti. Þá verðum við fyrst og fremst rugluð í ríminu og svo nennum við ekki lengur að fylgjast með því tíðindin eiga ekki lengur erindi til okkar.
Trúin getur líka falist í því að leggja eyrun við boðskap sem við þó vissulega höfum ekki forsendur til þess að vega og meta – mæla og útreikna. Hann skilur engu að síður eftir sig djúp spor í hjarta okkar og fær okkur til þess að skoða umhverfi okkar með nýjum hætti. Trúin fær okkur til þess að horfa inn í hjarta náunga okkar og skynja þar dýrmæt verðmæti sem okkur ber að hlúa að. Trúin fær okkur til þess að fyllast sjálfstrausti og virðingu fyrir okkar eigin lífi og tilvist því við skynjum það að náð Guðs býr með okkur.
Verði mér eftir orðum þínum
„Heil þér sem nýtur náðar Guðs!” segir engillinn í frásögninni. Hver hlustar á þessi orð og hvernig? Mærin leggur við þeim eyrun og svarar: „Sjá ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.” Með þeim hætti ættum við einnig að svara þegar við hugleiðum þá köllun sem til okkar beinist. Mitt í orrahríð mótsagna þar sem talnaspekingar selja hæstbjóðendum niðurstöður sínar berast okkur mikilvæg tíðindi. Á sama tíma og áróðursmeistarar minna á fjárhættuspilara þar sem þeir leggja fram röksemdirnar sínar stendur upp á okkur að taka stórar ákvarðanir. Það er köllunin um að vinna verk Guðs borin uppi af kærleika Guðs til okkar og traust hans til mannanna.
Svar Maríu byggist á trausti og trú. Okkar svar á líka að endurspegla ástina til náungans sem geislar af lífi þess sem sjálfur er umvafinn þeim kærleika sem æðri er öllum skilningi. Megi sá kærleikur stafa af okkur svo að við getum borið sannleikanum vitni með góðum verkum og ást til náungans.