Fyrsti menningarvegur Evrópu

Fyrsti menningarvegur Evrópu

Jakobsvegurinn hefur verið farbraut manna í meira en þúsund ár og var ein megin pílagrímaleið kristinna manna á miðöldum. Ferð um Jakobsveginn var ein af þremur slíkum sem veittu syndaaflausn samkvæmt kaþólsku kirkjunni. Hinar tvær voru pílagrímaganga til Rómar eftir svo nefndri Via Francigena leið og svo pílagrímaferð til Jerúsalem.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
23. júní 2014

Jakobsvegurinn - Camino de Francés (815. km) 2. júní - 2. júlí 2013. S. Jean Pied de Port í Frakklandi – Santiago de Compostela á Spáni

Fyrsti menningarvegur Evrópu

Jakobsvegurinn hefur verið farbraut manna í meira en þúsund ár og var ein megin pílagrímaleið kristinna manna á miðöldum. Ferð um Jakobsveginn var ein af þremur slíkum sem veittu syndaaflausn samkvæmt kaþólsku kirkjunni. Hinar tvær voru pílagrímaganga til Rómar eftir svo nefndri Via Francigena leið og svo pílagrímaferð til Jerúsalem. Ástæður þess að fólk velur að fara þessar pílagrímaleiðir eru margvíslegar fyrir utan þá sem fara í trúarlegum tilgangi eru fjölmargir sem hafa aðrar ástæður, menningarlegar jafnt sem og almennri ferðaþrá.

Fjölmargar og miserfiðar leiðir eru í boði. Við völdum að fara Frönsku leiðina Camino de Frances (815 km.), frá S. Jean Pied de Port í Frakklandi til Compostela de Santiago (Stjörnuakurs heilags Jakobs) á vesturströnd Spánar. Leiðin liðast í gegnum norðurhluta Spánar. Hún endar við mikinn helgidóm sem er Dómkirkja heilags Jakobs. Helgisagan segir að bein Jakobs bróður Jóhannesar eins af lærisveinum Jesú sé í skríni í Dómkirkjunni í Santiago. Heittrúaðir kaþólikkar leggja á sig mikið erfiði til að sækja heim hvílustað Jakobs.

Evrópuráðið samþykkti 1987 að útnefna Jakobsveginn sem fyrsta menningarveg Evrópu. Það ár voru 3.000 pílagrímar skráðir við Dómkirkjuna í Santiago; árið 2003 voru þeir 74.000 árið 2004, sem var heilagt Compostela-ár, komu 179.932. Nokkrir hefja förina bókstaflega á þröskuldi heimilis síns en flestir hefja pílagrímaferðina á einhverjum af þeim stöðum sem kaþólska kirkjan og ferðamálayfirvöld í Frakklandi og á Spáni hafa valið í sameiningu sem upphafsstaði Jakobsvegar nútímans. Leiðin er merkt með gulum örvum á ljósastaurum, steinum vegkanta, trjáa og steyptum skeljum á gangstéttum borga og húsveggja. Flestir fara gangandi, nokkrir hjóla og fáeinir fara ferða sinna á þann hátt, sem miðalda pílagrímar gerðu, það er með hest eða asna.

Við ferðafélagarnir ákváðum að fara þessa ferð á eigin vegum síðastliðinn júnímánuð. Fyrr á árum var leiðin nær einungis gengin yfir sumarmánuðina. Hin síðari ár ganga (hjóla) pílagrímar þessa leið á öllum tímum ársins. Þótt segja megi að vorið og haustið vinsælasti tíminn. Einhverjir velja að fara skipulagða ferð og njóta meiri þæginda hvað varðar gistingu og láta flytja farangur á milli næturstaða. Einhverjir velja að ganga veginn í áföngum, koma aftur að ári, og taka nokkur ár í það. Við pílagrímarnir frá Íslandi ákváðum að fara alla leið í Dómkirkjuna í Santiago De Compestella. Á vegi okkar voru manneskjur sem höfðu gengið veginn, allt frá fyrsta skipti, eins og við upp í það að fara sína tuttugustu ferð! Pílagrímar á veginum voru á öllum aldri allt niður í 9 ára og sá elsti sem við hittum var 87 ára. Allir voru á veginum í einum og sama tilgangi að ganga Jakobsveginn á sínum forsendum sem í þúsund ár hafði verið troðinn af fótum pílagríma, tvífætlingum sem og fjórfætlingum, og hin síðari ár á hjólhestum.

Í upphafi skyldi endinn skoða

Sambland af kvíða og spenningi fyllti huga þegar við pílagrímarnir horfðum suðureftir frá Saint Jean Pied de Port, Frakklandi og upp eftir Pýrineafjallgarðinum sem „feimnislega“ faldi sig að hluta í dumbungi og þykkri þoku. Snemma morguns kl:6.00, 2. júni yfirgáfu pílagrímarnir næturstað með stefnuna suður til Spánar. Framundan var 28 km ganga yfir og meðfram Pýreneafjöllunum til Spánar. Þoka og rigningasuddi var í lofti sem jókst eftir því sem ofar dró á fjallið. Kunnugir sögðu að það væri ekki óalgengt á þessum slóðum. Við og við rigndi hressilega svo moldin rann sundur í límkennt forað undir fótum okkar, sem gerði þennan fyrsta dag erfiðan og ekki síður hættulegan. Varúðarorð fylgdi okkur í eyra því í vikunni á undan fórust tveir pílagrímar á fjallinu. Annar hrapaði og hinn fékk hjartaáfall. Eftir erfiða göngu og príl upp mjóa stíga sem pílagrímar fyrri tíma höfðu skilið eftir sig, komust við, blautir og hraktir, upp á hæsta punkt þaðan sem leiðin lá niður á við. Hvert skref sem tekið var, gat verið okkar síðasta. Við vorum vel meðvitaðir um þá staðreynd. Lélegt skyggni byrgði sýn niður í djúpa dali. Eftir langa 28 km. og hækkum um 1450 metra og þreytta fætur var náð næturstað í klaustri í Roncesvalles - Spáni, sem var annar áfangastaður ferðarinnar. Fyrir utan klaustrið, var vegvísir sem benti okkur þreyttum pílagrímum, í vestur í átt að Santiago de Compestella og þangað væru 790 km. Mjög uppörvandi fyrir sárfætta, hrakta, drulluskítuga og þreytta pílagríma.

Hljómkviða

Lífið á Jakobsstígnum var í sjálfu sér einfalt. Ganga, nærast, hvílast. Skyldur hins daglega lífs víðsfjarri. Leið lá vestur eftir Norður Spáni og þegar á næturstað (klaustur, farfuglaheimili) var komið var þvegið af sér ferðarykið, fætur nuddaðir og iljar smurðar með mýkjandi kremi, etið og drukkið „guðaveigar“ í stækkandi hópi pílagríma á sömu vegferð. Alltaf var farið snemma í koju í herbergi eða sölum sem taldi allt frá fjórum rúmum og upp í 130 svefnpláss. Yfirleitt nötraði herbergið af hrotum, frýsi og blístri í öllum tóntegundum svo úr varð mikil hljómkviða. Eftir miságæta næturhvíld var farið á fætur kl:5.00 eða 6:00 að morgni og gengnir að meðaltali 30 kílómetrar á dag miðað við áætlun okkar að ganga Jakobsveginn á enda á einum mánuði. Styðsta dagleiðin var 18 km. sú lengsta voru tæpir 50 km. Fyrstu morgnana var vægast sagt erfitt að koma sér á fætur og í gönguskóna og setja á sig 9 kg. bakpokann og ganga út í svalt þokukennt morgunloftið. Að sama skapi var dásamlegt að vera íkæddur bleikum, gulum og ljósbláum morgunbjarmanum, sem smátt og smátt vaknaði til nýs dags, og kastaði hlýjum björtum geislum á allt og alla.

Nögl af tá rómverskum vegum

Veðurfarslegt áhrifasvæði Pýranefjallgarðsins gætti í 3-4 daga með rigningu og dumbungi. Á fjórða degi, eftir að hafa lagt að baki um 100 km. breyttist veðrið til hins betra og sólin tók að skína. Þreyta hlóðst upp í fótum og iljum og reyndar víðsvegar um líkamann. Fæturnir þrútnuðu og urðu sárir og aumir. Það var gengið um fjöll og firnindi, skóga og sléttur um vegslóða sem lagðir voru af Rómverjum fyrir 2000 árum og hafa vissulega staðið fyrir sínu en þegar iljarnar fóru að segja til sín með „loga“ eins og gengið væri á heitum kolamolum, var það ekki fyndið eða „róman-tíkst“ í fyllstu orðsins merkingu. Fyrstu tíu dagarnir fóru í raun að ganga úr sér verki og eymsli, sem óhjákvæmilega fylgir því að ganga upp og niður fjallendi og dalverpi, með hvössum steinum, sem virtust vita nákvæmlega hvar ætti að nudda sér upp í og snerta viðkvæmar iljarnar. Blöðrur á fæti fylgdu, og ein og ein tánögl skilin eftir á veginum. Vegslóðarnir voru, jú, með með 2000 ára reynslu hvort heldur það voru fætur Legiona Rómverska heimsveldins eða „aumara“ göngupílagríma, nútímans á nútíma gönguskóm og með nútíma bakpoka, sérstaklega aðlagaðir að nútíma baki. Oftar en ekki varð manni hugsað til fyrri alda pílagríma sem ekki aðeins gengu veginn vanbúnir, heldur og þurftu að sæta árásum ræningja og annars óþjóðalýðs sem sátu fyrir þeim á veginum.

Eftir tíu daga göngu fór líkaminn að mestu að sætta sig við ferðalagið, sem taldi upp á dag að meðaltali, eins og áður segir, 30 km, á misjafnlega greiðfærum leiðum, bröttu fjalllendi hæðóttum dalverpum og Kastalísku 200 km. hásléttuna þar sem vegurinn lá eins og grábrúnn ormur um hveiti og vínakra svo langt sem augað eygði. Jakobsvegur nútímans liggur í gegnum nokkrar stórborgir og hátt á þriðja hundrað þorp þar sem oftar en ekki var áð um stund eða gist. Í flestum þessara þorpa var hægt að fá gistingu í Alberque (ódýr gisting) á vegum kirkjunnar eða einstaklinga. Meðalverð á gistingu var um 5-10 evrur.

Á hverjum áfangastað varð breyting á hópnum. Sumir drógust aftur úr vegna meiðsla eða þreytu, aðrir styttu áningatímann til að vera samferða þeim sem þeim þótti áhugverðir og skemmtilegir. Aðrir komu inn á stíginn víðsvegar á leiðinni og svo þeir sem hófu för og gengu Camino Primitivo og Camino del Norte, sem liggur norðar við Camino de Francés, þá leið sem við fórum og mætast ca 100-150 km frá Santiago de Compestella.

Gaggandi hænur og skriftarstóll

Þegar við höfðum farið um helming leiðarinnar blasti kastalíska hásléttan við okkur og við vorum agndofa yfir þessari gríðalegu flötu víðáttu (200 km). Rauðdoppótt tígullsteinsþök lágreista húsaþyrpinga sáust hér og þar, og kirkjuturnar gægðust upp úr grasbreiðunni, og þeim fjölgaði eftir því sem við nálguðumst hina blómlegu borg, Búrgos. Í Burgós er meðal annars að finna eina stærstu og glæsilegustu dómkirkju á Jakobstígnum. Í skjóli hennar og á hennar vegum gistum við og söfnuðum kröftum fyrir næsta áfanga. Í borgum eins og Pamplona, Logrono, Domingo de la Calzada, Burgós, León, Portomarin, svo einhverjar eru nefndar var margt að skoða þannig að eiginleg hvíld með tærnar upp í loftið var að skornum skammti. En hvíldin fólst ekki aðeins í því að liggja fyrir og bíða næsta gönguáfanga heldur hins að hitta aðra pílagríma og eiga samfélag með þeim og ekki síður með heimafólki sem kippti sér ekki upp við, heldur fögnuðu pílagrímum, sem leið áttu um þorpin þeirra á hátíðarstundu, enda hagur beggja aðila þar undir.

Víða á Jakobsstígnum í þorpum og borgum, gengum við inn í og tókum virkan þátt margvíslegum hátíðarhöldum heimamanna, þar sem fögnuður, vegna stríðsátaka fyrri alda eða kraftaverka sem áttu sér stað á veginum, eins og í borginni Santó Dómingó de la Calzada, þar sem var líflátinn maður og dauðar hænur vöknuðu til lífsins. Margar kraftaverkafrásögur tengjast heilögum Jakobi. Forn þjóðsaga segir frá ungum manni sem saklaus var ákærður fyrir þjófnað. Það gerði ung stúlka sem hann hryggbrayt. Ungi maðurinn var umsvifalaust hengdur, en lifnaði við fyrir tilverknað heilags Jakobs. Inni í miðri dómkirkju bæjarins eru að finna flottasta hænsnakofa veraldar og lánsamar lukkulegum hænum í helgidómnum fyrir ofan skriftarstólinn.

Ekki þessa heims?

Yfirleitt gengum við rösklega um blómleg landbúnaðarhéruð, víðáttumiklar vínekrur Riohja héraðsins. Af vínekrunum tóku við græn tún og hrjóstugir melar, grænir leyndardómsfullir skógarstígar sem veittu svala skugga á heitum degi. Sum staðar sáust lágir hólar eða þúfur tilsýndar meðfram veginum. Þegar nær dró kom í ljós að þetta voru grjóthrúgur sem pílagrímar aldanna rás höfðu skilið eftir sem vitnisburð um för sína; leifar kapellu og kirkna sem Musterisriddarar skyldu eftir sig. Fjölmargir krossar voru á veginum til minninga um þá sem höfðu látist á leiðinni eða til minningar um ásvini þeirra sem gengu þarna um. Fegurðin á leiðinni var mikil. Samspil gylltra og grænna lita teygði sig út fyrir sjóndeildarhringinn ásamt eins og áður segir, miðaldakirkjum og þorpum sem kúrðu uppi á hæð eða í dalverpum. Voru mörg þeirra líkust því að tíminn hefði numið þar staðar.

Tár á hvarmi

Stór partur göngunar var ekki aðeins glíman við að vera heill og óskaddaður á líkama heldur var hugafarið, andlegi þátturinn mikilvægur. Dagleiðirnar voru misjafnar og segir kílómetrafjöldinn lítið um þær áskoranir sem mættu okkur. Stuttar dagleiðir gátu verið jafnþungar og þær löngu. Það má með sanni segja að það voru auðmjúkir og glaðir pílagrímar sem komu á leiðarenda til Santiago de Compostela eftir langa og oft erfiða göngu og urðu miklir fagnaðarfundir þegar pílagrímar komum inn í borgina. Sú gleði var ólýsanleg. Sambland af gleði og söknuði fyllti huga, við að kveðja ferðafélaga sem höfðu heilan mánuð, saman deilt kjörum.

Tár á hvarmi, faðmlög, bros.

Pílagrímar þessarar ferðar voru hjónin Hildur Oddsdóttir og Sigurður Þórir Þorsteinsson, Jakob Líndal, og hjónin Magnhildur Sigurbjörnsdóttir og Þór Hauksson.