Konan á fimmþúsundkallinum biskup í Skálholti

Konan á fimmþúsundkallinum biskup í Skálholti

fullname - andlitsmynd Yrsa Þórðardóttir
20. febrúar 2011
Flokkar

Í dag er okkur boðið að hugleiða enn sinu sinni söguna um talenturnar og mismunandi ávöxtun fjár. Þetta er klassískt stef í fræðunum, stundum er talað um húsbóndann, stundum þjónana, stundum samband húsbóndans og þjónanna og ráðsmennsku í ríki Guðs. Oftast staðnæmumst við við orðin Illi og lati þjónn og snuprurnar þar á eftir, því að ef við erum að gera því skóna að líkja megi Guði við húsbóndann, verðum við að horfast í augu við að gæskuríkur Guð gæti átt það til að skamma fólk með nöprum orðum, ef því verður á og skilar ekki arði af þeim fjársjóði sem Guð fól honum. Ég vildi að við ættum upptökur af sögum Jesú, og vissum hvert var hljómfallið, svipbrigðin og stíllinn. Fyrst svo er ekki verðum við að geta í eyðurnar. Svo getum við reyndar sest inn á Þjóðarbókhlöðu og lesið doktorsritgerð séra Jakobs Jónssonar, sem heitir Humor and Irony in the New Testament og er um íroníu í Nýja testamentinu, sem sumir kölluðu járnspælingar til að koma þesu íroníska yfir á íslensku. Svona eins og iron sem þýðir járn. Háð eða hótfyndni eða ýkjur eru heilmikið notaðar í frásögum almennt og trúlega einnig í sögunum sem Jesús sagði. Eitt pínulítið fræ, minna en mustarðskorn verður að heilu tré sem er svo stórt að allir fuglar himinsins eiga sér þar skjól. Líkingar um himnaríki eru alls ekki til þess fallnar stundum að lýsa því í alvöru á tæmandi hátt, heldur frekar sýna að það er ólýsanlegt. Að sama skapi er sagan okkar í dag líklega ekki viðskiptafræðilegs eðlis um auðlegð þjóðanna eða ávöxtun fjár, heldur um þessa títtnefndu ráðsmennsku í ríki Guðs, þessu ríki sem er ólýsanlegt. Er þá hægt að lýsa ráðsmennskunni? Hver er góður þjónn og hver ekki? Hvað skilur þar á milli feigs og ófeigs? Tökum eftir hegðun húsbóndans, segjum að húsbóndinn sé Guð, eða fyrst það er konudagurinn í dag, segjum að húsfreyja sé Guð, sem útdeilir býsna miklum auðæfum og verðmæti á meðal fólks. Þótt sumir eigi að sýsla með meira en aðrir eru allir með gífurlegar fjárhæðir eða önnur verðmæti. Húsfreyja felur fólki þetta og hvað gerir hún svo? Hún fer úr landi og segir ekki af hennar ferðum þar til löngu síðar að hún kemur aftur og spyr hvernig hafi tekist til. Hún sagði þeim bara að ávaxta sitt pund og innti þau svo eftir árangri þeirra en bað ekki um afraksturinn. Kannski var hljómfallið í rödd hennar eitthvað á þessa lund. Hvernig gekk þér rýjan mín, svona ef þetta er húsfreyja úr pilti og stúlku eða manni og konu, hún er höfðingleg á peysufötum eða jafnvel skautbúningi, valdamikil kona af stóru búi, jafnvel biskup í Skálholti eða eitthvað, lætur hjúin fá fullt af verðmætum og fer svo burt í langan tíma. Hvernig gekk þér, hvernig var að sýsla með svona mikla fjármuni. Ha, tókst þér virkilega að ávaxta þitt pund? En hvað ég er glöð, það var einmitt það sem ég vonaði að þú gerðir, að þú kæmist í álnir, öðlaðist frelsi og tækir höndum tveim þetta sem ég fól þér. Ég vildi ekki skipta mér af eða segja þér til, en sannast að segja fór ég úr landi svo að þú værir ekki alltaf að gera eins og ég, þú veist hvað börn vilja oft þóknast mæðrum sínum eða hjú húsfreyju, ég vildi að þú gerðir einmitt þetta, fyndir þinn eigin stíl. Svona gæti hefðarfrúin sagt, biskupinn í Skálholti, með prestakragann, konan á fimmþúsundkallinum. Þangað til kemur að þeirri sem fékk eina einusta talentu, að vísu mikla fúlgu en minna en allar hinar. Hvernig gekk svo þér, segir húsfreyja ögn óttaslegin en vongóð um að hún Gunna litla hafi tekið sig taki og þorað að stíga þroskaskref. En nei, Gunna var hrædd, ekki áræðin, ofurvarkár og þorði ekki að reyna að nýta sér það sem henni var gefið. Hvað á ég að gera með þig Gunna? segir húsfreyja. Ég hef reynt allt, gefið þér líf og starf og heilsu og mat og menntun og trú og gleði, svo margt, svo margt, en þú þorir ekki að lifa lífinu. Svo gef ég þér fúlgur fjár og þú bara stingur þeim inn á vaxtalausan reikning og notar ekkert. Hvar á ég að leita leiða til að kenna þér að eiga líf í fullri gnægð? Ertu svona illa farin af einelti og misrétti og skorti á sjálfstrausti að ekkert verður þér til bjargar. Reynum eitt enn, grátur og gnístran tanna hefur einstaka sinnum hrifið, þú verður gersamlega utangátta, veik og ein, kannski hrekkur þú þá í liðinn og leitar þér hjálpar, hver veit. Ég verð hér þegar þú sérð að þér og þá gef ég þér aftur gjöf og þú tekur vonandi loksins við henni handa þér sjálfri. Eitthvað þessu líkt hljóðar uppástunga franska sálgreinisins Marie Balmary, sem hefur skrifað margar bækur um guðfræði og sálgreiningu og sameiginlegt misminni okkar og misskilning á biblíusögum, því að okkur hættir svo til að vilja að Guð sé háskalega voldugur og dómharður, réttlátur og harður, og missum því af óskiljanlegri gæsku og náð. Marie kom með þessa uppástungu að ýkjurnar í sögunni um upphæðina bentu til að Jesús væri að sýna ofboðslegar gjafir Guðs til okkar, alveg feiknanlegan auð. Og fyrst húsbóndinn í sögunni fór úr landi en heimtaði svo engan arð, bara útreikninga, þá væri það svo ólíklegt að við ættum að sjá að þetta er ekki saga um ávöxtun fjár heldur meðhöndlun gjafar, þeirrar gjafar að vera Guðs börn. Og það rímar við lestur dagsins úr Gamla testamentinu. 5Mós 8.7, 10-11, 17-18 Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum, Þegar þú hefur etið og ert orðinn mettur skaltu lofa Drottin, Guð þinn, fyrir landið góða sem hann hefur gefið þér. Gæt þess þá að þú gleymir ekki Drottni, Guði þínum, og hættir að hlýða boðum hans, ákvæðum og lögum sem ég set þér í dag. Þú skalt ekki hugsa með þér: „Ég hef aflað þessara auðæfa með eigin afli og styrk handar minnar.“ Minnstu heldur Drottins, Guðs þíns, því að það var hann sem gaf þér styrk til að afla auðs til þess að standa við sáttmálann sem hann sór feðrum þínum eins og hann gerir enn í dag. Með öðrum orðum, Guð lofaði forfeðrum okkar og formæðrum að gefa okkur styrk til að afla auðs. Og Guð stendur við sáttmálann. Ef við lítum á allt sem við eigum sem gjöf frá Guði og förum jafnvel að íhuga hversu ótrúlegan auð Guð gefur okkur, erum við orðin eins og fólk í Guðspjalli dagsins. Guð gefur okkur okkur sjálf og Guð segir, þú ert harla góð, þú ert alveg frábær, ég fel þér í hendur gáfur og tilfinningar og líkama og sál og hugmyndir, drauma, tækifæri og orku, klókindi, fyndni, reiði, ýmsar tilfinningar, farðu með þessar gjafir sem þitt eigið hnoss. Fyrirheitna landið með lækjum og grösum og grundum gef ég þér líka, þetta er gjöf. Vertu ekki hrokafull og segðu að þú hafir búið þetta til sjálf, heldur er þetta gjöf frá Guði. Ef við lítum til fornra tíma hér á landi þar sem Þorrinn byrjaði á Bóndadag en Góan á konudag, erum við í allt öðrum sagnakrans en nútímanum. Nú fá konur kynstrin öll af blómum á konudaginn, en í gamla daga líklega ekki, þá var verið að gleðjast yfir því að Þorri væri liðinn, þó var hálfpartinn vonast til að veður yrðu áfram nokkuð skrykkjótt á Góu svo að sumarið yrði gott. Lífið var svo miklu einfaldara hér á landi en nú er og verkaskipting ljós á milli húsbænda og hjúa, landeigenda og vinnufólks. Þau sem áttu ekki eigið land, urðu að vera hjá öðrum í vinnu vetrarlangt og börn unnu hörðum höndum. Konudagur í góubyrjun var ekki mesti söludagur blómabúða, enda voru slíkar ekki til. Eitt veitingahúsið auglýsti grimmt í vikunni að konan ætti hið besta skilið á konudaginn, og auðvitað ætla ég ekki að bera á móti því að gott er að gera sér dagamun, en sannast að segja þurfa konur mat alla daga ársins, og karlmenn líka. Sérstaklega í kirkju gefst okkur tækifæri til að hugleiða það vel og vandlega að náð Guðs og allar gjafir standa okkur til boða alla daga, en ekki bara á stórhátíðum. Okkur er mikið gefið samkvæmt sáttmálanum sem Guð gerði við okkar fólk. Hvernig ávöxtum við það pund? Nú erum við að spara við okkur hversu oft aldraðir okkar á meðal fá að fara í bað og kannski hversu marga daga börn fá að fara í skólann eða njóta gæslu úti í frímínútum. Við ætlum að spara í stað þess að gefa af örlæti eins og Guð gerir. Þegar allt lék í lyndi mundum við ekki eftir að efla heilsugæslu, menntun, listir og tómstundir, geðrækt, mannréttindafræðslu og umburðarlyndi og trúarbragðafræðslu, svo að dæmi séu nefnd um þá sáttmála sem við höfum ábyrgst að fylgja. Við höfum lofað að iðka barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu en við æfum okkur ósköp sjaldan í þeim fræðum. Svo að þegar kreppir að og við eigum að standa reikningsskil gjörða okkar verður fátt um svör. Má ég þá í tilefni dagsins rifja upp visku kvenna. Konur um land allt stofnuðu kvenfélög og kenndu hver annarri að vinna ull í fat, varðveita mat, spara, skreyta, gleðja og menntast. Við getum gert þetta aftur, við getum byggt á menningararfi okkar og þakkað Guði fyrir þá blessun að við þurfum ekki að festast í eigin vitleysu og vonleysi. Guð hefur leitt okkur inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum, Þegar við höfum etið og erum orðin mett skulum við lofa Guð fyrir landið góða sem hún hefur gefið okkur. Gætum þess þá að gleyma ekki Guði . Við skulum ekki hugsa með okkur: „Ég gerði þetta allt sjálf.“ Þarna koma saman textar gamla og nýja testamentisins. Annars vegar er gleðin yfir gjöfum Guðs, hinsvegar hrokinn yfir að þykjast eiga þetta allt. Í sögunni um talenturnar er það áræðnin að taka við gjöfinni og verja henni til alls góðs, án hroka, eða máttleysið að taka varla við gjöfinni. Okkar er að rata hinn gullna meðalveg, menntast og styrkjast og verða alveg hreint frábær og þiggja hjálp og þiggja meiri visku, vera ekki sjálf upphaf og endir alls heldur hjálpast að að bæta mannlegt samfélag. Verkefnin eru næg og okkur geta fallist hendur því að það ríkir ringulreið í kringum okkur. Okkur hefur borið af leið og við erum alls ekki sammála um næstu skref í þjóðfélaginu. Hart er barist um hver ræður og hvað á að gera. Á meðan við komumst að því er okkur hollt að hlusta á Guð og iðka af trúmennsku það sem við kunnum og vitum að er rétt. Við kunnum að lifa, þakka Guði, gefa hvert öðru að borða, elska hvert annað og virða, huga að neyð náunga okkar, biðja um hjálp og tala vel hvert um annað. Hér í kirkju getum við leyft okkur að gleyma pólitískum flokkadrætti og leyft okkur að líta á þetta land sem sameign okkar allra þar sem hinir síðustu verða fyrstir og aðeins börn skilja samhengi allra hluta því að þau ein komast inn í himnaríki. Hlúum að börnum og þeim sem minna mega sín, sjáum sómasamlega um aldraða. Vinnum ull í fat og gerum að fiski úr sjó, sjáum um bændur og búfénað, garðyrkjubændur, hugarafl þjóðar okkar, virðum útlendinga á meðal okkar, ræktum okkur sjálf, gerum það sem við kunnum. Meðfram þurfum við saman að trúa Guði fyrir því að við kunnum ekki nema þetta, við vitum ekki hvernig við eigum að leysa erfiðu málin. Eða hvað? Hefur Guð kannski gefið okkur vit og lausnir, náð á náð ofan og talentur sem við grófum í jörð? Það er afskaplega trúlegt. Kannski erum við bara svo vön því að rífast og öfundast og níða skóinn hvert af öðru að við leyfum ekki því fólki að komast að sem gæti leitt okkur út úr vandanum. Leyfum Guði að leiða okkur réttan veg. Amen.