Kraftaverk lífsins

Kraftaverk lífsins

Að frásaga af barnsfæðingu fyrir rúmum 2000 árum skuli enn vera sögð um veröld víða er í raun ótrúlegt. En samt satt.

Lestrar: Jesaja 9.1-6 og Lúkas 2.1-14

Jólanótt. Fæðingarhátíð frelsarans. Gleðilega hátíð.

Í spádómsbók Jesaja segir:

Því að barn er oss fætt,
sonur er oss gefinn.

Guðspjallið, frásagan af fæðingunni, ómar í samhljómi við spádóminn:

Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu.

og sama hljóm er að finna í orðum engilsins til hirðanna á Betlehemsvöllum:

Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.

Barn er fætt. Það telst varla fréttnæmt þar sem á hverjum degi fæðast í heiminum um það bil 350 þúsund börn, ríflega heildaríbúafjöldi Íslands sem er tæp 340 þúsund. Á Íslandi eru um 10-12 barnsfæðingar daglega sem er næsta lítið miðað við heildina. En hver og ein einasta af þessum fæðingum er auðvitað sérstakur atburður, kraftaverk lífsins, sem snertir innstu strengi þeirra sem að barninu standa.

Að frásaga af barnsfæðingu fyrir rúmum 2000 árum skuli enn vera sögð um veröld víða er í raun ótrúlegt. En samt satt. Við getum hlustað á hana og hugsað sem svo að hér sé saga kynslóðanna sögð: Barn sem fæðist fátækum foreldrum, ungri móður í erfiðum aðstæðum án annarra bjargráða en þeirra sem hendi eru næst, hlýjunnar frá dýrunum, varfærnum höndum manns hennar, töðunnar í jötunni.

Við getum séð þetta fyrir okkur, umkomuleysi móður og barns og síðan fjölskyldu á flótta, eins og segir frá í Matteusarguðspjalli. Við getum fundið í þessari frásögn af aðstæðum svo ótalmargra fyrr og síðar handleiðslu Guðs sem vakir yfir og allt um kring, fundið þakklætið yfir að allt fór vel í þetta sinn.

En við getum líka skyggnst dýpra, leitt hugann að því hvað fæðing einmitt þessa barns merkir: Þessi fæðing er fyrir þig og fyrir mig: Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn… Yður er í dag frelsari fæddur.

Fyrir mig. Fyrir þig. Þessi orð eru sögð við hvert og eitt þeirra sem taka við sakramentinu, brauði og víni, í altarisgöngum í sænsku þjóðkirkjunni. Líf Jesú Krists, fyrir þig. Líf Guðs inn í þennan heim, fyrir þig. Líf Guðs í hjarta þínu, fyrir þig. Líf Guðs að loknu þessu, fyrir þig. Líf Guðs lagt í jötu, fyrir þig.

Og hver er hann þá sem flytur líf Guðs? Jesaja spámaður lýsir honum á þennan hátt:

Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla,
hann skal nefndur:
Undraráðgjafi, Guðhetja,
Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.
Undraráðgjafi, Guðhetja,
Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.

Undir það tekur englakórinn á jólanótt

sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.

Barnið í vanmætti sínum er líka máttugur Guð í almætti. Þannig rúmar Guð bæði okkar viðkvæma veruleika og er þess albúinn að mæta skorti okkar með dýrð sinni og friði. Megi sá friður sem er æðri öllum skilningi umljúka okkur öll á þessari helgu nótt.