Ekki gleyma okkur

Ekki gleyma okkur

Hann sagði frá því hvernig bráðnun jökla leiðir til hækkandi sjávarborðs sem þegar er farið að ógna löndum í Kyrrahafi eins og Kiribati sem gæti orðið fyrsta landið í heiminum sem hverfur vegna hlýnunar jarðar.

„Ekki gleyma okkur,“ sagðir John Taroanui Doom, einn forseta Alkirkjuráðsins, „eyjarnar okkar eru að sökkva vegna hlýnunar jarðar.“ John Doom er frá konungdæminu Tonga í frönsku Pólinesíu og hann ræddi um gróðurhúsaáhrifin á þingi Kirknasambands Evrópu í Lyon í júlí. Hann sagði frá því hvernig bráðnun jökla leiðir til hækkandi sjávarborðs sem þegar er farið að ógna löndum í Kyrrahafi eins og Kiribati sem gæti orðið fyrsta landið í heiminum sem hverfur vegna hlýnunar jarðar.

Umhverfismál hafa verið John hugleikin í meira en tvo áratugi. Hann var meðal annars virkur í starfi Alkirkjuráðsins að verkefninu Réttlæti, friður og náttúruvernd (Justice, Peace and the Integrity of Creation), sem sett var á oddinn hjá ráðinu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Ég man eftir ákafri baráttu hans gegn kjarnorkutilraunum Frakka í Kyrrahafi og sársauka hans vegna þeirrar meðferðar sem margir frumbyggjar í hans heimsálfu, Eyjaálfu, hafa sætt af hálfu nýlenduherra.

Á þinginu í Lyon var samþykkt álytun um umhverfismál. Þar segir meðal annars:

„Þegar mannkyn missir sjónar á ábyrgð sinni sem ráðsmenn og skyldu sinni að bera umhyggju fyrir sköpuninni, sem við erum öll hluti af, þá hefur það valdið því að við höfum glatað þeim samhljómi og jafnvægi alls sem okkur ber að gæta.“

Og það er tekin afdráttarlaus staða með fátækari löndum:

„Þó að auðugri lönd heimsins hafi stuðlað meir að loftslagsbreytingum þá lenda afleiðingar þeirra í mun meira mæli á herðum fátækari þjóða heims og þeim varnalausu. Bæði er það vegna þess að afleiðingarnar koma misjafnlega niður og eins vegna þess hvernig auðlegð og auðlindum til að mæta afleiðingunum er misdeilt.“

Ályktunina má lesa í heild sinni í íslenskri þýðingu á vefnum.

„Kirkjurnar verða að leggjast á vogarskálarnar með okkur,“ sagði John Doom og ég samþykkti. Kirknaráð Evrópu samþykkti það með yfirlýsingu sinni. Þetta er ekki fyrsta ályktun kirkna um umhverfismál og verður ekki sú síðasta. Víða er unnið af krafti í kirkjum, meðal annars að umhverfisvottun safnaða og virkri umræðu um aðgerðir til að hindra frekari hlýnun jarðar. Kirkjurnar í Evrópu eru margar að undirbúa sig fyrir fund þjóðarleiðtoga um umhverfismál í Kaupmannahöfn í desember. Það verður spennandi að fylgjast með því og spyrja sig um leið hvað ég sem einstaklingur geti gert, hvað söfnuðurinn minn geti gert og hvað kirkjan mín geti gert.

Í kveðjuskyni gaf John mér hálsmen úr skel, frá heimalandi hans. Skelin er stór og kringlótt og á henni er merki Alkirkjuráðsins. „Ekki gleyma okkur“, sagði hann aftur að skilnaði. Ég lofaði að gleyma ekki.