Þessi lilja er ljós mitt og von

Þessi lilja er ljós mitt og von

Og ekki eru það bara liljurnar einar, sem hjálpa til við það að skynja lífskraftinn í Laufási, það þarf ekki nema að líta niður á Laufáshólma og fylgjast með lengstu bergvatnsá landsins, Fnjóská, ryðja sér brautir um víðan völl, fátt fær stöðvað þann mikla náttúrukraft.
fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
12. apríl 2009
Flokkar

Gleðilega páskahátíð! Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn! Fögnum og verum glöð, já, fögnum lífinu, mætti þess og undri. Það var notalegt í nýliðinni dymbilviku að fá tvær kvenfélagskonur frá Grenivík á hurðina í Laufási með páskaliljur.

Þarna voru þær kátar og brosandi með lífsins kraft í höndum, en það get ég sagt ykkur að það var nánast hægt að fylgjast með liljunum opna sig eftir að þeim hafði verið búin staður á stofuborðinu.

Og ekki eru það bara liljurnar einar, sem hjálpa til við það að skynja lífskraftinn í Laufási, það þarf ekki nema að líta niður á Laufáshólma og fylgjast með lengstu bergvatnsá landsins, Fnjóská, ryðja sér brautir um víðan völl, fátt fær stöðvað þann mikla náttúrukraft.

Og lífskrafturinn mun sömuleiðis opinbera sig í því þegar bændur fara nú að sá í jörðu að vori. Lítil fræ, sem ryðja sér brautir rétt eins og Fnjóskáin, en það upp úr jörðu. Það er líka undur lífsins, og svo hafa menn sett spurningarmerki við upprisuna.

Svarið við slíku spurningarmerki efans er einfaldlega að hafa trú á lífinu, hafa trú á mætti þess og hætta öllu daðri við synd og dauða með hjálp Guðs og góðra manna. Það er enn og aftur grundvallarboðskapur páskanna og boðskapurinn sá er gjöf frá Guði, sem sagði í syninum Kristi.

„Ég er upprisan og lífið, sá sem trúir á mig, mun lifa þótt hann deyi. Ég lifi og þér munuð lifa.“

Það get ég sagt ykkur að koma mín í Laufás hefur ekki dregið úr trú minni á upprisu Krists, heldur þvert á móti nært hana og styrkt og eitt er víst að upprisuboðskapur kristninnar verður um margt dýpri og sterkari í huga þegar búseta á sér stað í þetta mikilli nánd við fagra náttúru.

Kristur sjálfur notar ófáar myndlíkingar úr náttúrunni um mátt lífsins í Biblíunni og ég lái honum það ekki. Hver þekkir ekki líkinguna um mustarðskornið, þar sem Kristur er að gefa ríki Guðs mynd og segir:

„Líkt er það mustarðskorni sem maður tók og sáði í jurtagarð sinn. Það óx og varð tré og fuglar himins hreiðruðu sig í greinum þess.“

Og þegar postularnir báðu meistara sinn um meiri trú, þá benti hann á mustarðskornið og sagði:

„Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum og það mundi hlýða yður.“

Þetta er reyndar sterkur boðskapur fyrir stórhuga íslendinga, sem undafarið hafa farið nokkuð flatt á of stórum hugsunarhætti, hafa farið þannig fram úr sér með kunnum afleiðingum.

Já, hún er í því ljósi holl ábendingin frá Kristi um hið eina mustarðskorn, sem þarf til, svo úr verði kraftaverk, slíkt boð er jafnframt dýrmætt í því uppbyggingarferli, sem þjóðin tekst nú á við eftir góðærisveisluna miklu. Vonin um kraftaverk og staðreyndin um hið litla og smáa, sem getur leitt til óvenjulegra máttarverka.

Páskaliljur frá brosandi kvenfélagskonum minntu mig á þetta og ekki hvað síst þegar ég varð vitni að kraftaverkinu á stofuborðinu, þegar ég horfði upp á nýja fæðingu á því góða borði, útsprungnar liljur.

Oftsinnis hefur nú verið talað um upprisuna einmitt sem nýja fæðingu inn í lífið eilífa, sem hvorki er bundið tíma né rúmi, heldur vilja Guðs og nærveru.

Mér var líka hugsað til þess þegar ég fór að velta fyrir mér liljum vallarins og krafti náttúrunnar í samhengi við margumtalaða óráðsíuveislu stórhuga íslendinga, að vera má að þeir hafi ekki lengur verið í takt við gang náttúrunnar.

Þeir voru ekki lengur jarðbundnir eins og það er kallað og komu ekki lengur auga á mátt lífs fyrir aurablindu. Það hefur oft verið minnt á það að landsbyggðin hafi aldrei orðið vör við góðærið. Þar var minna um bankaflipp, þar var minna um verðbréfabrask, góðærið náði síður þangað og menn lifðu bara sínu lífi og sinntu sinni vinnu.

Það kemur mér ekkert á óvart, en ég vil líka bæta annarri skýringu við, sem er alfarið á mína ábyrgð og hún snýr að því að þar hafa menn ekki gleymt gangi náttúrunnar og eðli hennar vegna náttúrunándar.

Þar hefur fólk ennþá gert sér grein fyrir að árnar renna á endanum ekkert annað en út í sjó og kornið kemur ekki upp úr jarðveginum, nema það fái vatn og skít og það mun hreinni skít en þann, sem safnaðist upp í íslensku bankakerfi.

Já, páskaliljan er sannarlega eitt af einkennistáknum upprisuhátíðar, því þar erum við að fjalla um mátt lífsins, sem er meiri en máttur dauðans, það er hið stóra og mikla fagnaðarefni páskahátíðarinnar. Liljan er reyndar tákn fyrir svo ótalmargt í helgri ritningu og í trúarlegu tilliti.

Fyrir það fyrsta er hún tákn sköpunar eins og svo margar aðrar jurtir, blóm á altari eiga að minna á Guðs góða sköpun, fegurð hennar og forsjón Guðs.

Blóm geta sömuleiðis verið tákn fórnar, sem er jú undanfari upprisunnar, þau boða forgengileikann og minna á eðli kristinnar fórnar, sem er að gefa án þess að gera þá kröfu að fá eitthvað á móti.

Blómin gefa fegurð sína en ekki sjálf sig og þegar þau visna hafa þau lokið hlutverki sínu og minna á forgengileikann eins og sagt er frá í bók spámannsins Jesaja, sem spáir m.a. fyrir um komu friðarhöfðingjans Krists:

„Grasið visnar, blómin fölna, en orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega.“

Orðið sem varð hold. En þetta er fyrir það fyrsta merking liljunnar, þá táknar hún einnig hreinleika og sakleysi og er einkennistákn Maríu Guðsmóður.

Á myndum af boðun Maríu, þar sem hún fær engilinn Gabríel í heimsókn, er tilkynnir henni að hún muni Guðs son ala, gefur að líta liljur í vasa á milli hennar og Gabríels. Oft heldur Gabríel á lilju í hendi sér og þess vegna er liljan einnig einkennistákn boðberans Gabríels.

Þau Gabríel og María koma svo bæði við sögu í upprisufrásögninni, sem ég las héðan frá altari Drottins, enda eru þau bæði mikilvægir hlekkir í hjálpræðissögunni.

Þau eru líka fulltrúar fyrir þá mikilvægu iðju að fylgja hlutunum eftir og þau eru bæði í stöðu boðbera, þau boða líf og mátt þess.

Gabríel mætir þeim stöllum Maríu Guðsmóður og Maríu hinni að liðnum hvíldardegi með fagnaðarerindið um tóma gröf Krists. Konurnar meðtóku gleðifréttirnar, stærstu gleðifréttir sem sagðar hafa verið af mörgum góðum, og þær báru þær strax til lærisveinanna.

Þeim var treyst fyrir tíðindunum og það er ekki lítið. Ég vona og vil trúa því, að ég ávinni mér traust hér í prestakallinu og efli það frá degi til dags, til þess að flytja ykkur þessi tíðindi með einum eða öðrum hætti.

Það er líka bæn mín að þið meðtakið og berið áfram, þannig á kirkjusamfélag að virka, það er að bera fréttirnar frá manni til manns, þessar stórkostlegu fréttir, sem innifela leyndardóminn stóra um upprisu Drottins, um það þegar lífið brýst fram úr skel dauðans, fæðist að nýju eins og skírnarbarn, sem þiggur nýtt líf við helga skírnarlaug, það er líf með upprisnum Kristi, er sagði:

„Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.“

Við sem höfum þegið skírn megum lifa undir þeirri náð Drottins með sérstökum hætti og reyndar öll börn Guðs lífs og liðin, það eru einnig stórbrotin sannindi rétt eins og upprisan, rétt eins og kraftaverkið á stofuborðinu í Laufási, þar sem páskaliljur standa í blóma:

„Ég leit eina lilju í holti, hún lifði hjá steinum í mel, svo blíð og svo björt og svo auðmjúk, en blettinn sinn prýddi hún vel. Þessi lilja er mín lifandi trú. Hún er ljós mitt og von mín og yndi.“

Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn!