Vinur barnanna

Vinur barnanna

Í þessu atviki er okkur kennt að sjá eins og Jesús lítur á málin, okkur, sem viljum leitast við að fylgja honum. Jesús er að gagnrýna lærisveina sína fyrir afstöðu þeirra gagnvart börnum, sem að hans mati er algjörlega óviðunandi og kennir þeim með lífi sínu og breytni að börn eru fullgildir meðlimir samfélagsins.

Náð sér með ykkur og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi.

Bæn:

Ó, Drottinn Guð, hvern dag ég bið um dýrð Guðs föður, náð og frið, að lífsins andi leiði mig er les ég bókina um þig.
...

Svo held ég út í heiminn þinn og hef í huga lærdóminn, og breyti eins og bauðstu mér til blessunar og dýrðar þér.

                    Guðm. G.

1. Að sjá eins og Jesús lítur á málin:

Það á vel við að byrja barnastarfið í kirkjunni á þessum degi þegar við íhugum textann um það þegar Jesús tekur börnin í faðm sinn og blessar þau. Þetta eru kunnugleg orð lesin við hverja skírn í kirkjunnu okkar. Réttilega hefur hann leitt til þess að börn fá sérstaka athygli í kirkjunni, þau eru borin eitt og hvert til skírnar og í fermingunni er hver einstaklingur blessaður og beðið fyrir hverjum og einum. Ástæðan er eins og orðið sannar að Jesús er vinur barnanna. En orðin eru ekki eins slétt og felld og kanna að virðast við fyrstu sýn eða venjuleg eins og vaninn hefur tamið okkur. Það er broddur í þessari frásögn gegn vanahugsun eða vanhugsun. Á þessum tíma frá þrettánda til föstu erum við að íhuga hvernig Guð birtist okkur. Í þessu atviki er okkur kennt að sjá eins og Jesús lítur á málin, okkur, sem viljum leitast við að fylgja honum. Jesús er að gagnrýna lærisveina sína fyrir afstöðu þeirra gagnvart börnum, sem að hans mati er algjörlega óviðunandi og kennir þeim með lífi sínu og breytni að börn eru fullgildir meðlimir samfélagsins.

2. Dæmið um börnin birtir eðli eftirfylgdarinnar:

Jesús gengur svo langt að láta eilíf örlög okkar velta á þessu smáatriði, sem mörgum finnst, hvernig við erum við börn. “Leyfið börnunum að koma til mín”, sagði hann, “slíkra er Guðs ríki”. Og hann hélt áfram gagnrýni sinni, hikkstalaust, beinskeyttur, með börnin í kringum sig: “Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.”

Jesús kennir hér lærisveinum sínum og okkur að vera með sama hugarfari og hann. Hann er að kenna okkur afstöðu eða eðli þess að fylgja honum. Og það er ekki eitthvað sem maður játkar í fermingunni og svo búið. Nei, það er lífstíðarverkefni að fylgja honum, það er lífið og gleðin, eðli þess að vera manneskja með mönnum, vera lifandi, eins og maður getu best orðið það.

Matteus guðspjallamaður útskýrir ítarlegar en Markús kenningu Jesú í þessu efni. Að fylgja Jesú er að taka sér stöðu með smælingjunum, verða einn af þeim, vera barn, gagnvart Guði og með mönnum. Það er staða lærisveinsins. Frekar auðmjúk, biðjandi, opin og traust. Eins og barns gagnvart góðum foreldrum sínum, sem er það ljúft að taka leiðsögn þeirra.

3. Fordæmi Jesú fyrir þá sem fylgja honum:

Lærisveinarnir höfðu alls ekki lært það sem Jesús hafði verið að kenna þeim. Þeim fannst það ekkert skemmtilegt að snúa við og verða eins og börnin og taka við börnum í sinn hóp. Jesús hafði skömmu áður tekið barn inn í miðjan lærisveinahópinn þar sem þeir voru að ræða sín á milli hver þeirra væri nú mestur. Og það er ekki laust við að menn séu enn að karpa um það hver sé mestur og bestur eða hvaða flokkur er fremstur en afstaðan sem Jesús kennir gerir svoleiðis kappræður hjákátlegar.  Jesús segir við lærisveinana og okkur: “Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér og hver sem tekur við mér tekur ekki aðeins við mér heldur og við þeim er sendi mig.” Ja, hérna, er hann að segja að sá sem sinnir börnum tekur á móti Guði sjálfum? Mér er spurn: Hefur okkur tekist að móta kirkjuna í þessum anda? Og hefur okkur tekist að hafa áhrif á samfélag okkar í þessa veru? Forsetinn ætti að ganga um og setja heiðursmerki á leikskólakennara, og ráðherrar ættu að heita samfélagsþjónar, og prestar djáknar. Æ, já, við eigum víst verk fyrir höndum að snú þessu öllu við í anda Jesú Krists.

Og þetta er ekkert smáatriði kristinnar trúar heldur meginatriði í guðspjöllunu og bréfunum. Jesús gerðist fátækur okkar vegna heitir það. Hann afklæddist dýrð Guðs segir í einum elsta sálmi frumkirkjunnar og gerðist þjónn. Hann koma til að þjóna og gefa líf sitt til þess að við mættum lifa segja guðspjöllin. Og það líf er í þjónustu við náungann, börnin, þá sem minna mega sín, eins og stundum er sagt, smælingjana, ekki vegna þess að við erum hærra sett, heldur vegna þess að við erum smælingjar sjálf, höfum tekið þá stöðu með Jesú. Lífið sem Kristur boðar og kennir er fólgið í þjónustu við aðra. Það er grunnhugsun kristinnar trúar og siðferðis.

4. Leiðbeining fyrir kirkju og samfélag:

Það sjónarmið að börn séu lægst sett í samfélaginu, sem hljómar náttúrulega villimannslegt í okkar Vestræna samfélagi, þegar maður hefur orð á því, er engu að síður meira en sjónarmið, það er því miður staðreynd, sem mótar samfélag okkar. Kirkjan hefur fengið ljósa leiðbeiningu um hvernig hún á að vera gagnvart börnum. Það felur í sér að við þurfum að líta í eigin barm og venja okkur á nýja siði og hugsun vafalaust. Og það skulum við gera vegna þess að það er leið lífsins og gæfunnar, vegur Guðs.

Við eigum að hafa barnið í brennidepli. Það felur í sér gagnrýni á okkur og það samfélag sem við erum hluti af. Peningjahyggja hefur verið að tröllríða okkur undanfarið með alvarlegum afleiðingum þar sem fólk hefur verið metið í aurum. Afleiðingar af þessari kenningu Jesú er að manngildi er af Guði gefið, hver og einn hefur mannréttindi. Vinur barnanna er jafnframt mannvinurinn, það er afstaðan, hugarfarið, sem hann var að kenna okkur. Þá göngumst við undir þá ábyrgð, sem fólgið er í því, að vera samferðamaður, þær skyldur gagnvart náunga okkar, sem leiða til mannúðar og jafnræðis. En það gerist ekki af sjálfum sér að viðhalda þessu sjónarhorni Guðs, það kemur fyrir boðun Guðs orðs, bæn og iðkun.

Guðs ríki gefst okkur í sambandi okkar við okkar nánustu, auðmýktin er gagnkvæm afstaða þar sem traustið ríkir, þar sem maður getur verið öruggur með sig. Í því andrúmslofti dafna börnin best. Við tjáum það eflaust best með þessu myndmáli í orði dagsins. Við tökum okkur stöðu með börnunum og leitum eftir blessun Guðs í faðmi Jesú. Þjóðskáldinu okkar fannst allt í lagi að hugsa samband sitt við Guð á þeim nótum í sálminum: Ó, þá náð að eiga Jesú. Auðmýkjandi? JÁ, fyrir hrokafulla og það er vafalaust helsti vandi okkar að við erum ekki laus við hroka, en Jesús er að vísa okkur á leið lífsins. Takið við Guðs ríki eins og barn!

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun.