Grátónaskali synda og heilagleika

Grátónaskali synda og heilagleika

Þegar kemur að því að móta samfélagið sem við búum í, þurfum við að horfa til þess hvernig við skiljum manneskjurnar í kringum okkur. Þegar ákvörðun er tekin um stuðning við þá sem minna mega sín, þurfum við að spyrja hvort sköpunin eða fallið sé ráðandi.
fullname - andlitsmynd Halldór Elías Guðmundsson
17. október 2013

Það var í kringum 1960, eftir þriggja áratuga rannsóknir að Douglas McGregor kynnti það sem hann kallaði „Kenningu X og kenningu Y“. McGregor stundaði m.a. rannsóknir á vinnumarkaði og kenningar hans snérust að þessu sinni um mannskilning. Að mati McGregor hafði Kenning X um vinnandi fólk verið ríkjandi. Einkenni kenningar X voru þessi:

  1. Meðalmanneskjan hefur andúð á vinnu og leitast við að losna undan vinnuskyldum.
  2. Þar sem að manneskjur hafa andúð á vinnu, þá þarf að þvinga fólk og stjórna, hóta og aga svo að þau sinni verkefnum sínum.
  3. Flestar manneskjur kjósa að láta stjórna sér, leitast við að losna undan ábyrgð, skortir metnað og kjósa öryggi fram yfir allt annað.

McGregor taldi sig sjá að þessi hugmynd væri á undanhaldi í Bandaríkjunum á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina og sá fyrir sér að skilningur yfirmanna á starfsfólki sínu væri að færast nær því sem hann kallaði kenningu Y. Einkenni kenningar Y eru:

  1. Þörfin fyrir að leggja sig fram í starfi, líkamlega og andlega er manneskjum jafn eðlileg og leikur og hvíld.
  2. Utanaðkomandi stjórnun eru ekki einu leiðirnar til að kalla eftir árangri. Manneskjur hafa innbyggða hvöt og sjálfstjórn til að leita árangurs í verkefnum sem þær hafa köllun til að sinna.
  3. Skuldbinding, markmið, árangur og ánægja í starfi fara saman.
  4. Meðalmanneskjan lærir við réttar aðstæður, ekki aðeins að axla ábyrgð heldur að leitast við að bera ábyrgð.
  5. Getan til að skapa, móta og hanna lausnir á kerfisbundnum vandamálum er til staðar hjá flestum í samfélaginu.
  6. Í iðnsamfélagi samtímans er auður fjöldans ekki nýttur nema að takmörkuðu leiti.

Hugmyndir McGregor um kenningu X og kenningu Y voru lagðar fram sem andstæður. Eru manneskjur í eðli sínu latar og leitast við að forðast ábyrgð, eða er vinnan okkur eðlislæg og nauðsynleg?

Þessi andstæðuviðhorf kenningar X og kenningar Y, hafa sér guðfræðilega hliðstæðu, sem þó er ekki annað hvort eða heldur í sífelldri spennu. Spennu sem felst í fullyrðingunni um að við séum öll bæði í senn heilög og syndarar, samtímis sköpuð í Guðs mynd og hluti af föllnu mannkyni.

Þegar kemur að því að móta samfélagið sem við búum í, þurfum við að horfa til þess hvernig við skiljum manneskjurnar í kringum okkur. Þegar ákvörðun er tekin um stuðning við þá sem minna mega sín, þurfum við að spyrja hvort sköpunin eða fallið sé ráðandi. Við þurfum að svara því hvort við lítum á samsystkin okkar fyrst og fremst sem dýrmætt sköpunarverk Guðs eða auma lata syndara.

Vissulega þarf annað ekki að útiloka hitt, en á stundum er lítið rými fyrir grátóna í lausnum á viðfangsefnum dagsins og þá þurfum við að velja hvar við stöndum. Upphafsspurningin er e.t.v. hvernig sjáum við okkur sjálf á grátónaskala synda og heilagleika.