Lýðheilsa sóknarbarna minna

Lýðheilsa sóknarbarna minna

Ég tel það mikilvægt fyrir lýðheilsu sóknarbarna minna að geta beðist afsökunar og þegið fyrirgefningu. Mér hefur blöskrað sú fréttamennska að undanförnu sem er tillitslaus í garð þeirra sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér og eiga sér engan málsvara í kjölfar þess að hafa tekið út sinn dóm.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
29. apríl 2013

            

Við stóðum flest í kjörklefanum á kosningadaginn með kjörseðil í höndum. Okkar var valið. Sumum reyndist valið auðvelt, öðrum erfitt. Fæstir skiluðu auðu. Sumir eru ánægðir með úrslit kosninganna, aðrir ekki, eins og gengur. Fráfarandi ríkisstjórn tók við mjög erfiðu búi og ný stjórn tekur líka við erfiðu búi í ljósi skuldastöðu ríkissjóðs. Ýmsir samverkandi þættir ollu hruninu 2008. Þar var ekki eingöngu við þáverandi ríkisstjórn að sakast. Lánalínur milli heimsálfa lokuðust vegna fjárglæfrastarfssemi sem talin var góð og gild af hagfræðingum sem náðu eyrum fólks með sínum boðskap þar sem þeim láðist að geta þess að frelsinu fylgdi ábyrgð. Fráfarandi ríkisstjórn tók til við að stoppa upp í skuldagat ríkissjóðs með því að leggja auknar skattálögur á heimili og fyrirtæki í landinu. Við höfum svo sannarlega fundið fyrir því og þess vegna var stjórnarflokkunum refsað á kjördag. Við vonum að næsta ríkisstjórn verði vandanum vaxinn, að það sé til innistæða fyrir öllum kosningaloforðum tilvonandi ríkisstjórnarflokka, að komandi ríkisstjórn auðnist að koma hjólum atvinnulífsins af stað og skapi hér aukinn hagvöxt í þágu heimila og fyrirtækja í landinu.  

Risandi og hnígandi vald

 

Það er eðli ríkisstjórna að rísa og hníga. Þær eiga sína góðu daga eftir því sem þeim auðnast að þóknast heimilum og fyrirtækjum með ákvörðunum sínum. Þær hníga á krepputíð þegar þrengja þarf að heimilum og fyrirtækjum til að ríkiskassinn tæmist ekki. Við íslendingar erum vonandi komnir yfir versta hjallann með hjálp fráfarandi ríkisstjórnar. Þrátt fyrir það höfum við refsað henni. Við vitum ekki hversu margir dagar næstu ríkisstjórnar verða en ég vona að hún fái góðan tíma til að búa skip sitt um fjöruna því að byrinn kann að renna á með flóðinu.  

Við vonum að ný ríkisstjórn fái góðan byr í seglin þegar hún leggur á djúpið til móts við óræða framtíðina og við óskum henni farsældar í störfum sínum í þágu lands og þjóðar. Vissulega er eðlilegt fyrir okkur að halda í vonina um betri tíð með blóm í haga eins og sagt er. Annars væri úti um okkur. Við eigum þetta eina sameiginlega markmið að geta lifað mannsæmandi lífi, átt heimili sem griðastað, menntað okkur, tekið þátt í atvinnulífinu, fætt okkur og klætt, alið upp börnin okkar, sinnt sjúkum og öryrkjum og búið öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.  

Umræðuhefðin á Alþingi  

Alþingi fer með löggjafarvaldið og ríkisstjórnin með framkvæmdavaldið. Mikil vinna er innt af hendi af embættismönnum í ráðuneytunum sem ekki eiga sæti á Alþingi. Mér finnst að umræðuhefðin á Alþingi hafi sett mikið niður undanfarin misseri. Ég hef verið þeirrar skoðunar að Alþingismenn eigi að setja sér siðareglur sem miði að því að bæta til muna umræðuhefðina á þinginu. Þótt skoðanir séu skiptar um leiðina að þessu sameiginlega marki þá geti siðareglurnar stuðlað að því að þingflokkar tali sig niður á niðurstöðu í hverju máli þar sem flestir geta sæmilega vel við unað.  Til að auka á gagnsæi milli þjóðar og þings þá mætti sjónvarpa fleiri nefndarfundum á Alþingisrásinni og hvetja almenning til að senda athugasemdir um mál til nefndarmanna eins og unnt er að gera gegnum vef Alþingis.  

Ég tók eftir því á síðasta kjörtímabili að umræðan gat orðið svo hvassyrt og sár að sumir þingmenn fóru heim af þinginu með tárin í augnakrókunum. Þingmenn kulna fljótt upp í slíku starfsumhverfi. Það vekur athygli mína í þessu sambandi hversu margir nýir þingmenn koma til starfa nú líkt og gerðist þegar síðasta kjörtímabil hófst. Að hluta til ber nú að þakka það fleiri valkostum í kjörklefanum en ég velti því líka fyrir mér hvort sumir þingmenn hafi valið að hverfa af þingi vegna þess hversu erfitt sé að vera þingmaður í dag.  

Ég trúi ekki öðru en að til starfa á alþingi veljist gott og heilsteypt fólk sem vilji vinna landi og þjóð gagn. Þetta fólk þarf nú að taka höndum saman um að bæta umræðuhefðina á þingi. Það mun skila sér út í samfélagsmiðlana, útvarp og sjónavarp og vefmiðlana. Þar hefur umræðuhefðin fremur líkst skotgrafahernaði en gefandi samræðu milli fólks þar sem það skiptist á skoðunum um margvísleg málefni. Í kjölfarið mun traust almennings til þingsins aukast.  

Samstarf  

Markús Árelíus sem var eitt sinn keisari Rómaveldis (161-180 e. Kr.) sagði: ,,Vér erum sköpuð til samstarfs eins og fæturnir, hendurnar, augnalokin og efri og neðri tanngarðurinn. Það er því gagnsætt lögmáli náttúrunnar ef vér vinnum hvert gegn öðru og leiðir til rauna og ófarsældar.“  

Það ríki sem er sjálfu sér sundurþykkt stenst ekki, það hrynur. Þjóðfélag sem sundrað er af innbyrðis deilum og klofið af flokkadráttum heldur ekki hlut sínum gagnvart þjóð sem er sameinuð. Það sama má segja um handknattleikslið eða knattspyrnulið, ríkisstjórn eða skipshöfn. Ef fólk ætlar að byggja brýr, grafa jarðgöng, koma iðnaðarfyrirtæki á laggirnar, leggja vegi, koma á fót menntakerfi, skapa uppeldiskerfi  og heilbrigðiskerfi og koma stjórnmálum og trúarbrögðum á laggirnar þá verða þeir að vinna saman en ekki hver gegn öðrum.  

Þetta vissu geitungarnir sem byggðu listilega fallegt geitungabú í dyrastafnum á skrifstofu minni að sumarlagi fyrir nokkrum árum. ,,Hvur röndóttur“, varð mér að orði þegar ég sá það. Ég gat ekki annað en dáðst að búinu um stund en svo fékk ég vin minn, Meindýraeyði Íslands til að fjarlægja býkúpuna því að ekki vildi ég verða fyrir biti. Það er sárt að verða fyrir geitungsbiti. Ég skoðaði geitungabúið að innan og gat ekki annað en dáðst að því sem fyrir augu bar.  

Hvað á býkúpa og vinátta sameiginlegt?  Jú, það er sú staðreynd að engin býkúpa yrði til ef býflugurnar ynnu ekki saman í félagsbúinu og eftir reglum samfélagins.  

Samhjálpin og vináttan  

Í guðspjalli dagsins kallar Jesús lærsveina sína vini sína vegna þess að hann bar traust til þeirra. Hann skynjaði óumræðilegt gildi samhjálparinnar í nafni kærleikans. Hann dró saman boðorðin 10 og sagði að það væri til lítils leitast við að halda þau ef lærisveinar sínir hefðu ekki  kærleika til að bera í garð hvers annars og samferðafólks síns.  

Trú, von og kærleikur, hið góða, fagra og fullkomna. Þetta eru falleg orð. Jesús sá að þessir ávextir gætu orðið sýnilegir í dagfari og breytni lærisveina sinna ef þeir litu í eigin barm að þessu leyti og brýndu exina og bæðu fyrir samferðafólki sínu á hverjum degi.  

Umræðuhefð almennings  

 Ég trúi því að það sé til stórkostlega mikil innistæða fyrir þessum fallegu orðum hjá íslensku þjóðinni í dag árið 2013.  En þá þurfum við líka öll sem eitt að breyta umræðuhefðinni hjá okkur um málefni líðandi stundar á samræðutorgum nútímans, vefmiðlunum t.a.m. þar sem hver sem er getur í skjóli nafnleyndar ausið úr forarvilpu yfir unga sem aldna, fólk sem viðkomandi þekkir ekki baun um málefni sem viðkomandi kann engin skil á. Grandalaust fólk er berskjaldað fyrir þessu, ekki síst unglingar sem eru að taka út viðkvæman þroska til líkama og sálar. Handhafar löggjafar-og framkvæmdavalds hafa mátt skítkast og dónaskap frá almenningi á kjörtímabilinu þrátt fyrir að þetta fólk hafi lagt sig fram um að standa vörð um laga-og framkvæmdavaldið í landinu. Almenningur þarf að líta í eigin barm að þessu leyti og breyta umræðuhefð sinni. Það er nefnilega þannig að orð okkar lifa í garð hvers annars. Þau verða aldrei aftur tekin.Við ættum aldrei að nota orð eða setningar t.d. í vefmiðlum, sem við gætum ekki endurtekið í vitna viðurvist. Við eigum að halda okkur við málefnalega umræðu og forðast skítkast. Og svo eru margar hliðar á hverju máli og sjónarhólar margir.  

Við lærum svo lengi sem við lifum, ekki síst af mistökum okkar. Og Guði sé lof fyrir það að það er til nokkuð sem nefnist fyrirgefning. Þó nokkur sóknarbörn mín hafa ásamt þeim sem hér stendur beðist afsökunar og þegið fyrirgefningu með þakklæti. Það er gott að geta staðið á fætur eftir að hafa hrasað og haldið áfram að lifa sínu lífi þar sem við kjósum að gera það.  

Lýðheilsan

Ég tel það mikilvægt fyrir lýðheilsu sóknarbarna minna að geta beðist afsökunar og þegið fyrirgefningu.Mér hefur blöskrað sú fréttamennska að undanförnu  sem er tillitslaus í garð þeirra sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér og eiga sér engan málsvara í kjölfar þess að hafa tekið út sinn dóm. Enginn er eyland. Allir eiga sér feður og mæður, og aðra ættingja, líka þeir sem hafa tekið út sinn dóm og vilja lifa þar sem þeir kjósa, jafnvel í sinni heimabyggð. Ég vildi óska þess að við gætum öll lifað saman í sátt og samlyndi. Ég vænti þess alls ekki að sættir náist milli gerenda og þolenda í dómsmálum en ég trúi því að sáttargjörð geti átt sér stað t.d. milli hjóna. Ég trúi því líka að sáttargjörð geti átt sér stað milli þeirra sem skrifuðu nöfn sín á undirskriftalistann á Húsavík og þolandans. Því miður eru nokkrir þeirra látnir. Mér finnst að við eigum öll sem eitt að leitast við að koma á sátt og samlyndi þar sem unnt er í samskiptum fólks. En eins og við þekkjum þá talast sumir ekki við þótt náskyldir séu. Þar getur gullna reglan verið okkur leiðarljós. Ég trúi því að við getum í sameiningu stefnt  í þá átt.  Ég hef miklar áhyggjur af lýðheilsu sóknarbarna minna nú þegar vorar eftir langan og erfiðan vetur fyrir margar húsvískar fjölskyldur þar sem hver harmleikurinn hefur tekið við af öðrum frá því s.l. haust. Þegar ég sló inn leitarorðið ,,Lýðheilsa“ þá kom þetta m.a. upp:,,Lýðheilsa er hugtak yfir almennt heilsufar þjóðfélagshóps eða þjóðar og er þá átt við líkamlega, andlega og félagslega heilsu fólks.  Segja má að hún grundvallist á samfélagslegri og sameiginlegri ábyrgð á því að bæta heilbrigði, lengja líf og auka lífsgæði fólks í víðum skilningi.“Ég óska eindregið eftir því að fjölmiðlar þessa lands axli sína lýðheilsulegu ábyrgð og fjalli ekki um húsvískt samfélag með niðurbrjótandi hætti né önnur smærri samfélög á landsbyggðinni.  

Lýðheilsusinninn Jesús  

Ég trúi því að Jesús hafi verið lýðheilsusinni. Hann lét sig varða heilsu lærisveina sinna til líkama, sálar og anda. Hann lét sig líka varða hag heildarinnar, smærri samfélaga í námunda við sig. Hann ólst upp í Nasaret og var sannur þorpari.  

Jesús elskar kirkju sína í dag. Hann gaf okkur trúna og kallar þá sem á sig trúa vini sína. Trúarlífið með Guði er fólgið í því að við hættum okkur aftur og aftur út á hið óþekkta djúp fyrirheita og náðar Guðs í trausti þess að hann muni vel fyrir sjá. Lexía og pistil dagsins undirstrikar að Guð mun vel fyrir sjá ef við treystum honum.Postulinn segir í pistil dagsins: ,,Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.” ( 1. Jóh.4.16)   

Guð hefur gefið okkur anda sinn. Hann lifir innra með okkur þar sem hjörtu okkar eru. Þar vill Jesús Kristur ríkja því að Guð er kærleikur eins og guðspjall dagsins undirstrikar. Við eigum vináttu Guðs vísa á vegferð okkar í gegnum lífið og við ættum öll sem eitt að leitast við að auðsýna hvert öðru vináttu þrátt fyrir ólk sjónarmið og leiðir að settu marki og vera minnug þess að eina leiðin til að eignast vin er að vera það sjálf /ur.  

Innistæðan í banka himinsins  

 Í nafni Jesú Krists stendur hinn himneski banki okkur opinn. Þar er allt sem við þörfnumst til lífs og sáluhjálpar. Í nafni hans eru vísar til stöðugs efnahagslífs hjá íslenskri þjóð. Ver í verki með okkur Drottinn Jesús Kristur er við búum skip okkar um fjöruna.  

Við skulum ekki halda að fyrirheit Guðs séu aðeins fagrar líkingar og heillandi frásagnir. Nei, þau eru raunveruleg loforð. Það er innistæða fyrir þeim öllum ef við viljum biðja þess í trúnni að við fáum þau til eignar. Faðir okkar á himnum er nógu ríkur fyrir alla þá sem ákalla hann.  

Í veganesti heim gef ég ykkur orð Jesú í niðurlagi guðspjalls dagsins þar sem hann segir:,,Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.” ( Jóh. 15.17)  Veljum vináttuna fram yfir margt annað því að hún kostar ekki neitt frekar en önnur jákvæð og uppbyggileg gildi.  Drottinn, gef íslenskri þjóð góðan byr.  Amen  

Lexía: 5Mós 1.29-33 Þá sagði ég við ykkur: „Óttist þá ekki og verið ekki hrædd. Drottinn, Guð ykkar, sem fer fyrir ykkur, mun berjast fyrir ykkur eins og hann gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi. Í eyðimörkinni sást þú hvernig Drottinn, Guð þinn, bar þig eins og maður ber son sinn hvert sem þið fóruð uns þið komuð á þennan stað.“ En þrátt fyrir þetta trúðuð þið ekki á Drottin, Guð ykkar, sem gekk á undan ykkur á leiðinni til að finna tjaldstað handa ykkur. Hann fór fyrir ykkur um nætur í eldi en um daga í skýi til að vísa ykkur veginn sem þið áttuð að halda.

Pistill: 1Jóh 4.10-16 Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar. Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. Guð hefur gefið okkur anda sinn og þannig vitum við að við erum í honum og hann í okkur. Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann. Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.

Guðspjall: Jóh 15.12-17 Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.