Það fór þá ekki svo að það yrði heimsendir. Ekki þetta skiptið að minnsta kosti. Fyrir tíu dögum, 21. desember átti heimurinn að líða undir lok. Hinir fornu Mayar spáðu því og oft er það gott er gamlir kveða. Þeir áttu heilmikið almanak sem náði yfir ógnarlangt tímabil, nokkur árþúsund. En skyndilega lauk því og það var einmitt á þeirri áferðarfögru dagsetningu 21.12.2012.
Var ekki einhver feigðarsvipur á öllu í kringum okkur? Horfin menning, djúpsæ viska fróðra manna fjarlægra slóða og tíma hafði samviskusamlega skráð tímaeiningar á blaði, allt til okkar daga. Þá töldu ekki ástæðu til þess að halda áfram að telja telja. Þetta leit nokkuð sannfærandi út, um tíma.
En skjótt komu betur-vitringar og úrtölumenn hverjir af öðrum og gerðu sitt til þess að drepa niður stemmninguna. Spekingar í gangi himintungla og menningu fornra þjóða Suður Ameríku, fróðir menn sem vissu sínu viti, töldu ekkert benda til þess að í nokkuð væri hæft í þessum spádómum.
Nú getum við andað léttar.
Ekki eina tilvikið
Eftir stendur hún spurningin hvað það er í hugarfari okkar og afstöðu sem gerir okkur svo móttækileg fyrir þeirri hugmynd að allt sé að hverfa í sortann. Í gegnum tíðina hafa spámenn fundið margvísleg tímamót þegar heimurinn átti að líða undir lok. Hver man ekki eftir hinum svokallaða tvöþúsundvanda þegar mannlegt samfélag átti að lamast og svo gerðist ekki neitt? Í byrjun þeirra aldar sem þá var senn á enda safnaðist fólk saman í gömlu gasstöðinni þar sem Lögreglustöðin í Reykjavík er nú til húsa. Þá átti halastjarna eða lofsteinn að fara að rekast á jörðina. Allar götur og á öllum tímum hafa spádómar borist af ýmsum hörmungum sem áttu að binda enda á þennan heim sem við byggjum.
Þá eru ótaldar stórslysamyndirnar sem draga til sín fjölda gesta og vekja jafnan mikla athygli. Veggspjöld sýna þekkt mannvirkjum á kafi í snjó eða vatni eða með gríðarstór geimskip í nánd. Það er eitthvað ógnvekjandi en heillandi í senn við slíkar svipmyndir.
Kann að vera að þar leynist ásakandi tónn sem dvelur djúpt í sálu okkar, einhver samviskurödd sem minnir okkur á það að sá veruleiki sem við göngum að sem vísum er þrátt fyrir allt alls ekki svo öruggur. Svo þegar hriktir í undirstöðunum þá fer viðbragðskerfi okkar í gang.
Réttarhöldin yfir fíkjutrénu
Nú er síðasti dagur ársins. Fleiri verða dagarnir ekki á dagatali ársins 2012 og erum við þó næsta viss um að nýr dagur renni upp í fyrramálið þrátt fyrir hávaða og ljósagang næturinnar. Guðspjallið þessa dags talar þó inn í ákveðna óvissu. Þar stendur fíkjutré sem ekki ber ávöxt og örlög þess eru ráðin í samtali á milli eiganda garðsins og garðyrkjumannsins. Sá fyrrnefndi vill höggva það upp með rótum og skapa skilyrði fyrir önnur tré. Hinn biður því griða og hvetur til þess að það fái staðið eitt ár í viðbót.
Vísað í sígilt táknmál sem hinir fyrstu áheyrendur þekktu vel. Fíkjutréð átti við Ísraelsþjóðina en í túlkun hins Nýja testamentis má ekki síður heimfæra það upp á allt mannkyn. Þarna er mannkynið sjálft vegið og metið. Horft er til þess afraksturs sem lifir af verkum þess og dáðum. Hvað stendur eftir? Þykja ávextirnir fýsilegir? Víst eru þeir það ekki allir. Sumt af því sem einkennir okkur er miður gott. Við getum ekki annað en horfst í augu þá staðreynd að skammsýni eigingirndarinnar mótar margt í fari okkar og háttu. Það sýna dæmin stór og smá. Þetta sér sá sem víngarðinn á og vill losna við hið ávaxtalausa tré. Hvers vegna að halda því áfram?
Sá sem kemur því til varnar talar máli sögumannsins – Krists sjálfs. Varnir hans byggja ekki á því að hnekkja dómi eigandans, sem hlýtur þá að vera faðirinn almáttugi. Nei, hann hvetur til þess að trénu verði miskunnað og hann bendir á það að í eðli þess sé að finna eitthvað dýrmætt og merkilegt sem muni gera því kleift að standast þær væntingar sem til þess eru gerðar.
Þessi réttarhöld yfir trénu minna um margt á rökræður þeirra sem sjá fyrir sér endalok tímans og hinna sem telja að heimsendir verði ekki í bráð. „Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta“ segir hið forna skáld. Að telja daga okkar – hvað merkir það? er það eitthvað tengt því að skynja það hvenær stundin er upp runnin? Lýtur það að því að skoða sig um á tímamótum sem þessum og vega það og meta sem gert hefur verið – gott og slæmt? Hversu mikilvæg er hún ekki sú iðja og sýnir okkur það hversu þýðingarmikil mót áranna eru? Það er uppgjörið sem við stöndum frammi fyrir. Lýsum upp ákvarðanir og viðburði í ljósi reynslunnar og þekkingarinnar sem við fáum í endurskini hins liðna. Margt er þar ólíkt því sem við hefðum kosið.
Vonin og örvæntingin
Mælikvarðinn á gott og illt er sannarlega til staðar en hann á þó ekki að steypa okkur í örvæntingu eins og svo mörg dæmi eru um í sögu mannsins. Já, örvæntingu sem grípur um sig, gjarnan við minnstu teikn þess að dómur sé yfirvofandi. Sú kennd á ekki að ríkja í hjörtum okkar sem kristin erum. Þetta orðar postulinn svo vel: „Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum?“
Guð er með okkur og hann þyrmir okkar því Kristur dó í okkar stað. Þessi fullvissa er okkur ómetanleg. Og hún gerir okkur kleift að horfa á líf okkar og tilveru raunsæjum augum án þess þó að okkur fallist hendur og við missum móðinn. Marteinn Lúther hvatti kristna menn til þess að láta ekki örvæntinguna svipta sig rósemd sálarinnar og lífsgleðinni. Við fögnum innan nokkurra ára fimm hundruð ára afmælis siðbótarinnar og það er rétt að fara að leiða hugann að þeim boðskap sem stendur í hjarta hennar.
Lúther talaði oft með þeim hætti að ekki ber á öðru en hann hafi talið hina efstu daga vera í nánd. Hann lét það hins vegar ekki draga sig niður eða steypa sér í hyl vonleysis. Nei, þvert á móti því vonin var er eitt af helstu leiðarstefnum í guðfræði hans og kenningu. Hann benti á að vonin mætti aldrei víkja úr hjarta þess sem ætti Krist að leiðtoga og frelsara. „Ef heimsendir kæmi á morgun“, sagði hann, „myndi ég engu að síður gróðursetja ávaxtartré í garði mínum.“ Fátt lýsir betur hinum vonglaða huga en að setja niður slíkar plöntur sem munu gleðja á komandi árum.
Vonin byggir á því sem við eigum og ekki verður frá okkur tekið.
Nú á tímamótum tveggja ára þurfum við að leiða hugann að því sem framundan er og þá má ekki hrasa um allt það sem neikvætt er og byrgir sýn. Vissulega má benda á spádóma bölsýnismanna sem ekki rættust. Og það má benda á þeim svartsýnu til varnar að þeir geta þá glaðst yfir því að hafa haft rangt fyrir sér, en slíkt vekur í öðrum tilvikum sjaldnast mikla hamingju.
Rósemd
Á mamótum, tvísýnum tímamótum þegar straumhvörfin blasa við hvívetna úti í hinum stóra heimi, þegar jafnvægi valdablokka raskast og nýir hópar stíga fram með kröfur um aukna hlutdeild í lífsgæðum og völdum – þá er sannarlega rétt að hugleiða hin æðstu gæði. „Þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær“ segir skáldið og minnir á það hversu skammsæ við mennirnir erum stundum andspænis hinum æðsta veruleika. Við eigum okkur fjársjóð í eilífðinni, sælustað sem ekki verður frá okkur tekinn. „Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists?“ spyr postulinn og svarar því til að ekkert skapað muni geta rofið þá tryggðarkrafta sem halda okkur við frelsara okkar. Þegar heimsendaspárnar dynja á okkur ættum við að halda rósemd okkar, það er yfirvegun þess sem á sér nokkuð sem ekki verður frá honum tekið. Það er einmitt það dýrðarhnoss sem okkur hefur verið gefið. Sem betur fer voma ekki dómsdagsspár yfir okkur í bráð. Meira að segja þora blessaðir veðurfræðingarnir ekki annað en að spá rjómablíðu svo flugeldaviðskiptin leggist ekki niður!
Göngum því glaðbeitt inn í nýja tíma. Gróðursetjum okkar vonartré, byggjum upp það sem við trúum að muni bera ávöxt og njótum þess að rækta, styrkja og bæta þær góðu gjafir sem skaparinn hefur látið okkur í té.
Megi góður Guð gefa okkur gleðilegt ár og góðar og blessaðar tíðir. Amen.