Eitt er nauðsynlegt!

Eitt er nauðsynlegt!

Guðspjall dagsins er sagan af Mörtu og Maríu í Betaníu. Við þekkjum þá sögu vonandi öll. Orð Jesú við Mörtu: „Þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu. En eitt er nauðsynlegt!” „Eitt er nauðsynlegt!” Og víst könnumst við við það! Daglangt glymur í eyrum af ótal rásum áróðurinn og áreitin sem brýna fyrir okkur að eitt og annað sé nauðsynlegt af því sem í boði er. „Eitt er nauðsynlegt! og það fæst hjá mér,” segja þeir, hver um sig. „Eitt er nauðsynlegt”!

Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.

En Drottinn svaraði henni: Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið. Lúk. 10. 38-42

Guðspjall dagsins er sagan af Mörtu og Maríu í Betaníu. Við þekkjum þá sögu vonandi öll. Orð Jesú við Mörtu: „Þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu. En eitt er nauðsynlegt!” „Eitt er nauðsynlegt!” Og víst könnumst við við það! Daglangt glymur í eyrum af ótal rásum áróðurinn og áreitin sem brýna fyrir okkur að eitt og annað sé nauðsynlegt af því sem í boði er. „Eitt er nauðsynlegt! og það fæst hjá mér,” segja þeir, hver um sig. „Eitt er nauðsynlegt”!

Fellibylurinn Katrín hefur verið okkur óþyrmileg áminning, sem og önnur áföll sem á dynja. Fellibylurinn sýnir okkur að jafnvel ekki voldugasta heimsveldi veraldar getur varið sig gegn hamstola náttúruöflum, né synd og dauða. Hér hafa menn ef til vill mestar áhyggjur af því hvaða áhrif hamfarirnar munu hafa á markaðinn. Þessar hörmungar munu lengi setja strik í reikningana ekki aðeins hjá öflugasta hagkerfi heims, heldur líka hér hjá okkur. Við munum finna fyrir því hvernig orkuverð mun hækka upp úr öllu valdi og ýmsar nauðsynjar aðrar í kjölfarið. En við erum og verðum annað og meir en neytendur. Því hljóta hamfarirnar gefa okkur tilefni til umhugsunar, samhygðar, umhyggju og íhugunar um hve lífið er stutt, og dauðinn vís.

„Eitt er nauðsynlegt,” segir Jesús, og hann er ekki að tala um hluti né lífsins gæði. Hið nauðsynlega, góða hlutskipti er í huga hans að hlusta á Guð. Meinar hann það virkilega? Við vitum það t.d að margvíslegar annir og undirbúningur liggur að baki þeirri hátíð sem hér er í dag, og því sem eftir fer þar sem þið fagnið og ástvinir og samverkafólk tjáir gleði okkar yfir ykkur.

Jesús var ekki meinlætamaður né gleðispillir. Öðru nær. Hann sem kallar boðskap sinn „fagnaðarerindi” og setur víða fram mikilvægi gleði og hátíða, hann sem gerir brúðkaupsveislu að táknmynd ríkis síns, hann var aldeilis ekki frábitinn því að menn gerðu sér glaðan dag. Og það veit hann að það krefst undirbúnings, - einhver þarf að sinna því, og ekki síður að ganga frá á eftir, þvo upp, þrífa. Allt tilheyrir það hátíðinni líka. Það hlýtur að vera eitthvað annað sem Jesús á við, þegar hann setur ofan í við Mörtu og talar um góða hlutskiptið, er það ekki? Vissulega er það oft svo að við erum svo önnum kafin við umbúðir og undirbúning að við gleymum tilefninu. Stundum finnst manni fólk svo upptekið af að ná athöfninni á mynd, festa augnablikið á filmu, að atburðurinn fer framhjá, augnablikið týnist. En það er annað og meira sem Jesús er að tala um.

Mér er hugstæð sagan af litla stráknum sem rakst þar inn sem myndhöggvari var við vinnu sína við stóran marmarahnullung. Höggin buldu á meitlinum og steinflísarnar flugu í allar áttir. Strákurinn skildi ekkert í þessum hamagangi. En þegar hann kom í vinnustofuna nokkrum vikum seinna sá hann sér til undrunar gríðarstórt og mikilúðlegt ljón þar sem marmara- blokkin hafði staðið. Gagntekinn kallaði hann upp yfir sig:„Heyrðu! Hvernig vissirðu að það var ljón í grjótinu?”

List myndhöggvarans, já og vafalaust öll list, er fyrst og fremst listin að sjá. Í marmarahnullungi sá Mikaelangelo guðsmóður, milda og yndislega. Í öðrum sá hann kraftmikinn Davíð. Í gráum og úfnum hraunklettum og klungrum sá Kjarval kynjamyndir og ævintýraveröld og litadýrð. Hugarsýn, innri sjón og það kostar ögun vissulega og átök að gera sýnilegt það sem hugur einn og hjarta manns veit og sér.

En þetta á líka við um trúna. Að trúa er að sjá, innri augum. Hvað? Jú, GUÐ og ríki hans. - það er: valdsvið hins góða, fagra og fullkomna. Vald og orkusvið gleði, náðar og friðar. Og trúarlíf, guðsþjónustan í kirkju og utan, skírn, kvöldmáltíð, tilbeiðsla, og það að leitast við að hlýða boðum Jesú að elska náungann eins og sjálfan sig, auðsýna miskunn, sáttfýsi, frið, það er viðleitni að gera sýnilegt það sem hjartað, sálin sér og skynjar.

Er ljón í grjótinu? ER Guð í þessum heimi? Er innsta eðli, mark og mið lífs og veru þetta, sem Jesús kennir og boðar: kærleikurinn, fyrirgefningin, miskunnsemin? Er mátturinn æðsti hið blinda og skeytingarlausa ógnarafl náttúrunnar, eða mildin og náðin? Er trú okkar aðeins óskhyggja, óráð, tál í hörðum heimi?

Það er ósköp auðvelt að láta amstur daganna glepja sig, og áföllin daganna, og hinn kalda raunveruleika sem við augum blasir kæfa það sem hjartað þráir og sálin skynjar að til er góður, miskunnsamur Guð, og að viljinn góði og valdið hans muni um síðir sigra. Að setjast niður hjá Jesú, eins og María gerði forðum, það gerist í guðsþjónustu kirkjunnar á helgum degi og bæn okkar í einrúmi, og er nauðsynlegt til þess að við lærum að þekkja hann aftur í æðaslögum hjartans og í umhverfi okkar, í atvikum dagsins, gleði og raunum og í hinum minnsta bróður- Hann sem um síðir mun gagntaka, umvefja og ummynda tilveru alla.

Þið, kæru vígsluþegar, kirkjan fagnar ykkur, og gleðst með ykkur og gleðst yfir ykkur á vígsludegi. Þið sem vinnið heilög heit og þiggið heilaga vígslu að hætti postulanna, með þessu er kirkja Krists að senda ykkur. Og við sem vottum ykkar heit og leggjum hendur yfir ykkur, við staðfestum um leið okkar eigin vígsluheit og hollustu við hið helga samhengi heilagrar kirkju. Hún er send með heimboðið inn í veruleikann sem er innst og dýpst í heimi og lífi: „góða hlutskiptið.”

Kirkjan sem hér leggur hendur yfir ykkur, vígir, það er tekur frá, og sendir, er harla ófullkomin sem stofnun og félagslegur veruleiki. Ónýtir þjónar erum við, og einatt áhyggufull og mæðumst í mörgu. Ýmsir verða líka til ganga fram fyrir skjöldu til að niðra og níða hana, sér í lagi okkar evangelisk -lúthersku þjóðkirkju, og telja sig menn að meiri. Það finnst mér sárt. Ég elska kirkjuna, af því að ég tel mig eiga henni svo mikla þakkarskuld að gjalda. Um aldir hefur hún verið ráðsmaður hins andlega arfs með þessari þjóð. Með alla sína bresti og mein hefur hún þó borið kynslóðirnar á bænarörmum sínum allt frá móðurlífi, signt krossins tákni, hún jós mig, óvitann, vatni helgrar skírnar, lagði mér Jesú nafn og Jesú -bæn á varir og hjörtu, hefur allt til þessarar stundar nært mig brauði lífsins og bikar blessunarinnar. Og á bak við þennan iðulega ófullkominn jarðneskan veruleika er hið ósýnilega, eilífa Drottins orð, Drottins náð. Það er „ljón í grjótinu,” eða öllu heldur engill, Guðs engill, mildur og góður. Sæl eru þau augu sem sjá, og sæl eru þau hjörtu sem fagna yfir því, og sælir eru þeir hugir og hendur sem leitast við að gera það sýnilegt í heiminum með trú sinni, von og kærleika, sem birtist í umhyggju, virðingu, miskunn og góðvild.

Mætti orð ykkar og athöfn, kæru vígsluþegar, ávallt endurspegla hið eina nauðsynlega, góða hlutskiptið, sem ekki verður frá okkur tekið í frelsarans Jesú nafni. Amen

Prestsvígsla í Dómkirkjunni, 4. sept.2005. Ása Björk Ólafsdóttir, Guðrún Eggertsdóttir og Sjöfn Þór