Til hamingju með afmæli kirkjunnar.

Til hamingju með afmæli kirkjunnar.

Lítið til ykkar fallegu kirkju. Ég sá úr flugvélinni áðan að kirkjan stendur á áberandi stað og sést eflaust víða að úr bænum. Hún er ekki sólin, ekki ljósið. En hún vísar upp fyrir sig, þangað sem Jesús er. Og þar er að finna kraftinn og kjarkinn, sem við öll þörfnumst í þessu lífi.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
22. júní 2014
Flokkar

Textar kirkjudags: 1. Kon. 8.22-30; 1. Pét. 2.4-9; Jóh. 10.22-30.

Biðjum með orðum sr. Björns Halldórssonar: Í kirkju þína kenn þú mér að koma, Drottinn, sem mér ber, svo hvert sinn, er ég héðan fer, ég handgengnari verði þér. Til auðmýktar mitt hjarta hrær, þá hönd mér gef, sem brjóstið slær, og bæn, sem hrópar: Herra kær, mér hjálp og miskunn sekum fær. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Til hamingju með afmæli kirkjunnar ykkar kæri söfnuður. 40 ár eru ekki langur tími í kirkjusögunni en samt nógu langur tími í lífi safnaðar til að muna ekki annað en það sem er. Þegar þéttbýli myndast er það eitt af því fyrsta sem fólk gerir að finna stað til að koma saman á og lofa sinn Guð. Þó Vallanes sé ekki langt héðan hefur söfnuðinum fundist það of langt til að halda uppi öflugu safnaðarstarfi. Hér eins og víða þar sem þannig háttar var farið að hafa guðsþjónustur í grunnskólanum þar til kirkjuhúsið var tilbúið til helgihalds. Það verður fróðlegt að heyra sögu kirkjunnar hér á eftir.

Orðið kirkja á ekki aðeins við guðshúsið sjálft, heldur einnig við það samfélag sem um hana stendur. Kirkjan er samfélag þeirra sem trúa því að Jesús sé Messías, guðssonurinn, krossfestur og upprisinn frelsari mannanna. Sé sá Guð sem skapaði himinn og jörð, sá Guð sem við getum leitað til í bæn, sá Guð sem huggar og hjálpar á döprum og erfiðum stundum lífs okkar og sá Guð sem gefur okkur lífið og veitir okkur lífskraftinn.

Þessi hugmynd um kirkjuna sem samfélag trúaðra á sér stoð í heilagri ritningu. Í bréfi Péturs postula sem lesið var úr hér áðan segir: „Látið sjálf uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús“. Í Biblíunni er að finna grundvöll alls þess er kirkjan byggir á. Það er stöðugt viðfangsefni kirkjunnar að rannsaka texta Biblíunnar og útbreiða boðskap hennar. Á næsta ári eru 200 ár frá stofnun Hins íslenska biblíufélags en það er elsta starfandi félag landsins. Af því tilefni er markmiðið að fjölga félögum og auka sölu Biblíunnar. Í landi sem kennir sig við kristinn sið ætti Biblían að vera til á öllum heimilum.

Ég hitti ungan mann nýverið sem sagði mér að hann hefði lært að trúa á Jesú í sumarbúðum á Hólavatni. „Hann Bogi var merkilegur maður“ sagði hann. „Hann kenndi mér um Jesú og að því bý ég alla tíð“. Það er ekki oft sem fólk segir svona umbúðalaust frá trú sinni. Ef Guð er á annað borð nefndur á nafn er sjaldnast talað um Jesú. „Fjármenn hrepptu fögnuð þann, þeir fundu bæði Guð og mann“, segir um barnið Jesú í jólasálmi Einars í Heydölum. Hver er þessi Jesú spyrja menn og í Biblíutextum dagsins sem lesnir hafa verið upp hér í dag er svarið að finna um það hver Jesús er: „Ég og faðirinn erum eitt“ segir Jesús um sjálfan sig og bendir á að hann hafi sagt hver hann er en þau sem á hlýddu hafi ekki trúað því.

Samtíðamenn Jesú höfðu heyrt um spádómana um hann sem átti að fæðast og vera af ætt Davíðs, vera borin í heiminn af ungri meyju og vera nefndur undraráðgjafi og friðarhöfðingi. Þau höfðu alist upp við að vænta hans sem kæmi. Kristnir menn trúa því að Jesús sé sá, en Gyðingarnir bíða enn Messíasar. Það er ekki óeðlilegt að margir hafi efast og í guðspjalli dagsins spyrja þeir Jesú beint: Hver ertu?

Í þessari kirkju hefur trúin á Jesú verið boðuð í 40 ár og í þessari kirkju hafa mörg börn verið borin að skírnarlauginni, önnur játast því að þau vilji hafa Jesú að leiðtoga lífs síns. Hjón hafa fengið blessun yfir hjúskap sinn og margir verið kvaddir héðan í hinsta sinni. Allt hefur þetta farið fram í Jesú nafni. Þannig er líf hins kristna manns rammað inn og helgað hinum upprisna Jesú sem þekkir sína og gefur þeim eilíft líf. Eftirtektarvert er að sami presturinn hefur þjónað hér 34 ár af þeim 40 sem kirkjan hefur verið í notkun. Það bendir til þess að hér hafi verið gott að þjóna og samstarfsfólkið gott.

Tónlistin hefur hljómað hér sem í öðrum kirkjum, enda hefur tónlistin miklu hlutverki að gegna í kirkjustarfi. Ég las að kórinn hefði verið með tónleika hér í kirkjunni á fimmtudagskvöldið. “Það einkennir þá sem elska að þeir syngja,” sagði Ágústínus kirkjufaðir, endur fyrir löngu. Hann rifjaði upp kynni sín af tónlistinni: “Þegar kirkjan þín fylltist ljúfum ómum helgra hymna og söngva var ég gagntekinn og hrærðist til tára. Þessir ómar flæddu mér um eyru og sannleikurinn streymdi inn í hjarta mitt og heilög hrifning fyllti mig og braust út í tárum sem gerðu mig sælan." Kirkjutónlistin lauk upp fyrir honum sannleikanum himneska. Ágústínus er ekki einn um þá reynslu.

Það sem við heyrum hefur áhrif á okkur. Og það sem við sjáum hefur einnig áhrif á okkur. Það sem snertir við tilfinningum okkar og hefur áhrif á hugsanir okkar mótar okkur. Trúin mótar líf okkar og hana þurfum við að næra. Trúin er eins og hvert annað blóm sem þarfnast vökvunar. Saga ein segir frá tveimur mönnum er voru á gangi um fagran blómagarð. Lækur rann eftir garðinum og meðfram bökkunum óx hinn fegursti gróður. Fuglar sungu í trjánum og sólin hellti geislum sínum yfir hina fögru náttúru.

Tíu árum síðar hugðust þeir aftur vitja þessa fagra staðar. Þá voru blómin dauð. Fuglasöngur enginn og vindurinn gnauðaði ömurlega í visnum og blaðlausum trjám. Hvernig stendur á þessari breytingu spurðu þeir hissa. Og svarið fengu þeir: Það er hætt að veita læknum hingað niður. Uppsprettan liggur ónotuð á sama stað, en garðeigandinn hirðir ekki um að nota frjóvgunarkraft hennar. Þess vegna visnar hér allt og deyr. Dæmisagan minnir okkur á að Guð er uppspretta allrar blessunar og hann er ætíð hinn sami. En fer ekki mörgum eins og garðeigandanum að hirða ekki um að nota frjóvgandi kraft trúarinnar, fyrir sál sína og líf. Gæta þess ekki að gróður trúarinnar og þar með lífsins byggist á næringu lífsnauðsynlegrar uppsprettu. Við eigum aðgang að lífsins lind í trúnni á góðan Guð. Kirkjan hefur miðlað boðskapnum um frelsarann Jesú í 40 ár hér í þessu húsi. Pétur postuli (1:8) segir í fyrra bréfi sínu: “Þér hafið ekki séð hann, en elskið hann þó. Þér hafið hann ekki nú fyrir augum yðar, en trúið samt á hann”. Þetta getum við tekið til okkar. Að elska hann er að sjá hann. Það eitt sem menn elska, skilja menn, sagði Goethe.

Við verðum sjálf, hvert og eitt að finna út hvernig við viljum verja lífi okkar og dögum. Í frétt sem birtist í Víðförla, fréttablaði Þjóðkirkjunnar fyrir nokkrum árum segir frá því að trúfélag í Noregi sem kallast Monasamfélagið hafi haldið bænastund samfellt frá skírdegi til páskadags, í 88 klukkustundir alls. Að sögn blaðsins Aftenposten var markmið fóksins að komast í Heimsmetabók Guinness. Ekki fylgdi sögunni hvort það tókst, enda gætu þeir hjá Guinness viljað taka tillit til einsetumanna og kvenna í frumkristni sem báðu og hugleiddu stanslaust og sum svo lengi í einu að fuglarnir gerðu sér hreiður í hári þeirra. Þannig hefur hver kynslóð reynt að finna út hvernig hægt er að vera Guði þóknanleg. Guð hefur lokið upp huga hverrar kynslóðar á þeim tíma sem hún er uppi. Með þeim ráðum sem til eru hverju sinni og þess vegna verður hver kynlsóð að finna sinn trúarfarveg, hver einstaklingur að leyfa Guði að tala til sín á þann hátt sem lífið og reynslan bjóða. Lítið til ykkar fallegu kirkju. Ég sá úr flugvélinni áðan að kirkjan stendur á áberandi stað og sést eflaust víða að úr bænum. Hún er ekki sólin, ekki ljósið. En hún vísar upp fyrir sig, þangað sem Jesús er. Og þar er að finna kraftinn og kjarkinn, sem við öll þörfnumst í þessu lífi. Trúin hjálpar okkur til að takast á við hlutina, þannig að fjötrar hvers konar falla og frelsið, hið andlega frelsi blasir við. Ég veit það af eigin reynslu að trúin og það traust sem hún veitir er besti vegvísir í þessu lífi. Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki segir Jesús.

Skýrasta einkenni hins kristna safnaðar er samfélagið. Trúin er samfélagsmótandi. Samfélagið við Guð kallar á samfélag við trúsystkin. Samfélag við Guð og við trúsystkin í nafni Jesú Krists er skjól og vörn. Þess vegna var þessi kirkja byggð, þess vegna er komið saman í henni til að lofa Guð og ákalla. Þess vegna er haldið upp á 40 ára afmæli hennar. Ég óska ykkur aftur til hamingju með kirkjuna hér á Egilsstöðum og bið Guð að blessa ykkur öll sem hingað leita og annist málefni kirkjunnar ykkar, í Jesú nafni. Amen.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.