Um trú og kirkjuskipan í nýju stjórnarskrárdrögunum
Grundvallarlög ríkisins geta alls ekki verið eins og afurð sönglagakeppni, ekki vinsælda- eða auglýsingaplagg. Þar er eðli málins samkvæmt fengist við grundvöll og forsendur sem önnur lagasetning og reglugerðir byggja á og þess vegna verður stjórnarskrá að vera vitnisburður um sögulegt samhengi og almenn viðmið, bæði hvað varðar umgjörð og innihald.
Tillögur stjórnarskrárnefndar eru að flestu leyti góðar og ljóst er að fagrar hugsjónir, góður vilji og almannahagsmunir hafa svifið yfir vötnum hennar. Niðurstaðan varðandi trú og kirkjumál ríkisins hanga þó í lausu lofti – eru málamiðlun sem tekur ekki á viðfangsefninu.
Staðreyndin er sú að grundvöllur siðar, mannréttinda, trúfrelsis og mannhelgis er sú frjálslynda, umburðarlynda og þjóðlega kristni sem þreifst hér í landinu alla öldina sem leið með stjórnarskrárbundnum stuðningi ríkisins. 17. greinin í nýju stjórnarskrártillögunum gerir trú í raun réttilega hátt undir höfði með því að taka það greinilega fram að það sé réttur þegnanna að iðka trú - það er sem sagt viðurkennt að jákvætt trúfrelsi, frelsi til trúar, sé velferðarmál sem skiptir samfélagið máli og þess vegna verður ríkið að eiga sér umgjörð um trúriðkun þegnanna – og trúleysi eða hlutleysi þegar því er að skipta - og það verður að eiga sér innihald einnig.
Órjúfanlegur hluti af þeim trúarlega veruleika sem hér er tæpt á er sá mikilvægi réttur einstaklingana að standa utan allra trúfélaga. Trúin er persónulegt mál, en umgjörð hennar og innihlald er samt sem áður veruleiki sem skiptir samfélagið miklu máli. Þetta kann að virðast þverstæða en er það ekki ef betur er að gáð. Sá umburðarlyndi og frjálslyndi kristindómur sem óx saman við þjóðlífið í upphafi 20.aldar gerði sér grein fyrir því grundvallaratriði að trúin er persónulegt mál og að það er ekki hægt að þvinga hana upp á fólk og að öll fræðsla og uppeldi verður að taka mið af forsendum einstaklingana. Mannhelgi og virðing fyrir einstaklingnum er grundvallaratriði í þeirri trú sem Jesús Kristur boðaði. Hann sagði t.d.:
„Leyfið börnum að koma til mín“, en ekki: „Sendið börnin til mín.“ M.a. þess vegna er það svo mikilvægt að fólk geti staðið utan trúfélaga og breytt um trúfélagsaðild. Þann rétt og þær lífsskoðanir sem þar um ræðir ber samfélaginu – þ.e. ríkinu líka að styðja og vernda. Það er velferðarmál sem snertir bæði einstaklinga og þjóðfélagið.
Þetta grundallaratriði var í raun viðurkennt með fyrstu stjórnarskránni 1874 þegar kveðið var á um nýja kirkjuskipan ríkisins um leið og trúfrelsi var í lög leitt. Samkvæmt grein 19 mætti halda að kirkjuskipan ríkisins hangi í lausu lofti, sé án sögulegra forsendna og innihalds. Þar er sagt að Alþingi „megi kveða á um kirkjuskipanina“ og þá verður spurt á hvaða forsendum má alþingi gert það? Hér er verið að tippla á tánum. Staðreyndin er sú að Alþingi ber skylda til þess að setja lög um kirkjuskipanina og getur alls ekki skotið sér undan því. Rétturinn til lífs, réttur barna, virðing fyrir fjölbreyttni mannlífsins og trúfrelsi á Íslandi hvílir á kristinni trú eins og hún var boðuð og útfærð af leiðtogum aldamótakynslóðarinnar í kirkju- og skólamálum. Þetta fólk skilaði Íslandi inn í nútímann og við minnumst þess á hátíðastundum og afmælum, en við skulum líka gera það þegar við setjum okkur nýja og nútímalega stjórnarskrá. Þegar ég segi þetta veit ég vel að í öðrum trúarbrögðum er margt sem er hliðstætt þessum grundvallargildum, en þau koma saman á sérstakan hátt í því samhengi og samfélagi sem hér hefur þróast í hundrað ár. Þetta er sú umgjörð og innihald sem nýja stjórnarskráin okkar verður að koma orðum að, annars er verið að hlaupast undan merkjum og hætta við hálfkarað verk.