Hverjir eru guðfræðingar?

Hverjir eru guðfræðingar?

Þeir sem leiða samræðu og umræðu frá mismunandi sjónarhornum hljóta að vera BA-menntað ,,guðfræðingar" á akademískum grunni, þar sem það er ekki endilega bundið við kirkju sem stofnun og einnig starfar það í gjörólíkum starfsgreinum.
fullname - andlitsmynd Toshiki Toma
19. maí 2011

Ég hef nú búið á Íslandi í um 19 ár en ég er enn að uppgötva eitthvað sem er mér framandi miðað við minn upprunalega menningarheim, hefð eða skynsemi. Um daginn sótti ég fund Félags guðfræðinga og þar lærði ég í fyrsta sinn að hugtakið „guðfræðingur“ er samkvæmt málvenju á Íslandi skilgreint í íslenskri orðabók: „maður með embættispróf í guðfræði“. Það felur sem sagt ekki í sér manneskju sem hefur lokið BA-prófið í guðfræði.

Í raun skiptir guðfræðinám, t.d. hjá Háskóla Íslands í tvennt, annars vegar í BA-nám, sem er 180 einingar og lýkur með BA-prófi og framhaldsnám fyrir embættispróf, sem er BA-próf auk 120 eininga og lýkur með embættisprófi. Þá dettur mér strax þessi spurning í hug: „Ef guðfræðingur þýðir einungis manneskja sem er með embættispróf, hvaða heiti hefur þá manneskja sem hefur klárað BA-nám? Formlegt heiti á því hjá Háskóla Íslands virðist vera „maður sem er með BA-próf í guðfræði“. Svo virðist vera að manneskjan fá ekki viðurkenningu sem guðfræðingur.

Þessi uppgötvun vakti með mér undrun og forvitni, þar sem mér skilst að guðfræðinám á BA-stigi og nám fyrir embættispróf hafi ólíkar forsendur og að framhaldsnám í guðfræði sé ekki endilega nám fyrir embættispróf. Hver er munurinn á þessum forsendum? Í stuttu máli sagt er guðfræðinám opið öllum sem áhuga hafa á málinu, þ.ám. fólk sem trúið á aðra trú en kristni eða tilheyrir engum trúarbrögðum. Þetta er akademísk grein og gagnrýni er vel tekið svo framarlega sem hún sé á akademískum grunni.

Hins vegar er námið fyrir embættispróf aðallega hannað fyrir þá sem stefna að því að vera prestar eða þjóna í kirkjulegu umhverfi í framtíðinni. Áherslan í náminu er því lögð á atriði eins og prestsþjónustu, predikanir og messuflutning. Því verða (eða hljóta) þeir sem stefna að embættisprófi að vera trúaðir, þó að það sé ekki skilyrði fyrir náminu. Munurinn á milli þessara tveggja námsleiða varðar grundvallarviðhorf nemenda í námi. Annað er akademískt viðhorf sem er óháð trúarlegum bakgrunni manns, og hitt er kristilegt og kirkjulegt viðhorf.

Ef þessi skilningur er lagður í málið er mjög undarlegt að skilgreina „guðfræðing“ aðeins út frá embættisprófi eins og málvenja Íslendinga hefur hingað til gert. Þá er sú hætta til staðar að vel menntaður maður en gagnrýninn á kristna trú á akademískum grundvelli verði útilokaður frá umræðunni ef hann er aðeins með BA-próf. Einnig má benda á að ekki stefna allir „kristnir“ guðfræðingar að því að starfa innan kirkjunnar og vilja því ekki fara í nám sem gefur embættispróf. Að takmarka „guðfræðinga“ einungis við þá sem lokið hafa embættisprófi er því ekkert annað en takmörkun á akademísku frelsi. Þeir sem eru búnir að mennta sig til BA-prófs í guðfræði eiga að sjálfsögðu að kallast guðfræðingar eins og háskólanemar verða stjórnmálafræðingar eða lögfræðingar eftir sitt BA-nám.

Guðfræðingar í nútímasamfélaginu

Mér virðist þessi árekstur málvenjunnar um guðfræðinga og akademískrar skilgreiningar marka eins konar tímamót íslensks samfélags sem varða trúarbragðaviðhorf manna. Ég er sjálfur kristinn maður og efast ekki um ómetanlegt virði kristinnar trúar en samtímis hika ég ekki við að hvetja til eðlilegrar og eftirsóknarverðrar breytingar í trúarbragðaumhverfi sem passar þróun samfélagsins, akademískum samskiptum eða eflingu mannréttinda.

Guðfræðinám í Háskóla Íslands er núna undir guðfræði- og trúarbragðadeild, sem þróast hefur úr guðfræðideild. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, sagði að þetta væri jákvæð þróun fyrir Háskólann og samfélagið í ávarpi sínu á prestastefnu 2011. Ég tel einnig að þetta sé jákvætt fyrir kristið fólk á Íslandi og kirkjuna okkar.

Kristni er enn ríkjandi trú hérlendis og verður það á næstunni. Engu að síður er kominn tími til að kirkjan eigi samræðu. Samræðu við önnur trúarbrögð en kristni, samræðu við guðleysingja, samræðu við fólk sem hefur ákveðna skoðun um kirkjutengd málefni eða samræðu á meðal okkar í kirkjunni um ákveðin málefni. Og þeir sem leiða slíka samræðu og umræðu frá mismunandi sjónarhornum hljóta að vera BA-menntað fólk á akademískum grunni, þar sem það er ekki endilega bundið við kirkju sem stofnun og einnig starfar það í gjörólíkum starfsgreinum.

Í mínum huga er „guðfræðingur“ maður sem hefur hlotið BA-gráðu eða frekara framhaldsnám í guðfræði og flestir í samfélaginu munu vera sammála mér. Þá verðum við að þurrka út stig af stigi gamalt hugtak um guðfræðing sem er með embættispróf í guðfræði. Og ég tel að kirkjan sjálf og Háskóli Íslands eigi að vera upphafsstaður þeirrar nýjungar.