Andsvar þess góða

Andsvar þess góða

Þær komu að gröfinni við sólarupprás, fylgjendur Krists sem þær tilheyrðu, voru í felum, sumir stjarfir af trega og baráttuleysi. Niðurlægingin nísti inn að beini. Meistarinn sem þau höfðu heillast af og trúað á, hafði verið krossfestur ásamt ræningjum.
fullname - andlitsmynd Guðni Már Harðarson
04. apríl 2010
Flokkar

Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!

Þær komu að gröfinni við sólarupprás, fylgjendur Krists sem þær tilheyrðu, voru í felum, sumir stjarfir af trega og baráttuleysi. Niðurlægingin nísti inn að beini. Meistarinn sem þau höfðu heillast af og trúað á, hafði verið krossfestur ásamt ræningjum.

Samt var svo stutt síðan hann var að kenna þeim, líkna, stappa í stálinu í fólk, brjóta viðmið og venjur og fylla fólk af gleði, von og umfram allt trú og þakklæti, þau trúðu því að hann væri Guð sjálfur holdi klæddur, að í honum hefði, skapari heimsins komið nær okkur öllum.

Já, örfáum dögum áður hafði líf þeirra einkennst af trú, von og kærleika en nú var hópurinn sundraður og það var eins og vantrú, vonleysi og hatur sem hefðu tekið völdin. Lærisveinarnir þorðu ekki einu sinn að segjast hafa þekkt hann ef þeir voru spurðir, skömmin var svo mikil, sumir höfðu fylgt honum í þrjú ár, þyrst í að heyra hann tala og fá að nema. Hvernig höfðu þeir getað látið draga sig svona á asnaeyrunum í þrjú heil ár? Þá var best að fela sig, flytja eitthvað annað eða í öllu falli bíða og láta sem minnst fyrir sér fara, þessi afglöp að fylgja honum myndu fyrr eða síðar falla í gleymskunnar dá.

María ákvað hins vegar að fara að gröfinni, enda hafði hún þekkt hann manna lengst, þetta var henni þungt í skauti, staðfesting á að illsku mannanna eru lítil takmörk sett, þeim hafði tekist að krossfesta sakleysið. María hafði séð lífið sem kviknað hafði í móðurkviði hennar um 30 árum áður, pínt og kvalið, niðurlægt og atyrt, hatrið virtist hafa sigrað, myrkrið var tekið að ríkja, ljósið mátti víkja.

María Magdalena sem hafði einnig heillast af gæsku hans, visku og guðlegu innsæi fór með henni í morgunsárið og margar spurningar hafa eflaust vaknað, hvernig getum við opnað gröfina, munu varðmennirnir vilja hjálpa okkur, hvernig lítur líkami sonar míns út? Húðstrýkingar, þyrnikóróna og krossdauði gera aðkomu ekki bærilegri fyrir móðurhjartað.

Við getum verið viss um að þegar þær fóru að gröfinni við sólarupprás, með smyrlsi í för átti hvoruga þeirra eftir að gruna að tæpum 2000 árum seinna yrði morgunguðsþjónusta í Lindakirkju og að rúmlega 100 manns myndu vakna sérstaklega snemma, bara af því að þær fóru snemma af stað, til að fagna því sem þær sáu við gröfina. Þær vissu ekki að í hundruðum þúsunda safnaða myndu fleiri milljarðar manna koma saman á hverju ári næstu 2000 árin og gleðjast yfir því sem þær voru að fara sjá og upplifa.

Fallegur sænskur sálmur Ylvu Eggehorn sem Sigurbjörn Einarsson þýddi lýsir fallega hvaða gerðist næstu andartökin:

Nú máttu´ ekki, María, gráta, meistarinn er ekki hér, þar sem þú grúfir og grætur, gröfin og myrkrið er.

Líttu til annarrar áttar, upp frá harmi og gröf: Ljóminn af lífsins sigri leiftrar um jörð og höf.

Sjá, já, nú sérðu, María, sjálfur er Jesús hjá þér upprisinn, ætlar að fæða allt til nýs lífs með sér.

Syng því í sigurgleði. Syng fyrir hvern sem er: Kærleikans sól hefur sigrað, sjálfur er Kristur hjá þér.

Jesús var upprisinn, já hann var sannarlega upprisinn. Hinir huglausu, niðurbrotnu og skelfingu lostnu lærisveinar Jesú, breyttust á augabragði í hugdjarfa, framsækna og stálslegna boðendur fagnaðarerindisins, Þeir sungu allt í einu með sigurgleði, já sungu fyrir hvern sem er, Kærleikans sól hefði sigrað, sjálfur Kristur er hjá þér.

Þau eru stórskemmtileg viðbrögð, þeirra Maríu móður Jesú og Maríu Magdalenu, eftir að engillinn hafði sagt „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“ Og hvað segir svo? Jú: Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.

Þær rölta ekki rólega tilbaka og velta málunum fyrir sér. Nei, þær hlaupa af stað eins og fætur toga, svo segir að þær séu fullar gleði en jafnframt ótta. Það finnst mér svo raunsatt og heiðarlegt, þær voru líka fullar ótta. Saga kristninnar allar götur síðan er saga morgunhlaupa Maríana tveggja, saga gleði og ótta.

Fréttir af þessum toga, fréttir sem brjóta náttúrulögmálin, sem eru svo djúpar og dýrlegar að sekt okkar allra sé horfin fyrir náð Guðs, fréttir um að ljósið hafi sigrað myrkið, kærleikurinn hatrið, og vonin, vonleysið. Þegar slíkar fagnaðarfréttir eru fluttar er barnalegt að halda allir gleypi beint við boðskapnum, tileinki sér hann og fagni.

Allt frá morgunhlaupum Maríanna, hefur kristinn trú átt tugmilljónir hlaupara sem hafa í óttablandinni gleði breitt boðskapin út, og vegna þess að Guð gengur ætíð þangað inn, sem honum er boðið af einlægni, hafa sífellt fleiri fengið að reyna og sjá að á morgni Páskasunndags kom í ljós að Dauðinn dó, en lífið lifði. Milljarðar hafa síðan reynt og fundið að sá hinn sami andi og reisti Jesú uppfrá dauðum, hann mun líka reisa upp þau sem setja traust sitt á hann, þiggja leiðsögn hans, fyrirgefningu og umhyggju.

Margir fylgjendur Krists geta vitnað um hvernig Jesús og fullvissa upprisunar hefur reist þá upp úr forinni, gert niðurlúta upplitsdjarfa, dauðvona æðrulausa. Auðvelt að taka nokkur dæmi:

Helga Hálfdánarson segir:

Dauðinn dó, en lífið lifir, lífs og friðar sólin skær ljómar dauðadölum yfir, dauðinn oss ei grandað fær, lífið sanna sálum manna sigurskjöld mót dauða ljær.

Einn frægasti blaðamaður Svía, Göran Skytte, sem snérist frá guðleysi til fullvissu páskadagsins segir fallega um kristna trú:

,,Þegar maður veit að það er eitthvað stærra og meira en manns eigið hjarta, þá þarf maður ekki lengur að bera allar byrðar sjálfur. Maður er aldrei einn hvað sem á dynur,

Sem kristin einstaklingur vex maður í trú og trausti á Guði, samferðamenn og sig sjálfan, í þeirri merkingu að maður veit fyrir víst að maður er einhvers virði, að maður er þess verður að vera elskaður, á máli trúarinnar er maður barn Guðs.

Hinir kristnu vita að Guð þráir að hvert og eitt okkar sjái þá innri fegurð sem býr í okkur. Þú ert miklu meiri og merkilegri manneskja en þú sjálfur getur skilið. Hversu lítill, aumur og fótumtroðinn þér finnst þú vera, þá ertu alltaf stór og mikill í augum Guðs.

Sorg og þjáning verða á vegi okkar allra. En kristin maður hefur auka vopn til að vinna á efa og kolsvörtu vonleysi. Maður er ekki að kljást við neitt illt sem ekki á sér andsvar í hinu góða. Maður áttar sig á því að lífið sjálft er barátta góðs og ills, og er þess fullviss að hið góða mun á endanum sigra.“

Páll postuli segir:

Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn? En syndin er broddur dauðans og lögmálið afl syndarinnar. Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist! Þess vegna, mín elskuðu systkin verið staðföst, óbifanleg, síauðug í verki Drottins. Þið vitið að Drottinn lætur erfiði ykkar ekki verða til ónýtis.

Síðustu orð ömmu minnar sem lést fyrir nokkrum vikum eftir langa baráttu við Krabbamein voru sögð í fullvissu páskasólarinnar, en þau voru einfaldlega: Taktu mig Drottinn, taktu mig.

Sigurbjörn Einarsson biskup bað um blað og penna á dánarbeði sínu og ritaði að síðustu orð til ættingja sinna: ,,Jesús er á krossinum sínum að skapa páska handa mér og öllum. Dýrð sé þér Drottinn minn."

Boðskapur páskanna verður ekki betur dreginn saman, Jesús er upprisinn, Jesús er sannarlega upprisin og hann er á krossinum sínum að skapa páska handa mér og öllum. Dýrð sér þér Drottinn minn.