Sísyfus

Sísyfus

Stundum sækir að manni sú hugsun að hlutskipti Sísyfusar sé í raun hlutskipti okkar.

Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár og góðar og blessaðar tíðir. Amen.

Þetta er kvöldið þegar við hugum að breytingunum – því sem fæðist og deyr. Aldrei er hugur okkar eins bundinn hverfuleikanum og einmitt á því kvöldi sem nú er gengið í garð. Við rifjum upp það sem gerðist, horfum til liðinna atburða sem „aldrei koma til baka“ – svo vísað sé í sálminn. Ef til vill er það þessu til staðfestingar þegar við lýsum upp næturhimininn með flugeldum. Er nokkur iðja okkar jafn rækilega helguð hinu forgengilega eins og það þegar við kaupum skotelda – tendrum í þeim og fylgjumst með því þegar þeir uppljómast eitt andartak, fáeinar sekúndur á himinhvelfingunni uns þeir hrapa ósýnilegir til jarðar – svo rétt rýkur úr þeim eftir hvellinn? Að því liðnu eru þeir lífvana og kaldir – hráviði á jörðu og verða ekki notaðir að nýju.

Gleymskunnar sjór

Eru verk okkar því marki brennd? Lýsir af þeim meðan þau vara en hverfa þau svo eins og dögg fyrir sólu: „Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá, það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.“ – segir í sama sálmi.

Gamlárskvöld er gengið í garð. Fleiri verða kvöldin ekki á því herrans ári 2009 og þeir sem taka tugakerfið ekki mjög hátíðlega fullyrða jafnframt að þetta sé síðasta kvöldið á þeim áratug sem senn er allur. Breytingar eru framundan. Eftir tæpar sex klukkustundir er komið nýtt ár og við skynjum það betur en nokkru sinni fyrr hvernig tíminn þeytist áfram – allt er hverfulleikanum ofurselt.

Að baki eru tímar óvissu og fátt bendir til annars en að fjárhagur okkar verði þrengri, útgjöldin meiri og tekjurnar minni á komandi ári en þeim sem á undan hafa farið. Þeir sem eldri eru þekkja slíka tíma þótt yngri kynslóðir hafi ekki gengið í gegnum viðlíka samdrátt. Þannig er gangur tilverunnar, stundum rís gæfusólin og stundum hnígur hún til viðar.

Upp og niður

Í Grikklandi hinu forna sögðu menn söguna af Sísyfusi konungi, sem hafði gert uppreisn gegn guðunum og reynt að sigrast á sjálfum dauðanum, eins og við getum lesið um í Ummyndunum Óvíds sem kom út nú fyrir jól í íslenskri þýðingu Kristjáns Árnasonar. Sísyfusi var refsað grimmilega, svo sem við mátti búast. Hann var dæmdur til þess að ýta þungum steini upp háa hlíð til þess eins að missa hann úr greipum sér rétt áður en tindinum var náð, svo hann valt aftur niður á jafnsléttu. Þegar sólin reis að morgni og settist að kvöldi sáu Grikkirnir fyrir sér að þar væri hann blessaður að velta steininum á undan sér – upp og svo fór hann jafnharðan aftur niður. Með þeim hætti tengdist þessi tilgangslausa iðja hans gangi tímans. „Enn hnígur aldarsól/ótt veltur tímans hjól“ yrkir Einar Benediktsson um aldamótin 1900.

Stundum sækir að manni sú hugsun að hlutskipti Sísyfusar sé í raun hlutskipti okkar. Skoðum nokkur dæmi:

Þessi tíu ár sem nú eru liðin frá árinu 2000 – hvort sem menn kenna þau við fyrsta ártug aldarinnar eða ekki – benda til þessa. Uppgangurinn náði um tíma ótrúlegum hæðum. Vöxturinn átti sér engin takmörk, að því er virtist. Þetta þekkjum við. En rétt eins og steinninn sem hin goðsögulega hetja ýtti á undan sér – féll allt aftur á jafnsléttuna. Eftir skattahækkanir og verðbólgu er kaupmátturinn okkar kominn aftur á það stig sem var aldamótaárið þegar við horfðum fram til nýrra og bjartari tíma.

Ríkissjóður hafði smám saman náð þeim ótrúlega áfanga að greiða upp skuldir sínar. Hann er að nýju stórskuldugur, svo fá dæmi eru um annað eins í veröldinni, sem hefur nú gengið í gegnum ýmislegt.

Steinninn hrapar fljótt niður hlíðina aftur.

Eftir að gamall fjandskapur austur og vesturveldanna lagðist af með þeim afleiðingum að heimsbyggðin horfði fram til friðsælli tíma – hefur ófriður tekið sig upp að nýju og átakalínur hafa myndast á öðrum stöðum. Herskáir múslímar herja á Vesturveldin og þau ráðast á móti inn í lönd þeirra. Stöðugt fjölgar í herliðum og sífellt eykst viðbúnaðurinn. Steinninn rúllaði fljótt aftur niður.

Raunsæi og kjarkur

Þessar sorglegu staðreyndir tala til okkar kæru kirkjugestir og engum er greiði gerður með því að loka augunum fyrir þeim – telja sér trú um að allt lagist af sjálfu sér eða að mistök feli ekki í sér neinar afleiðingar. Sú hugsun er fjarri þeirri sem birtist okkur í hinni helgu bók. Í henni er fjallað um lögmál lífs og heims. Þau eru sönn og láta ekki haggast þótt vilji mannsins hnígi til annars. Rétt eins og uppreisn hins forna konungs gegn alvaldi dauðans kostaði hann þessi örlög í hinum gömlu sögum. Nei, Biblían minnir okkur á skyldur okkar og ábyrgð, þar er ekkert dregið undan. Í sumum köflum hennar er rækilega fjallað um þann dóm sem við köllum yfir okkur með misgjörðum okkar.

Lokum ekki augunum! Raunsæið er verkfæri þess sem staddur er í hættu og háska. Þeir sem lifað hafa af grimma vist í fangabúðum lýsa þeirri manngerð sem fyrst missir móðinn og gefst upp fyrir grimmum veruleikanum. Það eru bjartsýnismennirnir, ber þeim saman um. Af hverju í ósköpunum? Jú, þeir lifa stöðugt í þeirri tálsýn að vistin hljóti að taka enda – fyrir sumarbyrjun, áður en haustar, fyrir jól, fyrir áramót – og svo þegar ekkert af þessu reynist satt hellist vonleysið yfir þá af margföldum krafti.

Tvennt gildir til þess að komast út úr slíkum aðstæðum segja þeir sem það hafa afrekað. Hið fyrra er að fegra hvergi fyrir sér veruleikann hversu nöturlegur sem hann kann að vera. Hið síðara er að glata aldrei trúnni á því sem gott er og byggir upp. „Aðstæðurnar eru skelfilegar en ég ræð við þær. Til þess hef ég allt sem þarf.“ Þar skipar trúin grundvallarsess. Þeir sem rækta sálu sína með þessum hætti þeir eru líklegastir til þess að standast erfuðustu raunir.

Gróskuleysið

Og nú þegar ár þetta er senn að baki, leiðum við hugann að því hversu hættulegt það er þegar menn ekki gæta þess að halda sig innan settra marka. Gróðinn, þótti vera afsprengi græðginnar og græðgi er góð, sögðu menn. Þar til þeir áttuðu sig á því að græðgi rænir okkur mennskunni og verður eins og hver önnur fíkn þegar hún hefur náð tangarhaldi á sálinni. Menn kunna að hafa bolmagn til þess að ýta steininum upp á hlíðina en skjótt fellur hann niður.

Þá verður hinn sanni gróði harla rýr.

Rétt eins og var með fíkjutréð sem stóð við veginn, og fjallað var um í guðspjallinu. Eigandi þess vissi að ávextirnir voru engir. Engin gróska bjó í trénu: „Högg það upp, hví á það að vera engum til gagns?“ spurði hann garðyrkjumanninn. Svona talar Biblían til okkar á gamlárskvöldi, jafnt þegar allt virðist fljótandi í peningum og þegar hin efnislega fátækt sækir að - fátækt sem er ef til vill ekki mikil þegar horft er á bílastæðin fyrir utan kringlurnar – en blundar grunnt undir yfirborðinu í skuldsetningu og bjargarleysi þeirra sem hafa svo miklu til að bjarga en aðhafast svo lítið. Jafnt á þeim tímum þegar hinir moldríku berast á í sviðsljósinu og einnig þegar hið óvægna ljós sannleikans opinberar fátækt þeirra og allsleysi.

Erum við nokkrum til gagns? Hvað réttlætir tilveru okkar og tilvist?

En þá grípur hjálparinn inn í og segir: „lát það standa annað ár“ – gefðu því séns eins og krakkarnir segja. Þarna orðar Kristur fyrir okkur hlutskipti sitt hér á jörðu. Hann kom til þess að græða og bæta það sem sjúkt var og þurfti lækningar við. Víst erum við erfiður sjúklingur og sýkjumst hvað eftir annað af sömu sóttinni – en ár eftir ár erum við minnt á ávexti hins sanna kærleika: „leyfðu því að standa annað ár“. Hvers vegna? Jú vegna þess að í okkur býr hinn mikli máttur sem er ávöxtur andans: „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki.“ segir postulinn. Þessar hliðar eigum við og sagan sýnir okkur hversu ríkulega maðurinn getur blómstrað þegar þær fá notið sín. Það höfum við fengið að upplifa margsinnis.

Andinn

Og svo heldur postulinn áfram: „Fyrst andinn hefur vakið okkur til lífs skulum við lifa í andanum.“ Einmitt þetta, að lifa í andanum að að vera okkur hugleikið nú þegar á móti blæs. Sá sem gerir slíkt stefnir að sönnu marki sem er háleitara en hver sú kúrva sem blind græðgin sendir okkur upp með fargið á undan – uns við örmögnumst og missum allt niður aftur á jafnsléttu. Heiðarleiki og kjarkur – raunsæi og trú – þetta skiptir höfuðmáli þegar aðstæðurnar eru erfiðar.

Hugleiðum þetta við mót tveggja örlagaára. Veltum fyrir okkur mikilvægi þess að breyta hug okkar og endurnæra sálu okkar. Þá víkur samkeppni fyrir samvinnu – þar sem hver styður annan svo að samfélagið megi vaxa og dafna.

Já, þetta er kvöldið sem við hugum að breytingunum, því sem fæðist og deyr. Við fýrum upp rakettum og upplifum þar í einni andrá fæðingu og dauða – ljós og myrkur sem verður svo áberandi á svörtum næturhimninum. Eins og grjótburður Sísyfusar blasi við augum okkar á einni svipstundu.

En í kirkjunni er hið varanlega okkur hugleiknara, það sem ekkert fær grandað: „Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? [...] Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ Þessa minnumst við líka á þessum tímamótum.

Fíkjutréð fær að standa eitt ár í viðbót. Það hugleiðum við ár eftir ár. Kristur kom ekki í þennan heim til að dæma heldur til að frelsa og til þess að vera okkur sú sanna leiðarstjarna sem vísar okkur veginn upp á við að því háleita marki sem líf okkar stefnir að.

„Gef himneska dögg gegnum harmanna tár, gef himneskan frið fyrir lausnarans sár og eilífan unað um síðir.“ Amen