Ljós í myrkri

Ljós í myrkri

Boðskapur jólanna er aðalatriðið. Allt sem við gerum og undirbúum okkur fyrir á aðventunni byrjar og endar í þessum boðskap sem fátækir hirðar fengur fyrstir að heyra þegar þeir gættu hjarðar sinnar á Betlehemsvöllum.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
25. desember 2018
Flokkar

Jes. 62:10-12; Tít. 3:4-7; Lúk. 2:15-20.

Við skulum biðja:
Guð, sem ert ljós í myrkri. Þetta er dagurinn sem þú hefur gjört. Dagur hinnar miklu gleði. Þú kemur á móti okkur þar sem við þreifum okkur áfram í dimmunni, og lætur okkur sjá í Jesú Kristi fagnaðarboðskap til handa heiminum öllum og ljós huggunarinnar fyrir augum okkar að eilífu. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég var að tala við lítinn dreng nýverið. Hann var upptekinn af komu jólasveinsins um nóttina því hann vonaðist eftir ákveðinni gjöf í skóinn. Hann hafði skrifað jólasveininum bréf um óskir sínar. Ég spurði hann svo af hverju við værum að halda jól og hann svaraði að bragði að það væri vegna gjafanna. Ég fékk þá tækifæri til að fræða blessað barnið um gjöfina einu og sönnu sem mannkyni hefði gefin verið þegar Guð sendi son sinn í heiminn í litlu umkomulausu barni og gjafir okkar til hvers annars væru vegna þess.

Boðskapur jólanna er aðalatriðið. Allt sem við gerum og undirbúum okkur fyrir á aðventunni byrjar og endar í þessum boðskap sem fátækir hirðar fengur fyrstir að heyra þegar þeir gættu hjarðar sinnar á Betlehemsvöllum.

Í gærkveldi heyrðum við lesna frásögu Lúkasar um það þegar Ágústus keisari sem ríkti um 40 ára skeið frá 27 fyrir Krist til 14 eftir Krist sendi út boð um að allir þegnar landsins yrðu að láta skrásetja sig og fara hver til sinnar borgar í þeim tilgangi. Þess vegna fóru Jósef og María til Betlehem þar sem María varð léttari og dýrð Drottins kom til jarðar.

Hirðar gættu hjarðar sinnar á Betlehemsvöllum um nótt. Skyndilega lýstist allt upp og himinn og jörð mættust. Þeim brá eðlilega við þessi umskipti. Frammi fyrir þeim stóð engill sem sagði þeim að vera ekki hræddir því mikilvæg boð bærust þeim fyrstum manna, boð að frelsari væri fæddur í Betlehem.

Í gærkveldi heyrðum við líka frásögu Jóhannesar guðspjallamanns af því þegar Guð kom í þennan heim, Orðið varð hold eins og Jóhannes orðar það. Hann segir ekki frá því hvað gerðist eins og Lúkas heldur hvers vegna.

Í dag höfum við heyrt framhald sögu Lúkasar, frásöguna af viðbrögðum hirðanna sem fóru til Betlehem og litu barnið augum, horfðu í augu þess og skýrðu frá reynslu sinni þessa nótt.

Yndisdrengurinn sem var upptekinn af jólasveininum og heimsókn hans um nóttina veit hvaða jólasveinn kemur næstu nótt. Hann kann á þeim nöfnin og veit röðina frá þeim fyrsta til hins síðasta. Það er gaman að heyra hann þylja það upp því ekki man ég það. Hirðarnir höfðu heyrt aðrar sögur. Þeir höfðu heyrt spádómana um friðarhöfðingjann sem myndi reisa ríki þeirra og efla það með réttvísi og réttlæti. Konunginn sem myndi leysa landið og þjóðina undan yfirráðum erlends valds. Þjóð þeirra hafði um aldir beðið eftir þessum konungi. En það er ekki líklegt að þeir hafi verið að hugsa um þessa spádóma einmitt þarna úti í haganum enda brá þeim við þessa himnesku heimsókn.

Þeir fóru og sáu og sögðu frá reynslu sinni. Þeir fóru til Betlehem og sáu að raunveruleikinn í kringum fæðingu barns var ekki blómum prýddur. Þessi konungur fæddist ekki í höll, þó hans hafi verið leitað í höll í Jerúsalem af vitringunum frá Austurlöndum. Þeir héldu að konunginn væri að finna í höll í höfuðborginni, en ekki í gripahúsi í minnstu héraðsborg Júda. Þeir fundu hann heldur ekki á hátæknisjúkrahúsi eða á fæðingarheimili, ekki einu sinni í heimahúsi, heldur í fjárhúsi. Það er táknrænt að litli drengurinn skyldi vera borinn þar og lagður í jötu eins og lömbin því síðar var hann oft nefndur lamb Guðs. Honum var líkt við fórnardýrið sem slátrað var til að friðþægja fyrir syndirnar.

Í fjárhúsinu fundu hirðarnir barnið og móður þess sem hugleiddi orð hirðanna. Vissi hún meira en aðrir um þetta barn? Hún hafði jú gengið með það, fundið spörk þess og hreyfingar í kviði sínum, fætt það með þrautum væntanlega eins og aðrar mæður og lært að vera óhrædd, samkvæmt boði engilsins forðum. Hún hafði ákveðið að treysta Drottni fyrir lífi sínu og mannorði. Hún hafði sungið Guði lof þegar hún vissi að hún bar son Guðs undir belti. „Önd mín miklar Drottinn“ hafði hún sungið og einnig: „Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans“. Þessar minningar átti hún og þessa reynslu átti hún ein þegar hirðarnir vitjuðu litlu fjölskyldunnar í fjárhúsinu í Betlehem. Og hún María hefur örugglega tengt alla þessa vitneskju sína og reynslu við það sem hirðarnir sögðu viðstöddum.

Barnið Jesús fæddist inn í heim sem var eins og nú átakaheimur. Þar er ljós og þar er myrkur. Þar er hið góða, fagra og fullkomna eins og í litla barninu og þar er illska, hatur, óréttlæti, ófullkomleiki. Jólaguðspjallið afhjúpar hið fegursta sem til er í veröld mannsins þegar birtu af veröld Guðs leggur inn í heim hinna smæstu – en á hinn bóginn er myrkrið sem fylgir hinum grimma leiðtoga, sem svífst einskis í valdafíkn sinni skammt undan. Heródes heitir þessi leiðtogi í guðspjalli Mattheusar. Nú til dags ber hann önnur nöfn og í gegnum sögu mannkyns eru þó nokkrir Heródesar og Heródesarsinnar. Hver kynslóð berst við ofurefli að einhverju leyti. Andstæðurnar eru miklar. Ríkidæmi, fátækt. Ljós, myrkur. Fegurð, óhugnaður, virðingarleysi.

Ég trúi því að allt fólk vilji innst inni vera þar sem ljósið skín og fegurðin ríkir. En því miður er ekki svo um alla. Sennilega villumst við öll af leið með einum eða öðrum hætti einhvern tímann á lífsleiðinni en sem betur fer komast flestir aftur á bataveginn. Lífsreynslan mótar okkur og getur verið sár og erfið en jafnvel sársauki og erfiðleikar geta hjálpað okkur að sjá ljósið ef við vinnum á jákvæðan hátt úr þeim aðstæðum. Sum lífsreynsla er sjálfskaparvíti, önnur vegna samspils við annað fólk, enn önnur vegna manna eins og Heródesar sem skipa fólki fyrir. Fólk sem býr þar sem einræðisherrar stjórna á sér ekkert val nema um að bjarga lífi sínu eða deyja. Þess sjáum við dæmi í heimi hér til dæmis þar sem fólk hefur þurft að yfirgefa landið sitt til að halda lífi. Lífið er fullt af andstæðum og hver lífssaga kennir okkur margt þó sagt sé að enginn læri af annarra reynslu.

Ábyrgð fjölmiðla er mikil en þeir koma á framfæri upplýsingum sem fjölmiðlafólkið telur að eigi erindi við almenning. Nú geta allir verið fjölmiðlamenn og konur. Geta komið upplýsingum til almennings á örskotsstundu á samfélagsmiðlunum. Hirðarnir hefðu ábyggilega sett myndir á Instagram, tíst á Twitter eða sagt frá á Facebook ef það hefði verið til fyrir 2000 árum um reynslu sína og ferðalag til Betlehem. Þegar þeir komu þangað sögðu þeir frá því sem þeim hafði verið sagt um barnið. Hver voru fyrstu viðbrögð viðstaddra? Það var undrun. Viðstaddir undruðust, allir nema ein kona, móðirin María sem hafði nýfætt son sinn í heiminn. Hún undraðist ekki enda hafði hún þá sömu reynslu að fá heimsókn engils sem flutti henni ótrúleg tíðindi.

Öll ferðalög taka enda. Líka ferðalagið til Betlehem frá völlunum þar sem hjörðin beið hirða sinna. Hirðarnir snéru aftur til vinnu sinnar og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð og sannreynt að það sem engillinn sagði þeim var allt rétt og satt.

Frásagan um kraftaverkið mikla þegar Guð gerðist maður, hugur Guðs tók sér bústað í mannlegu holdi er enn að gerast vegna þess að hver sá eða sú sem meðtekur boðskapinn og fær að reyna að trúin bjargar og blessar verður ekki samur eða söm á eftir. Skyldu hirðarnir hafa verið samir á eftir? Viðbrögð þeirra við jötuna, að lofa Guð, benda til þess að eitthvað hafi breyst innra með þeim.

Þegar ég var barn á Ísafirði var Hjálpræðisherinn starfandi þar í bæ. Á aðventunni stóðu hermennirnir niðri við Bókhlöðu með bauk á þrífæti hvar á stóð „hjálpið okkur að gleðja aðra“. Einnig seldu þeir blaðið sitt Herópið. Enn þann dag í dag fæ ég gott í hjartað eins og ein vinkona mín orðar það þegar góðar minningar brjótast fram þegar ég sé hermennina selja Herópið fyrir jólin. Nú er það reyndar ekki selt fyrir ákveðna upphæð heldur er frjálst framlag. Í blaðinu sem kom út fyrir þessi jól er viðtal við mann sem er samherji í Hjálpræðishernum á Akureyri. Hann segir frá því þegar hann ákvað að gefi Guði tækifæri eins og hann orðar það. „Þá öðlaðist ég líf í fullri gnægð. Líf mitt hefur tilgang, ég hef öðlast frið, líf mitt er í rauninni bara rosalega fallegt og bjart í dag. Ég þarf ekkert nema Guð og ég treysti honum fullkomlega.“

Litli drengurinn sem hélt að jólin væru vegna gjafanna en ekki gjafirnar vegna jólanna vill vita meira um Þór er Jesú. Þór á flottan hamar sagði hann. Hvernig veit hann það? Jú, vegna þess að í einhverjum Legó leik sem ég man ekki hvað heitir er Þór með hamarinn sinn. Hans heimur er annar en minn og minnar kynslóðar og ég bið þess að hann og hans kynslóð geti líka átt fallegt líf og bjart eins og samherjinn sem var í viðtali í Herópinu. Drengurinn vildi ekki fara í kirkju á jólum en faðir hans og fólkið hans tók ekki annað í mál og auðvitað sat drengurinn prúður í kirkjunni. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft og engin ástæða til að gefa það eftir sem leiðir þau á farsælar brautir í lífinu.

Hirðarnir snéru aftur breyttir menn og það gerum við öll sem fáum að líta barnið með einum eða öðrum hætti. Guð vitjaði hirðanna forðum og sendi engla sína með boðskapinn til þeirra. Hann gerði ekki boð á undan sér nema að leyfa þeim að heyra spádómana um barnið sem yngismær myndi ala og láta heita Immanúel. Móttökutæk hirðanna var í lagi vegna þess að þeir höfðu heyrt spádómana. Eins er með börnin og hvern þann einstakling sem Guð vitjar. Sé einhver minnsta von um að stillt sé á rétta bylgjulengd, jafnvel þó hún sér brengluð í hlustun, þá er von til þess að viðkomandi skynji hið heilaga þegar það birtist og talar. Að sjá og heyra hin himnesku boð er reynsla sem lætur engan ósnortinn.

Fæðing Jesú markar tímamót í sögu mannkyns og við hana er tímatal okkar miðað. Hið sama gerist í lífi þess er heyrir boðskapinn og geymir hann í hjarta sínu eins og María forðum.

Megi boðskapur jólanna, kærleikurinn sem þau boða standa hjarta okkar nær og láta okur bera hann áfram til samferðamanna okkar. Gleðileg jól í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.